Aðalráðstefna
Einblínið á Jesú Krist
Aðalráðstefna apríl 2023


Einblínið á Jesú Krist

Drottinn Jesús Kristur er lausnin á vandamálum okkar, en við verðum að lyfta augliti okkar og skerpa sýn okkar til að sjá hann.

Faðir minn var vanur að segja við mig: „Ekki einblína svo mikið á vandamálin þín að þú sjáir ekki lausnina.“

Ég ber vitni um að Drottinn Jesús Kristur er lausnin á jafnvel erfiðustu vandamálum okkar. Nánar tiltekið, þá hefur hann sigrast á fjórum vandamálum sem hvert og eitt okkar stendur frammi fyrir og sem ekkert okkar getur leyst á eigin spýtur.

  1. Fyrsta vandamálið er líkamlegur dauði. Við getum reynt að draga hann á langinn eða hunsa hann, en við getum ekki sigrast á honum sjálf. Jesús Kristur sigraði hins vegar dauðann fyrir okkur og þar af leiðandi munum við öll rísa upp einn daginn.1

  2. Annað vandamálið felur í sér þrengingar, erfiða reynslu, sorg, sársauka og ósanngirni þessa heims. Jesús Kristur sigraði allt þetta. Fyrir þá sem leggja sig fram við að fylgja honum, mun hann einn daginn „þerra hvert tár“ og setja hlutina aftur í réttar skorður.2 Í millitíðinni getur hann styrkt okkur til að takast á við prófraunir okkar með sjálfstrausti, gleði og friði.3

  3. Þriðja vandamálið er andlegur dauði sem stafar af synd. Jesús Kristur sigraðist á þessu vandamáli með því að taka á sig „[hegninguna] sem vér höfðum til unnið.“4 Vegna friðþægingarfórnar hans, getum við losnað undan afleiðingum synda okkar ef við trúum á frelsarann, iðrumst af einlægni, tökum á móti sáttmálanum sem faðirinn býður okkur með nauðsynlegum helgiathöfnum, eins og skírn, og stöndumst allt til enda.5

  4. Fjórða vandamálið er okkar takmarkaða, ófullkomna eðli. Jesús Kristur hefur líka lausnina á þessu vandamáli. Hann afmáir ekki bara mistök okkar og gerir okkur saklaus aftur. Hann getur valdið „mikilli breytingu … í hjörtum okkar, [svo] að við hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka.“6 Við getum fullkomnast fyrir náð Krists og dag einn orðið eins og hann er.7

Því miður einbeitum við okkur of oft svo mikið að eigin vandamálum að við missum sjónar af lausninni, frelsara okkar Jesú Kristi. Hvernig forðumst við þau mistök? Ég trúi að svarið liggi í sáttmálunum sem okkur er boðið að gera við hann og föður okkar á himnum.

Einblína á Jesú Krist fyrir tilverknað sáttmála

Sáttmálar okkar gera okkur kleift að beina athygli okkar, hugsunum og gjörðum að Kristi. Þegar við „[höldum] fast við þá sáttmála sem [við höfum] gjört,“ eigum við auðveldar með að bera kennsl á „það, sem þessa heims er“ og okkur ber að „leggja til hliðar“ og leita þess af kostgæfni „sem betra er.“8

Það gerði einmitt fólk Ammons í Mormónsbók. Þegar það lærði um Jesú Krist og fór að einbeita sér að honum, fann það að það ætti að grafa stríðsvopn sín og verða fullkomlega heiðarlegt og „[einkennast] af guðrækni sinni.“9

Að halda sáttmála, fær okkur til að leita að hverju því sem býður heim áhrifum andans og hafna hverju því sem hrekur hann burtu – „því við vitum, að ef við getum verið verðug návistar heilags anda, getum við einnig verið verðug þess að dvelja í návist himnesks föður og sonar hans, Jesú Krists.“10 Þetta gæti þýtt að við verðum að breyta orðaforða okkar og nota ljúfari orð. Þetta gæti þýtt að skipta út andlega óheilbrigðum venjum fyrir nýjar venjur sem styrkja samband okkar við Drottin, eins og daglegar bænir og ritningarnám, á eigin spýtur og með fjölskyldu okkar.

Russell M. Nelson forseti sagði: „Sérhver einstaklingur sem gerir sáttmála í skírnarfonti og í musteri – og heldur þá – hefur aukinn aðgang að krafti Jesú Krists. …

Umbun þess að halda sáttmála við Guð, er himneskur kraftur – kraftur sem styrkir okkur til að standast betur prófraunir okkar, freistingar og sorgir.“11

Að endurnýja sáttmála okkar meðan á sakramentinu stendur á hverjum sunnudegi, er gott tækifæri til að meta okkur sjálf12 og beina lífi okkar aftur að Jesú Kristi. Þegar við meðtökum sakramentið, lýsum við yfir að við munum „hafa hann ávallt í huga.“13 Orðið ávallt er afar þýðingarmikið. Það kveður á um áhrif frelsarans í öllum þáttum lífs okkar. Við minnumst hans ekki aðeins í kirkju eða í morgunbænum okkar eða þegar við eigum í vandræðum og okkur vantar eitthvað.

Já, við látum stundum truflast. Við gleymum. Við missum einbeitinguna. En að endurnýja sáttmála okkar þýðir að við viljum ávallt hafa frelsarann í huga, að við munum reyna að gera það alla vikuna og að við munum endurskuldbinda okkur og einblína aftur á hann við sakramentisborðið í næstu viku.

Einblína á Jesú Krist á heimilum okkar

Ljóst er að það hlýtur að vera meira en sunnudagsathöfn í kirkju að einblína á Jesú Krist. Þegar Nelson forseti kynnti Kom, fylg mér árið 2018, sagði hann: „Það er tími kominn á heimamiðaða kirkju.“14 Hann bauð okkur að „breyta heimili okkar í griðarstað trúar“ og „miðstöð trúarnáms.“ Og hann gaf okkur fjögur dásamleg loforð, ef við gerðum það.15

Fyrsta loforðið: „Hvíldardagar ykkar munu sannlega verða feginsdagar.“ Þeir munu verða dagur þar sem þið komist nær frelsaranum. Eins og stúlka frá Perú sagði: „Dagur Drottins er sá dagur sem ég fæ flest svör frá Drottni.“

Annað loforðið: „Börn ykkar munu verða spennt yfir því að læra og lifa eftir kenningum frelsarans.“ Af þessari ástæðu: „Tölum [vér] um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, … svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“16

Við gerum þetta til þess að dag einn, er sonur okkar fer út að vinna eða til að ganga á fjöll eða til að veiða dýr í skóginum, eins og Enos gerði, muni hann minnast þess sem við kenndum honum um Krist og um gleðina af því að lifa eftir fagnaðarerindinu. Og hver veit? Ef til vill verður þetta sá dagur sem hann mun loks finna andlega hungrið sem snýr honum að Jesú Kristi, svo hann geti heyrt rödd Drottins segja við sig: „Syndir þínar eru fyrirgefnar, og þú munt blessaður verða.“17

Þriðja loforðið: „Áhrif andstæðingsins á líf ykkar og heimili ykkar, munu minnka.“ Af hverju? Vegna þess að því meira sem við einblínum á Jesú Krist, því minna mun syndin höfða til okkar.18 Þegar heimili okkar eru fyllt ljósi frelsarans, verður stöðugt minna rými fyrir myrkur andstæðingsins.

Fjórða loforðið: „Breytingarnar á fjölskyldum ykkar munu verða afgerandi og varanlegar.“ Af hverju? Vegna þess að sú breyting sem Jesús Kristur færir, er „[mikil breyting].“19 Hann breytir eðli okkar; við verðum „ný sköpun.“20 Við verðum smám saman líkari frelsaranum, fyllt hreinni ást hans til allra barna Guðs.

Hver myndi ekki vilja að þessi loforð yrðu að veruleika í lífi sínu og fjölskyldu? Hvað þurfum við að gera til að þau verði okkar? Svarið er að breyta heimili okkar í griðarstað trúar og miðstöð trúarnáms. Og hvernig gerum við það? Með því að einblína á himneskan föður og Jesú Krist, gera þá að miðpunkti fjölskyldulífs okkar, mikilvægustu áhrifavalda á heimili okkar.

Gæti ég lagt til að þið hæfuð að gera orð Krists, sem finnast í ritningunum, að daglegum hluta lífs ykkar? Það er engin ávísuð forskrift að fullkomnu ritningarnámi. Það gætu verið 5 eða 10 mínútur á hverjum degi – eða lengur ef þið getið. Það gæti verið einn kapítuli eða nokkur vers á dag. Sumar fjölskyldur kjósa að læra á morgnana áður en þær fara í skóla eða vinnu. Aðrir kjósa að lesa á kvöldin fyrir svefn. Nokkur ung pör hafa sagt mér að þau læri hvort fyrir sig á leið í vinnu og miðli síðan hvort öðru skilningi með textaskilaboðum, svo að athugasemdir þeirra og umræður séu skráðar.

Í Kom, fylg mér eru margar tillögur að verkefnum og úrræðum sem geta hjálpað einstaklingum og fjölskyldum að læra reglur fagnaðarerindisins í ritningunum. Myndbönd Biblíunnar og myndbönd Mormónsbókar geta líka verið dýrmæt verkfæri til að gera ritningarnar aðgengilegri fyrir fjölskyldu ykkar. Ungmenni og börn eru oft innblásin af eftirminnilegum sögum í ritningunum. Þessar sögur og reglur fagnaðarerindisins sem þær kenna, munu vera hjá börnum ykkar, eins og traustir vinir, þegar þau þurfa gott fordæmi um þjónustu, dyggð, hlýðni, þolinmæði, þrautseigju, persónulega opinberun, kærleika, auðmýkt og trú á Jesú Krist. Með tímanum mun reglubundin endurnæring ykkar á orði Guðs hjálpa börnum ykkar að vaxa nær og nær frelsaranum. Þau munu kynnast honum aldrei sem áður.

Drottinn Jesús Kristur lifir í dag. Hann getur verið virk, dagleg nærvera í lífi okkar. Hann er lausnin á vandamálum okkar, en við verðum að lyfta augliti okkar og skerpa sýn okkar til að sjá hann. Hann sagði: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.“21 Þegar við einblínum á hann og föður okkar á himnum, gerum og höldum sáttmála við þá og gerum þá að mikilvægustu áhrifavöldum á heimili okkar og í fjölskyldunni, verðum við þess konar fólk sem Nelson forseti sá fyrir sér: „Fólk sem er hæft, reiðubúið og verðugt til að taka á móti Drottni þegar hann kemur aftur; fólk sem þegar hefur valið Jesú Krist fram yfir þennan fallna heim; fólk sem gleðst yfir sjálfræði sínu til að lifa eftir æðri, helgari lögmálum Jesú Krists.“22 Í nafni Jesú Krists, amen.