Aðalráðstefna
Merkasta páskasaga allra tíma
Aðalráðstefna apríl 2023


Merkasta páskasaga allra tíma

Sjáið Mormónsbók í nýju ljósi og hugleiðið hið djúpstæða vitni sem hún ber um raunveruleika hins upprisna Krists.

Bréf Æðsta forsætisráðsins um páska

Eflaust munið þið eftir að hafa heyrt bréf frá Æðsta forsætisráðinu lesið í deild ykkar eða grein fyrir nokkrum vikum síðan. Þetta bréf kvað á um að næsta sunnudag – páskadag – ættu allar deildir og greinar einungis að koma saman fyrir sakramentissamkomu, til að gefa fjölskyldum meiri tíma fyrir tilbeiðslu heima, til að minnast tilgangs þessa mikilvægasta hátíðisdags.1

Þetta bréf frá Æðsta forsætisráðinu greip athygli mína og fékk mig til að hugleiða hvernig fjölskylda okkar hefur haldið páskana hátíðlega í gegnum árin. Því meira sem ég hugsaði um hátíðahöld okkar, því meira velti ég fyrir mér hvort við séum óafvitandi að draga úr sannri merkingu þessarar hátíðar, sem er miðpunktur allra þeirra sem trúa á Jesú Krist.

Jóla- og páskahefðir

Þessi hugsun leiddi til þess að ég tók að ígrunda og bera saman það sem á milli bregður í jólahaldi og páskahaldi. Í desember tekst okkur einhvernvegin að innleiða gleði „jólaklukkna,“ arinsokka og gjafa, ásamt fleirum hugulsömu hefðum – eins og að annast hina þurfandi, syngja uppáhalds jólasöngva okkar og sálma og að sjálfsögðu að opna ritningarnar og lesa jólasöguna í Lúkas 2. Á hverju ári, þegar við lesum þessa ástkæru sögu í stórri gamalli Biblíu, gerir fjölskylda okkar það sama og ykkar gerir eflaust – íklædd handklæði á höfði okkar og herðum og í sloppum til að leika Jósef, Maríu og hina mörgu sem komu til að tilbiðja Jesúbarnið, leikum við hina dýrmætu jólasögu um fæðingu frelsarans.

Hátíðarhöld fjölskyldu okkar hafa hinsvegar verið nokkuð ólík um páskana. Mér finnst að fjölskylda okkar hafi treyst meira á að „fara í kirkju“ til að sjá okkur fyrir hinum þýðingamikla hluta Krists í páskunum og síðan höfum við komið saman sem fjölskylda til að njóta annarra páskatengdra hefða. Ég hef notið þess að horfa á börn okkar og nú barnabörn í páskaeggjaleit og leita í páskakörfunum sínum.

Bréfið frá Æðsta forsætisráðinu hristi aðeins upp í mér. Þeir buðu okkur ekki aðeins að sjá til þess að fögnuður okkar yfir mikilvægasta atburði sögu jarðarinnar – friðþægingu og upprisu Jesú Krists – fæli í sér þá lotningu og virðingu sem Drottinn verðskuldar, heldur sáu þeir til þess að við hefðum meiri tíma með fjölskyldum okkar og vinum á páskasunnudag til að gera svo.

Ljósmynd
Hinn upprisni frelsari

Þessi orð spámannsins Josephs Smith bæta viðbótar samhengi við mikilvægi þeirra atburða sem gerðust um páskana: „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postula og spámanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, reis upp á þriðja degi og sté upp til himna. Og allt annað sem varðar trúarbrögð okkar er aðeins viðauki við þetta.“2

Ég og Lesa höfum rætt leiðir fyrir fjölskyldu okkar til að gera betur þessa páskatíð. Kannski er spurningin sem við þurfum að spyrja okkur sjálf sú sem við þurfum öll að hugleiða: Hvernig mótum við kennslu og fögnuð yfir upprisu Jesú Krists, páskasögunni, af sama jafnvægi, fyllingu og ríkulegum trúarhefðum og fæðingu Jesú Krists, jólasögunni?

Það virðist vera að við séum öll að reyna. Ég hef séð vaxandi tilhneigingu hjá Síðari daga heilögum að kristsmiðaðri páskum. Þetta felur í sér meiri og íhugulli viðurkenningu á pálmasunnudegi og föstudeginum langa eins og sumir hinna kristnu frænda okkar iðka. Við gætum einnig tileinkað okkur viðeigandi kristsmiðaðar hefðir frá menningum og iðkunum landa um allan heim.

N. T. Wright fræðimaður í Nýja testamentinu lagði til: „Við ættum að leita skapandi leiða til að halda upp á páska á nýjan hátt: Með listum, bókmenntum, leikjum barna, ljóðalist, tónlist, dansi, hátíðum, bjöllum, sérstökum tónleikum. Þetta er mikilvægasta hátíð okkar. Ef þið takið jólin í burtu þá, biblíulega séð, missið þið tvo kapítula í upphafi Matteusar og Lúkasar, ekkert annað. Ef við leggjum páskana til hliðar og við höfum ekki Nýja testamentið þá er kristindómur ekki til.“3

Páskar, Biblían og Mormónsbók

Við metum Biblíuna fyrir allt sem hún kennir okkur um fæðingu, þjónustu, krossfestingu og upprisu Jesú Krists. Engin fjögur orð innihalda meiri von og eilífar afleiðingar fyrir mannkyn en þau sem himneskur engill sagði á páskadagsmorgni við gröfina: „Hann er upp risinn.“4 Við erum innilega þakklát fyrir ritningar í Nýja testamentinu sem varðveita sögu páskanna og páskaþjónustu frelsarans í Júdeu og Galíleu.

Þegar ég og Lesa héldum áfram að hugleiða og leita leiða til að útvíkka hátíðarhöld fjölskyldu okkar um páskana, til að hafa Krist sem þungamiðju hennar, ræddum við hvaða hefð ritningarlesturs við gætum kynnt fyrir fjölskyldu okkar – jafngildandi Lúkasi 2 fyrir jólin, ef svo mætti segja.

Þá fengum við þessa himnesku hugljómun. Til viðbótar við hin mikilvægu vers í Nýja Testamentinu um páskana, höfum við Síðari daga heilagir blessun hinnar undursamlegustu páskagjafar! Gjöf einstaks vitnis, annars vitnisburðar um páskakraftaverkið sem inniheldur jafnvel stórkostlegustu páskaritningar í öllum kristindómi. Ég er að sjálfsögðu að tala um Mormónsbók, nánar tiltekið frásögnina af því er Jesús Kristur birtist íbúum Nýja heimsins, í upprisnum líkama sínum.

Spámaðurinn Joseph Smith sagði að Mormónsbók væri „réttasta bók á allri jörðu,“5 og frá og með 3. Nefí 11, lesum við hina merku frásögn af heimsókn hins upprisna Jesú Krists til Nefítanna, páskaþjónustu frelsarans. Þessar páskaritningar bera vitni um upprisu Drottins Jesú Krists.

Í þessum kapítulum kallar Kristur tólf lærisveina, kennir eins og hann kenndi í fjallræðu sinni, tilkynnir að hann hafi uppfyllt Móselögmálið og spáir fyrir um samansöfnun Ísraels á síðari dögum. Hann læknar þá veiku og biður fyrir fólkinu á svo stórkostlegan máta að „engin tunga fær mælt, né nokkur maður ritað, né nokkurt mannshjarta skynjað jafn mikla og undursamlega hluti og við bæði sáum og heyrðum Jesú mæla. Og enginn fær gjört sér í hugarlund gleðina, sem fyllti sálir okkar, þegar við heyrðum hann biðja til föðurins fyrir okkur.“6

Ljósmynd
Jesús Kristur birtist Nefítunum

Þessa páska ætlar fjölskylda okkar að leggja áherslu á fyrstu 17 versin í 3. Nefí 11, sem þið eruð kunnug. Þið munið eftir mannfjöldanum sem umkringdi musterið í Nægtabrunni sem heyrði rödd Guðs, föðurins og sá Jesú Krist stíga af himnum með yndislegt páskaboð:

„Rísið á fætur og komið til mín, svo að þér getið … fundið naglaförin á höndum mínum og fótum, svo að þér megið vita, að ég er … Guð allrar jarðarinnar og hef verið deyddur fyrir syndir heimsins.

„[og] mannfjöldinn gekk fram … hver af öðrum, … og allir sáu með augum sínum og fundu með höndum sínum … og báru því vitni, að þetta var [hann]. …

Og … [þá] var hrópað einum rómi og sagt:

Hósanna! Blessað sé nafn Guðs hins æðsta! Og fólkið féll að fótum Jesú og tilbað hann.“7

Ímyndið ykkur, Nefítarnir við musterið snertu í raun hendur hins upprisna Drottins! Okkur langar að gera þessa kapítula í 3. Nefí að jafnþýðingarmiklum hluta páskahátíðar okkar og Lúkas 2 er í jólahefð okkar. Í raun miðlar Mormónsbók merkustu páskasögu allra tíma. Látum það ekki vera merkustu páskasöguna sem aldrei var sögð.

Ég býð ykkur samt að skoða Mormónsbók í nýju ljósi og hugleiða hið djúpstæða vitni sem hún ber um raunveruleika hins upprisna Krists, jafnt og fyllingu og dýpt kenningar Krists.

Mormónsbók vitnar um Jesú Krist.

Við gætum spurt, hvernig getur lestur í Mormónsbók um páskana, blessað líf okkar og ástvina okkar á þýðingarmikinn hátt? Á fleiri en einn máta, gæti okkur orðið ljóst. Hvenær sem við lesum og lærum í Mormónsbók getum við búist við merkilegum niðurstöðum.

Nýlega fórum ég og Lesa í kistulagningu kærra vinkonu, sem lést vegna veikinda. Við komum saman með fjölskyldu hennar og nánum vinum, rifjuðum upp góðar minningar um þessa fallegu sál sem hafði auðgað líf okkar.

Þegar ég stóð nokkuð frá kistunni, í samræðum við aðra, tók ég eftir tveimur stúlkum á Barnafélagsaldri nálgast kistuna og teygja sig upp á tærnar – augu þeirra báru við brúnina – til að votta ástkærri frænku sinni virðingu sína. Þar sem enginn annar var nálægur, læddist Lesa til þeirra og kraup við hlið þeirra til að veita þeim huggun og leiðsögn. Hún spurði þær hvernig þeim liði og hvort þær vissu hvar frænka þeirra væri núna. Þær tjáðu sorg sína en síðan sögðu þessar dýrmætu dætur Guðs, með sjálfsöryggið glampandi í augum sínum, að þær vissu að frænka þeirra væri nú hamingjusöm og að hún gæti verið með Jesú.

Á þessum viðkvæma aldri fundu þær frið í hinni miklu sæluáætlun og á sinn barnslega máta, báru þær vitni um hinn djúpstæða raunveruleika og einföldu fegurð upprisu frelsarans. Þær vissu þetta í hjarta sér vegna umhyggjusamrar kennslu ástríkra foreldra, fjölskyldu og gróðursetningar trúarfræja Barnarfélagsleiðtoga, um Jesú Krist og eilíft líf. Þessar ungu stúlkur, skynsamar framar aldri sínum, skildu sannleika sem kemur til okkar í gegnum páskaboðskapinn og þjónustu hins upprisna frelsara og orða spámanna eins og sagt er frá í Mormónsbók.

Ég hef verið vitni að því þegar Russell M. Nelson forseti gefur einhverjum Mormónsbók sem er ekki okkar trúar, þar með töldum leiðtogum heimsins, en þá flettir hann iðulega upp á 3. Nefí og les um það þegar hinn upprisni Kristur birtist Nefítunum. Þegar hann gerir svo, er hinn lifandi spámaður í raun að bera vitni um hinn lifandi Krist.

Við getum ekki staðið sem vitni um Jesú Krist fyrr en við getum borið vitni um hann. Mormónsbók er annað vitni um Jesú Krist vegna þess að hvarvetna á heilögum blaðsíðum hennar, ber einn spámaður eftir annan vitni, ekki bara um að hann muni koma, heldur að hann hafi komið.

Sökum hans

Ég held hér í hendi minni á eintaki af fyrstu útgáfu Mormónsbókar. Það hefur alltaf snert mig að gera svo. Mikið af fullorðinsárum mínum hef ég verið heillaður, hugfanginn og orðlaus yfir því sem hinn ungi Joseph Smith gerði til að þýða þessa heilögu ritningabók og fá hana útgefna. Það er yfirþyrmandi að íhuga þau kraftaverk sem urðu að gerast.

Það er samt ekki ástæðan fyrir því að þessi bók snertir mig. Það er vegna þess að þessi bók, meira en nokkur önnur sem hefur verið gefin út á þessari jörðu, ber vitni um líf, þjónustu, kenningar, friðþægingu og upprisu Jesú Krists. Kæru bræður og systur, það mun breyta lífi ykkar að lesa reglulega í þessari bók um Jesú Krist. Það mun opna augu ykkar fyrir nýjum möguleikum. Það mun auka von ykkar og fylla ykkur skírleika. Framar öllu, mun það efla og styrkja trú ykkar á Jesú Krist og blessa ykkur með öruggri vitneskju og þekkingu um að hann og faðir okkar þekkja ykkur, elska ykkur og vilja að þið finnið leiðina heim aftur, með stóru Hái.

Kæru bræður og systur, tíminn er kominn, samkvæmt spámönnum til forna, að „þekkingin á frelsara mun breiðast út til allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýða.“8 Við erum að sjá uppfyllingu þessa spádóms frammi fyrir augum okkar, fyrir vitnið um Jesú Krist í Mormónsbók.

Ljósmynd
Drottinn Jesús Kristur

Engin bók gerir meira til að sýna að:

  • Vegna Jesús Krists hefur allt breyst.

  • Vegna hans er allt betra.

  • Vegna hans er lífið viðráðanlegt – sérstaklega hinar sársaukafullu stundir.

  • Vegna hans er allt mögulegt.

Heimsókn hans, sem upprisins frelsara, kynntur af Guði föðurnum, er dýrðlegasti og sigursælasti páskaboðskapurinn. Það mun hjálpa fjölskyldum okkar að öðlast persónulegan vitnisburð um Jesú Krist sem frelsara okkar og lausnara, sem rauf hlekki dauðans.

Ég lýk með vitnisburði mínum um sannleiksgildi Mormónsbókar og Jesú Krists sem son hins lifanda Guðs. Í nafni Jesú Krists, amen.