Aðalráðstefna
„Ekkert getur verið jafn óviðjafnanlegt og ljúft og gleði mín var“
Aðalráðstefna apríl 2023


„Ekkert getur verið jafn óviðjafnanlegt og ljúft og gleði mín var“

Leiðin til að upplifa gleði – gleði sem ekki er hægt að ímynda sér – er að iðrast daglega og koma til Jesú Krists.

Gegnum jarðneska þjónustu sína sýndi frelsarinn mikla samúð með öllum börnum Guðs – einkum þeim sem þjáðust eða höfðu horfið frá. Þegar farísearnir gagnrýndu hann fyrir að umgangast og borða meðal syndara, svaraði Jesús með því að kenna þrjár kunnuglegar dæmisögur.1 Í hverri þessara dæmisagna, lagði hann áherslu á mikilvægi þess að leita að þeim sem villst hafa og gleðina sem hlýst þegar þeir snúa aftur. Hann sagði til dæmis í dæmisögunni um týnda sauðinn: „[Mikill] fögnuður [verður] á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum.“2

Í dag vil ég tala um sambandið milli gleði og iðrunar – einkum gleðina sem hlýst þegar við iðrumst og gleðitilfinninguna sem við hljótum þegar við bjóðum öðrum að koma til Krists og taka á móti friðþægingarfórn hans í lífi sínu.

Við lifum svo að við megum gleði njóta

Í ritningunum þýðir orðið gleði yfirleitt miklu meira en líðandi ánægjustund eða jafnvel hamingjutilfinning. Gleði í þessu samhengi er guðlegur eiginleiki sem er að finna í fyllingu hans þegar við snúum aftur til að dvelja í návist Guðs.3 Hún er dýpri, meira upplyftandi, varanlegri og lífsbreytandi en nokkur ánægja eða þægindi sem þessi heimur getur boðið upp á.

Við vorum sköpuð til að njóta gleði. Hún er fyrirhuguð örlög okkar sem börn kærleiksríks himnesks föður. Hann vill deila gleði sinni með okkur. Spámaðurinn Lehí kenndi að áætlun Guðs fyrir hvert okkar væri til að við „mættum gleði njóta“4 Þar sem við lifum í föllnum heimi, virðist gleði eða ævarandi gleði oft utan okkar seilingar. Samt heldur Lehí áfram í næsta versi og útskýrir að „Messías [komi] … til að endurleysa [okkur] frá fallinu.“5 Endurlausn, með og fyrir milligöngu frelsarans Jesú Krists, gerir gleði mögulega.

Fagnaðarerindið er boðskapur vonar um „mikinn fögnuð“6 og leiðin til að allir geti upplifað frið og gleðistundir í þessu lífi og hlotið fyllingu gleði í komandi lífi.7

Gleðin sem við ræðum um er gjöf til hinna trúföstu, en hún hlýst fyrir gjald. Gleði er ekki ódýr eða auðveldlega gefin. Hún er öllu heldur keypt „með dýrmætu blóði [Jesú] Krists.“8 Ef við skildum í raun gildi sannrar, guðlegrar gleði, myndum við ekki hika við að fórna veraldlegum eigum eða gera nauðsynlegar lífsbreytingar til að taka á móti henni.

Máttugur en auðmjúkur konungur í Mormónsbók skildi þetta. „Hvað á ég að gjöra,“ sagði hann, „til að geta fæðst af Guði og fengið þennan illa anda upprættan úr brjósti mér og tekið á móti anda hans og fyllst gleði …? Ég vil fórna öllu, sem ég á. Já, ég vil láta ríki mitt af hendi til þess að hljóta þessa miklu gleði.“9

Til að svara spurningu konungsins, sagði Aron: „Ef þú þráir þetta, … [beygðu þig þá] fyrir Guði … [og] iðrast allra synda þinna.“10 Iðrun er vegurinn að gleði,11 vegna þess að hún er vegurinn sem liggur til frelsarans Jesú Krists.12

Gleði hlýst fyrir einlæga iðrun

Fyrir suma gæti það virst misvísandi að hugsa um iðrun sem leið að gleði. Iðrun getur stundum verið sársaukafull og erfið. Hún krefst þess að viðurkenna að sumar hugsanir okkar og gjörðir – jafnvel sumar skoðanir okkar – hafa verið rangar. Iðrun krefst líka breytinga, sem stundum geta verið óþægilegar. En gleði og þægindi eru ekki sami hluturinn. Synd – þar á meðal synd sjálfsánægju – takmarkar gleði okkar.

Eins og staðhæft er af Sálmaskáldinu: „Að kveldi gistir oss grátur en gleðisöngur að morgni.“13 Þegar við iðrumst synda okkar verðum við að einbeita okkur að þeirri miklu gleði sem á eftir kemur. Næturnar kunna að virðast langar, en morguninn kemur og, ó, hversu dásamlegur er friðurinn og ljómandi gleðin sem við finnum þegar friðþæging frelsarans frelsar okkur frá synd og þjáningu.

„Ekkert getur verið jafn óviðjafnanlegt og ljúft“

Hugleiðið reynslu Alma í Mormónsbók. Hann „leið eilífa kvöl“ og sál hans var „hrjáð“ vegna synda hans. En þegar hann sneri sér til frelsarans eftir miskunn, „gleymdi [hann] kvölum [sínum].“14

„Og ó, hvílík gleði,“ sagði hann, „hve undursamlegt ljós ég sá! Já, … ekkert getur verið jafn óviðjafnanlegt og ljúft og gleði mín var.“15

Þetta er sú gleði sem stendur þeim til boða sem koma til Jesú Krists fyrir iðrun.16 Eins og Russell M. Nelson forseti hefur kennt:

„Iðrun greiðir okkur aðgang að krafti friðþægingar Jesú Krists. …

Þegar við veljum að iðrast, veljum við að breytast! Við leyfum frelsaranum að breyta okkur í bestu útgáfu okkar sjálfra. Við veljum að vaxa andlega og meðtaka gleði – gleði endurlausnar hans. Þegar við veljum að iðrast, veljum við að líkjast Jesú Kristi meira!“17

Iðrun veitir gleði vegna þess að hún býr hjörtu okkar undir að taka á móti áhrifum heilags anda. Að vera fyllt heilögum anda, þýðir að vera fyllt gleði. Og að vera fyllt af gleði, þýðir að vera fyllt heilögum anda.18 Gleði okkar eykst þegar við vinnum daglega að því að færa andann í líf okkar. Eins og spámaðurinn Mormón kenndi: „Engu að síður fastaði það og baðst oft fyrir og varð sífellt styrkara í auðmýkt sinni og stöðugt ákveðnara í trúnni á Krist, þar til sálir þess fylltust gleði og huggun.“19 Drottinn lofar öllum sem keppa að því að fylgja sér: „Ég mun veita þér af anda mínum, sem mun upplýsa huga þinn, sem mun fylla sál þína gleði.“20

Gleði þess að hjálpa öðrum að iðrast

Eftir að við höfum fundið gleðina sem hlýst af einlægri iðrun, viljum við eðlilega miðla öðrum þeirri gleði. Þegar við gerum það margfaldast gleði okkar. Það var einmitt það sem gerðist hjá Alma.

„Dýrð mín er sú,“ sagði hann, „að ég verði ef til vill verkfæri í höndum Guðs til að vekja einhverja sál til iðrunar. Í því er gleði mín fólgin.

Og sjá. Þegar ég sé marga bræður mína iðrast af einlægni og snúa til Drottins Guðs síns, fyllist sál mín gleði. Þá minnist ég þess, sem Drottinn hefur gjört fyrir mig. … Já, þá minnist ég hans miskunnsama arms, sem hann hefur rétt mér.“21

Að hjálpa öðrum að iðrast, er eðlileg tjáning þakklætis okkar til frelsarans; og hún er uppspretta mikillar gleði. Drottinn hefur lofað:

„Og fari svo, að þér … og leiðið, ekki … nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!

Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín, … hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!“22

„Hversu mikil er gleði hans yfir þeirri sál sem iðrast“

Mér finnst gagnlegt að reyna að ímynda mér þá gleði sem frelsarinn hlýtur að finna í hvert sinn sem við hljótum blessanir friðþægingarfórnar hans í lífi okkar.23 Eins og Nelson forseti sagði,24 þá miðlaði Páll postuli í bréfi sínu til Hebrea sínum ljúfa skilningi: „Léttum … af okkur allri … viðloðandi synd. … Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið … á krossi … af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs.“25 Við tölum oft um sársauka og þjáningu Getsemane og Golgata, en sjaldan um þá miklu gleði sem frelsarinn hlýtur að hafa vænst þegar hann bauð líf sitt fyrir okkur. Augljóslega var sársauki hans og þjáning í okkar þágu, til að við gætum upplifað gleðina af því að snúa aftur með honum í nærveru Guðs.

Eftir að frelsarinn hafði kennt fólkinu í Ameríku til forna, tjáði hann því elsku sína með því að segja:

„Og sjá. Gleði mín er mikil, næstum fullkomin, vegna yðar. … Já, og faðirinn, ásamt öllum hinum heilögu englum, fagnar yfir yður. …

Í [ykkur] er gleði mín fullkomin.”26

Komið til Krists og takið á móti gleði hans

Bræður og systur, ég lýk með því að miðla persónulegu vitni mínu, sem ég lít á sem helga gjöf. Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari og lausnari heimsins. Ég veit að hann elskar hvert okkar. Hinn eini tilgangur hans, „verk [hans] og dýrð“27 er að hjálpa okkur að meðtaka fyllingu gleðinnar í honum. Ég er persónulegt vitni að því að leiðin til að upplifa gleði – gleði sem ekki er hægt að ímynda sér, er að iðrast daglega og koma til Jesú Krists.28 Það er ástæðan fyrir því að við erum hér á jörðu. Það er ástæðan fyrir því að Guð fyrirbjó sína miklu sæluáætlun fyrir okkur. Jesús Kristur er sannlega „vegurinn, sannleikurinn og lífið“29 og hið eina „nafn gefið undir himninum, sem frelsað getur manninn í Guðs ríki“30 Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.