Kenningar forseta
42. Kafli: Family: Fjölskyldan: Ljúfasta einingin um tíma og eilífð


42. Kafli

Fjölskyldan: Ljúfasta einingin um tíma og eilífð

„Ljúf eining og hamingja fyllti hús okkar. Nöldur eða misklíð truflaði ekki frið okkar, og ró og friðsæld ríkti meðal okkar. “ (Lucy Mack Smith)

Úr lífi Josephs Smith

Þótt Nauvoo-musterið hafi ekki verið fullbúið, hafði spámaðurinn gert ljósa kenninguna um sáluhjálp hinna dánu fyrir 1843, og veitt hópi trúfastra heilagra musterisgjöf. En mikilvægum hluta hins helga musterisstarfs hafði enn ekki verið komið á fót. Hinn 16. maí 1843 fór spámaðurinn frá Nauvoo til Ramus, Illinois, þar sem hann dvaldi á heimili Benjamins F. Johnson, sem var náinn vinur hans. Um kvöldið fræddi hann bróður og systur Johnson, og nokkra aðra nána vini, um „hinn nýja og ævarandi hjúskaparsáttmála.“ Hann útskýrði að sáttmáli þessi væri að reglu prestdæmisins nauðsynlegur til að hljóta æðstu dýrðargráðu himneska ríkisins. (Sjá K&S 131:1–4.) Hann kenndi einnig, að gangi karl og kona ekki inn í þennan eilífa hjúskaparsáttmála, „munu þau hætta að auka við sig þegar þau deyja; sem er, að þau munu ekki eignast nein börn eftir upprisuna.“ Þeir sem aftur á móti ganga inn í þennan sáttmála og verða staðfastir „munu halda áfram að auka við sig og eignast börn í himneska ríkinu.“1

Tveimur mánuðum síðar, 12. júlí 1843, á efri hæð skrifstofunnar í Rauðsteinaversluninni, greindi spámaðurinn William Clayton frá opinberun um kenninguna um eilíft hjónaband (sjá K&S 132). Spámaðurinn hafði áður þekkt og kennt þessa kenningu um nokkurn tíma. Í þessari opinberun segir Drottinn, að séu eiginmaður og eiginkona ekki innsigluð með valdi prestdæmisins, geti þau „ekki bætt við sig, heldur verða aðskildir og einhleypir, án upphafningar, í sínu frelsaða ásigkomulagi, um alla eilífð“ (sjá K&S 132:15–18). Til að hljóta upphafningu verða eiginmaður og eiginkona að vera innsigluð með valdi prestdæmisins og síðan vera trúföst sáttmálum sínum:

„Og sannlega segi ég yður enn fremur, að kvænist maður eftir mínu orði, sem er lögmál mitt, og eftir hinum nýja og ævarandi sáttmála, og hann er innsiglaður þeim með heilögum anda fyrirheitsins, af þeim sem smurður er, þeim sem ég hef falið þetta vald og lykla þessa prestdæmis, … þá skal við þau breytt í öllu eins og þjónn minn hefur veitt þeim, um tíma og um alla eilífð, og skal í fullu gildi, þegar þau eru farin úr heiminum. Og þau munu komast fram hjá englum og guðum, sem þar eru settir, til upphafningar sinnar og dýrðar í öllu, eins og innsiglað hefur verið á höfuð þeim, og sú dýrð skal vera fylling og áframhald niðjanna alltaf og að eilífu.

Þá verða þau guðir, vegna þess að þau eiga sér engan endi. Þess vegna verða þau frá eilífð til eilífðar, vegna þess að þau halda áfram. Þá verða þau ofar öllu, vegna þess að allt er þeim undirgefið. Þá verða þau guðir, vegna þess að þau hafa allt vald, og englarnir verða þeim undirgefnir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér haldið ekki lögmál mitt, getið þér ekki öðlast þessa dýrð“ (K&S 132:19–21).

Þekking öldungs Parleys P. Pratt í Tólfpostulasveitinni á þessari kenningu jók elsku hans til fjölskyldu sinnar: „Það var Joseph Smith sem kenndi mér að meta hin hjartfólgnu tengsl föður og móður, eiginkonu og eiginmanns, bróður og systur, sonar og dóttur. Af honum lærði ég að eiginkona hjarta míns gæti orðið mín um tíma og eilífð og að samkenndin og ástúðin milli okkar tveggja ættu rætur í hinni eilífu guðlegu elsku. Af honum lærði ég að við getum ræktað með okkur slíka eiginleika og þroskast og vaxið sem slík um alla eilífð, og að ávöxtur okkar ævarandi sambands yrðu afkvæmi, jafn mörg og stjörnur himins eða sandkorn sjávarstrandar. … Ég hafði elskað áður án þess að vita af hverju. En nú elska ég – af hreinleika – af ákafri, háleitri og innilegri tilfinningu, sem lyftir sál minni upp fyrir allt stundlegt á þessu lága sviði og útvíkkar hana sem úthaf. … Ég get nú, sem sagt, elskað í andanum og einnig af skilningi.“2

Kenningar Josephs Smith

Eiginmenn og eiginkonur heiðra hvort annað með því að sýna elsku, ljúfmennsku og ástúð.

„Hjónabandið er í samræmi við tilskipun himins, innleitt í aldingarðinum Eden.“3

Það er skylda eiginmanns að annast og elska eiginkonu sína og vera bundinn henni og engu öðru. [sjá K&S 42:22]. Hann ætti að heiðra hana sem sjálfan sig og huga af mildi að tilfinningum hennar, því hún er hold hans og bein hans, ætluð honum sem meðhjálp, bæði í stundlegum og andlegum málum; sem hann getur fyrirvaralaust leitað til með öll sín hugðarefni; sem fús er (tilnefnd til) að axla hluta af byrði hans, að hvetja hann og róa og örva tilfinningar hans með ljúfri rödd sinni.

Það er hlutverk karlmannsins að vera höfuð fjölskyldu sinnar, … ekki að ríkja yfir eiginkonu sinni, líkt og harðstjóri, og ekki í ótta og afbrýði um að hún fari út fyrir valdsvið sitt eða taki af honum ráðin. Það er skylda hans að vera maður Guðs (því maður Guðs er maður visku), stöðugt fús til þess að meðtaka úr ritningunni opinberanir, og frá upphæðum þá leiðsögn sem nauðsynleg er heimilisfólki hans til uppfræðslu og sáluhjálpar.“4

Joseph Smith sagði á fundi með Líknarfélagssystrum: „Þið ættuð ekki að ögra eiginmönnum ykkar, vegna verka þeirra, látið þá heldur skynja sakleysi ykkar, ljúfmennsku og ástúð, sem er kröftugra en að vera með myllustein hengdan um hálsinn. Verið ekki þrætugjarnar, aðfinnslusamar eða stöðugt á öndverðum meiði, heldur ljúfar, ástúðlegar, hreinar – það mun auka álit allra góðra manna á ykkur. …

… Finni karlmaður sig sligaðan af erfiðleikum og stendur ráðþrota frammi fyrir vanda, fullur kvíða, mun hlýtt bros og ástúð draga úr áhyggjum hans og friða sál hans, en nöldur og þrætur auka þær. Þegar örvæntingin fyllir hugann, er þörf á ástúð og ljúfleika. … Látið aldrei reiðiorð frá ykkur falla á heimili ykkar, sýnið heldur góðvild, kærleika og ástúð í verki.“5

Eliza R. Snow skráði: „[Spámaðurinn Joseph Smith] hvatti systurnar ætíð til að helga trú sína og bænir í þágu eiginmanna sinna, sem Guð hefur boðið þeim að heiðra, og hafa á þeim trú.“6

Börn heiðra foreldra sína með því að sýna þeim þakklæti og láta sér annt um þá alla ævi.

Um tíma í október 1835 fór spámaðurinn daglega, „afar áhyggjufullur, “ að vitja föður síns, sem var alvarlega veikur. Í dagbók spámannsins er ritað: „Sat aftur yfir föður mínum, sem var afar veikur. Í hljóðri bæn að morgni sagði Drottinn: ,Þjónn minn, faðir þinn mun lifa.‘ Ég sat yfir honum allan þann dag með þá bæn í hjarta til Guðs, í nafni Jesú Krists, að hann myndi veita honum heilsu að nýju, að ég mætti njóta blessunar af návist hans og leiðsögn, því mér fannst það ein sú mesta blessun jarðlífsins að njóta samvista við foreldra, sem, sökum reynslu og aldurs, geta veitt bestu leiðsögnina. Að kvöldi kom bróðir David Whitmer þar inn. Við ákölluðum Drottin í máttugri bæn, í nafni Jesú Krists, lögðum hendur yfir föður minn og höstuðum á sjúkdóminn. Og Guð bænheyrði okkur – sálum okkar til mikillar gleði og ánægju. Okkar aldraði faðir reis upp, klæddi sig og fagnaði og lofaði Drottin.“7

„Blessuð sé móðir mín, því sál hennar er full góðvildar og líknarlundar, og þrátt fyrir aldurinn mun hún styrk hljóta og huggun á heimili sínu, og hún skal hljóta eilíft líf. Og blessaður sé faðir minn, því hönd Drottins er yfir honum, og hann mun sjá erfiðleika barna sinna þverra. Og þegar líf hans hefur borið fullan ávöxt, mun hann verða sem olífutré, sem þakið er ávöxtum svo greinar þess svigna. Hann mun einnig hljóta íverustað í upphæðum.“8

„Í hugann hafa komið minningarbrot frá bernsku minni. Ég hef hugsað um föður minn, sem er látinn. … Hann var göfugur maður og í huga var hann háverðugur, helgur og dyggðugur. Sál hans var hafin yfir allar slæmar og lágkúrulegar reglur, sem svo eðlislægar eru hjarta mannsins. Mér varð ljóst að hann gerði aldrei neitt ljótt af sér, sem hægt væri að flokka sem ógöfuglyndi, að svo miklu leyti sem ég veit. Ég ann föður mínum og minningunni um hann, og minningin um göfug verk hans hafa mikið vægi í huga mínum, og mörg hin ljúfu orð hans sem foreldris eru rituð á hjartaspjöld mín.

Þær minningar sem runnið hafa í gegnum hugann og ég varðveiti um líf hans eru mér helgar. Þær hafa fest þar rætur allt frá fæðingu. Moldin og reiturinn þar sem hann er grafinn eru mér helg. Leiðið sem ég bjó honum er mér heilagt. Megi minningin um föður minn lifa eilíflega. … Megi sá Guð er ég elska líta niður að ofan og frelsa mig frá óvinum mínum hér, og taka mig sér við hönd, svo að ég megi standa á Síonarfjalli ásamt föður mínum, og krýna mig eilíflega þar.

Orð og tunga fá ekki tjáð þakklæti mitt til Guðs, fyrir að hafa gefið mér slíkt virðingarvert foreldri.

Móðir mín er einnig ein sú göfugasta og besta meðal allra kvenna. Megi Guð lengja ævidaga hennar og mína, svo við megum njóta langrar samvistar.“9

„Þegar við hugleiðum hve foreldrar okkar hafa gætt okkar af mikilli umhyggju og kostgæfni, og hve mörgum stundum þau hafa varið við vöggu okkar og rúmstæði, á tímum sjúkdóma, hve tillitssöm við ættum þá að vera við þau á þeirra efri árum! Það skilur ekki eftir sig góðar minningar að segja eða gera eitthvað sem leiðir hærur þeirra með harmi til grafar.“10

Ást meðal systkina getur verið varanleg og ljúf.

Spámaðurinn ritaði um tvo broeður sína, sem báðir dóu ungir: „Alvin, elsti bróðir minn – þegar hann dó man ég vel sársaukann og sorgina sem fyllti ungt brjóst mitt, svo hjarta mitt næstum brast. Hann var elstur og göfugastur okkar systkinanna. Hann var einn af göfugustu mannanna sonum. … Hann var falslaus. Hann lést flekklaus allt frá barnsaldri. … Hann var einn skynsamasti meðal manna og engill Drottins vitjaði hans rétt fyrir andlát hans. …

Bróðir minn Don Carlos Smith … var einnig göfugur drengur. Aldrei varð ég var við neitt fals í honum, aldrei sá ég hann gera neitt ósiðlegt eða eitthvað guðlaust eða auvirðilegt á barnsaldri, allt frá þeim tíma er hann fæddist þar til hann lést. Hann var indæll og hjartagóður, dyggðugur og trúfastur, heiðvirt barn. Megi sál mín fara þangað sem hans sál er.“11

Joseph Smith ritaði eftirfarandi í bréfi til eldri bróður síns, Hyrums: „Minn ástkæri Hyrum bróðir, ég hef haft af þér miklar áhyggjur, en ég minnist þín ávallt í bænum mínum og bið Guð að varðveita þig, þrátt fyrir menn og djöfla. … Guð geymi þig.“12

Spámaðurinn ritaði um Hyrum: „Ég óska þess í hjarta mínu að allir bræður mínir væru líkir hinum ástkæra bróður mínum Hyrum, sem er ljúfur sem lamb og ráðvandur sem Job, og býr að hógværð og auðmýkt Krists. Ég ann honum af þeirri elsku sem sterkari er en dauðinn.“13

Foreldrar sem biðja fyrir börnum sínum og elska þau og styðja verða þeim til ómældrar blessunar.

Eftir að Joseph Smith hafði farið til Kúmórahæðar, í september 1823, greindi hann fjölskyldunni frá upplifun sinni og hélt síðan áfram að segja henni frá reynslu sinni. Móðir spámannsins skráði: „Á hverju kvöldi komum við saman með börnum okkar. Ég held að það hafi verið einhver undarlegasta fjölskyldusýn sem uppi hefur verið á jörðu. Við sátum öll í hring, faðir, móðir, synir og dætur, og hlustuðum af áfergju á kennslu [sautján] ára pilts. …

Við vorum sannfærð um að Guð hugðist leiða fram í ljósið eitthvað sem skerpt gæti huga okkar, eitthvað sem við gætum skilið betur en við hefðum hingað til gert, og gleði okkar yfir þessu var mikil. Ljúf eining og hamingja fyllti hús okkar. Nöldur eða misklíð trufluðu okkur ekki, ró og friðsæld ríkti meðal okkar.“14

Þegar dró að lokum ferðar Síonarfylkingarinnar, í júní 1834, veiktust Joseph og Hyrum Smith, ásamt mörgum öðrum, af kóleru. Móðir þeirra greindi svo frá reynslu þeirra: „Gleði Hyrums og Josephs … var mikil og ólýsanleg yfir að sjá okkur aftur og vera heilir heilsu, sökum þeirra lífshættu sem þeir höfðu verið í er þeir voru fjarverandi. Þeir settust niður, mér til beggja handa, Joseph hélt um aðra hönd mína og Hyrum um hina, og sögðu svo frá: …

,Sjúkdómurinn lagðist þegar á okkur og innan nokkurra mínútna tók okkur að líða hræðilega. Við gáfum hvor öðrum merki og yfirgáfum húsið í þeim tilgangi að finna næði til að biðja þess að Guð frelsaði okkur frá þessu hræðilega áhrifavaldi. En áður en við náðum að komast nægilega langt, til að komast hjá allri truflun, fengum við vart staðið í fæturna. Við vorum felmtri slegnir og óttuðumst að við mundum deyja þarna í óbyggðum vestursins, svo langt frá fjölskyldu okkar, jafnvel án þeirra forréttinda að blessa börn okkar eða segja við þau eitt kveðjuorð. Hyrum hrópaði: ,Joseph, hvað getum við gert? Á að afmá okkur af yfirborði jarðar með þessari hræðilegu bölvun?‘ ,Við skulum,‘ sagði [Joseph], ,krjúpa á kné og biðja Guð að taka burtu krampann og sársaukann og veita okkur heilsu að nýju, svo við megum snúa til fjölskyldu okkar.‘ Við gerðum það, en án nokkurs merkis um bata, og ástand okkar versnaði. …

Við einsettum okkur brátt að biðja til Guðs að nýju um miskunn og að rísa ekki upp af hnjánum fyrr en annar okkar hlyti vitnisburð um að við mundum læknast. … Við báðumst fyrir um stund, fyrst annar og svo hinn, og skynjuðum brátt að krampanum tók að linna. Og nokkru síðar spratt Hyrum á fætur og sagði: ,Joseph, við skulum snúa heim, því ég sá í sýn að móðir okkar kraup undir eplatré og bað fyrir okkur, og hún er jafnvel nú í tárum að biðja Guð að þyrma lífi okkar, svo hún megi sjá okkur að nýju í holdinu. Og andinn ber mér vitni um að hún og við verðum bænheyrð.‘ Og upp frá þessu hlutum við lækningu og héldum fagnandi okkar leið.

,Ó, móðir mín,‘ sagði Joseph, ,hve bænir þínar hafa oft komið okkur til hjálpar þegar skuggar dauðans hvíla á okkur.‘ “15

Ást Lucy Mack Smith á sonum sínum kemur berlega í ljós í frásögn hennar af því þegar spámaðurinn og Hyrum, bróðir hans, voru færðir sem fangar frá Far West, Missouri, í nóvember 1838, til Independence og síðan Richmond, Missouri, þar sem þeir voru vistaðir. Fjölskyldan óttaðist að Joseph og Hyrum yrðu drepnir: „Þegar okkur bárust þau tíðindi að synir okkar yrðu teknir í burtu, sagði sendiboðinn að við yrðum að fara til þeirra, ef við hefðum hug á að sjá þá aftur lifandi, því þeir væru í vagninum sem legði af stað innan nokkurra mínútna. Eiginmaður minn var þá svo veikur að hann komst ekki, en ég og Lucy [dóttir hennar] fórum einar, því við vorum þær einu í fjölskyldunni við heilsu.

Þegar um 350 metrar voru eftir að vagninum komumst við ekki lengra, vegna mannanna sem umluktu þá. ,Ég er móðir spámannsins,‘ hrópaði ég, ,og er enginn svo mikill herramaður hér að hann geti leitt mig í gegnum mannþröngina að vagninum, svo ég megi líta börn mín í síðasta sinn og tala við þau einu sinni áður en þau deyja?‘ Einn maður bauðst til að ryðja mér braut gegnum hersveitina, og við héldum áfram umkringd sverðum, framhlaðningum og byssum, ógnað af dauða í hverju skrefi, þar til við komumst loks að vagninum. Maðurinn sem var mér samferða ávarpaði Hyrum, sem sat fremst, og sagði honum að móðir hans væri þar og bað hann að rétta henni hönd sína. Hann gerði það, en mér var ekki leyft að sjá hann, því vagninn var hulinn þykkum dúk sem bundinn var vandlega að framan og negldur fastur á hliðunum. …

Vinur okkar fór síðan með okkur að aftari hluta vagnsins, þar sem Joseph var, ávarpaði hann og sagði: ,Herra Smith, móðir þín og systir eru hér og óska eftir að taka í hönd þína.‘ Joseph tróð hönd sinni út á milli vagnsins og dúksins, þar sem hann var negldur við efsta borðið. Við tókum í hönd hans, en hann talaði ekki til okkar. Ég fékk ekki afborið að skilja við hann án þess að heyra rödd hans. ,Ó, Joseph,‘ sagði ég, ,talaðu við vesalings móður þína enn einu sinni. Ég fæ ekki af mér að fara án þess að heyra þig mæla.‘

,Guð blessi þig, móðir,‘ sagði hann, og þá gall við hróp og vagninn hélt af stað, og sonur minn var hrifinn burtu frá okkar, rétt í þann mund sem Lucy tók í hönd hans til að kyssa hana síðasta kossi sínum, því okkur var ljóst að þeir höfðu verið dæmdir til að verða skotnir.

Okkur tókst að komast að húsi okkar aftur, þótt við stæðum varla í fæturna. … Í nokkurn tíma ríkti þögnin ein í húsinu, fyrir utan snökt og stunur, þar sem við vissum þá ekki annað en að þetta væri í síðasta sinn er við sæjum Joseph og Hyrum. En mitt í sorg minni fann ég huggun sem æðri var allri jarðneskri huggun. Ég fylltist anda Guðs og hlaut eftirfarandi með gjöf spádóms: ,Lát huggast í hjarta vegna barna þinna, því þeir skulu ekki skerða hár á höfði þeirra.‘ … ,Börnin mín,‘ sagði ég, ,grátið ekki lengur. Múgurinn mun ekki drepa þá, því Drottinn hefur gert mér ljóst að hann muni frelsa þá úr höndum óvina þeirra.‘ Þetta varð okkur öllum til mikillar huggunar, og eftir þetta óttuðumst við það ekki svo mjög að þeir yrðu teknir af lífi.“16

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii. frekari leiðsagnar.

  • Lesið orð öldungs Parleys P. Pratt um það hvernig þekking á kenningunni um eilíft líf blessaði líf hans (bls. 478). Á hvaða hátt getur þessi kenning haft áhrif á tilfinningar okkar til fjölskyldu okkar? Á framkomu okkar hvert við annað á heimilinu?

  • Lesið leiðsögn Josephs Smith til eiginmanna og eiginkvenna (bls. 479). Hugleiðið á hvaða hátt sumt í leiðsögn hans á bæði við um karla og konur. Hvers vegna er mikilvægt fyrir bæði feður og mæður að læra ritningarnar og hljóta opinberanir til að leiða fjölskyldu sína? Hvað getur karlmaður gert þegar hann sér eiginkonu sína „[sligaða] af erfiðleikum“? Hvers vegna þurfa bæði eiginmaður og eiginkona að forðast að láta „reiðiorð frá [sér] fara“?

  • Fulltíða maður naut spámaðurinn Joseph þess að vera með foreldrum sínum, leita ráða hjá þeim og heiðra þau (bls. 480–82). Hvaða orð spámannsins um foreldra hans hafa einkum áhrif á ykkur? Hvaða dæmi hafið þið séð um hin varanlegu góðu áhrif sem foreldrar geta haft á börn sín? Hugleiðið hvað þið getið gert betur til að heiðra foreldra ykkar.

  • Lesið orð spámannsins um bræður hans, Alvin, Don Carlos og Hyrum (bls. 482). Hvers vegna teljið þið að samband bræðra og systra geti verið svo öflugt og varanlegt? Hvað geta foreldrar gert til að hvetja syni sína og dætur til að vera góðir vinir? Hvað geta bræður og systur gert til að rækta vináttu sín á milli?

  • Lesið orð Lucy Mack Smith um son hennar, Joseph, að kenna fjölskyldunni (bls. 483–84). Hvaða reynslu getið þið greint frá þar sem þið hafið upplifað einingu og hamingju með fjölskyldu ykkar? Hvaða lærdóm geta foreldrar dregið af reynslu Josephs og Hyrums er þeir læknuðust af kóleru? (Sjá bls. 484–85.)

Ritningargreinar tengdar efninu: 2 Mós 20:12; 1 Kor 11:11; Ef 6:1–4; Mósía 4:14–15; HDP Móse 3:18, 21–24

Heimildir

  1. History of the Church, 5:391; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 16. maí 1843, í Ramus, Illinois; skráð af William Clayton.

  2. Parley P. Pratt, Autobiography of Parley P. Pratt, ritst. af Parley P. Pratt yngri (1938), bls. 297–98; greinaskilum bætt við.

  3. History of the Church, 2:320; færsla úr dagbók Josephs Smith, 24. nóv. 1835, Kirtland, Ohio.

  4. “On the Duty of Husband and Wife,“ ritstjórnargrein birt í Elders’ Journal, ágúst, 1838, bls. 61; greinaskilum bætt við; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  5. History of the Church 4:604–5; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  6. History of the Church, 4:604; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  7. History of the Church, 2:289; færsla úr dagbók Josephs Smith, 8. og 11. okt. 1835, Kirtland, Ohio.

  8. History of the Church, 1:466; greinaskilum bætt við; færsla úr dagbók Josephs Smith, 18. des. 1833, Kirtland, Ohio.

  9. History of the Church, 5:125–26; dagbókarfærsla Josephs Smith, 23. ágúst 1842, nærri Nauvoo, Illinois; dagsetning þessi er ranglega skráð 22. ágúst 1842, í History of the Church.

  10. History of the Church, 2:342; úr bréfi frá Joseph Smith til Williams Smith, 18. des. 1835, Kirtland, Ohio.

  11. History of the Church, 5:126–27; dagbókarfærsla Josephs Smith, 23. ágúst 1842, nærri Nauvoo, Illinois; dagsetning þessi er ranglega skráð 22. ágúst 1842, í History of the Church.

  12. Bréf frá Joseph Smith til Hyrums Smith, 3. mars 1831, Kirtland, Ohio; Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  13. History of the Church, 2:338; færsla úr dagbók Josephs Smith, 18. des. 1835, Kirtland, Ohio.

  14. Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,“ 1844–45 handrit, bók 4, bls. 1, Skjalasafn kirkjunnar.

  15. Lucy Mack Smith: “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,“ 1844–45 handrit, bók 13, bls. 12–14, Skjalasafn kirkjunnar.

  16. Lucy Mack Smith: “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,“ 1844–45 handrit, bók 16, bls. 3–6, Skjalasafn kirkjunnar.

Ljósmynd
family praying

Parley P. Pratt sagði: „Það var Joseph Smith sem kenndi mér að meta hin hjartfólgnu tengsl föður og móður, eiginkonu og eiginmanns, bróður og

Ljósmynd
Smith family

Joseph Smith ólst upp í fjölskyldu þar sem foreldrar og börn elskuðu og virtu hvert annað. Mynd þessi synir Smith-fjölskylduna sameinast árið 1816, eftir að heimilisfaðirinn hafði farið á undan er þau fluttust til Palmyra, New York.

Ljósmynd
Joseph teaching

„A á hverju kvöldi komum við saman með börnum okkar, “ sagði Lucy Mack Smith, „faðir, móðir, synir og dætur, og [við] hlustuðum af áfergju á kennslu [sautján] ára pilts.“