Aðalráðstefna
Hann gat læknað mig!
Aðalráðstefna apríl 2023


Hann gat læknað mig!

Lækning frelsarans og endurleysandi kraftur á við í tilfellum slysalegra mistaka, slæmra ákvarðana, áskorana og hvers kyns erfiðleika – jafnt og synda okkar.

Moróní lofar því að ef við lesum Mormónsbók og spyrjum síðan Guð, eilífan föður, með einlægu hjarta og einbeittum huga, í trú á Krist hvort hún sé sönn, mun Guð opinbera okkur sannleiksgildi hennar fyrir kraft heilags anda.1 Milljónir manna hafa látið reyna á þetta loforð og meðtekið fullvissu um endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists.

Moróni hvetur okkur, er við lesum Mormónsbók, til að hafa „það hugfast, hve miskunnsamur Drottinn hefur verið mannanna börnum frá sköpun Adams og allt fram til [þessa] tíma, … og [ígrundum] það í hjörtum [okkar].“2 Sögurnar og kenningarnar í Mormónsbók minna okkur á og bera vitni um elsku frelsarans, samúð og miskunn.

Faðir minn lést í apríl 2013. Þegar ég bjó mig undir að tala við jarðaför hans, gerði ég mér grein fyrir því hve blessaður ég var að þekkja og unna uppáhalds ritningargreinum hans. Hann miðlaði þeim á fjölskyldustundum og hann las þær með mér þegar ég þarfnaðist ráða, leiðsagnar og trúarstyrks. Ég heyrði hann miðla þeim í ræðum og verkefnum. Ég þekkti þær ekki bara, heldur get ég einnig munað rödd hans og þá andlegu tilfinningu sem það veitti mér er hann miðlaði þeim. Með því að miðla ritningargreinum og tilfinningum, hjálpaði faðir minn mér að byggja upp sterkan grundvöll trúar á Drottni Jesú Kristi.

Faðir minn unni sérstaklega frásögninni af heimsókn frelsarans til fólks Nefí.3 Sú helga frásögn fjallar um hinn endurreista og upphafna Jesú Krist. Hann hafði bergt þennan beiska bikar og þjáðst fyrir allt svo að við þyrftum ekki að þjást ef við myndum iðrast.4 Hann hafði heimsótt andaheiminn og skipulagt kennslu fagnaðarerindisins þar.5 Hann hafði risið frá dauðum og hafði verið með og meðtekið boðorð frá föðurnum um að deila ritningum með Nefítunum sem myndu blessa kynslóðir framtíðar.6 Hann var upphafinn og hafði öðlast allan sinn eilífðar kraft og getu. Við getum lært af hverju smáatriði kennslu hans.

Í 3.Nefí 11 lesum við hvernig frelsarinn steig niður af himnum til að kenna Nefítunum að hann væri Jesús Kristur, sem spámennirnir höfðu spáð að koma myndi í heiminn. Hann lýsti því yfir að hann væri ljós heimsins og að hann gerði föðurinn dýrðlegan með því að taka á sig syndir heimsins. Hann bauð fólkinu að stíga fram og þrýsta höndum sínum að síðu sinni og finna naglaförin á höndum sínum og fótum. Hann vildi að þau vissu að hann væri Guð Ísraels, sem deyddur var fyrir syndir heimsins. Fólkið brást við í gleði, steig fram hvert af öðru uns allir höfðu séð og fundið að það var sannarlega hann, sem spámennirnir höfðu ritað um að myndi koma.7

Jesús kenndi Nefítunum um mikilvægi iðrunar, um að verða sem lítið barn og mikilvægi þess að vera skírð af þeim sem hefur umboð frá sér. Hann kenndi þeim því næst mikið af þeirri kenningu sem við erum að læra um þetta árið í Nýja testamentinu.

Í 3. Nefí 17 lesum við að Jesús sagði fólkinu að það væri kominn tími fyrir hann að fara til föður síns og einnig að sýna sig hinum týndu ættkvíslum Ísraels.8 Er hann leit yfir mannfjöldann, sá hann að fólkið grét og starði á hann, eins og það vildi biðja hann að dvelja örlítið lengur.9

Svar frelsarans til Nefítanna var bæði hjartnæmt og leiðbeinandi. Hann sagði við þá: „Sjá, hjarta mitt er fullt samúðar með yður.“10

Ég trúi því að samúð hans hafi verið mun meira en bara svar við tárum fólksins. Svo virðist sem hann hafi séð fólkið með augum friðþægingarfórnar sinnar. Hann sá hvern sársauka þess, þjáningar og freistingar. Hann sá veikindi þess. Hann sá ófullkomleika þess og hann vissi fyrir kvalafullar þjáningar sínar í Getsemane og á Golgata hvernig lækna ætti ófullkomleika þess.11

Á svipaðan hátt sér frelsarinn, Jesús Kristur, og skilur þann sársauka og syndabyrðir sem við berum, þegar hann litur á okkur. Hann sér ánetjanir okkar og áskoranir. Hann sér alla baráttu okkar og þjáningar – og hann er fylltur samúð gagnvart okkur.

Náðarsamlegt boð hans til Nefítanna kom í kjölfarið: „Eru nokkrir sjúkir yðar á meðal? Færið þá hingað. Eru einhverjir lamaðir, blindir, haltir, særðir, holdsveikir, tærðir, daufir eða þjáðir á einhvern hátt? Færið þá hingað, og ég mun gjöra þá heila, því að ég hef samúð með yður. Hjarta mitt er fullt miskunnar.“12

Fólkið kom þá með „alla þá, sem þjáðir voru á einhvern hátt. Og hann læknaði þá, hvern og einn, er þeir voru leiddir fyrir hann.“13

Árið 1990 bjuggum við í hinum litla bæ Sale, í Viktoríu, Ástralíu. Við vorum sátt og önnum kafin með fjölskyldu, kirkju og vinnuskuldbindingar. Fallegan laugardag um sumarið, rétt fyrir jól, ákváðum við að heimsækja nokkra almenningsgarða og uppáhaldsströnd. Eftir að hafa átt yndislegan dag sem fjölskylda, pökkuðum við öllum saman inn í bílinn og lögðum af stað heim. Á keyrslunni sofnaði ég augnablik og varð valdur að umferðarslysi. Eftir að hafa jafnað mig í smá stund horfði ég yfir bifreiðina. Eiginkona mín, Maxine, var með slæmt fótbrot og átti erfitt með að anda. Hún var með brotið bringubein. Þrjár dætur okkar voru í áfalli en virtust allar vera heilar á húfi. Ég var með minniháttar meiðsli. Hins vegar var fimm mánaða sonur okkar meðvitundarlaus.

Í allri streitunni og ringulreiðinni sem fylgdi slysinu, sagði elsta dóttir okkar, hin 11 ára gamla Kate, mjög ákveðið: „Pabbi þú verður að veita Jarom blessun.“ Eftir smá erfiðleika, náðum ég og dætur mínar að komast út úr bílnum. Ekki mátti hreyfa við Maxine. Ég tók Jarom varlega upp og því næst lagði ég hann varlega á brjóst mitt, þar sem ég lá á jörðinni, og veitti honum prestdæmisblessun. Þegar sjúkrabíllinn kom um 40 mínútum seinna, var Jarom kominn til meðvitundar.

Þetta kvöld skildi ég þrjá fjölskyldumeðlimi eftir á sjúkrahúsinu og fór þögull heim í leigubíl, ásamt tveimur dætrum mínum. Alla nóttina grátbað ég himneskan föður um að fjölskylda mín og þeir sem í hinum bílnum voru, myndu ná heilsu. Af miskunnsemd var bænum mínum og heitum bænum margra annarra svarað. Allir náðu smám saman heilsu, mikil blessun og miskunnsemd sem það var.

Samt hélt ég áfram að upplifa djúpa sektarkennd og eftirsjá fyrir að hafa valdið svo hræðilegu slysi. Ég vaknaði á næturnar og endurupplifði hina hræðilegu atburði. Það tók mig mörg ár að fyrirgefa sjálfum mér og finna frið. Þegar ég síðan, sem prestdæmisleiðtogi, var að aðstoða aðra við iðrun og hjálpa þeim að finna samúð, miskunn og elsku frelsarans, gerði ég mér grein fyrir að hann gæti læknað mig.

Lækning frelsarans og endurleysandi kraftur á við í tilfellum slysalegra mistaka, slæmra ákvarðana, áskorana og hvers kyns erfiðleika – jafnt og synda okkar. Þegar ég snéri mér til hans, náði ég að skipta tilfinningum sektar og eftirsjár út fyrir frið og hvíld.

Russell M. Nelson forseti kenndi: „Þegar frelsarinn friðþægði fyrir alla menn, gerði hann þeim sem fylgja honum mögulegt að hafa aðgang að mætti lækningar, styrkingar og endurlausnar. Þessi andlegu forréttindi standa öllum til boða sem leitast við að hlýða á hann og fylgja honum.“14

Bræður og systur, hvort sem þið eruð að bera byrðir óafgreiddra synda, þjáist vegna afbrots sem beint var gegn ykkur fyrir löngu síðan eða eruð að reyna fyrirgefa ykkur sjálfum fyrir slysaleg mistök, þá hafið þig aðgang að læknandi og endurleysandi krafti frelsarans, Jesú Krists.

Ég ber vitni um að hann lifir. Hann er frelsari okkar og lausnari. Hann elskar okkur. Hann hefur samúð með okkur, hann er fylltur miskunn og hann getur læknað ykkur. Í nafni Jesú Krists, amen.