Kenningar forseta
35. Kafli: Endurlausn fyrir hina dánu


35. Kafli

Endurlausn fyrir hina dánu

„Hinn mikli Jehóva … þekkti ástand bæði lifenda og látinna og gerði nægar ráðstafanir þeim til endurlausnar. “

Úr lífi Josephs Smith

Joseph Smith varð snemma fyrir reynslu í þjónustu sinni, sem bjó hann undir þann tíma er kenningin um sáluhjálp fyrir hina dánu yrði opinberuð. Í nóvember 1823 varð Alvin Smith, elsta barn Lucy Mack Smith og Josephs Smith eldri, alvarlega veikur og dauðvona. Alvin var 25 ára, þróttmikill og hæfur ungur maður, sem með vinnusemi lagði mikið af mörkum til að bæta fjárhag fjölskyldu sinnar. Móðir hans lýsti honum sem „einstaklega góðviljuðum ungum manni,“ sem með „göfuglyndi sínu og örlæti“ blessaði fólk umhverfis sig „hverja stund lífs síns.“1

Alvin kallaði á bræður sína og systur, því hann vissi að hann mundi deyja, og ræddi við hvert þeirra. Alvin sagði við Joseph, sem þá var að verða 18 ára gamall, og hafði ekki enn fengið gulltöflurnar: „Ég vil að þú sért góður drengur og gerir allt sem í þínu valdi stendur til að öðlast töflurnar. Vertu trúfastur er þú færð fyrirmæli og haltu öll þau boðorð sem þér verða gefin. Alvin, bróðir þinn, fer nú frá þér, en minnstu þess fordæmis sem hann setti þér, og vertu gott fordæmi fyrir yngri börnin.“2

Þegar Alvin dó bað fjölskyldan prest öldungakirkjunnar í Palmyra, New York, að sjá um útförina. En þar sem Alvin hafði ekki verið í söfnuðinum, hélt presturinn því fram í prédikun sinni að Alvin gæti ekki frelsast. Yngsti bróðir Josephs, William Smith sagði: „[Presturinn] … gaf sterklega til kynna að [Alvin] færi til vítis, því hann væri ekki meðlimur kirkjunnar, en hann var góður drengur. Föður mínum mislíkaði orð hans.“3

Í janúar 1836, mörgum árum eftir dauða Alvins, hlaut Joseph Smith sýn yfir himneska ríkið og sá að Alvin mundi, ásamt móður hans og föður, síðar meir hljóta arf í því ríki. Joseph „furðaði [sig] … hvernig á því stæði, að [Alvin] … hefði hlotið arf í þessu ríki, þar sem hann [hefði yfirgefið] þetta líf, áður en Drottinn rétti út hönd sína til að safna saman Ísrael hið annað sinn, og hafði ekki verið skírður til fyrirgefningar syndanna“ (K&S 137:6). Þá barst rödd Drottins honum og sagði:

„Allir, sem dáið hafa án þekkingar á fagnaðarerindinu, en hefðu meðtekið það, ef þeim hefði leyfst að dvelja lengur, verða erfingjar hins himneska ríkis Guðs – Einnig allir þeir, sem deyja héðan í frá án þekkingar á því en hefðu meðtekið það af öllu hjarta, verða erfingjar þess ríkis – Því að ég, Drottinn, mun dæma alla menn samkvæmt verkum þeirra, samkvæmt því, sem hjörtu þeirra þrá“ (K&S 137:7–9).

Hinn 15. ágúst 1840 talaði Joseph Smith við útför í Nauvoo, og þar kenndi hann fyrst opinberlega kenninguna um sáluhjálp fyrir hina dánu. Samkvæmt Simon Baker, sem þar var viðstaddur, hóf spámaðurinn mál sitt með því að vitna um að „fagnaðarerindi Jesú Krists væri mikil gleðitíðindi.“ Hann las megnið af 1. Kórintubréfinu, kapíula 15, og útskýrði að „postulinn hefði verið að tala til fólks sem iðkaði skírn fyrir hina dánu.“ Hann lýsti síðan yfir, að „fólk gæti nú verið staðgenglar fyrir þá vini sína, sem yfirgefið hafa þetta líf, og að sáluhjálparáætlunin væri hugsuð til að frelsa alla sem fúsir væru til að hlíta skilyrðum lögmáls Guðs.“4

Spámaðurinn heimsótti föður sinn mánuði eftir útfararræðuna, en hann var þá fárveikur. Spámaðurinn ræddi við föður sinn um kenninguna um skírn fyrir hina dánu, og föður hans varð hugsað til síns ástkæra sonar, Alvins. Faðir hans fór fram á að verkið yrði „þegar í stað“ unnið fyrir Alvin. Nokkrum mínútum fyrir dauða sinn, sagðist hann hafa séð Alvin.5 Í lok árs 1840 fagnaði Smith-fjölskyldan, eftir að Hyrum hafi tekið á móti helgiathöfn skírnar fyrir bróður sinn, Alvin.

Kenningar Josephs Smith

Guð elskar öll börn sín og dæmir menn eftir því lögmáli sem þeir hafa tekið á móti.

„Hin vitra og skynsama, að eigin sögn, kynslóð okkar tíma hefur afar lítinn skilning á hinum undursamlegu áformum Guðs hvað varðar sáluhjálp mannkyns. Ágreiningur og deilur eru það sem menn leggja til málanna um áætlun sáluhjálpar, [kröfur] almættisins, hinn nauðsynlega undirbúning fyrir himininn, ástand og skilyrði andanna sem horfnir eru á braut, og hamingjuna eða vansældina sem menn hljóta við iðkun réttlætis eða ranglætis samkvæmt margvíslegum hugmyndum þessara dyggðugu og vitru um dyggð og ódyggð. …

… Þá er einn hluti mannkyns dæmir og ásakar annan án miskunnar, lítur hið mikla foreldri himingeimsins yfir allt mannkyn af sinni ástúðlegu umhyggju. Hann lítur á það sem afsprengi sitt, og án þeirrar þröngsýni sem svo oft einkennir mannanna börn lætur hann ,sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.‘ [Matt 5:45] Hann hefur dóminn í hendi sinni; hann er vitur löggjafi, og dæmir menn, ekki eftir þröngsýnum hugmyndum manna, heldur ,af þeim verkum, sem unnin hafa verið í hinum dauðlega líkama, hvort sem þau eru góð eða ill,‘ og hvort sem verkin eru unnin í Englandi, Ameríku, Tyrklandi, Indlandi eða á Spáni. Hann mun ,ekki dæma þá af því sem þeir hafa ekki, heldur af því sem þeir hafa.‘ Þeir sem lifað hafa án lögmáls, munu dæmast án lögmáls, og þeir sem hafa lögmál, munu dæmast af því lögmáli. Við þurfum ekki að efast um vitsmuni og visku hins mikla Jehóva, hann mun úthluta öllum þjóðum dómi eða miskunn, samkvæmt verðleikum þeirra, tækifærum til að auka við vitsmuni sína, því lögmáli sem þeim ber að stjórnast af, getu þeirra til að afla sér réttrar fræðslu, og af óræðum áformum hans hvað varðar mannkynið. Og þegar áform Guðs verða gerð opinber, og tjaldi hins ókomna verður svipt frá, munum við öll að lokum þurfa að játa að dómari alls jarðríkis hafi gjört rétt [sjá 1 Mós 18:25].“6

„Guð dæmir menn eftir því hvernig þeir hafa nýtt sér ljósið sem hann veitir þeim.“7

„Menn verða gerðir ábyrgir gagnvart því sem þeir hafa, en ekki því sem þeir hafa ekki. … Allt ljós og allir vitsmunir sem þeim veitast frá hinum góðviljaða skapara sínum, hvort sem magnið er mikið eða lítið, reiknast þeim til réttláts dóms, og … af þeim er aðeins krafist að þeir lifi eftir því sem þeim er veitt, og auki síðan við sig, því eigi lifir maðurinn á brauði einu saman, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“8

Frelsarinn, Jesús Kristur, býður öllum, bæði lifandi og látnum, fyrirgefningu og lausn.

„Hverjar aðstæður hinna kristnu þjóða verða eftir dauðann er nokkuð sem heimspekingar og guðfræðingar hafa lagt sig fram við að reyna að svara, og sú skoðun er oft látin í ljós að örlög manna ráðist endanlega við dauða þeirra, og þeir verði þá annað hvort hamingjusamir eða vansælir að eilífu; að deyi menn án þekkingar á Guði, verði þeir að eilífu fordæmdir, án þess að nokkuð dragi úr refsingu eða lini þjáningar, og án minnstu vonar um björgun í aldanna endalausu rás. Hversu rétt sem okkur kann að finnast þessi regla vera, munum við komast að því að hún samræmist ekki hinum helgu ritum, því frelsarinn sagði að hver synd og guðlöstun verði mönnum fyrirgefin, en að guðlast gegn andanum verði ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komandi, sem augljóslega sýnir að til eru syndir sem má fyrirgefa í hinum komandi heimi, þótt guðlast [gegn heilögum anda] verði ekki fyrirgefið [sjá Matt 12:31–32; Mark 3:28–29].

Pétur sagði einnig, er hann ræddi um frelsarann: ,Hann [fór] einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa‘ (1 Pét 3:19, 20). Hér er sagt frá því að frelsarinn hafi prédikað fyrir öndunum í varðhaldi, þeim öndum sem óhlýðnast höfðu á tíma Nóa. Og hvað prédikaði hann fyrir þeim? Að þeir yrðu að dvelja þar áfram? Vissulega ekki! Látum hans eigin orð vitna hér. ,Hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa.‘ (Lúk 4:18.) Jesaja sagði þetta einnig: ,Til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.‘ (Jes 42:7.) Augljóst er af þessu að hann hafi ekki aðeins verið þar til að prédika fyrir þeim, heldur einnig til að bjarga þeim, eða leiða þá út úr varðhaldinu. …

Hinn mikli Jehóva áformaði heildræna framvindu atburða hvað varðar jörðina og áætlun sáluhjálpar, áður en henni var hleypt af stokkunum, eða áður en ,morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman‘ [Job 38:7]. Fyrir honum eru fortíð, nútíð og framtíð ein líðandi eilíf ,nútíð.‘ Hann þekkti fall Adams, misgjörðir hinna fornu [þeirra sem uppi voru fyrir syndaflóðið], syndirnar sem mannkynið mundi drýgja, veikleika manna og styrkleika, mátt þeirra og dýrð, fráhvarf þeirra og glæpi, réttlæti þeirra og ranglæti. Hann sá fyrir fall mannsins og endurlausn hans; hann þekkti áætlun sáluhjálpar og gerði grein fyrir henni; hann þekkti ástand allra þjóða og örlög þeirra; hann kom skipan á allt að eigin vilja. Hann þekkti ástand bæði lifenda og látinna og gerði nægar ráðstafanir þeim til endurlausnar, í samræmi við hinar ýmsu aðstæður þeirra og lögmál ríkisins, hvort heldur í þessum heimi eða komandi heimi.“9

Guð er fullkomlega réttvís og miskunnsamur öllum mönnum, lifandi og látnum.

„Þær hugmyndir sem sumir menn draga upp af réttvísi, refsingu og miskunn Guðs, eru of heimskulegar til að virða þær viðlits. Það er til að mynda algengt að margir prestar rétttrúnaðarmanna segi, að séu menn ekki það sem þeir kalla trúaðir, og deyi í því ástandi, fari þeir að eilífu til heljar án nokkurrar vonar. Verja þurfi óendanlegum árafjölda í kvöl og pínu, sem aldrei, aldrei taki enda, og að þessi eilífa eymd sé oft afleiðing minnstu yfirsjóna og slysni. Slitin skóreim eða rifin yfirhöfn þeirra sem sinna erindum sínum eða ákveðinn dvalarstaður fólks, geta þannig óbeint valdið fordæmingu eða verið ástæða þess að menn frelsist ekki.

Ég segi hér frá almennu dæmi: Tveir menn sem verið hafa jafn ranglátir og vanrækt hafa trú sína veikjast báðir samtímis. Annar þeirra er svo lánsamur að bænheitur maður vitjar hans, og hann snýst til trúar nokkrum mínútum áður en hann deyr. Hinn sendir eftir þremur bænheitum mönnum, skraddara, skósmið og tinara. Tinarinn þarf að lóða handfang á pönnu, skraddarinn þarf í snarhasti að festa hnapp á yfirhöfn, og skósmiðurinn þarf að festa bót á stígvél einhvers og því kemst enginn þeirra nógu tímanlega, maðurinn deyr og fer til helju. Hinn fyrri hlýtur upphafningu í návist Abrahams, og sest niður hjá Guði og nýtur ótruflaður eilífrar hamingju, en hinn síðari, sem var jafn góður hinum fyrri, hlýtur eilífa og óafturkræfa fordæmingu og vonleysi og örvæntingu, allt sökum þess að menn þurftu að festa bót á stígvél, festa hnapp á yfirhöfn og lóða handfang á pönnu.

Áætlun Jehóva er ekki svo ranglát, texti hinna heilögu rita ekki svo [villandi], eða sáluhjálparáætlunin fyrir mannkynið ekki svo órökvís. Guð mundi líta á slíka framvindu með vanþóknun, englarnir mundu hylja ástjónu sína af blygðun, og allir dyggðugir menn mundu hrökkva í kút.

Ef lög mannsins veita öllum makleg málagjöld, og refsa hinum seku í samræmi við alvarleika glæps þeirra, mun Drottinn vissulega ekki verða miskunnarlausari en maðurinn, því hann er vitur löggjafi, og lögmál hans eru réttsýnni, lögleiðing hans réttvísari, og ákvarðanir hans fullkomnari en mannsins. Og maðurinn dæmir samferðamenn sína eftir lögum, og refsar þeim samkvæmt refsiákvæðum laganna, en Guð himins dæmir ,af þeim verkum, sem unnin hafa verið í hinum dauðlega líkama.‘ [Sjá Alma 5:15.] Að segja að heiðingjar séu fordæmdir sökum þess að þeir trúa ekki á fagnaðarerindið, er heimskulegt, og að segja að allir Gyðingar séu fordæmdir sökum þess að þeir trúa ekki á Jesú, er ekki síður heimskulegt, því ,hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur?‘ [sjá Róm 10:14–15]. Þar af leiðandi geta hvorki Gyðingar né heiðingjar verið saknæmir fyrir að hafna hinum ósamhljóma kenningum kreddutrúarstefnu, eða að hafna einhverjum vitnisburði, nema hann sé sendur af Guði, því að prédikari getur ekki prédikað nema hann sé sendur, og sá sem heyrir ekki getur ekki trúað [nema] hann hlýði á ,sendan‘ prédikara, og ekki er hægt að fordæma einhvern fyrir það sem hann hefur ekki heyrt, og þar sem hann er án lögmáls, mun hann dæmdur án lögmáls.“10

Það er skylda okkar og forréttindi að taka á móti skírn og staðfestingu í þágu þeirra sem dáið hafa án fagnaðarerindisins.

„Þegar við ræðum um blessanir fagnaðarerindisins og afleiðingar þess að óhlýðnast kröfum þess, erum við oft spurðir um hvað orðið hefur um forfeður okkar? Verða þeir allir fordæmdir fyrir að hlýða ekki fagnaðarerindinu, þótt þeir hafi aldrei heyrt á það minnst? Vissulega ekki. Þeir munu njóta þeirra sömu forréttinda og við njótum hér, fyrir tilstilli hins ævarandi prestdæmis, sem ekki aðeins er þjónustað á jörðinni, heldur einnig á himnum, og í viturlegum tilgangi hins mikla Jehóva. Prestdæmið mun vitja þeirra sem Jesaja vísar til [sjá Jes 24:21–22], og þeir munu koma úr varðhaldi sínu, á sama hátt og þeir sem óhlýðnuðust á tímum Nóa, en þeirra vitjaði frelsari okkar [sem hafði hið ævarandi Melkísedeksprestdæmi], og þeir nutu þess að hann prédikaði fagnaðarerindið fyrir þeim í varðhaldinu. Og til þess að þeir gætu uppfyllt allar [kröfur] Guðs voru lifandi vinir hinna látnu skírðir í þágu þeirra og uppfylltu þannig kröfu Guðs, sem hljómar svo: ,Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.‘ [Jóh 3:5.] Þeir voru auðvitað skírðir fyrir hina dánu, en ekki fyrir sjálfa sig. … Páll ræddi um þessa kenningu og sagði: ,Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir menn rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá?‘ (1 Kor 15:29). …

Og nú þegar hinum mikla tilgangi Guðs er hraðað til að fullvinna verkið, og það sem spámennirnir hafa talað um er að uppfyllast, þegar ríki Guðs er komið á fót á jörðinni, og hin forna regla er endurreist, hefur Drottinn staðfest fyrir okkur þessa skyldu og forréttindi, og okkur er boðið að láta skírast fyrir okkar dánu og þannig uppfylla orð Óbadía, er hann talar um dýrð hinna síðari daga: ,Og frelsendur munu fara upp til Síonfjalls til þess að dæma Esaúfjöll, og Drottinn mun hljóta konungsvaldið.‘ [Sjá Óbadía 1:21.] Þessi skilningur kemur heim og saman við sannleika ritninganna, réttlætir hætti Guðs fyrir manninum, setur mannkynið allt á sama stall, og gerir allar reglur réttlætis, réttvísi og sannleika samhljóma. Við ljúkum með orðum Péturs: ,Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna.‘ ,Því að til þess var og dauðum boðað fagnaðarerindið, að þeir, þótt dæmdir væru líkamlega með mönnum, mættu lifa í andanum með Guði.‘ [1 Pét 4:3, 6.]“11

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið bls. 401–02 og veitið eftirtekt þeim áhrifum sem kenningin um sáluhjálp fyrir hina dánu hafði á Joseph Smith og fjölskyldu hans. Hvaða áhrif hefur þessi kenning haft á ykkur og fjölskyldu ykkar?

  • Lesið kenningar spámannsins um Guð föðurinn og Jesú Krist á bls 403–6. Hvernig geta þessar kenningar haft áhrif á huga okkar og tilfinningar hvað varðar föður okkar á himnum og frelsarann? Hvernig tengjast þessar kenningar sáluhjálp fyrir hina dánu?

  • Lesið kenningar spámannsins á bls. 403–04 og 406–07. Hvernig dæmir Guð börn sín?

  • Joseph Smith sagði skírn fyrir hina dánu vera „skyldu og forréttindi“ (bls. 408). Á hvaða hátt er þetta verk skylda? Hafið þið upplifað þessi forréttindi, og ef svo er, hver hefur þá reynsla ykkar verið? Hvað getið þið gert til að efla verk Drottins fyrir hina dánu? Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að taka þátt í þessu verki?

  • Hvernig sýnir kenningin um sáluhjálp fyrir hina dánu réttvísi Guðs? Hvernig sýnir hún miskunn hans? Hvernig munduð þið útskýra þessa kenningu fyrir einhverjum sem er annarrar trúar, eftir að þið hafið lesið þennan kafla?

Ritningargreinar tengdar efninu: Jes 49:8–9; 61:1–3; Jóh 5:25; K&S 138:11–37

Heimildir

  1. Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Mack Smith, Mother of the Prophet,“ 1844–45 handrit, bók 4, bls. 5–6, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. Alvin Smith, vitnað í Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,“ 1844–45 handrit, bók 4, bls. 4, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. William Smith, viðtal tekið af E. C. Briggs og J. W. Peterson, okt. eða nóv. 1893, upprunalega birt í Zion’s Ensign (tímarit sem gefið var út af Reorganized Church of Jesus Christ of Latter Day Saints, sem nú heitir Community of Christ); endurbirt í Deseret Evening News, 20. jan. 1894, bls. 2.

  4. Simon Baker skráði fyrirlestur sem Joseph Smith hélt 15. ágúst 1840, í Nauvoo, Illinois; úr Journal History of The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 15. ágúst 1840. Sjá einnig History of the Church, 4:231.

  5. Joseph Smith eldri, Tilvitnun í Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,“ 1845 handrit, bls. 296, 301, Skjalasafn kirkjunnar.

  6. History of the Church, 4:595–96; stafsetning færði í nútímahorf; úr “Baptism for the Dead,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. apríl 1842; bls. 759; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  7. History of the Church, 5:401; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 21. maí 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  8. Bréf frá Joseph Smith til Silas Smith, frænda hans, 26. sept. 1833, Kirtland, Ohio; Lucy Mack Smith, í “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,“ 1845 handrit, bls. 228–29, Skjalasafn kirkjunnar.

  9. History of the Church, 4:596–97; fyrsti textasvigi í fyrstu málsgrein upprunalegur; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr “Baptism for the Dead,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. apríl 1842, bls. 759–60; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins. Opinberun sem Joseph F. Smith forseti hlaut í október 1918 greindi frá því að meðan frelsarinn var í andaheiminum, hafi hann vitjað réttlátu andanna og tilnefnt sendiboða til að fara til ranglátu andanna og færa þeim boðskap fagnaðarerindisins (sjá K&S 138:18–23, 28–32).

  10. History of the Church, 4:595–98; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr “Baptism for the Dead,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. apríl 1842; bls. 760; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  11. History of the Church, 4:595–99; annar textasvigi í fyrstu málsgein upprunalegur; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr “Baptism for the Dead,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. apríl 1842; bls. 760–61; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

Ljósmynd
Provo Temple

„Þegar ríki Guðs er komið á fót á jörðinni, og hin forna regla er endurreist, hefur Drottinn staðfest fyrir okkur þessa skyldu og forréttindi, og okkur er boðið að láta skírastfyrir okkar dánu.“

Ljósmynd
Savior with righteous spirits

Í andaheiminum tilnefndi frelsarinn réttláta anda og ,fól þeim að ganga fram og flytja ljós fagnaðarerindisins til þeirra, sem í myrkri voru‘ (K&S 138:30).