Aðalráðstefna
Lifandi spámaður fyrir síðari daga
Aðalráðstefna apríl 2023


Lifandi spámaður fyrir síðari daga

Faðir á himnum hefur valið þá skipan að opinbera börnum sínum sannleika með spámanni.

Þegar ég var ungur drengur elskaði ég laugardaga, því allt sem ég gerði á þeim degi virtist ævintýri. En sama hvað ég gerði, þá var eitt mikilvægast og varð að koma á undan öllu öðru – sem var að horfa á teiknimyndir í sjónvarpinu. Einn slíkan laugardagsmorgun, þegar ég stóð við sjónvarpið og fór í gegnum rásirnar, komst ég að því að teiknimyndunum sem ég hugðist finna hafði verið skipt út fyrir útsendingu frá aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þar sem ég starði á sjónvarpið og kveinkaði mér yfir að engar teiknimyndir væru í boði, sá ég hvíthærðan mann í jakkafötum með bindi sitja í fallegum stól.

Það var eitthvað öðruvísi við hann, svo ég spurði elsta bróður minn: „Hver er þetta?“

Hann sagði: „Þetta er David O. McKay forseti; hann er spámaður.“

Ég man að ég skynjaði eitthvað og vissi einhvern veginn að hann væri spámaður. Þar sem ég var ungur drengur sem hafði unun af teiknimyndum, þá skipti ég um rás eftir það. En ég hef aldrei gleymt því sem ég skynjaði á þessu stutta, óvænta upplýsandi augnabliki. Stundum tekur aðeins augnablik að vita um gildi spámanns.1

Að vita með opinberun að lifandi spámaður sé á jörðu, breytir öllu.2 Það veldur því að maður hefur ekki áhuga á umræðu um hvenær spámaður talar sem spámaður eða hvort einhvern tíma megi réttlæta að hafna spámannlegri leiðsögn.3 Slík opinberuð þekking býður manni að treysta leiðsögn lifandi spámanns, jafnvel þótt við skiljum hana ekki til fulls.4 Þegar öllu er á botninn hvolft hefur fullkominn og kærleiksríkur faðir á himnum valið þá skipan að opinbera börnum sínum sannleika með spámanni, einhverjum sem aldrei hefur leitað sér slíkrar heilagrar köllunar og þarf ekki á aðstoð okkar að halda við að vera sér meðvitaður um eigin ófullkomleika.5 Spámaður er sá sem Guð hefur persónulega undirbúið, kallað, leiðrétt, innblásið, ávítað, helgað og stutt.6 Þess vegna erum við aldrei í andlegri hættu við að fylgja spámannlegri leiðsögn.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá vorum við öll á einhvern hátt útvalin í fortilverunni til að fæðast á þessum síðari dögum. Það er tvíþættur raunveruleiki sem tengist síðari dögum. Hinn fyrri er sá að kirkja Krists verður endurreist á jörðinni. Hinn síðari er sá að hlutirnir verða mjög krefjandi. Ritningarnar opinbera að á efstu dögum muni verða „kröftug haglhríð … send yfir til að tortíma gróðri jarðar,“7 plágur herja,8 [hernaður] og ófriðartíðindi og öll jörðin verður í uppnámi … og misgjörðir verða miklar.“9

Þegar ég var barn, var ég óttasleginn yfir þessum spádómum fyrir síðustu daga og bað þess að endurkoman yrði ekki á minni ævi – með nokkrum árangri fram að þessu. En nú bið ég um hið gagnstæða, jafnvel þótt spáðar áskoranir séu vísar,10 vegna þess að þegar Kristur snýr aftur til að ríkja mun allt sköpunarverk hans „[búa við öryggi].“11

Núverandi aðstæður í heiminum hafa valdið sumum skelfingu. Sem sáttmálsbörn Guðs, þurfum við ekki að eltast við þetta eða hitt til að vita hvernig sigla á í gegnum þessa erfiðu tíma. Við þurfum ekki að óttast.12 Kenningin og reglurnar sem við verðum að lifa eftir til að komast af andlega og standast líkamlega, eru að finna í orðum lifandi spámanns.13 Þess vegna lýsti M. Russell Ballard forseti því yfir að „það væri ekkert smáræði … að hafa spámann Guðs á meðal okkar.“14

Russell M. Nelson forseti hefur borið vitni um að „sú löngu tilskipaða forskrift Guðs að kenna börnum sínum með spámönnum fullvissi okkur um að hann muni blessa hvern spámann, svo og þau sem hlýða spámannlegri leiðsögn.15 Lykilatriðið er því að fylgja hinum lifandi spámanni.16 Bræður og systur, ólíkt gömlum myndasögubókum og klassískum bílum, verða spádómskenningar ekki verðmætari með aldrinum. Af þeirri ástæðu ættum við ekki að leitast við að nota orð fyrri spámanna til að vísa frá kenningum lifandi spámanna.17

Ég elska dæmisögurnar sem Jesús Kristur notaði til að kenna reglur fagnaðarerindisins. Ég ætla að segja ykkur frá raunverulegri dæmisögu í dag.

Dag einn gekk ég inn í mötuneyti í höfuðstöðvum kirkjunnar til að fá mér hádegisverð. Eftir að hafa fengið bakka með máltíð gekk ég inn í matsalinn og tók eftir borði þar sem allir þrír meðlimir Æðsta forsætisráðsins sátu, ásamt einum auðum stól. Óöryggi mitt varð til þess að ég fór snögglega á sveig við borðið og heyrði þá rödd spámanns okkar, Russells M. Nelson forseta, segja: „Allen, það er auður stóll hérna. Komdu og sestu niður hjá okkur.“ Ég gerði það þá.

Undir lok hádegisverðarins, varð ég hissa á að heyra hávært brakhljóð og þegar ég leit upp sá ég að Nelson forseti hafði sett plastvatnsflöskuna upp á endann, flatt hana út og síðan sett tappan aftur á.

Dallin H. Oaks forseti spurði síðan spurningarinnar sem mig langaði að spyrja: „Nelson forseti, hvers vegna ertu að fletja út plastvatnsflöskuna þína?

Hann svaraði: „Það auðveldar þeim sem meðhöndla endurvinnanlegt efni, vegna þess að það tekur ekki eins mikið pláss í endurvinnslugámnum.

Þegar ég velti þessu svari fyrir mér heyrði ég aftur sama brakhljóðið. Ég leit til hægri og Oaks forseti hafði flatt út plastvatnsflöskuna sína alveg eins og Nelson forseti. Ég heyrði síðan hljóð vinstra megin við mig og Henry B. Eyring forseti var líka að fletja út plastvatnsflöskuna sína, en þó með þeirri ólíku aðferð að hafa flöskuna lárétta, sem krafðist meiri áreynslu en að hafa flöskuna lóðrétta. Nelson forseti tók eftir þessu og sýndi honum vingjarnlega tæknina til að fletja flöskuna auðveldlega út.

Á þeim tímapunkti hallaði ég mér að Oaks forseta og spurði hljóðlega: „Er það ný endurvinnslukrafa í mötuneytinu að fletja út plastvatnsflöskurnar sínar?“

Oaks forseti svaraði með bros á vör: „Allen, maður verður að fylgja spámanninum.“

Ég var viss um að Nelson forseti hafi ekki verið að lýsa yfir einhverri endurvinnslu-kenningu í mötuneytinu þennan dag. En við getum þó lært af skjótum viðbrögðum18 Oaks forseta og Eyrings forseta að fylgja fordæmi Nelson forseta og gætni Nelsons forseta við að kenna þeim sem þátt tóku betri leið.19

Fyrir nokkrum árum miðlaði öldungur Neal A. Maxwell nokkrum athugunum og leiðsögn sem eiga spádómslega vel við okkar tíma:

„Á næstu mánuðum og árum mun atburðarás líklega krefjast þess að hver meðlimur geri upp við sig hvort hann [eða hún] fylgi Æðsta forsætisráðinu eða ekki. Meðlimir munu eiga erfiðara með að haltra lengi á milli tveggja skoðana. …

„… Við skulum skilja eftir heimild, svo að valkostir séu skýrir og leyfum öðrum að gera eins og þeim lystir frammi fyrir spámannlegri leiðsögn. …

Jesús sagði að þegar fíkjutrén taka að spíra, þá er ‚sumarið í nánd.‘ … Á þann hátt vitum við að sumarið er handan við hornið og því skulum við ekki mögla yfir hitanum!“20

Hin upprennandi kynslóð vex úr grasi á tíma þegar fíkjulaufin eru fleiri og hitinn hærri. Sá veruleiki leggur þyngri ábyrgð á kynslóðina sem þegar er vaxinn úr grasi, einkum varðandi að fylgja spámannlegri leiðsögn. Þegar foreldrar hunsa leiðsögn lifandi spámanns, glata þau ekki bara sjálf fyrirheitnum blessunum, heldur, það sem verra er, kenna þau börnum sínum að orð spámanns séu veigalítil eða að hægt sé að velja og hafna spámannlegri leiðsögn sem hlaðborð væri, án þess hugsa um hina andlegu vannæringu sem af því hlýst.

Öldungur Richard L. Evans sagði eitt sinn: „Sumir foreldrar telja ranglega að þeir geti slakað aðeins á hvað varðar hegðun og samræmi … að þeir geti slakað aðeins á grundvallaratriðum án þess að hafa áhrif á fjölskyldu sína eða framtíð hennar. En ef foreldri fer örlítið út af stefnu, er líklegt að börnin fari lengra en það fordæmi foreldris.“21

Sem kynslóð sem hefur það heilaga hlutverk að búa hina upprennandi kynslóð undir fyrirspáð hlutverk hennar á síðari dögum,22 og því hlutverki verður að framfylgja á tíma þegar áhrif óvinarins eru í hámarki,23 getum við ekki verið uppspretta ringulreiðar um mikilvægi þess að fylgja spámannlegri leiðsögn. Það er einmitt sú leiðsögn sem mun gera hinni upprennandi kynslóð mögulegt að sjá „óvininn meðan hann [er] enn víðs fjarri, og þá [getur hún] verið [reiðubúin]“ að standast árásir óvinarins.24 Það sem okkur virðist lítil frávik, smávægileg vanræksla eða lágvær gagnrýni til að bregðast við spádómlegri leiðsögn, getur leitt til þess að við göngum út á brún sáttmálsvegarins; en þegar óvininum vex ásmegin í lífi hinnar upprennandi kynslóðar, getur slíkt atferli haft þau áhrif að hún fari alfarið út af þeim vegi. Slík niðurstaða er of hátt kynslóðaverð.25

Sumum ykkar gæti fundist sem ykkur hafi mistekist í viðleitni ykkar til að fylgja leiðsögn Russells M. Nelson forseta. Ef sú er raunin, iðrist þá; byrjið aftur að fylgja leiðsögn hins útvalda spámanns Guðs. Hverfið frá truflun barnalegra teiknimynda og treystið hinum smurða Drottins. Fagnið, því enn og aftur „er spámaður í Ísrael.“26

Jafnvel þótt þið séuð óviss, ber ég vitni um að við getum staðist hita síðari daga og jafnvel þrifist á þeim. Við erum hin heilögu síðari daga og þetta eru miklir tímar. Við vorum óðfús að koma til jarðar á þessum tíma, í trausti þess að okkur væri ekki ætlað að hrasa þegar við stæðum frammi fyrir sífellt þykkari og ruglingslegri þoku óvinarins,27 heldur fremur að hlíta leiðsögn og ráðgjöf þess sem hefur sérstaka heimild til að segja við okkur og allan heiminn: „Svo segir Drottinn Guð.“28 Í hinu heilaga nafni spámannsins sem Guð reisti upp, hins heilaga Ísraels,29 já, Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson forseti bauð nýlega nemendum við Brigham Young háskólann að upplifa sömu persónulegu opinberunina: „Spyrjið himneskan föður hvort við séum sannlega postular og spámenn Drottins. Spyrjið hvort við höfum hlotið opinberanir um þetta og önnur mál“ („The Love and Laws of God“ [trúarsamkoma í Brigham Young háskóla, 17. sept. 2019], speeches.byu.edu). Sjá einnig Neil L. Andersen, „Spámaður Guðs,“ aðalráðstefna, apríl 2018: „Við höfum þau forréttindi sem Síðari daga heilög að fá persónulegt vitni um að köllun Nelsons forseta sé frá Guði.“ Sagan um trúarumbreytingu Alma, af því að hlusta á spámanninn Abinadi, er enn frekari staðfesting á því að opinberun um spámann sé tiltæk okkur öllum (sjá Mósía 13:5; 17:2).

  2. „Annað hvort höfum við spámann eða við höfum ekkert; og að hafa spámann, þá höfum við allt“ (Gordon B. Hinckley, „We Thank Thee, O God, for a Prophet,“ Ensign, jan. 1974, 122).

  3. „Að þeim sótti efi um spádómsandann og anda opinberunar. Og dómar Guðs blöstu við þeim“ (Helaman 4:23; sjá einnig Kenningu og sáttmála 11:25). „Við syngjum og höfum gert það ítrekað: ‚Vorn spámann vér þökkum þér, Drottinn, sem þekkir og leiðir oss hér.‘ Þeir eru mjög margir sem [ættu] að setja eftirskrift við þetta og segja: ‚Að því tilskildu að hann leiðbeini okkur í samræmi við eigin langanir og duttlunga‘“ (Teachings of Presidents of the Church: Heber J. Grant [2002], 80).

  4. „Stundum hljótum við leiðsögn sem við fáum ekki skilið eða sem virðist ekki eiga við um okkur, jafnvel eftir kostgæfna bæn og íhugun. Virðið ekki leiðsögnina að vettugi, hafið hana ykkur nálæga. Ef einhver sem þið treystuð rétti ykkur það sem virtist ekkert annað en sandur, með loforði um að hann hefði að geyma gull, gæti verið viturlegt af ykkur að halda á því í hendinni um hríð og hrista það varlega. Í hvert sinn sem ég hef gert það við leiðsögn spámanns, hafa gullflögurnar tekið að koma í ljós að nokkrum tíma liðnum og ég hef verið þakklátur“ (Henry B. Eyring, „Finding Safety in Counsel,“ Ensign, maí 1997, 26; sjá einnig 3. Nefí 1:13; Kenning og sáttmálar 1:14).

  5. Sjá 2. Nefí 4:17–18. „Dæmið mig ekki vegna ófullkomleika míns, ekki heldur föður minn vegna ófullkomleika hans, … færið heldur Guði þakkir fyrir að sýna yður ófullkomleika vorn, svo að þér getið lært og orðið vitrari en vér vorum“ (Mormón 9:31).

  6. Sjá Kenningu og sáttmála 3:6–8; sjá einnig Kenningu og sáttmála 93:47.

  7. Kenning og sáttmálar 29:16.

  8. Sjá Kenningu og sáttmála 84:97; sjá einnig Kenningu og sáttmála 87:6.

  9. Kenning og sáttmálar 45:26, 27.

  10. Sjá Kenningu og sáttmála 1:38.

  11. Hósea 2:18. „Því að ég mun opinbera mig frá himni í veldi og mikilli dýrð ásamt öllum herskörum himins og dvelja í réttlæti meðal manna á jörðu í þúsund ár, og hinir ranglátu munu ekki standa“ (Kenning og sáttmálar 29:11).

  12. Sjá 1. Nefí 22:16–17; sjá einnig Kenningu og sáttmála 59:23.

  13. „Því að sjá. Þeir hafa hafnað orðum spámannanna. [Hefði] faðir minn því [dvalið] í landinu, eftir að honum var boðið að flýja land, sjá, þá mundi hann einnig farast“ (1. Nefí 3:18; sjá einnig 2. Nefí 26:3; Kenning og sáttmálar 90:5).

  14. M. Russell Ballard, „His Word Ye Shall Receive,“ Liahona, júlí 2001, 65.

  15. Russell M. Nelson, „Biðjið, leitið, knýið á,“ aðalráðstefna, október 2009. „Enginn getur verið hamingjusamari en með því að hlíta ráðum hins lifandi spámanns“ (The Teachings of Lorenzo Snow, ritst. af Clyde J. Williams [1996], 86).

  16. „Hafið auga á þeim sem eru í forsæti kirkjunnar í dag eða á morgun og hafið þá að fyrirmynd lífs ykkar, fremur en að dvelja við það hvernig fornir spámenn kunna að hafa litið út eða hugsað eða talað“ (The Teachings of Harold B. Lee [1996], 525).

  17. Spencer W. Kimball forseti sagði eitt sinn að „þeir sem skreyta grafir hinna dauðu spámanna, taka núna að grýta hina lifandi“ (The Teachings of Spencer W. Kimball, ritst. af Edward L. Kimball [1982], 462). „Mikilvægustu orð sem við getum heyrt, íhugað og fylgt, eru þau sem opinberuð eru með lifandi spámanni“ (Ronald A. Rasband, „Þeir hlutir sem sálu minni tilheyra,“ aðalráðstefna, október 2021).

  18. „Þegar við heyrum leiðsögn Drottins setta fram með orðum forseta kirkjunnar, ættu viðbrögð okkar að vera jákvæð og skjót“ (M. Russell Ballard, His Word Ye Shall Receive,“ Liahona, júlí 2001).

  19. „Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur ávallt verið leidd af lifandi spámönnum og postulum. Þótt þjónar Drottins séu jarðneskir og mannlega breyskir, eru þeir engu að síður innblásnir til að auðvelda okkur að forðast andlega ógnandi aðstæður og komast örugg í gegnum jarðlífið, til okkar endanlega himneska ákvörðunarstaðar“ (M. Russell Ballard, „Guð er við stjórnvölinn,“ aðalráðstefna, október 2015).

  20. Neal A. Maxwell, „A More Determined Discipleship,“ Ensign, feb. 1979, 69, 70.

  21. Richard L. Evans, „Foundations of a Happy Home,“ í Conference Report, okt. 1964, 135–36.

  22. Sjá Kenning og sáttmálar 123:11; sjá einnig Robert D. Hales, „Our Duty to God: The Mission of Parents and Leaders to the Rising Generation,“ Liahona, maí 2010, 95–98.

  23. Sjá Kenningu og sáttmála 52:14.

  24. Kenning og sáttmálar 101:54.

  25. Sjá Mósía 26:1–4.

  26. 2. Konungabók 5:8.

  27. „Þér [skuluð] gefa gaum að öllum orðum hans og fyrirmælum, sem hann gefur yður þegar hann meðtekur þau, … því að gjörið þér það, … [mun] Drottinn Guð … reifa valdi myrkursins frá yður og láta himnana bifast yður til góðs og nafni sínu til dýrðar“(Kenning og sáttmálar 21:4, 6). „Enginn maður, sem einhvern tíma hefur fylgt kenningum eða meðtekið leiðsögn eða ráðgjöf frá þeim sem er fulltrúi Drottins, hefur nokkru sinni farið afvega“ (Doctrines of Salvation: Sermons and Writings of Joseph Fielding Smith, ritst. af Bruce R. McConkie [1998], 243).

  28. Esekíel 3:27. „Því að hans orði skuluð þér taka á móti með fullkominni þolinmæði og trú“ (Kenning og sáttmálar 21:5).

  29. Sjá 1. Nefí 22:20–21; sjá einnig 3. Nefí 20:23.