Kenningar forseta
46. kafli: Píslarvættið: Spámaðurinn innsiglar vitnisburð sinn með blóði sínu


46. kafli

Píslarvættið: Spámaðurinn innsiglar vitnisburð sinn með blóði sínu

„Hann var mikill í lífinu og mikill í dauðanum í augum Guðs og fólks hans.“

Úr lífi Josephs Smith

Veturinn og vorið 1843-44 ríkti mikil spenna í Nauvoo, þegar óvinir Josephs Smith gerðu ítrekaðar tilraunir til að tortíma honum og kirkjunni. Þar sem spámanninum var ljóst að jarðneskri þjónustu hans mundi brátt ljúka, hitti hann oft þá sem skipuðu Tólpostulasveitina, til að fræða þá og veita þeim nauðsynlega prestdæmislykla til að stjórna kirkjunni. Sú fræðsla náði hámarki í mars 1844, á fundi með postulunum og nokkrum öðrum aðstoðarmönnum. Á þessum óvenjulega fundi fól spámaðurinn hinum Tólf að stjórna kirkjunni eftir dauða sinn, og útskýrði að hann hefði veitt þeim allt nauðsynlegt til þess að gera það, vígslur, valdsumboð og lykla. „Ég velti þeirri byrði og ábyrgð, að leiða þessa kirkju, af herðum mínum yfir á herðar ykkar,“ sagði hann. „Réttið nú úr bakinu og takið byrðina á herðar ykkar sem mönnum sæmir, því Drottinn ætlar að leyfa mér að hvílast um stund.“1

Hinn 10. júní 1844 fyrirskipaði Joseph Smith, sem var borgarstjóri Nauvoo, og borgarráðið, að leggja skyldi blaðið Nauvoo Expositor niður og gera prentvélar þess upptækar. Nauvoo Expositor var fréttablað sem beitt var gegn mormónum og rægði spámanninn og fleiri heilaga og hvatti til ógildingar stofnskrár Nauvoo-borgar. Embættismenn borgarinnar óttuðust að útgáfa þessi mundi leiða til múgæsingar. Stjórnvöld Illinois-fylkis ásökuðu spámanninn, Hyrum, bróður hans og fleiri embættismenn Nauvoo-borgar, ranglega um uppþot vegna þessarar aðgerðar borgarstjóra og borgarráðs. Ríkisstjóri Illinois, Thomas Ford, fyrirskipaði að mennirnir skildu færðir fyrir héraðsdóm í Carthage, Illinois, og hét að þeir skyldu verndaðir. Joseph var ljóst að færi hann til Carthage, yrði hann í mikilli lífshættu vegna múgsins sem hafði í hótunum við hann.

Joseph og Hyrum trúðu að múgurinn hefði aðeins hug á að ná þeim og einsettu sér því að fara vestur til að varðveita líf sitt. Hinn 23. júní fóru þeir yfir Mississippi-fljótið, en síðar þann dag komu bræður frá Nauvoo til spámannsins og sögðu honum að hersveitir mundu hertaka borgina, ef þeir gæfu sig ekki fram við stjórnvöld í Carthage. Spámaðurinn gekk að því og vonaðist þannig til að stilla stjórnvöld og múginn. Hinn 24. júní kvöddu Joseph og Hyrum Smith fjölskyldur sínar og riðu ásamt öðrum embættismönnum Nauvoo-borgar til Carthage til að gefa sig sjálfviljugir fram daginn eftir við embættismenn þar í héraði. Eftir að bræðurnir höfðu verið látnir lausir gegn tryggingu fyrir upprunalegar sakir, voru þeir ranglega sakaðir um landráð gegn Illinois-fylki, og þeir færðir í Carthage-fangelsið til að bíða þar dómsmeðferðar. Öldungarnir John Taylor og Willard Richards, þeir einu í Tólfpostulasveitinni, sem ekki þjónuðu í trúboði á þeim tíma, gengu sjálfviljugir til liðs við þá.

Síðdegis 27. júní 1844 sat þessi fámenni hópur hljóður og niðurlútur í fangelsinu. Einn mannanna bað öldung Taylor, sem hafði fallega tenórrödd, um að syngja eitthvað. Brátt hljómaði rödd hans: „Á förnum vegi fátækan ég förumanninn hitti þann, er auðmjúkt svo um aðstoð bað, að aldrei neitað gat um það.“2 Öldungur Taylor sagði sálm þennan „eiga vel við tilfinningar þeirra, þar sem þeir væru allir daufir og daprir í anda.“3

Nokkru eftir klukkan fimm síðdegis kom fjölmennur hópur árásarmanna stormandi að fangelsinu og skaut á mennina þar inni. Innan nokkurra mínútna hafði fólskuverkið verið unnið. Hyrum Smith var fyrst skotinn og lést nær samstundis. Öldungur Richards hlaut fyrir kraftaverk aðeins grunnt sár, öldungur Taylor komst lífs af, þótt hann hefði særst alvarlega, og varð síðar þriðji forseti kirkjunnar. Spámaðurinn Joseph hljóp að glugganum og var skotinn til ólífis. Spámaður endurreisnarinnar og Hyrum, bróðir hans, innsigluðu þannig vitnisburð sinn með blóði sínu.

Kenningar Josephs Smith

Guð verndaði Joseph Smith þar til jarðneskri þjónustu hans lauk.

Joseph Smith sagði í ágúst árið 1842: „Ég hef það á tilfinningunni að Drottinn almáttugur muni, líkt og hann hefur gert hingað til, halda áfram að vernda mig, fyrir sameiginlegar bænir hinna heilögu, þar til ég hef fullnað skeið þjónustu minnar í þessu lífi, og komið ráðstöfun fyllingar prestdæmisins svo rækilega á, nú á síðustu dögum, að allur máttur heljar mun ekki fá á því sigrast.“4

Í október 1843 sagði spámaðurinn: „Ég skora á allan heiminn að reyna að tortíma verki Guðs, og ég spái því að honum muni aldrei takast að deyða mig fyrr en verki mínu er lokið, og ég er reiðubúinn að deyja.“5

Í maí 1844 sagði spámaðurinn: „Guð mun ávallt vernda mig þar til ég hef fullnað þjónustu mína.“6

Í júní 1844 sagði spámaðurinn: „Ég huga ekki að eigin lífi. Ég er fús til að fórna mér í þágu þessa fólks, því hvað megna óvinir okkar að gera? Þeir geta aðeins deytt líkamann, og þar með lýkur valdi þeirra. Standið keikir, vinir mínir, hopið aldrei. Reynið ekki að bjarga eigin skinni, því sá sem hræðist að deyja í þágu sannleikans, glatar eilífu lífi. Standist allt til enda, og við munum rísa upp og verða líkir Guði, og ríkja í himneska ríkinu, í hátign og eilífum yfirráðum.“7

Snemma 27. júní 1844, í Carthage-fangelsinu, ritaði Joseph Smith í flýti bréf til Emmu Smith: „Ég er sáttur við hlutskipti mitt, því ég veit að ég er réttlættur og hef gert mitt allra besta. Færðu börnunum og öllum vinum mínum ástarkveðjur frá mér … ; og hvað landráðið varðar, þá veit ég að ég hef ekkert slíkt framið, og þeir geta ekki sannað neitt þvílíkt á mig, því þarft þú ekki að óttast að neitt því um líkt skaði okkur. Megi Guð blessa ykkur öll. Amen.“8

Áður en Joseph Smith dó veitti hann hinum Tólf alla lykla prestdæmisins og allan kraft, sem Drottinn hafði innsiglað honum.

Wilford Woodruff, fjórði forseti kirkjunnar, sagði: „[Joseph Smith] hafði síðasta vetur lífs síns, í þrjá eða fjóra mánuði, helgað sig því að kenna þeim sem skipuðu Tólfpostulasveitina. Kennslan stóð ekki aðeins yfir í nokkrar klukkustundir, við að veita þeim helgiathafnir fagnaðarerindisins, heldur kenndi hann þeim, og nokkrum öðrum, dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, það sem varðaði ríki Guðs.“9

Um mót Josephs Smith með postulunum í mars 1844 sagði Wilford Woodruff: „Ég minnist síðustu ræðunnar sem [Joseph Smith] flutti okkur áður en hann dó. … Hann stóð í fæturna í um þrjár klukkustundir. Herbergið virtist fyllast eldi, ásjóna hans varð skýr sem sólin, og hann íklæddist krafti Guðs. Hann útskýrði ábyrgð okkar. Hann útskýrði fyllingu þessa undursamlega verks Guðs, og í athugasemdum sínum sagði hann: ,Ég hef fengið innsiglað á höfuð mitt alla lykla, allan kraft, allar reglur lífs og sáluhjálpar, sem Guð hefur veitt nokkrum manni, sem lifað hefur á yfirborði jarðar. Og reglur þessar og prestdæmi þetta og kraftur tilheyra þessari undursamlegu og síðustu ráðstöfun, sem Guð himins hefur ráðgert að verði á þessari jörðu.‘ Hann ávarpaði hina Tólf og sagði: ,Ég hef innsiglað á höfuð ykkar alla lykla, allan kraft og allar reglur sem Drottinn hefur innsiglað á höfuð mitt.‘ Og hann hélt áfram og sagði: ,Ég hef lifað fram til þessa – ég hef verið mitt á meðal þessa fólks og helgað krafta mína hinu undursamlega verki endurlausnar. Ég þrái að lifa það að sjá musteri þetta rísa. En mér mun ekki auðnast að sjá það fullbyggt, en þið munuð gera það.‘ …

Eftir að hann hafði talað svo til okkar, sagði hann: ,Ég segi ykkur, að byrði þessa ríkis hvílir nú á herðum ykkar. Þið verðið að axla þá ábyrgð hér í heimi, en ef ekki, verðið þið fordæmdir.‘ “10

Meðlimir Tólfpostulasveitarinnar skráðu: „Við, hinir [Tólf], … vorum viðstaddir á ráðstefnu síðari hluta marsmánaðar [1844], sem haldin var í Nauvoo-borg. …

Á þessari ráðstefnu virtist Joseph Smith nokkuð þungbúinn, og nýtti tilefnið til að ljúka upp hjarta sínu fyrir okkur … : ,Bræður, Drottinn býður mér að flýta því verki sem við höfum tekið að okkur. … Eitthvað mikilvægt er fyrir höndum. Svo kann að vera að óvinir mínir ráði mig af dögum. En takist þeim það, og verði lyklarnir og krafturinn sem ég hef hlotið ekki veitt ykkur, mun það glatast af jörðinni. En gefist mér aðeins kostur á að innsigla það á höfuð ykkar, skal ég falla fyrir hendi morðingja, ef Guð leyfir það, en þá get ég farið héðan ánægður og glaður yfir því að hafa lokið verki mínu og lagt þann grunn sem ríki Guðs mun á hvíla í þessari ráðstöfun í fyllingu tímanna.

Sú ábyrgð, að leiða kirkjuna, verður upp frá þessu að hvíla á herðum hinna Tólf, þar til þið tilnefnið aðra sem taka við af ykkur. Óvinir ykkar megna ekki að deyða ykkur alla í einu, en verði einhver ykkar deyddur, getið þið lagt hendur yfir aðra til að sveitin sé fullskipuð. Á þann hátt getur þessi kraftur og þessir lyklar verið varanlega á jörðu.‘ …

Við munum aldrei gleyma líðan hans og orðum við þetta tilefni. Eftir að hann hafði mælt svo, hélt hann áfram að ganga um gólf og segja: ,Þar sem ég hef velt byrðinni af mínum herðum, finnst mér ég léttur sem fis. Mér finnst ég frjáls. Ég þakka Guði mínum fyrir þessa lausn.‘ “11

Parley P. Pratt, í Tólfpostulasveitinni, ritaði: „Þessum mikla og góða manni var blásið í brjóst fyrir dauða sinn að kalla saman hina Tólf, endrum og eins, til að fræða þá um allt það sem varðaði ríkið, helgiathafnirnar og stjórnsýslu Guðs. Hann sagði oft að hann væri að leggja grunninn, en hinum Tólf yrði falið að ljúka uppbyggingunni. Hann sagði: ,Ég veit ekki hvers vegna, en af einhverjum ástæðum er ég knúinn til að flýta fræðslu minni og veita hinum Tólf allar vígslur, lykla, gjafir og innsiglunar-helgiathafnir prestdæmisins, og greina þeim frá fyrirmynd alls er varðar helgidóminn [musterið] og gjöfina sem honum tengist.‘

Þegar hann hafði gert þetta, fagnaði hann innilega, og hann sagði Drottin vera í þann mund að leggja byrðina á herðar okkar og leyfa sér að hvílast um hríð. Og ef þeir deyddu sig, hélt hann áfram, mun ríki Guðs halda áfram að stækka, því ég hef nú lokið því verki sem mér var falið, með því að veita ykkur allt nauðsynlegt til að byggja upp ríkið, í samræmi við hina himnesku vitrun, og þá fyrirmynd er mér var sýnd frá himnum.“12

Brigham Young, annar forseti kirkjunnar, sagði: „Joseph innsiglaði á höfuð okkar alla lykla og allan kraft sem heyrði undir postuladóminn, sem hann sjálfur hafði áður en hann var tekinn burtu, og enginn maður eða menn geta komist upp á milli Josephs og hinna Tólf í þessum heimi eða komandi heimi. Hve oft sagði Joseph við hina Tólf: ,Ég hef lagt grunninn og þið verðið að byggja þar ofan á, því ríkið hvílir á herðum ykkar.‘ “13

Spámaðurinn Joseph Smith og Hyrum, bróðir hans, voru miklir í lífi og dauða sökum vitnisburðar þeirra um fagnaðarerindið.

Líkt og fram kemur í Kenningu og sáttmálum 135:1–6, ritaði John Taylor eftirfarandi er hann þjónaði í Tólfpostulasveitinni: „Til innsiglunar á vitnisburði þessarar bókar og Mormónsbókar, tilkynnum við fórnardauða spámannsins Josephs Smith og patríarkans Hyrums Smith. Þeir voru skotnir í Carthage fangelsinu, 27. júní 1844, um kl. fimm e.h., af vopnuðum múg – svartmáluðum – um 150 til 200 manns. Hyrum varð fyrst fyrir skoti og hné rólega niður, um leið og hann sagði: Ég dey! Joseph stökk út um gluggann og var skotinn til bana við þá tilraun, um leið og hann hrópaði: Ó, Drottinn Guð minn! Á þá báða var grimmilega skotið, eftir að þeir voru dánir, og hlutu báðir fjögur skotsár.

John Taylor og Willard Richards, tveir hinna tólf, voru þeir einu sem voru í herberginu á þeim tíma. Hinn fyrrnefndi var særður á villimannlegan hátt með fjórum skotum, en hefur nú náð sér. Hinn síðarnefndi komst undan með Guðs hjálp, án þess að skotin snertu svo mikið sem klæði hans.

Joseph Smith, spámaður og sjáandi Drottins, hefur, að Jesú einum undanskildum, gjört meira manninum til sáluhjálpar í þessum heimi en nokkur annar, sem lifað hefur í honum. Á aðeins tuttugu ára tímabili hefur hann leitt fram Mormónsbók, sem hann þýddi með gjöf og krafti Guðs, og hefur staðið að útgáfu hennar í tveimur heimsálfum. Hann hefur sent fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis, sem hún geymir, til allra hinna fjögurra heimshluta og hefur leitt fram opinberanir og boð, sem mynda þessa bók, Kenningu og sáttmála, og mörg önnur lærdómsrík skjöl og leiðbeiningar, mannanna börnum til heilla. Hann hefur safnað saman mörgum þúsundum Síðari daga heilagra, grundvallað mikla borg og skilið eftir sig frægð og nafn, sem ekki verður þurrkað út. Hann var mikill í lífinu og mikill í dauðanum í augum Guðs og fólks hans, og líkt og flestir hinna Drottins smurðu til forna, hefur hann innsiglað ætlunarverk sitt og starf með blóði sínu, og svo hefur einnig bróðir hans Hyrum gjört. Í lífinu voru þeir ekki aðskildir, og í dauðanum urðu þeir ekki skildir að!

Þegar Joseph fór til Carthage til að gefa sig fram vegna meintrar kröfu laganna, tveimur eða þremur dögum áður en hann var myrtur, sagði hann: „Ég fer líkt og lamb til slátrunar, en ég er hægur sem sumarmorgunn. Samviska mín er hrein gagnvart Guði og gagnvart öllum mönnum. Ég mun deyja saklaus, og um mig verður sagt – hann var myrtur með köldu blóði.“ – Sama morgun, eftir að Hyrum hafði gjört allt til reiðu til fararinnar – ætti að segja til slátrunarinnar? Já, því að svo var það – las hann eftirfarandi málsgrein við lok tólfta kapítula Eters í Mormónsbók og braut þar blaðið:

Og svo bar við, að ég bað Drottin um að gefa Þjóðunum náð, svo að þær fengju öðlast kærleika. Og svo bar við, að Drottinn mælti við mig: Skorti þær kærleik, skiptir það þig engu, þú hefur verið trúr, þess vegna verða klæði þín hreinsuð. Og vegna þess að þú hefur komið auga á veikleika þinn, skalt þú styrkur gjörður, já, til að setjast niður á þeim stað, sem ég hef fyrirbúið í híbýlum föður míns. Og nú, … kveð ég Þjóðirnar, já, og einnig bræður mína, sem ég elska, þar til við munum hittast fyrir dómstóli Krists, þar sem allir menn skulu vita, að klæði mín eru óflekkuð af blóði yðar. [Ether 12:36–38.] Arfleiðendurnir eru nú dánir, og erfðaskrá þeirra er í gildi.

Hyrum Smith varð fjörutíu og fjögurra ára í febrúar og Joseph Smith varð þrjátíu og átta ára í desember, og héðan í frá munu nöfn þeirra talin með píslarvottum trúarinnar, og lesendur meðal allra þjóða munu minntir á, að það kostaði besta blóð nítjándu aldarinnar að leiða fram Mormónsbók og þessa bók, Kenningu og sáttmála kirkjunnar, til sáluhjálpar rotinni veröld. Og ef eldurinn fær skaðað hið græna tré Guði til dýrðar, hversu auðveldlega mun hann þá ekki brenna upp hin þurru tré til að hreinsa víngarðinn af spillingu. Þeir lifðu fyrir dýrðina og þeir dóu fyrir dýrðina, og dýrð verður eilíf laun þeirra. Mann fram af manni munu nöfn þeirra lifa meðal komandi kynslóða, sem gimsteinar hinum helguðu.“14

Joseph Smith uppfyllti jarðneskt hlutverk sitt og innsiglaði vitnisburð sinn með blóði sínu.

Brigham Young sagði: „Tókst spámanni okkar ekki að koma öllu því til leiðar sem honum bar, þótt óvinurinn hefði haft mátt til að deyða hann, eða að deyða líkama hans? Honum tókst það, og það veit ég örugglega.“15

Brigham Young kenndi einnig: „Hver bjargaði Joseph Smith úr höndum óvina hans fram að dauðadegi hans? Það var Guð, þótt hans biði ekkert nema dauðinn aftur og aftur og samkvæmt öllum mannlegum skilningi virtist ekki vera hægt að bjarga honum og engar líkur á að það tækist. Þegar hann var í fangelsi í Missouri og enginn bjóst við að hann gæti sloppið úr höndum þeirra, þá hafði ég trú á við Abraham, og ég sagði við bræðurna: „Sem Guð lifir, mun hann sleppa úr höndum þeirra.“ Þótt hann hefði spáð fyrir um að hann næði ekki fjörutíu ára aldri, þá vonuðumst við allir eftir að sá spádómur gengi ekki eftir og við fengjum að hafa hann meðal okkar ævinlega. Við héldum að trú okkar fengi því áorkað, en okkur skjátlaðist – að lokum leið hann píslarvættisdauða vegna trúar sinnar. Ég sagði: „Það er allt í lagi, nú er vitnisburður hans í fullu gildi, hann hefur innsiglað hann með blóði sínu.”16

Wilford Woodruff vitnaði: „Mér þótti dauði hans tilfinningalega erfiður og hvernig hann bar að. Mér fannst sem … Joseph hefði leitt okkur til Klettafjallanna, ef hann hefði fengið að ráða. En síðan hef ég til fulls sætt mig við þá staðreynd, að þetta var í samræmi við áætlunina, að þetta var af honum krafist, sem höfuðs þessarar ráðstöfunar, að hann innsiglaði vitnisburð sinn með blóði sínu, og færi í andaheiminn, með lykla þessarar ráðstöfunar, til að ýta trúboðinu úr vör, sem nú á sér stað, svo fagnaðarerindið verði prédikað fyrir ,öndunum í varðhaldinu.‘ “17

Joseph F. Smith, sjötti forseti kirkjunnar, kenndi: „Hvaða lærdóm getum við dregið af píslarvætti [Josephs og Hyrums Smith]? Hin mikla lexía er sú, að ,arfleiðsluskrá tekur ekki gildi fyrr en sá er dáinn, er hana gjörði‘ (Hebr 9:16). Og þar að auki er blóð píslarvottanna sáðkorn kirkjunnar. Drottinn leyfir slíkar fórnir svo að vitnisburður þessara dyggðugu og réttlátu manna standi sem vitni gegn siðspilltum og óréttlátum heimi. Þeir voru einnig dæmi um þá dásamlegu elsku sem endurlausnarinn minntist á: ,Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.‘ (Jóh 15:13.) þá dásamlegu elsku staðfestu þeir fyrir hinum heilögu og heiminum, því báðum var þeim ljóst og greindu frá þeirri sannfæringu sinni, áður en ferð þeirra hófst til Carthage, að þeir færu til að mæta dauða sínum. … Hugdirfska þeirra, trú og elska til fólksins, var takmarkalaus, og þeir gáfu allt sem þeir áttu í þágu fólksins. Slík hollusta og elska rúmaði engan efa í huga þeirra sem nutu samfélags heilags anda, um að menn þessir væru góðir og sannir, já, vissulega réttmætir þjónar Drottins.

Píslarvætti þetta hefur ætíð orðið fólki Drottins til innblásturs. Það hefur hjálpað því í eigin erfiðleikum, veitt því hugrekki til að framfylgja málstað réttlætis og þekkja og tileinka sér sannleikann, og hinir Síðari daga heilögu verða ætíð að varðveita það í huga sínum sem helga minningu, því þeir hafa lært hinn undursamlega sannleika sem Guð hefur opinberað með þjóni sínum, Joseph Smith.“18

George Albert Smith, áttundi forseti kirkjunnar, sagði: „Joseph Smith uppfyllti hlutverk sitt, og þegar að því kom að hann stæði frammi fyrir eigin dauða, sagði hann: ,Ég fer líkt og lamb til slátrunar, en ég er hægur sem sumarmorgunn. Samviska mín er hrein gagnvart Guði og gagnvart öllum mönnum. Ég mun deyja saklaus, og um mig verður sagt: „Hann var myrtur með köldu blóði.“ ‘ [Sjá K&S 135:4.] Hann óttaðist ekki að standa frammi fyrir dómgrindum föður okkar á himnum og svara fyrir verk sín í holdinu. Hann óttaðist ekki að standa frammi fyrir þeim ásökunum sem á hann voru bornar, um að hann hefði svikið fólkið og komið óréttmætt fram við það. Hann óttaðist ekki um ávexti lífsþjónustu sinnar og um framgöngu verksins, sem hann vissi að var af guðlegum toga, og sem hann gaf líf sitt fyrir.“19

Gordon B. Hinckley, fimmtándi forseti kirkjunnar, vitnaði: „[Joseph Smith] hafði svo mikla trú á því verki sem hann var í forystu fyrir, svo mikla trú á guðlegri köllun sinni, að hann setti það ofar eigin lífi. Hann vissi að dauðinn biði hans, en gaf sig samt fram við þá sem færðu hann berskjaldaðan í hendur múgsins. Hann innsiglaði vitnisburð sinn með blóði lífs síns.“20

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Nokkru áður en Joseph og Hyrum Smith voru deyddir söng öldungur John Taylor sálminn: „Sorgmæddi förumaðurinn“ (bls. 526). Lesið texta þessa sálms (Sálmar, nr. 12), og hugleiðið hvernig hann á við um líf spámannsins Josephs Smith. Hvers vegna var þessi sálmur við hæfi við þessar aðstæður?

  • Lesið orðin sem bera vitni um að Joseph Smith hafi veitt postulunum tólf lykla prestdæmisins (bls. 538–31). Hvers vegna teljið þið að postulunum hafi fundist mikilvægt að vitna um reynslu þessa? Hver er vitnisburður ykkar um arftöku í forsætisráði kirkjunnar?

  • Lesið frásögn Johns Taylor um píslarvætti Josephs og Hyrums Smith (bls. 531–32). Hvernig útskýrið þið fullyrðinguna um að Joseph Smith „[hafi], að Jesú einum undanskildum, gjört meira manninum til sáluhjálpar í þessum heimi en nokkur annar, sem lifað hefur í honum?“ Áður en Hyrum fór í Carthage-fangelsið las hann Eter 12:36–38 og braut þar blaðið. Á hvaða hátt áttu þessi ritningarvers við um Joseph og Hyrum? Hvað finnst ykkur um fórn Josephs og Hyrums Smith í þágu vitnisburðar síns um Jesú Krist?

  • Lesið vitnisburði Síðari daga spámanna á síðum 533–35. Hvaða orðum þakklætis og vitnisburðar getið þið bætt þar við?

Ritningargreinar tengdar efninu: Hebr 9:16–17; K&S 5:21–22; 98:13–14; 112:30–33; 136:37–40

Heimildir

  1. Tilvitnun í yfirlýsingu postulanna tólf (ódagsett uppkast), greinargerð um fund í mars 1844; í skjölum Brighams Young, 1832–78, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. „Sorgmæddi förumaðurinn,“ Sálmar, nr. 12.

  3. John Taylor, tilvitnun í History of the Church, 7:101; úr John Taylor, “The Martyrdom of Joseph Smith,” í Historian’s Office, History of the Church, um 1840–1880, bls. 47, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. History of the Church, 5:139–40; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 31. ágúst 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  5. History of the Church, 6:58; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 15. okt. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards; sjá einnig viðauka bls. 562, atriði 3.

  6. History of the Church, 6:365; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  7. History of the Church, 6:500; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 18. júní 1844, í Nauvoo, Illinois. Sögusafnið History of the Church inniheldur munnlegar frásagnir nokkurra sjónarvotta, sem teknar eru saman í eitt.

  8. Bréf frá Joseph Smith til Emmu Smith, 27. júní 1844, Carthagefangelsið, Carthage, Illinois; Skjalasafn Community of Christ, Independence, Missouri; afrit í Skjalasafni kirkjunnar.

  9. Wilford Woodruff, Deseret News: Semi-Weekly, 21. des. 1869, bls. 2.

  10. Wilford Woodruff, Deseret Semi-Weekly News, 15. mars 1892, bls. 2; stafsetning færð í nútímahorf.

  11. Yfirlýsing postulanna tólf (ódagsett uppkast), greinargerð um fund í mars 1844; í skjölum Brighams Young, 1832–78, Skjalasafn kirkjunnar.

  12. Parley P. Pratt, “Proclamation to The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints,“ Millennial Star, mars 1845, bls. 151.

  13. Brigham Young, tilvitnun í History of the Church, 7:230; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Brigham Young hélt 7. ágúst 1844, í Nauvoo, Illinois.

  14. Kenning og sáttmálar 135:1–6.

  15. Brigham Young, Deseret News, 30. apríl 1853, bls. 46; skáletur tekið burt.

  16. Brigham Young, fyrirlestur haldinn 1. ágúst 1852, í Salt Lake City, Utah; í Historian’s Office, Reports of Speeches ca. 1845–85, Skjalasafn kirkjunnar.

  17. Wilford Woodruff, Deseret News, 28. mars 1883, bls. 146.

  18. Joseph F. Smith, “The Martyrdom,“ Juvenile Instructor, júní 1916, bls. 381; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  19. George Albert Smith, í Conference Report, apríl 1904, bls. 64; stafsetning færð í nútímahorf.

  20. Gordon B. Hinckley, í Conference Report, okt. 1981, bls. 6–7; eða Ensign, nóv. 1981, bls. 7.

Ljósmynd
mob at Carthage Jail

Síðdegis 27. júní 1844 kom múgur stormandi inn í Carthage-fangelsið, Illinois, og myrti spámanninn Joseph Smith og Hyrum Smith.

Ljósmynd
Joseph teaching

Wilford Woodruff sagði að spámaðurinn Joseph Smith hefði „síðasta vetur lífs síns, í þrjá eða fjóra mánuði, helgað sig því að kenna þeim sem skipuðu Tólfpostulasveitina. … [Það gerði hann] dag eftir dag, viku eftir viku, og mánuð eftir mánuð.“

Ljósmynd
Brigham Young

Brigham Young

Ljósmynd
George Albert Smith

George Albert Smith