Kenningar forseta
15. Kafli: Efla málstað Síonar


15. Kafli

Efla málstað Síonar

„Fólk Guðs hefur á öllum öldum haft hug á þeim málstað að byggja upp Síon. Á þeim málstað hafa spámenn, prestar og konungar haft sérstakt dálæti.“

Úr lífi Josephs Smith

Snemma í júní 1831, aðeins nokkrum vikum eftir að samansöfnuninni frá New York til Ohio var lokið, komu hinir heilögu saman í Kirtland til ráðstefnu kirkjunnar. Hinn 7. júní, daginn eftir að ráðstefnunni lauk, hlaut Joseph Smith opinberun, sem beindi huga meðlima kirkjunnar að Síon: „[Næsta ráðstefna] … skal [haldin] í Missouri, á landi því sem ég mun helga fólki mínu“ (K&S 52:2).

Hinir heilögu voru ákaflega áhugasamir um að stofna Síon – helga borg, friðsælan griðarstað fyrir hina réttlátu til að flýja ranglæti heimsins. Drottinn hvatti hina heilögu endurtekið til að vera viðbúna, og sagði „leitist við að tryggja og efla málstað Síonar“ (K&S 6:6; 11:6; 12:6; sjá einnig 14:6). Kirkjuleiðtogar héldu þegar af stað til að kanna staðsetningu Síonar. Hinn 9. júní hófu Joseph Smith, Sidney Rigdon og fleiri um 1.400 kílómetra langa ferð til Jackson-sýslu, Missouri, og ferðuðust á vatni, hestvagni, og marga kílómetra fótgangandi. Ferðin var ströng og erfið, en spámaðurinn skynjaði verndarhendi Drottins: „Þrátt fyrir spillinguna og viðurstyggðina sem uppi var á þessum tímum, og þótt hinn illi andi stæði oft og meðal margra gegn okkur vegna trúar okkar á Mormónsbók, verndaði Drottinn okkur dag hvern og annaðist stöðugt með ást sinni og gæsku. Og við settum sem reglu, hvenær sem kostur gafst, að lesa kapítula í Biblíunni og biðjast fyrir, og sú tilbeiðslustund veitti okkur mikla hughreystingu.“1

Um miðjan júlí kom spámaðurinn að víðáttumiklu og fögru landsvæði í vesturhluta Missouri, sem var flatt, gróskumikið og þakið blómum. Þar, sem svar við fyrirbæn hans um að vita nákvæma staðsetningu Síonar, opinberaði Drottinn: „Sá staður, sem nú kallast Independence, er miðpunkturinn, og spildan undir musterið liggur í vestur, á lóð sem ekki er fjarri dómhúsinu“ (K&S 57:3), og að kaupa skyldi landsvæðið. Hinn 2. ágúst komu Joseph Smith og fleiri saman til að hefja byggingu Síonar. Spámaðurinn skráði: „Ég aðstoðaði Colesville-grein kirkjunnar við að leggja fyrsta trjábolinn að húsi, og hefja þannig byggingu Síonar í bæjarumdæminu Kaw, 19 kílómetrum vestur af Independence. Tólf menn héldu á trjábolnum og komu honum fyrir, til heiðurs hinum tólf ættkvíslum Ísraels. Á sama tíma var land Síonar helgað með bæn og vígt af öldungi Sidney Rigdon til samansöfnunar hinna heilögu. Þetta var gleðistund fyrir þá sem viðstaddir voru og veitti leiftursýn til framtíðar, sem tíminn einn myndi leiða í ljós, hinum trúföstu til ánægju.“2 Daginn eftir vígði spámaðurinn musterislóðina.

Hinir heilögu frá Colesville, New York, voru meðal fyrstu meðlimanna til að setjast að í Missouri. Þeir höfðu farið í hina erfiðu för frá New York til Kirtland, Ohio, en dvalið aðeins stutta stunda í Ohio áður en þeir fengu fyrirmæli um að fara til Missouri. Polly Knight, sem var í Colesville-greininni, fór til Síonarlands, en lést þar viku síðar. Þó að heilsu hennar hafi hrakað, var hún ákveðin í að halda áfram. Sonur hennar skrifaði: „Hún fékk vægt andlát og fagnaði í hinum nýja og ævarandi sáttmála fagnaðarerindisins og lofaði Guð fyrir að hafa lifað það að sjá land Síonar. … Bróðir Joseph Smith var við útför móður minnar og talaði til okkar af mikilli hughreystingu.“3 Þótt spámaðurinn hafi snúið aftur til Kirtland og haldið þar áfram að leiða kirkjuna þaðan til 1838, fluttu margir hinna heilögu til Missouri.

Hinir heilögu unnu af kostgæfni við að byggja upp Síon, en í lok árs 1833 voru þeir hraktir frá heimilum sínum í Jackson-sýslu vegna mikilla ofsókna, og þurftu þar með að láta af þeim draumum sínum að stofna Síon og reisa þar musteri. Drottinn opinberaði með spámanninum Joseph Smith að aðstæður fyrir lausn Síonar á því landi væru enn ekki uppfylltar, og að stofnun Síonar yrði að „bíða um stund“ (K&S 105:9).

Kenningar Josephs Smith

Drottinn tilnefndi Jackson-sýslu, Missouri, sem land Síonar – stað fyrir samansöfnun hinna heilögu á tímum Josephs Smith, stað þar sem hin helga borg Síon yrði síðar byggð.

„Í júní [1831] hlaut ég fyrirmæli í himneskri sýn um að halda ferð minni áfram að vestur landamærum Missouri-fylkis og tilnefna þar nákvæmlega spildu, sem átti að verða miðpunktur samansöfnunar þeirra sem taka á móti fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis. Samkvæmt þessu hóf ég ferðina með ákveðnum bræðrum. Við þjáðumst af margs konar skorti og erfiði á þessari löngu og þreytandi ferð, en komum loks til Jackson-sýslu, Missouri. Þegar við höfðum skoðað sveitina og leitað Guðs af kostgæfni, staðfesti hann vilja sinn og tilnefndi mér og hinum staðinn þar sem verk samansöfnunar átti að hefjast og bygging hinnar ,helgu borgar‘ sem nefnast skyldi Síon – Síon, vegna þess að hún er staður réttlátra og öllum sem þar byggja ber að tilbiðja hinn sanna og lifandi Guð og hafa trú á sömu kenningunni, sjálfri kenningu Drottins, frelsara okkar Jesú Krists. ,Varðmenn þínir hefja upp raustina allir í einu, þeir æpa fagnaðaróp, því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar‘ [Jes 52:8].“4

Snemma á fjórða áratugnum reyndu hinir heilögu að leggja grunn að Síon í Jackson-sýslu, Missouri, líkt og Guð hafði fyrirboðið, en voru ófærir um það vegna þess að þeir voru ekki undir það búnir andlega. Spámaðurinn Joseph Smith sagði eftirfarandi um þann tíma er Síon skyldi stofnuð: „Ég hef ekki orðið var við það af samskiptum andans við mig, að Síon hafi misst tilkall sitt til himneskrar kórónu, þótt Drottinn hafi leyft að hún þoli slíkt harðræði, nema þá hugsanlega einhverjir einstaklingar, sem hafa verið óhlýðnir og rofið hinn nýja sáttmála. Öll verk þeirra munu leidd í ljós á tilsettum tíma. Ég hef alltaf búist við því, af þeim fyrirmælum sem gefin hafa verið, að Síon ætti eftir að þola einhverja erfiðleika, en ég minni ykkur á áreiðanlegt ákvæði opinberunar sem segir: Eftir mikið mótlæti kemur blessunin [sjá K&S 58:4]. Samkvæmt henni, og fleiri, og enn einni sem ég hlaut fyrir stuttu, veit ég að Síon verður endurleyst þegar Drottni þóknast. En Drottinn hefur ekki opinberað mér hve lengi Síon mun þurfa að þola hreinsun, mótlæti og þrengingar, og þegar ég spyrst fyrir um þetta málefni segir rödd Drottins: Haldið ró yðar og vitið að ég er Guð! Hver sá er þjáist vegna nafns míns, mun ríkja með mér, og sá sem fórnar lífi sínu mín vegna, mun finna það aftur. … Megi Guð gefa, að þrátt fyrir miklar þjáningar og þrengingar [okkar], verði ekkert sem aðskilur okkur frá kærleika Krists [sjá Róm 8:35–39].“5

Við byggjum upp málstað Síonar með því að verða hrein í hjarta og starfa af kostgæfni, sameinuð í hjarta og huga.

„Uppbygging Síonar er málstaður sem fólk Guðs hefur á öllum öldum haft áhuga á; það er þema sem spámenn, prestar og konungar hafa haft sérstakt dálæti á; þeir hafa horft með gleði og eftirvæntingu fram til okkar tíma; og með himneskri tilhlökkun hafa þeir sungið, ritað og spáð um þennann tíma okkar; en þeir dóu án þess að líta hann augum. Við erum útvalið fólk Guðs til að leiða fram dýrð síðari daga, okkur er ætlað að líta þá augum og taka þátt í að efla dýrð þeirra.”6

„Síon er hver sá staður sem hinir heilögu safnast saman á, sem sérhver réttlátur maður mun byggja upp, börnum sínum til skjóls.“7

„Stikur [Síonar] verða á ýmsum stöðum, til samansöfnunar hinna heilögu. … Þar munu börn ykkar verða blessuð og þið meðal vina ykkar. Netmöskvar fagnaðarerindisins safna alls konar fólki.

… Við ættum að gera uppbyggingu Síonar að okkar megin viðfangsefni. … Sá tími rennur brátt upp, að enginn maður mun njóta friðar nema innan Síonar og stikna hennar.“8

„„Uppbygging Síonar verður að eiga sér stað undir leiðsögn Jehóva, með opnberun himins.“9

„Ef Síon hreinsar sig ekki, svo hún verði í öllu þóknanleg frammi fyrir ásjónu hans, mun hann finna annað fólk, því verk hans mun halda áfram þar til samansöfnun Ísraels er lokið, og þeir sem ekki hlíta rödd hans munu vænta reiði hans. Leyfið mér að hvetja ykkur til að hreinsa ykkur sjálf, og einnig alla íbúa Síonar, svo reiði Drottins tendrist ekki gegn ykkur. Iðrist, iðrist, er rödd Drottins til Síonar, og hversu einkennilegt sem það kann að vera, er það samt satt, að mannkynið mun halda fast í eigin sjálfsréttlætingu, þar til allt ranglæti þess verður sýnilegt og þar til endurlausn nær ekki til þess, og það sem býr í hjarta þess blasir við öllum. Ég segi ykkur (og það sem ég segi einum, segi ég öllum), hlýðið á aðvörunarödd Guðs, svo Síon falli ekki og Drottinn sverji í heilagri reiði að íbúar Síonar muni ekki ganga inn til hvíldar hans.“10

Svo lengi sem óréttlát verk eru látin viðgangast í kirkjunni, fær hún hvorki helgast, né getur Síon verið endurleyst.“11

„Hver og einn vinni að því að búa sig undir víngarðinn, gefi sér tíma til að hugga syrgjendur, græða sundurkramin hjörtu, endurheimta þá sem villst hafa af leið, ná til hinna efasömu, bjóða að nýju inn í ríkið þeim sem útilokaðir hafa verið og hvetja þá til að vinna í réttlæti meðan dagur varir, sameinaðir í hjarta og huga, búa sig undir að hjálpa til við endurlausn Síonar, þessa guðlega fyrirheitna lands, þar sem hinir fúsu og hlýðnu munu blessun hljóta. …

[Við] biðjum okkar himneska föður, að þið verðið bænheit, afar auðmjúk og einkar kærleiksrík, að þið vinnið af kostgæfni, andlega og stundlega, að endurlausn Síonar; að þeir sem hjartahreinir eru muni snúa aftur, syngjandi söngva ævarandi gleði, til að byggja upp eyðistaði Síonar og taka á móti Drottni þegar hann kemur í dýrð [sjá K&S 101:18].“12

Síon, hin Nýja Jerúsalem, verður reist á meginlandi Ameríku.

Trúaratriðin 1:10: „Vér höfum trú á hinni raunverulegu samansöfnun Ísraels og endurreisn hinna tíu kynkvísla; að Síon (Nýja Jerúsalem) verði reist á meginlandi Ameríku.“13

„Borg Síonar, sem Davíð gat um í eitt hundraðasta og öðrum sálmi sínum, verður reist í landi Ameríku. ,Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeirra‘ [Jes 35:10]; og þá munu þeir leystir undan hinni dynjandi svipu sem ríða skal yfir landið. En Júda mun endurleystur í Jerúsalem. [Sjá Jóel 2:32; Jes 26:20–21; Jer 31:12; Sálm 1:5; Esek 34:11–13.] Þetta eru vitnisburðir um að hinn góði hirðir muni leiða fram sína eigin sauði frá öllum þjóðum, þaðan sem þeim var dreift á myrkvum og drungalegum degi, og leiða þá til Síonar og til Jerúsalem.“14

„Ég vitna fyrst í spádóm Enoks, þar sem hann talar um hina síðustu daga: ,Og réttlæti mun ég senda niður af himni, og sannleika mun ég senda frá jörðu, til að bera vitni um minn eingetna, upprisu hans frá dauðum, [sú upprisa skil ég að er hinn efnislegi líkami], já, og einnig upprisu allra manna. Og réttlæti og sannleika mun ég láta sópa jörðina sem vatnsflóð, til að safna mínum kjörnu saman frá öllum heimshornunum fjórum, til staðar, sem ég mun fyrirbúa, helgrar borgar, svo að fólk mitt megi girða lendar sínar og líta fram til komu minnar. Því að þar mun tjaldbúð mín standa, og hún skal nefnd Síon, Nýja Jerúsalem‘ [HDP Móse 7:62].

Af þessari tilvitnun skilst mér að … réttlæti og sannleikur muni sópa jörðina líkt og vatnsflóð. Og nú spyr ég hvernig réttlæti og sannleikur muni sópa jörðina líkt og vatnsflóð? Ég mun svara því. Menn og englar munu vinna saman að þessu stórkostlega verki og Síon skal vera viðbúin, já, Nýja Jerúsalem, því hinum kjörnu er ætlað að safnast saman frá fjórum heimshornum jarðarinnar og stofna helga borg, því tjaldbúð Drottins verður með þeim. …

… ‚Og sjá ég mun festa þessa þjóð í sessi í þessu landi til uppfyllingar sáttmálanum, sem ég gjörði við föður yðar Jakob. Og það skal vera ný Jerúsalem.‘ [3 Ne 20:22.] Í Mormónsbók lærum við nákvæmlega á hvaða landi og spildu Nýja Jerúsalem skal byggð, og hún verður tekin upp, samkvæmt sýn Jóhannesar á eyjunni Patmos.

Margir vilja halda því fram, að þessi Nýja Jerúsalem sem um er rætt, sé Jerúsalem sem reist var af Gyðingum í Austurálfu. En af Opinberunarbók Jóhannesar 21:2 sjáum við að hin Nýja Jerúsalem kom niður frá Guði, af himnum, prúðbúin sem brúður fyrir eiginmann sinn. Þar næst var Opinberarinn tekinn burt í andanum, upp á mikið og hátt fjall, þar sem hann leit hina undursamlegu og helgu borg koma af himnum frá Guði. Hér er talað um tvær borgir. Þar sem ekki er mögulegt að koma öllu að um þetta efni í bréfi, mun ég í stuttu máli segja, að stofna á Nýja Jerúsalem í þessari heimsálfu og Jerúsalem verður einnig endurbyggð í Austurálfu [sjá Et 13:1–12]. ,Sjá. Eter sá daga Krists og hann talaði um Nýja Jerúsalem í þessu landi. Og hann talaði einnig um Ísraelsætt og um Jerúsalem, sem Lehí kæmi frá – Að eftir að henni hefði verið tortímt, skyldi hún reist á ný, heilög borg Drottni, þess vegna yrði hún ekki ný Jerúsalem, því að hún hefði verið til forna, en hún skyldi reist aftur og verða Drottni heilög borg, og hún yrði reist fyrir Ísraelsætt.‘ [Et 13:4–5]“15

„Spámennirnir hafa sagt um Síon á síðari dögum: Prýði Líbanons mun til hennar koma; kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður, hver með öðrum til þess að prýða helgan stað hennar og gjöra vegsamlegan stað fóta hennar [sjá Jes 60:13]. Hann mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts [sjá Jes 60:13]. Hann mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts [sjá Jes 60:17]; þar sem veisla með mergjuðum krásum mun veitast hinum réttlátu [sjá Jes 25:6]. Já, þegar ljómi Drottins er okkur færður til íhugunar, fólki hans til góðs, munu áætlanir manna og hégómleg dýrð heimsins hverfa, og við hrópum: ,Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.‘ [Sálm 50:2.]“16

Ábendingar um nám og kennslu.

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Veitið athygli í kafla þessum hvernig spámaðurinn notar hugtakið Síon til að vísa til ákveðinna staða og fólks Drottins. Hvernig hjálpar þessi notkun hugtaksins ykkur að skilja merkingu þess að byggja upp Síon? (Lesið Kenningu og sáttmála 97:21, er þið íhugið og ræðið þessa spurningu.)

  • Í málsgreininni sem hefst neðst á bls. 182, greinir Joseph Smith frá þeirri þrá sinni að vita hvenær borg Síonar verði stofnuð í Jackson-sýslu, Missouri. Hvað getum við lært af svari Drottins við bæn Josephs Smith?

  • Lesið alla aðra málsgreinina á bls. 183 og tilgreinið síðan nokkra þeirra staða sem hinir heilögu söfnuðust á. Hvernig getum við byggt upp Síon á þessum stöðum?

  • Lesið alla þriðju og fjórðu málsgreinina á bls. 183 og íhugið hvernig stikur í kirkjunni veita öryggi og frið. Á hvaða hátt hafið þið verið blessuð er þið safnist saman með öðrum meðlimum í stikunni ykkar?

  • Á hvaða hátt getum við nýtt okkur leiðsögn Josephs Smith um að byggja upp Síon á heimilum okkar?

  • Spámaðurinn Joseph kenndi, að hluti þess að byggja upp Síon sé að sérhvert okkar hreinsi sig. Á hvaða hátt getum við farið eftir leiðsögn hans? (Sjá dæmi á bls. 183–84.) Hvers vegna teljið þið að menn þurfi að vera hreinir áður en Síon verður endurleyst?

  • Lesið spádóm Josephs Smith um helgu borgirnar tvær (bls. 184–86). Hvaða hlutverki gegnum við í uppfyllingu þessa spádóms?

Ritningargreinar tengdar efninu: Op 21:1–27; K&S 45:65–71; 97:18–25; 103:1–7; HDP Móse 7:16–21, 62–69

Heimildir

  1. History of the Church, 1:188–89; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 126–27, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. History of the Church, 1:196; “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 137, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. Newel Knight, Autobiography and Journal, um 1846, bls. 32, 34, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. History of the Church, 2:254; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, sept. 1835, Kirtland, Ohio, birt í Messenger and Advocate, sept. 1835, bls. 179–80.

  5. History of the Church, 1:453–54; greinarskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith til Edwards Partridge og annarra, 10. des. 1833, Kirtland, Ohio.

  6. History of the Church, 4:609–10; úr “The Temple,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 2. maí 1842; bls. 776; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  7. Vitnað í Martha Jane Knowlton Coray, skráður fyrirlestur sem Joseph Smith hélt í Nauvoo, Illinois; Martha Jane Knowlton Coray, Notebook, Skjalasafn kirkjunnar; fyrirlesturinn er dagsettur 19. júlí 1840, í minnisbók systur Corays, en fyrirlesturinn var líklega haldinn síðar.

  8. History of the Church, 3:390–91; orð í sviga upprunarleg; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt í kringum júlí 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  9. History of the Church, 5:65; úr “The Government of God,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júlí 1842, bls. 858; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  10. History of the Church, 1:316; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til William W. Phelps, 11. jan. 1833, Kirtland, Ohio; bréfið er ranglega dagsett 14. jan. 1833, í History of the Church.

  11. History of the Church, 2:146; úr bréfi frá Joseph Smith til Lymans Wight og fleiri, 16. nóv. 1834, Kirtland, Ohio.

  12. History of the Church, 2:229, neðanmálstexti; stafsetning færð í nútímahorf; greinarskilum bætt við; úr “To the Saints Scattered Abroad,” Messenger and Advocate, 30. júní 1835, bls. 138.

  13. Trúaratriðin 1:10.

  14. History of the Church, 1:315; úr bréfi Josephs Smith til N. C. Saxton, 4. jan. 1833, Kirtland, Ohio; nafn Saxtons er ranglega stafsett sem “N. E. Seaton” í History of the Church.

  15. History of the Church, 2:260–62; stafsetning færð í nútímahorf; fyrstu orðin í fyrstu málsgreininni í sviga upprunaleg; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, nóvember 1835, Kirtland, Ohio, gefið út í Messenger and Advocate, nóv. 1835, bls. 209–10.

  16. History of the Church, 1:198; stafsetning færð í nútímahorf; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 139, Skjalasafn kirkjunnar.

Ljósmynd
map of Zion

Árið 1833 drógu Joseph Smith og Frederick G. Williams upp þetta kort af Síonarborg, sem byggja átti í Jackson-sýslu, Missouri. Almenningssvæði fyrir miðju, umlukt 4 hektara húsaþyrpingu, með hálfrar ekru húsalóðum. Borgin var aldrei reist, en margar megin hugmyndanna úr áætluninni voru notaðar síðar í landnámi hinna Síðari daga heilögu.

Ljósmynd
ward members

„Síon er hver sá staður sem hinir heilögu safnast saman á, sem sérhver réttlátur maður mun byggja upp, börnum sínum til skjóls.“