Aðalráðstefna
Hugur minn náði tökum á þessari hugsun um Jesú Krist
Aðalráðstefna apríl 2023


Hugur minn náði tökum á þessari hugsun um Jesú Krist

Þegar þið náið gaumgæfilegri tökum á hugsuninni um Jesú Krist, lofa ég ykkur ekki aðeins himneskri leiðsögn, heldur himneskum krafti.

Á þessari dásamlegu páskatíð, geri ég orð þessa áhrifamikla sálms að bæn minni: „Ó, leið oss, mikli himins Herra.“1

Undraverð saga í Mormónsbók segir frá ungum manni úr þekktri fjölskyldu, að nafni Alma, sem ritningarnar lýsa sem skurðgoðadýrkanda og vantrúarmanni.2 Hann var fagurmæltur og sannfærandi og notaði smjaður til að sannfæra aðra um að fylgja sér. Það undarlega er að engill birtist Alma og vinum hans. Alma féll til jarðar og var svo máttvana að hann var borinn hjálparlaus heim til föður síns. Hann var í dái að því er virðist í þrjá daga.3 Síðar útskýrði hann að á meðan hann virtist án meðvitundar þeim sem umhverfis voru, hefði hugur hans verið vel virkur er sál hans syrgði og hann hugsað um eigið líf og að hafa vanvirt boðorð Guðs. Hann lýsti því að hugur hans væri „[hrjáður] af endurminningunni um hinar mörgu syndir [sínar]“4 og „[liði] eilífa kvöl.“5

Í sinni miklu örvæntingu, mundi hann eftir að hafa verið kennt í æsku að „Jesús nokkur Kristur, sonur Guðs, mundi koma og friðþægja fyrir syndir heimsins.“6 Næst sagði hann þessi umhugsunarverðu orð: „Þegar hugur minn náði nú tökum á þessari hugsun, hrópaði ég í hjarta mínu: Ó Jesús, þú sonur Guðs, vertu mér miskunnsamur.“7 Þegar hann ákallaði guðlegan mátt frelsarans, gerðist nokkuð dásamlegt: „Þegar ég hugleiddi þetta,“ sagði hann, „gleymdi ég kvölum mínum.“8 Um leið skynjaði hann frið og ljós. „Ekkert [var] jafn óviðjafnanlegt og ljúft og gleði mín var,“9 sagði hann.

Alma „náði tökum á“ sannleikanum um Jesú Krist. Ef við notuðum orðin „náði tökum á“ í líkamlegri merkingu, gætum við sagt: „Hann náði tökum á handriðinu í þann mund sem hann féll,“ sem þýðir að hann hafi gripið snöggt í eitthvað og fundið tryggilega festu við eitthvað með örugga undirstöðu.

Í tilfelli Alma var það hugur hans sem náði að tryggja þennan máttuga sannleika um friðþægingarfórn Jesú Krists. Hann var leystur frá örvæntingu sinni og fylltur von er hann lét reyna á þennan sannleika með trú og fyrir mátt og náð Guðs.

Þó að reynsla okkar sé kannski ekki jafn stórfengleg og hjá Alma, þá er hún engu að síður jafn eilíflega mikilvæg. Hugur okkar hefur líka „náð tökum á þessari hugsun“ um Jesú Krist og miskunnsama fórn hans og sálir okkar hafa fundið ljósið og gleðina sem því fylgir.

Tryggja hugsunina um Jesú Krist

Bæn mín á þessari páskatíð, er að við munum meðvitaðri móta, styrkja og tryggja þessa mikilvægustu andlegu hugsun í vitund sálar okkar,10 láta hana streyma stöðugt og ákaft í huga okkar, leiðbeina okkur í því sem við hugsum og gerum, og veita ljúfa gleði elsku frelsarans.11

Að fylla huga okkar af krafti Jesú Krists, þýðir ekki að hann sé eina hugsunin sem við höfum. En það þýðir að allar hugsanir okkar eru afmarkaðar af kærleika hans, lífi hans og kenningum og friðþægingarfórn hans og dýrðlegri upprisu. Jesús er aldrei í gleymdu horni, því hugsanir okkar um hann eru alltaf til staðar og „allt sem í [okkur er lofar] hann!“12 Við biðjum og rifjum upp í huga okkar upplifanir sem hafa fært okkur nær honum. Við prýðum huga okkar guðlegum myndum, heilögum ritningum og innblásnum sálmum, til að milda þær óteljandi daglegu hugsanir sem þjóta í gegn í annasömu lífi okkar. Kærleikur okkar til hans verndar okkur ekki frá sút og sorg þessa jarðneska lífs, en hún gerir okkur kleift að takast á við áskoranirnar af styrk langt umfram eigin getu.

Alsælu fyllist öndin mín,

æ þá ég hugsa um Krist,

dýrast mér er að dvelja þó

daglega í hans vist.13

Hafið hugfast að þið eruð andabarn himnesks föður. Líkt og Páll postuli útskýrir, þá erum við „Guðs ættar.“14 Þið hafið lifað með ykkar eigin sjálfsmynd löngu áður en þið komuð til jarðar. Faðir okkar skapaði fullkomna áætlun fyrir okkur til að koma til jarðar, læra og snúa aftur til hans. Hann sendi ástkæran son sinn til að við fáum lifað handan grafar fyrir kraft hinnar óendanlegu friðþægingar hans og upprisu; og þegar við erum fús til að iðka trú á hann og iðrast synda okkar,15 er okkur fyrirgefið og við hljótum von um eilíft líf.16

Gefa sérstakan gaum að huga okkar og anda

Í þessu jarðneska lífi þurfa hugur okkar og andi sérstaka gaumgæfni.17 Andi okkar gerir okkur kleift að lifa, velja og greina milli góðs og ills.18 Andi okkar hlýtur þann staðfesta vitnisburð að Guð sé faðir okkar, að Jesús Kristur sé sonur Guðs og að kenningar þeirra séu leiðarvísir okkar til hamingju hér og eilífs lífs handan grafar.

Hugur Alma náði tökum á þessari hugsun um Jesú Krist. Það breytti lífi hans. Aðalráðstefna er tími til að læra það sem Drottinn vill að við gerum og verðum. Hún er líka tími til að ígrunda framþróun okkar. Þegar ég hef farið um heiminn í mínum úthlutuðu verkefnum, hef ég skynjað aukinn andlegan styrk meðal hinna réttlátu og trúföstu meðlima kirkjunnar.

Fyrir fimm árum vorum við beðin að hafa frelsarann meira áberandi í öllu sem við gerum, með því að nota hið rétta nafn Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.19 Við mælum nafn hans af aukinni hreinskilni.

Fyrir fjórum árum styttum við tíma sakramentissamkomu okkar og með því jókst áhersla okkar á að meðtaka sakramenti Drottins. Við hugsum meira um Jesú Krist og erum einbeittari í því loforði okkar að hafa hann ávallt í huga.20

Með einangrun heimsfaraldursins og hjálp námsefnisins Kom, fylg mér, urðu kenningar frelsarans meira áberandi á heimilum okkar og juku tilbeiðslu okkar á frelsaranum í vikunni.

Með því að fylgja leiðsögn Russells M. Nelson forseta um að „hlýða á hann,“21 erum við að gera okkur hæfari til að þekkja hina lágu rödd heilags anda og greina hönd Drottins í lífi okkar.

Með því að tilkynna og ljúka byggingu fjölda mustera, förum við oftar í hús Drottins og hljótum fyrirheitnar blessanir hans. Við skynjum betur hina óviðjafnanlegu fegurð frelsara okkar og lausnara.

Nelson forseti: „Það er ekkert auðvelt eða sjálfkrafa við það að verða kröftugur lærisveinn. Við verðum að einblína á frelsarann og fagnaðarerindi hans. Það er erfitt fyrir hugann að reyna að einblína á hann í sérhverri hugsun.“22

Ef við beinum athygli okkar að Jesú Kristi, mun allt annað umhverfis – á meðan það er enn til staðar – skoðað gegnum kærleika okkar til hans. Ómerkilegar truflanir dofna og við fjarlægjum það sem ekki samræmist ljósi hans og eðli. Þegar þið af gaumgæfni náið tökum á þessari hugsun um Jesú Krist, treystið honum og haldið boðorð hans, lofa ég ykkur ekki aðeins himneskri leiðsögn, heldur himneskum krafti – krafti sem styrkir sáttmála ykkar, veitir frið í erfiðleikum og gleði yfir blessunum ykkar.

Hafa Jesú Krist í huga

Fyrir nokkrum vikum heimsóttum við Kathy heimili Matts og Sarah Johnson. Á veggnum var mynd af hinni dýrmætu fjölskyldu þeirra, falleg mynd af frelsaranum og mynd af musterinu.

Dætur þeirra fjórar, Maddy, Ruby, Claire og June, töluðu glaðar um það hversu heitt þær elskuðu móður sína.

Í yfir ár hafði Sarah reglulega skipulagt laugardagsferð fjölskyldunar til musterisins, svo að stúlkurnar gætu tekið þátt í skírn fyrir skyldmenni sem áður lifðu.

Í nóvember á síðasta ári ráðgerði Sarah að fjölskyldan færi saman í musterið síðustu viku desembermánaðar á fimmtudegi í stað laugardags. „Ég vona að þér líði vel með þetta,“ sagði hún við Matt.

Sarah hafði verið greind með krabbamein og læknarnir gerðu ráð fyrir að hún lifði í tvö eða þrjú ár til viðbótar. Á sakramentissamkomu hafði Sarah gefið máttugan vitnisburð og sagt að hver sem niðurstaðan yrði fyrir hana, þá elskaði hún frelsarann af öllu hjarta og að „sigurinn væri þegar unninn“ af honum. Þegar leið á desember, fór heilsu Sarah óvænt að hraka hratt og hún var lögð inn á sjúkrahús. Snemma morguns, fimmtudaginn 29. desember, lauk hún jarðlífi sínu hljóðlega. Matt hafði verið við hlið Sarah alla nóttina.

Með brostið hjarta og algjörlega örmagna líkamlega og tilfinningalega kom hann sorgmæddur heim með dætrum sínum. Þegar Matt leit á símann sinn, tók hann eftir áminningunni um hina óvenjulegu musterisferð á fimmtudegi, sem Sarah hafði ráðgert síðar um daginn. Matt sagði: „Þegar ég sá hana fyrst hugsaði ég: Þetta mun ekki ganga upp.“

En svo náði hugur Matts tökum á þessari hugsun: „Frelsarinn lifir. Það er enginn staður sem við viljum frekar vera á sem fjölskylda en í hans heilaga húsi.“

Ljósmynd
Johnson-fjölskyldan

Matt, Maddy, Ruby, Claire og June fóru í musterið á þeim tíma sem Sarah hafði ráðgert fyrir þau. Með tár streymandi niður vanga, framkvæmdi Matt skírnirnar með dætrum sínum. Þau fundu djúpt fyrir elsku sinni og eilífum tengslum við Sarah og þau skynjuðu mikla elsku og hughreystandi frið frelsarans. Matt sagði blíðlega: „Á meðan ég finn fyrir djúpri sorg, hrópa ég af gleði, þar sem ég þekki hina dásamlegu sáluhjálparáætlun föður míns.“

Á þessari páskatíð, vitna ég um hinn fullgerða og altæka sannleika um óviðjafnanlega friðþægingarfórn frelsarans og um dýrðlega upprisu hans. Þegar hugur ykkar hefur náð föstum og varanlegum tökum á Jesú Kristi og þegar þið beinið lífi ykkar meira að frelsaranum, þá lofa ég að þið munið finna von hans, frið og kærleika. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Leið oss, mikli himna Herra,“ Sálmar, nr. 28.

  2. Sjá Mósía 27:8.

  3. Sjá Alma 36:10.

  4. Alma 36:17.

  5. Alma 36:12.

  6. Alma 36:17.

  7. Alma 36:18. Í hitt skiptið sem „náði tökum á“ er notað í Mormónsbók er rætt um þá sem „náðu taki á endanum á járnstönginni“ (1. Nefí 8:24, 30).

  8. Alma 36:19.

  9. Alma 36:21.

  10. „Mikilvægasta barátta lífsins er háð í hljóðri vitund eigin sálar“ (David O. McKay, í Conference Report, apríl 1967, 84).

  11. „[Hugsanir] styrkja alla breytni. Hugsanir okkar eru skiptiborðið, stjórnborðið sem stjórnar verkum okkar“ (Boyd K. Packer, That All May be Edified [1982], 33).

    Dallin H. Oaks forseti kenndi: „Við getum bælt niður illar þrár í stað réttlátra. Þetta felur í sér fræðslu og iðkun. Joseph F. Smith forseti kenndi að „fræðsla … um þrár okkar væri afar mikilvæg“ (Pure in Heart [1988], 149).

  12. „Praise to the Lord, the Almighty,“ Hymns, nr. 72.

  13. „Alsælu fyllist öndin mín,“ Sálmar, nr. 42.

  14. Postulasagan 17:29.

  15. Sjá Kenning og sáttmálar 58:42–43.

  16. Sjá Kenning og sáttmálar 14:7.

  17. „Enginn nema Guð þekkir hugsanir þínar og áform hjarta þíns“ (Kenning og sáttmálar 6:16).

  18. „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans“ (Lúkas 6:45).

  19. Sjá Russell M. Nelson, „Hið rétta nafn kirkjunnar,“ aðalráðstefna, okt. 2018.

  20. Hinn vikulegi sáttmáli okkar í sakramentisbænunum, er að „hafa hann ávallt í huga“ (Moróní 4:3; Kenning og sáttmálar 20:77). Mormónsbók hvetur okkur með því að leggja sérstaka áherslu á það, „munið og hafið hugfast“ (Mósía 2:41; Alma 37:13; Helaman 5:9). Andleg endurminning verður fyrir kraft heilags anda: „Andinn heilagi mun kenna yður allt og minna yður á allt“ (Jóhannes 14:26).

  21. Russell M. Nelson, „Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apr. 2020.

  22. Russell M. Nelson, „Að færa kraft Jesú Krists inn í líf okkar,“ aðalráðstefna, apr. 2017. Nelson forseti sagði einnig: „Gleðin sem [Síðari daga heilagir finna] hefur lítið að gera með okkar lífsins aðstæður, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu“ („Gleði og andleg þrautsegja,“ aðalráðstefna, okt. 2016).