Kenningar forseta
28. Kafli: Trúboðsþjónusta: Heilög köllun, dýrðlegt verk


28. Kafli

Trúboðsþjónusta: Heilög köllun, dýrðlegt verk

„Þegar allt kemur til alls er mesta og mikilvægasta skyldan sú að prédika fagnaðarerindið.“

Úr lífi Josephs Smith

Síðustu fáu árin sem hinir heilögu dvöldu í Kirtland hurfu margir meðlimir og jafnvel nokkrir leiðtogar frá kirkjunni. Kirkjan virtist ganga í gegnum erfiða tíma. Spámaðurinn skrifaði: „Þegar svo var komið opinberaði Guð mér að eitthvað nýtt yrði að gera til sáluhjálpar þessarar kirkju.“1 „Eitthvað nýtt“ var opinberun um að senda trúboða til Englands til að prédika fagnaðarerindið.

Heber C. Kimball, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Joseph spámaður kom til mín fyrsta dag júnímánaðar 1837, er ég sat í … Kirtland-musterinu, og hvíslaði að mér: ,Bróðir Heber, andi Drottins hefur hvíslað að mér: ,Lát þjón minn Heber fara til Englands til að kunngjöra þar fagnaðarerindi mitt og ljúka upp dyrum sáluhjálpar fyrir þjóðina.‘“2 Það þyrmdi yfir öldung Kimball við þá hugsun að takast á við slíkt verkefni: „Mér fannst ég vera einn veikasti þjónn Guðs. Ég spurði Joseph hvað ég ætti að segja þegar ég kæmi þangað. Hann sagði mér að leita til Drottins og hann mundi leiða mig og tala í gegnum mig með hinum sama anda og leiðbeindi honum.“3

Spámaðurinn kallaði einnig Orson Hyde, Willard Richards, Joseph Fielding í Kirtland, Isaac Russell, John Snyder og John Goodson í Toronto, Kanada. Þessum bræðrum bar að fara með öldungi Kimball í trúboð hans til Englands. Þeir hittust í New York-borg og héldu þaðan 1. júlí 1837 til Stóra-Bretlands með skipi sem bar nafnið Garrick. Í þessu fyrsta trúboði utan Norður-Ameríku gengu um 2.000 trúskiptingar í kirkjuna í Englandi á fyrsta árinu. Öldungur Kimball skrifaði glaður til spámannsins: „Dýrð sé Guði, Joseph, Drottinn er með okkur meðal þjóðanna!“4

Öðru trúboði postulanna til Bretlands, en þá fóru flestir hinna Tólf undir leiðsögn Brighams Young, stýrði spámaðurinn frá Nauvoo. Hinir Tólf fóru haustið 1839 og komu til Englands árið 1840. Þar hófu þeir starf sitt og árið 1841 höfðu yfir 6.000 trúskiptingar gengið í kirkjuna, og þannig uppfylltist fyrirheit Drottins um að hann hygðist gera „eitthvað nýtt“ kirkju sinni til sáluhjálpar.

Joseph Smith hélt áfram að senda trúboða út um heim frá Nauvoo. Öldungur Orson Hyde kom til Englands árið 1841 og hélt síðar áfram að þjóna í sínu útnefndu trúboði í Jerúsalem. Hann hafði með sér meðmælabréf frá Joseph Smith, sem staðfesti að „sá sem hefði bréfið, væri dyggur og verðugur þjónn Jesú Krists, sem fulltrúi okkar og málsvari í erlendu landi, til að … ræða við presta, stjórnendur og öldunga Gyðinganna.“5 Hinn 24. október 1841 kraup öldungur Hyde á Olíufjallinu við Jerúsalem og bað himneskan föður að helga og vígja landið „til samansöfnunar hinna dreifðu leifa Júda, samkvæmt spádómum hinna helgu spámanna.“6 Öldungur Hyde hélt síðan för sinni til Þýskalands og lagði grunn að vexti kirkjunnar þar.

Hinn 11. maí 1843 kallaði spámaðurinn öldungana Addison Pratt, Noah Rogers, Benjamin F. Grouard og Knowlton F. Hanks til trúboðsstarfa á eyjum Suður-Kyrrahafsins. Það var fyrsta trúboð kirkjunnar á því víðáttumikla svæði. Öldungur Hanks lést á hafi úti, en öldungur Pratt hélt til hinna suðlægu eyja og kenndi fagnaðarerindið á eyjunni Tubuai. Öldungur Rogers og Grouard fóru til Tahiti og þar skírðust hundruð manns.

Hinir heilögu stefndu fram á við, undir leiðsögn Josephs Smith, til að uppfylla þessi fyrirmæli Drottins: „Farið þess vegna út um allan heim. Og þangað sem þér getið eigi farið, skuluð þér senda, svo að vitnisburðurinn fari frá yður út um allan heim til sérhverrar skepnu.“ (K&S 84:62).

Kenningar Josephs Smith

Trúboðsþjónusta er heilagt verk; trú, dyggð, kostgæfni og elska gerir okkur hæf til verksins.

„Þegar allt kemur til alls er mesta og mikilvægasta skyldan sú að prédika fagnaðarerindið.“7

Í desember 1840 skrifaði spámaðurinn til meðlima Tólfpostulasveitarinnar og fleiri prestdæmisleiðtoga er þjónuðu í trúboði á Stóra-Bretlandi: „Kæru bræður, verið vissir um að ég hef mikinn áhuga á því sem gerist í heiminum öllum, og meðal alls þess sem þar gerist er ekkert mikilvægara en hið dásamlega verk sem þið eigið þátt í. Af þeim sökum óska ég þess innilega fyrir ykkar hönd, að þið megið, vegna dyggðar ykkar, trúar, kostgæfni og kærleika, fela ykkur hver öðrum kirkju Krists og föður ykkar á himnum, en fyrir hans náð hafið þið verið kallaðir þessari helgu köllun, og ykkur gert unnt að sinna þeim miklu ábyrgðarskyldum sem á ykkur hvíla. Ég fullvissa ykkur um, samkvæmt þeim tíðindum sem mér hafa borist, að ég gleðst yfir að þið hafið ekki vanrækt skyldur ykkar, heldur sýnt slíka kostgæfni og trúfestu, að þið megið treysta því að Guð, sem þið þjónið, lítur til ykkar með velþóknun, og þið njótið einnig góðvildar hinna heilögu víða um heim.

Útbreiðsla fagnaðarerindisins í Englandi er vissulega ánægjuefni, og hugsunin um það vekur sérstakar tilfinningar í brjósti þeirra sem byrðarnar hafa borið af hita og þunga dagsins og verið hafa staðfastir og tryggir fylgismenn allt frá upphafi verksins, við afar erfiðar aðstæður og undir hótunum úr öllum áttum um útrýmingu – líkt og um væri að ræða tignarlegt, óskaddað og stolt barkskip [bát], sem siglir þöndum seglum í gegnum öldurnar eftir illviðrisfár, aldrei meðvitaðra um styrk síns eigin timburs og færni skipstjóra síns, stýrimanns og áhafnar. …

Elska er eitt höfuðeinkenni Guðdómsins, og hún ætti að vera augljós hjá þeim sem leitast við að vera synir Guðs. Sá sem fylltur er elsku Guðs lætur sér ekki einungis nægja að blessa fjölskyldu sína, heldur fer hann um allan heim, óþreyjufullur eftir að blessa allt mannkyn. Þannig hefur ykkur liðið og það er ástæða þess að þið fórnið yndi heimilisins, til að geta blessað aðra, sem geta orðið ódauðlegir, en ókunnugir eru sannleikanum. Og vegna þessa vals ykkar bið ég þess að bestu blessanir himins megi á ykkur hvíla.“8

Við kennum hinn einfalda sannleika fagnaðarerindisins af auðmýkt og hógværð og forðumst að deila við aðra um trú þeirra.

„Ó, öldungar Ísraels, hlýðið á rödd mína. Þegar þið eruð sendir út í heiminn til að prédika, segið þá það sem þið eruð sendir til að segja, prédikið og hrópið: ,Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd; iðrist og trúið á fagnaðarerindið.‘ Kennið frumreglur fagnaðarerindisins, látið leyndardómana vera, annars munuð þið falla. … Prédikið það sem Drottinn hefur sagt ykkur að prédika – iðrun og skírn til fyrirgefningar syndanna.“9

„Ég útskýrði fyrir þeim tilgangsleysi þess að prédika fyrir heiminum mikla dóma, og að prédika heldur einfaldleika fagnaðarerindisins.“10

„Öldungarnir [ættu] að fara … í hógværð og stillingu og prédika Jesú Krist og hann krossfestan, ekki að deila við aðra um skoðanir þeirra eða trúarbrögð, en fylgja heldur hinum krappa og þrönga vegi. Þetta flyt ég yður sem boðorð og þeir sem ekki hlíta því, munu sæta ofsóknum, en þeir sem hlíta því, munu ætíð fylltir heilögum anda. Þessu lýsi ég yfir sem spádómi.“11

„Sé einhverjum dyrum upp lokið fyrir öldungana til að prédika frumreglur fagnaðarerindisins, skulu þeir ekki loka munni sínum. Mælið ekki gegn trúarsöfnuðum eða gegn kenningum þeirra. Prédikið heldur Krist, hann krossfestan, elsku Guðs og elsku til manna; … á þann hátt munum við, ef mögulegt er, kveða niður hleypidóma fólks. Verið hógværir og lítillátir í hjarta, þá mun Drottinn Guð feðra okkar vera með okkur að eílífu.“12

„Veitið þessum lykli viðtöku og verið vitrir fyrir sakir Krists og sálar ykkar. Þið eruð ekki sendir út til að láta kenna ykkur, heldur til að kenna. Mælið af mildi og með náð. Verið árvakrir; verið skynsamir. Nú er dagur aðvörunar, en ekki dagur margra orða. Verið heiðarlegir frammi fyrir Guði og mönnum. … Verið heiðvirðir og einlægir við allt mannkyn, í öllum ykkar [gjörðum]. [Sjá K&S 43:15; 63:58.]“13

Áður en George A. Smith fór í trúboð árið 1835 heimsótti hann spámanninn Joseph Smith, sem var frændi hans. George A. Smith skráði: „Ég fór til að hitta Joseph frænda. Hann gaf mér Mormónsbók, tók í hönd mér og sagði: ,Hafðu prédikanir þínar stuttar, hafðu bænir þínar stuttar og prédikaðu með bæn í hjarta.‘ “14

Við kennum fagnaðarerindið líkt og andinn leiðbeinir.

„Allir ættu að prédika fagnaðarerindið með krafti og áhrifum heilags anda. Enginn maður getur prédikað fagnaðarerindið án heilags anda.“15

„Öldungarnir á síðari dögum verða að vera öllum allt, til þess að geta að minnsta kosti frelsað nokkra, líkt og Páll sagði [sjá  Kor 9:22]. Og þar sem þeir eru sendir út til að prédika fagnaðarerindið og vara heiminn við hinum væntanlegu dómum, erum við vissir um að mögli þeir ekki og kenni samkvæmt leiðsögn andans og opinberun Jesú Krists, mun þeim vegna vel. Við höfum því engin ný boð fram að færa, en áminnum öldungana og meðlimina um að lifa eftir hverju því orði, sem fram gengur af munni Guðs [sjá Matt 4:4], svo þá muni ekki skorta þá dýrð sem geymd er hinum trúföstu.“16

Spámaðurinn talaði á ráðstefnu sem haldin var í október 1839: „[Joseph Smith] forseti gaf öldungunum fyrirmæli um prédikun fagnaðarerindisins og lagði áherslu á mikilvægi þess að hafa andann með sér, svo þeir mættu prédika með heilögum anda er sendur yrði frá himnum, og gæta sín er þeir ræddu um þau mál sem ekki eru greinilega útskýrð í orði Guðs og leitt geta til getgáta og deilna.“17

Hinn 14. maí skrifaði Joseph Smith frá Nauvoo til öldunganna Orson Hyde ogJohn E. Page, sem voru á leið til Landsins helga í trúboð: „Efist ei um mikilleika þessa verks, verið aðeins auðmjúkir og trúfastir, svo þið getið sagt: ,Hver ert þú, stóra fjall? Fyrir Serúbabel skalt þú verða að sléttu‘ [sjá Sak 4:7]. Sá er tvístraði Ísrael hefur lofað að safna honum saman; í þeim tilgangi eru þið verkfæri í þessu mikla verki og hann mun veita ykkur kraft, visku, þrótt, vitsmuni og allt annað nauðsynlegt fyrir það verk. Hugur ykkar mun stöðugt þenjast út, þar til þið hljótið skilning á jörðinni sem og á himninum, og megnið að ná inn í eilífðina og ljúka hinu mikla verki Jehóva í allri fjölbreytni þess og dýrð.“18

Við leitum tækifæra til að kenna fagnaðarerindið og bera vitni um sannleiksgildi þess.

Haustið 1832 fór Joseph Smith ásamt Newel K. Whitney biskupi frá Kirtland, Ohio, til austurhluta Bandaríkjanna. Hinn 13. október skrifaði spámaðurinn til Emmu Smith frá New York-borg: Er ég íhuga þessa miklu borg, sem líkt og Níníve aðgreinir ekki hægri hönd frá þeirri vinstri, já, sem hýsir yfir tvö hundruð þúsund sálir, verður hjarta mitt fullt samúðar, og ég verð staðráðnari í að brýna raust mína enn frekar í þessari borg, og láta Guði hana eftir, sem öllu heldur í hendi sér, og mun ekki láta eitt hár af höfði okkar falla til jarðar, án þess að eftir því verði tekið. …

Ég hef átt ánægjulegar viðræður við fáeina, og einn þeirra var afar myndarlegur ungur herramaður frá Jersey, sem var mjög alvarlegur á svip. Hann kom og settist við hlið mér og tók að ræða um kóleru, sagðist hafa greinst með hana og nærri látist úr henni. Hann sagði Drottin hafa hlíft lífi sínu í einhverjum viturlegum tilgangi. Ég notaði tækifærið og ræddi lengi við hann. Hann hlýddi á það sem ég hafði að færa honum af mikilli ánægju og varð mjög hændur að mér. Við töluðum langt fram eftir kvöldi og ákváðum að ræða aftur saman daginn eftir. En þar sem hann þurfti að sinna öðru erindi tafðist hann og varð að fara því báturinn var ferðbúinn. Hann kom til að kveðja mig og við kvöddumst með trega.“19

Elizabeth Ann, eiginkona Newels K. Whitney, minntist þess er eiginmaður hennar fór til austurhluta Bandaríkjanna árið 1832 með Joseph Smith: „Eiginmaður minn ferðaðist með spámanninum Joseph um margar borgir í austrinu, til að gefa vitnisburði sína og viða að sér ýmiskonar efni til byggingar Kirtland-musterisins, og einnig til að festa kaup á landi í Missouri. … Hann sagði við eiginmann minn: ,Ef þeir hafna okkur munu þeir hafa vitnisburði okkar, því við munum færa þá í ritmál og skilja eftir á dyraþrepum og gluggasyllum þeirra.‘“20

Árið 1834 prédikaði Joseph Smith í skólabyggingu í Pontiac, Michigan. Edward Stevenson var þar viðstaddur og minntist þess: „Tveir öldungar mormóna kynntu þarna á skólalóðinni hið endurreista fagnaðarerindi árið 1833, og árið 1834 prédikaði spámaðurinn Joseph Smith af slíkum krafti að fólk hafði aldrei orðið vitni að slíku á þessari nítjándu öld. … Ég man mjög vel hve þau orð voru einföld sem bárust frá hinum unga spámanni, en svo kröftug að ómótstæðileg voru öllum viðstöddum. …

Með uppréttar hendur sagði hann: ,Ég er vitni þess að Guð er til, því ég sá hann í dagsljósi er ég baðst fyrir í kyrrlátum lundi vorið 1820.‘ Hann vitnaði svo enn frekar og sagði Guð, hinn eilífa föður, hafa bent á hina veruna, ímynd hans sjálfs, og sagt: ,Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann.‘ Ó, hve orð þessi gagntóku líkama minn og sál, og ég fylltist ólýsanlegri gleði yfir því að fá litið einhvern þann, sem líkt og Páll postuli gerði til forna, gat vitnað djarflega að hann hefði verið í návist Jesú Krists! …

… Fleiri fundir voru haldnir sem spámaðurinn sótti, og athyglisvert var að vitnin þrjú að Mormónsbók voru með honum. Í heimsókn sinni til þessarar greinar vitnaði spámaðurinn um að hann hefði hlotið fyrirmæli um að stofna kirkju að fyrirmynd kirkjunnar sem Jesús hefði stofnað, með tólf postulum, hinum sjötíu, öldungum, gjöfum og blessunum, og táknunum sem ritað er um í sextánda kapítula Markúsarguðspjalls. … ,Sem þjónn Guðs,‘ sagði Joseph, ,gef ég ykkur fyrirheit um, að ef þið iðrist og skírist til fyrirgefningar syndanna, munuð þið hljóta heilagan anda.‘ “21

Meðan verið var að flytja spámanninn frá Far West, Missouri, í nóvember 1838, til fangelsisvistar í Richmont, Missouri, kenndi hann fagnaðarerindið að nýju: „Við nutum þar heimsóknar nokkurra karla og kvenna. Ein kvennanna kom og spurði verðina afskaplega ljúflega hver sá fangi væri sem ,mormónarnir‘ tilbáðu sem Drottin sinn? Einn varðanna benti á mig skælbrosandi og sagði: ,Þarna er hann.‘ Konan sneri sér þá að mér og spurði hvort ég teldi mig vera Drottin frelsara vorn? Ég svaraði því til að ég væri aðeins maður, og þjónn hjálpræðis, sendur af Jesú Kristi til að prédika fagnaðarerindið.

Við þetta svar mitt varð konan svo undrandi að hún tók að spyrja um kenningar okkar og ég prédikaði bæði fyrir henni og þeim sem með henni voru, og undrandi vörðunum sem hlýddu á af mikilli andakt, næstum með öndina í hálsinum, er ég útlistaði kenninguna um trú á Jesú Krist, iðrun og skírn til fyrirgefningar syndanna, með fyrirheiti um heilagan anda, líkt og ritað er í öðrum kapítula Postulasögunnar [sjá Post 2:38–39].

Konan var sátt, lofaði Drottin í áheyrn varðanna, hélt sína leið og bað þess um leið að Guð mætti vernda okkur og bjarga.“22

Dan Jones minntist eftirfarandi atviks, sem gerðist kvöldið áður en spámaðurinn var myrtur í Carthage-fangelsinu: „Joseph gaf vörðunum kröftuglega vitnisburð sinn um guðlegan áreiðanleika Mormónsbókar, hið endurreista fagnaðarerindi, þjónustu engla og að ríki Guðs hefði enn á ný verið stofnað á jörðinni, og að sökum þess málstaðar væri hann vistaður í þessu fangelsi, en ekki sökum þess að hann hefði brotið lög Guðs eða manna.“23

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið bls. 327–28 og veitið athygli trúboðsstarfinu sem komið var á undir leiðsögn spámannsins Josephs Smith. Hefur starf þessa fyrrum trúboða haft áhrif á ykkur á einhvern hátt? Ef svo er, þá hvernig?

  • Lesið málsgreinina sem hefst neðst á síðu 329 og íhugið hvers vegna elska hefur áhrif á okkur á þann hátt sem spámaðurinn segir. Hvaða eiginleikum þurfum við að búa yfir til að vera áhrifamiklir trúboðar? (Sjá dæmi á bls. 329–30.)

  • Lesið orð spámannsins Josephs Smith um hvað trúboðum ber að kenna og hvernig þeir eiga að standa að kennslu sinni (bls. 330–33). Hvers vegna eigum við að kenna „frumreglur“ fagnaðarerindisins? Hverjar geta orðið afleiðingar þess að deila við aðra um trúarbrögð? Hvað teljið þið felast í því að „[mæla] af mildi og með náð,“ þegar fagnaðarerindið er prédikað?

  • Lesið alla aðra málsgreinina á síðu 331. Á hvaða hátt hefur heilagur andi leitt ykkur er þið miðlið fagnaðarerindinu? Hvers vegna getum við ekki prédikað fagnaðarerindið án heilags anda?

  • Lesið um reynslu Josephs Smith á bls. 333–35. Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu í sambandi við að miðla öðrum fagnaðarerindinu?

  • Hvernig getum við á virkan hátt leitað tækifæra til að miðla öðrum fagnaðarerindinu? Hvernig getum við búið okkur undir slík tækifæri? Hvernig getum við látið fjölskyldur okkar taka þátt í trúboðsstarfi?

Ritningargreinar tengdar efninu: Matt 28:19–20; 2 Ne 2:8; Al 26:26–37; K&S 4:1–7; 31:3–5

Heimildir

  1. History of the Church, 2:489; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 761, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. Heber C. Kimball, “Synopsis of the History of Heber Chase Kimball,“ Deseret News, 14. apríl 1858, bls. 33; stafsetning færð í nútímahorf.

  3. Heber C. Kimball, Deseret News, 21. maí 1862, bls. 370; stafsetning færð í nútímahorf.

  4. Tilvitnun Orsons F. Whitney, í Conference Report, okt. 1920, bls. 33.

  5. Meðmælabréf útgefið af Joseph Smith og fleirum til Orsons Hyde, 6. apríl 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, apríl 1840, bls. 86.

  6. Orson Hyde, A Voice from Jerusalem, or a Sketch of the Travels and Ministry of Elder Orson Hyde (1842), bls. 29.

  7. History of the Church, 2:478; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 6. apríl 1837, í Kirtland, Ohio; skráð í Messenger and Advocate, apríl 1837, bls. 487.

  8. History of the Church, 4:226–27; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til hinna Tólf, 15. des. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. jan. 1841, bls. 258; bréfið er ranglega dagsett 19. okt. 1840, í History of the Church.

  9. History of the Church, 5:344; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 8. apríl 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og William Clayton.

  10. History of the Church, 4:11; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 29. sept. 1839, í Commerce, Illinois; skráð af James Mulholland.

  11. History of the Church, 2:431; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 30. mars 1836, í Kirtland, Ohio.

  12. Bréf frá Joseph Smith og fleirum til Hezekiah Peck, 31. ágúst 1835, Kirtland, Ohio; úr “The Book of John Whitmer,” bls. 80, Skjalasafn Samfélags Krists, Independence, Missouri; eintak af “The Book of John Whitmer” í Skjalasafni kirkjunnar.

  13. History of the Church, 3:384; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 2. júlí 1839, í Montrose, Iowa; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards.

  14. George A. Smith, “History of George Albert Smith by Himself,” bls. 36, George Albert Smith, Papers, 1834–75, Skjalasafn kirkjunnar.

  15. History of the Church, 2:477; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 6. apríl 1837, í Kirtland, Ohio; skráð í Messenger and Advocate, apríl 1837, bls. 487.

  16. History of the Church, 5:404; úr bréfi frá Joseph Smith til ritstjóra Times and seasons, 22. maí 1843, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. maí 1843, bls. 199; þetta tölublað af Times and Seasons var gefið út seint.

  17. History of the Church, 4:13; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 6. okt. 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Times and Seasons, des. 1839, bls. 31.

  18. History of the Church, 4:128–29; úr bréfi frá Joseph Smith til Orson Hyde og John E. Page, 14. maí 1840, Nauvoo, Illinois. Þótt öldungur Hyde hefði fullnað trúboð sitt í Landinu helga, varð Öldungur Page eftir í Bandaríkjunum.

  19. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 13. okt. 1832, New York City, New York; Skjalasafn Samfélags Krists, Independence, Missouri.

  20. Elizabeth Ann Whitney, “A Leaf from an Autobiography,” Woman’s Exponent, 1. okt. 1878, bls. 71; stafsetning færð í nútímahorf.

  21. Edward Stevenson, “The Home of My Boyhood,” Juvenile Instructor, 15. júlí 1894, bls. 443–45; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  22. History of the Church, 3:200–201; frásögn úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 4. nóv. 1838, nærri Missourifljóti, er hann var færður sem fangi frá Far West til Independence, Missouri; skráð af Parley P. Pratt.

  23. History of the Church, 6:600; greinargerð um kennslu Josephs Smith 26. júní 1844, í Carthage-fangelsinu, Carthage, Illinois; skráð af Dan Jones.

Ljósmynd
men shaking hands

Heber C. Kimball og Joseph Fielding í Englandi, er fólkið, sem gekk í kirkjuna vegna trúboðspjónustu þeirra heilsaði þeim. Öldungur Kimball skrifaði til spámannsins: „Dýrð sé Guði, Joseph, Drottin er með okkur meðal þjóðanna!“

Ljósmynd
missionaries

„Prédikið heldur Krist, hann krossfestan, elsku til Guðs og elsku til manna. … Verið hógvoerir og lítillátir í hjarta, þá mun Drottinn Guð feðra okkar vera með okkur að eílífu.“

Ljósmynd
sister missionaries teaching

Hver meðlimur kirkjunnar ber ábyrgð á að miðla fagnaðarerindinu. „Allir ættu að prédika fagnaðarerindið,“ sagði spámaðurinn Joseph Smith, „með krafti og áhrifum heilags anda.“