Kenningar forseta
3. Kafli: Jesús Kristur, hinn guðlegilausnari heimsins


3. Kafli

Jesús Kristur, hinn guðlegi lausnari heimsins

„Sáluhjálp gæti ekki hafa veist heimnum án meðalgöngu Jesú Krists.“

Úr lífi Josephs Smith

Mörgum árum áður en Joseph fæddist sagðist afi hans í föðurætt hafa fengið innblástur um að eitthvað myndi gerast í fjölskyldu hans „sem ætti eftir að umbylta heiminum.“1 Í sögu Josephs Smith segir: „Afi minn, Asael Smith, spáði því fyrir löngu síðan að spámaður ætti eftir að fæðast í fjölskyldu hans og amma mín var fyllilega sátt við að þau orð hans uppfylltust með mér. Asael, afi minn, lést í East Stockholm, í St. Lawrence-sýslu, New York, eftir að hafa fengið Mormónsbók í hendur og næstum lesið hana alla. Hann lýsti því yfir að ég væri sá spámaður sem hann hefði löngu áður vitað að fæðast myndi í fjölskyldu hans.“2

Mikilvægasta hlutverk Josephs Smith sem spámanns endurreisnarinnar, var að vitna um Jesú Krist. Hann naut þeirrar blessunar að búa að persónulegri þekkingu á guðdómleika Jesú Krists og skilningi á hlutverki hans sem frelsara heimsins. Sú þekking hófst með Fyrstu sýninni, þegar hinn ungi Joseph sá himneskan föður og Jesú Krist og heyrði föðurinn segja: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ (Joseph Smith – Saga 1:17). Sú helga reynsla veitti Joseph þau forréttindi að taka á móti leiðsögn frá frelsara heimsins.

Nær tólf árum síðar, hinn 16. febrúar 1832, var spámaðurinn að þýða Biblíuna á heimili Johns Johnson í Hiram, Ohio, með Sidney Rigdon sem ritara. Eftir að spámaðurinn hafði þýtt Jóh 5:29, sem útskýrir upprisu hinna réttlátu og ranglátu, opnaðist Joseph og Sidney sýn, þar sem þeir sáu og ræddu við frelsarann:

„Með krafti andans lukust upp augu okkar og skilningur okkar upplýstist, til að sjá og skilja það sem Guðs er – Jafnvel það, sem var frá upphafi, áður en heimurinn varð til, og faðirinn vígði með eingetnum syni sínum, sem var við brjóst föðurins allt frá upphafi – Um hann berum við vitni, og sá vitnisburður, sem við gefum, er fylling fagnaðarerindis Jesú Krists, sonarins, sem við sáum og ræddum við í hinni himnesku sýn. …

Og við sáum dýrð sonarins, til hægri handar föðurnum, og meðtókum af fyllingu hans – Og sáum heilaga engla og þá, sem helgaðir eru frammi fyrir hásæti hans, tilbiðja Guð og lambið, og þeir tilbiðja hann alltaf og að eilífu.

Og nú, eftir þá mörgu vitnisburði, sem gefnir hafa verið um hann, er þetta vitnisburðurinn, síðastur allra, sem við gefum um hann: Að hann lifir!

Þvi að við sáum hann, já, Guði til hægri handar, og við heyrðum röddina, sem bar vitni um, að hann er hinn eingetni föðurins – Að með honum, fyrir hann, og af honum eru og voru heimarnir skapaðir, og íbúar þeirra eru getnir synir og dætur Guðs“ (K&S 76:12–14, 20–24).

Hinn 3. apríl 1836 sá Joseph Smith frelsarann að nýju. Spámaðurinn og Oliver Cowdery höfðu dregið sig í hlé og voru við vestari prédikunarstól Kirtland-musterisins. þeir krupu í hátíðlegri bæn og að henni lokinni birtist frelsarinn þeim. Spámaðurinn sagði:

„Hulunni var svipt frá hugum okkar og augu skilnings okkar lukust upp. Við sáum Drottin standa á brjósthlíf prédikunarstólsins, frammi fyrir okkur, og undir fótum hans var stétt úr skíru gulli, rauðgullin á lit. Augu hans voru sem eldslogi, hárið á höfði hans var hvítt sem nýfallin mjöll, ljóminn frá svip hans bar af ljóma sólarinnar og rödd hans var sem dynur mikilla vatnsfalla, já, rödd Jehóva, sem sagði: Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti. Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var. Ég er málsvari yðar hjá föðurnum“ (K&S 110:1–4).

Af slíkum atburðum, hlaut spámaðurinn þekkingu frá fyrstu hendi og varð sérstakt vitni um guðdómleika frelsarans.

Kenningar Josephs Smith

Fólk Guðs hefur á öllum ráðstöfunartímum reitt sig á friðþægingu Krists til fyrirgefningar synda sinna.

„Sáluhjálp gæti ekki hafa veist heiminum án meðalgöngu Jesú Krists.“3

„Guð … hafði fórn til reiðu, en það var gjöf hans eigin sonar, sem á tilskildum tíma var sendur til að ryðja veginn eða ljúka upp dyrum svo að menn gætu komist í návist Guðs, en þaðan hafði þeim verið vísað burt vegna óhlýðni. Þau gleðitíðindi hafa gegnum tíðina hljómað í eyrum mannanna á hinum ýmsu tímabilum öldum heims, allt fram að komu Messíasar.

Í trú á friðþæginguna, eða endurlausnaráætlunina, færði Abel Guði þóknanlega fórn, sem var frumburður hjarðar hans. Kain færði fórn af ávexti jarðar, en sú fórn var ekki þóknanleg, því hann gat ekki fært hana í trú. Hann gat enga trú haft eða gat ekki iðkað trú, andstæða við áætlun himins. Blóði hins eingetna verður að úthella til að friðþægja fyrir manninn, því þannig var áætlun endurlausnar, og án úthellingar blóðs væri engin fyrirgefning synda. Og þar sem táknrænni fórn var komið á, svo að menn lærðu um hina miklu fórn sem Guð hafði undirbúið, var ekki mögulegt að iðka trú með því að færa fórn sem var andstæð henni, því endurlausn fékkst ekki á þann hátt, né heldur var kraftur friðþægingarinnar innleiddur eftir þeirri reglu, þar af leiðandi hafði Kain enga trú; og það sem ekki er af trú er synd. En Abel færði þóknanlega fórn og fyrir það hlaut hann vitneskju um að hann væri réttlátur, Guð sjálfur bar vitni um fórn hans [sjá Hebr 11:4].

Vissulega hafði maðurinn ekkert gagn af því að úthella blóði dýrs, nema það væri gert táknrænt, eða til tákns um, eða sem skýringu á því sem fórna átti með gjöf Guðs sjálfs – og þetta skyldi gert með því að horfa fram á við í trú á kraft hinnar miklu fórnar til fyrirgefningar syndanna. …

… Við getum ekki trúað því að hinir fornu á öllum öldum hafi verið svo fáfróðir um hætti himins, líkt og margir telja, þar eð allir sem einhvern tíma hafa frelsast, voru frelsaðir fyrir kraft hinnar miklu endurlausnaráætlunar, jafnt fyrir sem eftir komu Krists. Væri ekki svo, hefði Guð haft uppi ólíkar áætlanir (ef svo mætti að orði komast) til að leiða mennina að nýju til dvalar hjá sér. Við leggjum ekki trúnað á það, þar sem engin breyting hefur átt sér stað á eðli mannsins frá falli hans, og helgiathöfn þessa, eða ráðstöfun um að færa blóðfórnir, átti aðeins að framkvæma þar til Kristur yrði færður sem fórn og úthellti blóði sínu – líkt og áður sagði – svo að maðurinn gæti í trú litið fram til þess tíma. …

Af þessum undursamlegu orðum Jesú til Gyðinganna ályktum við að fórnarathöfninni hafi aðeins verið ætlað að minna á Krist: ‚Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist‘ [Jóh 8:56]. Þannig að þótt hinir fornu hafi fært fórnir kom það ekki í veg fyrir að þeir hlýddu á fagnaðarerindið, heldur þjónaði það þeim tilgangi, eins og áður sagði, að ljúka upp augum þeirra og gera þeim kleift að horfa fram til komu frelsarans og fagna endurlausn hans. … Við ályktum að alltaf þegar Drottinn birtist mönnum til forna og bauð þeim að færa sér fórnir, þá hafi það verið gert til að þeir mættu horfa í trú fram til þess tíma er hann kæmi og reiða sig á kraft friðþægingarinnar til fyrirgefningar synda sinna. Og þetta hafa þeir gjört, þær þúsundir sem verið hafa á undan okkur, hverra klæði eru flekklaus, og sem líkt og Job, bíða í þeirri fullvissu að þeir munu sjá hann á síðari dögum á jörðinni, jafnvel í holdinu [sjá Job 19:25–26].

Við getum dregið þá ályktun að þrátt fyrir mismunandi ráð-stöfunartíma hafi öll samskipti Guðs við fólk hans miðað að því að beina huga þeirra að hinu mikla takmarki og kenna þeim að reiða sig aðeins á Guð, sem er höfundur sáluhjálpar þeirra, líkt og tilgreint er í lögmáli hans.“4

Vegna upprisu Jesú Krists frá dauðum mun allt mannkyn rísa upp.

„Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins, og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það. En í tengslum við þetta trúum við á gjöf heilags anda, kraft trúarinnar, gleðina sem andlegar gjafir samkvæmt vilja Guðs veita, endurreisn húss Ísraels og hinn endanlega sigur sannleikans.“5

„ ,Því að eins og og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist;‘ allir munu rísa upp frá dauðum [1 Kor 15:22]. Guðs lambið gerði upprisunina að veruleika, svo að allir rísi upp frá dauðum.“6

„Guð hefur ákvarðað dag sem hann mun dæma heiminn, og um Þetta fullvissaði hann okkur, Þegar hann reisti son sinn Jesú Krist upp frá dauðum – en á Þvi hvílir von allra Þeirra er leggja trúnað sinn á hinar innblásnu heimildir, Þeim til framtíðar hamingju og gleði, Þvi ,ef Kristur er ekki upprisinn,‘ líkt og Páll sagði við Korintumenn, ,[væri] trú yðar fánýt, [og] þér [væruð] þá enn í syndum yðar, og þá [væru] einnig Þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir‘ [1 Kor 15:17–18]. …

Kristur hefur vissulega sjálfur risið upp frá dauðum; og ef hann hefur risið upp frá dauðum, mun hann, í mætti sínum, sjá til þess að allir menn standi frammi fyrir sér. Því ef hann er risinn upp frá dauðum, hafa viðjar þessa stundlega dauða rofnað, og gröfin hrósar engum sigri. Sé sigur grafarinnar þvi enginn, munu Þeir sem fara að orðum Jesú, og hlíta kenningum hans, ekki aðeins eiga loforð um upprisu frá dauðum, heldur fullvissu um að þeir fái gengið inn í hið dýrðlega ríki hans, þvi hann segir sjálfur: ,Hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera‘ [Jóh.12:26].“7

„Þeir sem dáið hafa í Jesú Kristi geta vænst þess, Þegar Þeir koma fram, að hljóta alla þá fyllingu gleðinnar sem Þeir höfðu eða nutu hér. … Það veitir mér gleði að njóta Þeirra forréttinda að miðla ykkur nokkru sem, sé það skilið nákvæmlega, kemur ykkur að gagni Þegar jarðskjálftar ríða yfir, ský hrannast upp, eldingar leiftra og stormar reiðubúnir að bylja á ykkur, líkt og þrumugnýr. Hlítið þessu og látið hvorki hugfallast, né hjörtu yðar skelfast. Og hverju fá þá jarðskjálftar, styrjaldir eða hvirfilbyljir áorkað? Engu. Allur ykkar missir verður ykkur bættur í upprisunni, ef þið haldið áfram trúföst. Það hef ég séð í sýn hins almáttuga. …

Guð hefur opinberað son sinn frá himnum og kenninguna um upprisuna einnig, og Þvi vitum við að þá sem við höfum greftrað mun Guð reisa upp að nýju, lífga þá við með anda hins mikla Guðs. Og hverju skiptir það þótt við felum þá gröfinni eða verðum grafin hjá þeim, ef við fáum ekki haldið þeim lengur? Látum sannleika þennan festa rætur í hjörtum okkar, svo við fáum jafnvel nú notið þess sem síðar fæst í fyllingu.“8

Við getum orðið samarfar Jesú Krists vegna friðþægingar Krists og hlýðni við fagnaðarerindið.

„Ég trúi á guðdómleika Jesú Krists og að hann hafi dáið fyrir syndir allra manna, sem í Adam höfðu fallið.“9

Trúaratriðin 1:3: „Vér trúum, að fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“10

„Eftir að Guð skapaði himnana og jörðina, kom hann niður, og á sjötta degi mælti hann: ,Við skulum gjöra mann eftir vorri mynd.‘ Í mynd hvers? Í mynd Guðanna sköpuðu þeir þau, karl og konu, saklaus, meinlaus og flekklaus, sem bjuggu að sömu eiginleikum og sömu mynd og Guðirnir [sjá 1 Mós 1:26–27]. Og þegar maðurinn féll, glataði hann ekki mynd sinni, heldur varðveittist persónugerð hans og varð áfram samkvæmt mynd skapara hans. Kristur, sem að formi til er eins og maður, er einnig nákvæm eftirmynd föður síns [sjá Hebr 1:3]. … Fyrir friðþægingu Krists, upprisuna og hlýðni við fagnaðarerindið, munum við að nýju taka á okkur mynd sonar hans, Jesú Krists [sjá Róm. 8:29]; þá munum við öðlast mynd, dýrð og persónugerð Guðs.“11

„Faðir anda okkar sá sköpunarverum sínum fyrir fórn, endurlausnaráætlun, krafti friðþægingar, sáluhjálparáætlun sem hefur þann stórfenglega tilgang að leiða mennina aftur í návists konungs himinsins, krýnda himneskri dýrð, og gjörða að erfingjum með syninum að hinu óforgengilega, óspillta og óafmáanlega.“12

„Ritningin segir að þeir sem hlýði boðorðunum verði erfingjar Guðs og samarfar Jesú Krists. … ,Sjálfur andinn vitnar með anda okkar, að vér erum Guðs börn. En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.‘ [Sjá Róm 8:16–17].“13

„Hve hughreystandi fyrir þá er syrgja, eftir aðskilnað við eiginmann, eiginkonu, föður, móður, barn eða náinn ástvin, að vita að þótt jarðnesk tjaldbúð þeirra sé lögð í gröf og rotni, munu þau rísa upp að nýju til dvalar í eilífri og ódauðlegri dýrð, án sorgar, þjáningar og dauða, og verða erfingjar Guðs og samarfar Jesú Krists.“14

Jesús Kristur er fullkominn, hreinn og heilagur og hefur boðið okkur að líkjast sér.

„Hver, meðal allra hinna heilögu á þessum síðari dögum, telur sig jafn góðan Drottni? Hver er jafn fullkominn? Hver er jafn hreinn? Hver er eins heilagur og hann var? Finnst slíkur? Hann syndgaði aldrei né braut boðorð eða lögmál himins – svik bárust ekki af munni hans og vélabrögð fundust ekki í hjarta hans. … Hvar finnst sá er jafnast á við Krist? Slíkur finnst ekki á jörðinni.“15

„Sköpunarveran var undirgefin hégóma, ekki sjálfviljug, en Kristur gekkst undir það sama í von [sjá Róm 8:20] – allir eru undirgefnir hégóma á ferð sinni um bugðótta vegi og erfiðleika sem umlykja þá. Hvar fyrirfinnst sá sem er án hégóma? Enginn hefur verið fullkominn nema Jesús; og hvers vegna var hann fullkominn? Vegna þess að hann var sonur Guðs og hafði fyllingu andans og meiri mátt en nokkur maður.“16

„Sem drengur hafði [Jesús Kristur] alla nauðsynlega vitsmuni til að stjórna og ríkja yfir konungdómi Gyðinga, rökræða við hina vitrustu og djúphugsandi fræðimenn í lögum og guðfræði, og láta kenningar þeirra og trúariðkun líta út sem heimsku í samanburð við visku hans.“17

„Við vonum að boðorð Drottins séu rótföst í hjörtum ykkar og fræði ykkur ekki aðeins um vilja hans varðandi boðun fagnaðarerindisins, heldur og um lítillæti hans og fullkomið líf frammi fyrir öllum, jafnvel á stundum grófra ofsókna og ofbeldis, sem hann mátti þola af vondri og ótrúrri kynslóð. Minnist þess bræður, að hann hefur kallað ykkur til helgunar; og þurfum við að segja ykkur að líkjast honum að hreinleika? Hversu vitur, hversu heilög, hversu fullkomin ættuð þið þá að vera í augsýn hans og munið einnig að augu hans beinast stöð-ugt að ykkur.“18

„Þegar við íhugum heilagleika og fullkomnun hins mikla meistara okkar, sem gerði okkur kleift að koma til sín, já, með Þvi að fórna sjálfum sér, bráðna hjörtu okkar yfir lítillæti hans. Þegar við íhugum einnig að hann hefur boðið okkur að vera fullkomin í öllu, svo við verðum viðbúin Þvi að mæta honum í friðsemd Þegar hann kemur í dýrð, ásamt öllum hinum heilögu englum, viljum við af dirfsku hvetja bræður okkar til að vera auðmjúkir og bænheitir, að ganga sannlega sem börn ljóssins og dagsins, að Þeir hafi sæmd til að standast hverja freistingu og sigrast á öllu illu, í hinu verðuga nafni Drottins vors Jesú Krists. Verið vissir, bræður, um að sá dagur er sannlega í nánd er meistari hússins rís á fætur og lokar dyrunum, og þá mun engum nema þeim sem búinn er brúðkaupsklæðum leyft að vera við brúðkaupsmáltíðina! [Sjá Matt 22:1–14.]“19

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið frásögn Josephs Smith af sýn frelsarans (bls. 45–47). Hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar þegar þið íhugið þessa reynslu?

  • Til forna voru dýrafórnir færðar, sem hjálpuðu fólki Guðs að „ljúka upp augum [sínum], og … [gerðu því] kleift að líta fram til komu frelsarans, og fagna endurlausn hans“ (bls. 49). Hvað er það sem gerir ykkur nú kleift að líta fram til komu frelsarans?

  • Lesið málsgreinina sem hefst neðst á bls. 49. Veitið athygli að í þessari fullyrðingu er viðauki, eitthvað sem tengist einhverju afar mikilvægu, líkt og grein sem tengist trjástofni. Hvers vegna teljið þið að vitnisburðir postulanna og spámannanna um friðþægingu frelsarans og upprisuna séu „grunvallarreglur trúar okkar“? Hvert gæti viðhorf ykkar verið til þjónustu ykkar á heimilinu og í kirkju, með það í huga að allt sé viðauki við þessar reglur?

  • Lesið yfir kenningar spámannsinns Josephs Smith um upprisuna (bls. 49–51). Hvaða huggun veitir það ykkur að vita að „allur missir ykkar, [verði] ykkur bættur í upprisunni, ef þið haldið áfram trúföst“? Á hvaða hátt getur þekking á upprisunni hjálpað ykkur „svo þið fáið jafnvel hér notið þess sem síðar fæst í fyllingu“?

  • Þegar Þið lesið bls. 52–53, íhugið þá hvað frelsarinn hefur gert svo við getum orðið samarfar hans. Íhugið hvað þið getið gert til að sýna honum þakklæti fyrir friðþægingarfórn hans.

  • Á síðum 53–54 minntist spámaðurinn Joseph Smith á hina mörgu eiginleika frelsarans. Hvaða aðrir eiginleikar koma ykkur í hug þegar þið íhugið líf og ætlunarverk frelsarans? Íhugið hvað þið getið gert til að verða líkari honum.

Ritningargreinar tengdar efninu: Jes 53:1–12; 2 Ne 9:5–26; K&S 20:21–29

Heimildir

  1. Skráð af George A. Smith, Deseret News, 12. ágúst. 1857 , bls. 183.

  2. History of the Church, 2:443; úr “History of the Church” (handrit), bók B-1, viðauki, bls. 5, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  3. History of the Church, 5:555; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. ágúst 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og William Clayton.

  4. History of the Church, 2:15–17; stafsetning færð í nútímahorf; málsgreinaskilum bætt við; úr “The Elders of the Church in Kirtland, to Their Brethren Abroad,” 22. jan. 1834, birt í Evening and Morning Star, mars 1834, bls. 143.

  5. History of the Church, 3:30; úr ritstjórnargrein í Elders’ Journal, júlí 1838, bls. 44; Joseph Smith var ritstjóri þessa tímarits.

  6. History of the Church, 6:366; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  7. History of the Church, 2:18–19; málsgreinaskilum bætt við; úr “The Elders of the Church in Kirtland, to Their Brethren Abroad,” 22. jan. 1834, birt í Evening and Morning Star, mars 1834, bls. 144.

  8. History of the Church, 5:361–62; málsgreinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 16. apríl, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards.

  9. History of the Church, 4:78; úr bréfi frá Matthew L. Davis til Mary Davis, 6. febr. 1840, Washington, D.C., greinargerð um fyrirlestur sem Joseph Smith hélt 5. febr. 1840, í Washington, D.C.

  10. Trúaratriðin 1:3.

  11. Tilvitnun James Burgess í samantekt fyrirlestra Josephs Smith; James Burgess, Journals, 1841–48, bindi 2, Skjalasafn kirkjunnar.

  12. History of the Church, 2:5; “The Elders of the Church in Kirtland, to Their Brethren Abroad,” 22. jan. 1834, birt í Evening and Morning Star, febr. 1834, bls. 135.

  13. Tilvitnun George Laub, í samantekt fyrirlestra Josephs Smith, um 1845; George Laub, Reminiscences and Journal Jan. 1845 – Apr. 1857, bls. 31, Skjalasafn kirkjunnar.

  14. History of the Church, 6:306; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton.

  15. History of the Church, 2:23; úr “The Elders of the Church in Kirtland, to Their Brethren Abroad,” 22. jan. 1834, birt í Evening and Morning Star, apríl 1834, bls. 152.

  16. History of the Church, 4:358; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 16. maí 1841, í Nauvoo, Illinois; skráð í Times and Seasons, 1. júní 1841, bls. 429–30.

  17. History of the Church, 6:608; úr fyrirmælum gefnum af Joseph Smith, 27. júní 1844, í Carthage-fangelsi, Carthage, Illinois; skráð af Cyrus H. Wheelock.

  18. History of the Church, 2:13; úr “The Elders of the Church in Kirtland, to Their Brethren Abroad,” 22. jan. 1834, birt íEvening and Morning Star, mars. 1834, bls. 142.

  19. Bréf frá Joseph Smith og háprestum til bræðra í Geneseo, New York, 23. nóv. 1833, Kirtland, Ohio, Skjalasafn kirkjunnar.

Ljósmynd
Jospeh and Oliver

Frelsarinn birtist Joseph Smith og Oliver Cowdery í Kirtland-musterinu. „Hulunni var svipt frá hugum okkar,“ sagði Joseph, „og augu skilnings okkar lukust upp. Við sáum Drottin standa á brjósthlíf prédikunarstólsins.“

Ljósmynd
resurrected Lord

„Guðs lambið gerði upprisunina mögulega, svo að allir rísi upp frá dauðum.“

Ljósmynd
Christ with children

„Þegar við íhugum heilagleika og fullkomnun hins mikla meistara okkar, … verðum við mild í hjarta yfir lítillæti hans.“