Aðalráðstefna
Eitt í Kristi
Aðalráðstefna apríl 2023


Eitt í Kristi

Það er einungis í og með einstaklingshollustu við Jesú Krist og elsku til hans, sem við getum öðlast von um að vera eitt.

Eins og Dallin H. Oaks forseti sagði, þá er pálmasunnudagur í dag, upphaf dymbilviku, sem markar hina sigursælu inngöngu Drottins í Jerúsalem, þjáningu hans í Getsemane og dauðann á krossinum nokkrum dögum síðar, og svo dýrðlega upprisu hans á páskadegi. Ákveðum nú að gleyma aldrei því sem Kristur þoldi til að endurleysa okkur.1 Gleymum heldur aldrei hinni yfirþyrmandi gleði sem við upplifum síðan aftur á páskum, er við hugleiðum sigur hans yfir gröfinni og gjöf altækrar upprisu.

Kvöldið fyrir raunir hans og krossfestingu, sem beið hans, tók Jesús þátt í páskamáltíð með postulum sínum. Undir lok síðustu kvöldmáltíðarinnar, í heilagri fyrirbæn, bað Jesús til föður síns í þessum orðum: „Heilagi faðir, varðveit [postula mína] í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við.“2

Því næst víkkaði hann bæn sína út, til að hún fæli í sér alla trúaða.

„Ég bið ekki einungis fyrir þessum heldur og fyrir þeim sem á mig trúa fyrir orð þeirra,

að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur.“3

Að verða eitt er endurtekið þema í fagnaðarerindi Jesú Krists og í samskiptum Guðs við börn hans. Með tilliti til borgarinnar Síon á tímum Enoks, þá er sagt að „hugur hennar og hjarta voru eitt.“4 Í Nýja testamentinu, segir um hina heilögu í frumkirkju Jesús Krists: „Í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál.“5

Í okkar ráðstöfun áréttar Drottinn: „Ég segi yður: Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.“6 Meðal þeirra ástæðna sem Drottinn gaf okkur að hinir heilögu í Missouri hefðu ekki náð að stofna Síon, var að þeir voru „ekki [sameinaðir] á þann hátt, sem lögmál himneska ríkisins krefst.“7

Þegar Guð ræður ríkjum í hjörtum okkar og hugum er fólkið „eitt, börn Krists.“8

Þegar hinn upprisni Drottinn birtist fólkinu í Mormónsbók til forna, hafði hann orð á því, í vanþóknun, að áður hefði verið ágreiningur meðal fólksins varðandi skírn og önnur málefni. Hann bauð:

„Engin sundrung skal vera á meðal yðar, eins og hingað til hefur verið. Ekki skal heldur vera neinn ágreiningur meðal yðar um kenningar mínar, eins og hingað til hefur verið.

Því að sannlega, sannlega segi ég yður, að sá, sem haldinn er anda sundrungar er ekki minn, heldur djöfulsins, sem er faðir sundrungar.“9

Hvernig er hægt að ná einingu í okkar einstaklega deilugjarna heimi, sérstaklega í kirkjunni þar sem ætlast er til að „einn [sé] Drottinn, ein trú, ein skírn“?10 Páll veitti okkur lykilinn:

„Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi.

Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“11

Við erum líka fjölbreytt og stundum of ósamhljóma til að geta komið saman sem eitt undir neinum öðrum forsendum eða nafni. Einungis í Jesú Kristi getum við sannarlega orðið eitt.

Að vera eitt í Kristi gerist einn í einu – hvert og eitt okkar byrjar á sér sjálfu. Við erum tvíþættar verur líkama og anda og stundum erum við í stríði við okkur sjálf. Eins og Páll orðaði það:

„Í hjarta mínu hef ég mætur á lögmáli Guðs.

En ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.“12

Jesús var einnig vera líkama og anda. Hann var reyndur, hann skilur, hann getur hjálpað okkur að ná einingu hið innra.13 Þess vegna leggjum við okkur fram við að andi okkar – og heilagur andi – nái yfirhöndinni yfir líkamanum, með því að sækja kraft í ljós og náð Krists. Og þegar okkur mistekst hefur Kristur, með friðþægingu sinni, veitt okkur gjöf iðrunar og tækifæri til að reyna aftur.

Ef hvert og eitt okkar „íklæðist [Kristi],“ þá getum við vonast til að verða eitt, eins og Páll sagði, „líkami Krists.“14 Að „íklæðast Kristi“ þýðir að gera hið „æðsta og fremsta boðorð“15 sannarlega að okkar æðsta og fremsta boðorði, og ef við elskum Guð, þá munum við halda boðorð hans.16

Eining með bræðrum okkar og systrum í líkama Krists vex er við höldum annað boðorðið – sem er órjúfanlega tengt hinu fyrsta – að elska aðra eins og okkur sjálf.17 Ég reikna með að enn fullkomnari eining fengist, ef við fylgdum hærri og heilagri tjáningu annars boðorðs frelsarans – að elska hvert annað, ekki einungis eins og við elskum okkur sjálf, heldur eins og hann elskaði okkur.18 Í stuttu máli er það þegar „sérhver maður [ber] hag náunga síns fyrir brjósti og [gjörir] allt með einbeittu augliti á dýrð Guðs.“19

Marion G. Romney forseti, fyrrum ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði eftirfarandi þegar hann útskýrði hvernig öðlast megi varanlegan frið og einingu:

„Ef einstaklingur, sem lætur undan þrýstingi Satans, er fylltur verkum holdsins, þá er ófriður hið innra. Ef tveir láta undan, er ófriður hið innra og þeirra á milli. Ef margir láta undan, uppsker samfélagið mikið álag og sundurlyndi. Ef stjórnendur ríkis láta undan, þá skapast deilur um allan heim.“

Romney forseti hélt áfram: „Þar sem verk holdsins hefur alheimsáhrif, þá hefur friðarboðskapurinn það einnig. Ef einn lifir eftir því, er friður hið innra. Ef tveir menn lifa eftir því, eru þeir báðir sáttir hið innra og sín á milli. Ef borgararnir lifa eftir því, þá er innanríkisfriður. Þegar nægilega margar þjóðir njóta uppskeru andans við að stýra heimsmálum, þá og aðeins þá munu stríðsbumburnar ekki slá lengur og bardagafánar dregnir að húni. … (Sjá Alfred Lord Tennyson, „Locksley Hall,“ The Complete Poetical Works of Tennyson, útg. W. J. Rolfe, Boston: Houghton–Mifflin Co., 1898, síða 93, línur 27–28.)“20

Þegar við „íklæðumst Kristi,“ verður mögulegt að leysa eða leggja ágreining, ósætti og deilur til hliðar. Frekar áhrifamikið dæmi um að sigrast á ósætti má finna í sögu kirkjunnar. Öldungur Brigham Henry Roberts (oftast nefndur B. H. Roberts), fæddur í Englandi árið 1857, þjónaði sem meðlimur í Fyrsta forsætisráði hinna Sjötíu – sem við þekkjum í dag sem Forsætisráð hinna Sjötíu. Öldungur Roberts var duglegur og óþreytandi í baráttu sinni fyrir hinu endurreista fagnaðarerindi og kirkjunni á sumum af erfiðustu tímum hennar.

Ljósmynd
Ungur B. H. Roberts

Árið 1897 var þjónusta öldungs Roberts í kirkjunni sett í hættu vegna ágreinings. B. H. hafði verið skipaður fulltrúi á fundinum sem setti saman stjórnarskrá fyrir Utah, þegar það varð að ríki. Eftir það, ákvað hann að bjóða sig fram til Bandaríkjaþings en tilkynnti það ekki né leitaði leyfis frá Æðsta forsætisráðinu. Joseph F. Smith forseti og ráðgjafar hans í Æðsta forsætisráðinu gagnrýndu B. H. á prestdæmisfundi fyrir að hafa ekki gert svo. Öldungur Roberts tapaði kosningunni en fannst að ósigur sinn hafi að miklu orðið vegna yfirlýsinga Smiths forseta. Hann gagnrýndi leiðtoga kirkjunnar í nokkrum stjórnmálaræðum og viðtölum. Hann dró sig úr virku starfi í kirkjunni. Á löngum fundi í Salt Lake-musterinu með meðlimum Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostularáðinu var B. H. ákveðinn í að réttlæta sjálfan sig. Seinna veitti „[Wilford] Woodruff forseti [öldungi Roberts] þrjár vikur til að endurskoða stöðu sína. Ef hann væri áfram án iðrunar, myndu þeir leysa hann af sem einn hinna Sjötíu.“21

Á einkafundi með postulunum Heber J. Grant og Francis Lyman sem fylgdi, var B. H. jafn ósveigjanlegur, en kærleikur og heilagur andi sigruðu að lokum. Hann táraðist. Postularnir tveir náðu að ræða upplifun B. H. um vanvirðingu og móðganir á vissum málum sem höfðu angrað hann og þeir yfirgáfu fundinn með hjartanlega ósk um sættir. Næsta morgun, eftir langa bæn, sendi öldungur Roberts bréf til öldunga Grant og Lyman um að hann væri tilbúinn að sameinast bræðrum sínum á ný.22

Þegar hann fundaði seinna með Æðsta forsætisráðinu, sagði öldungur Roberts: „Ég fór til Drottins og meðtók ljós og leiðsögn í gegnum heilagan anda, um að beygja mig undir vald Guðs.“23 Hvattur áfram af elsku hans til Guðs, var B. H. Roberts áfram trúr og dugmikill kirkjuleiðtogi til æviloka.24

Ljósmynd
Öldungur B. H. Roberts

Við getum einnig séð í þessu dæmi að eining þýðir ekki einfaldlega að samþykkja að allir ættu bara að gera „hans eða hennar hluti“ eða fara hans eða hennar leið. Við getum ekki verið eitt nema að við leggjumst öll á árarnar fyrir sameiginlegt markmið. Það þýðir, með orðum B. H. Roberts, að beygja okkur undir vald Guðs. Við erum mismunandi hlutar líkama Krists, uppfyllum mismunandi hlutverk á ólíkum stundum – eyrað, augað, höfuðið, hendurnar, fæturnar – samt allt hlutar sama líkama.25 Þar af leiðandi er markmið okkar það að „ekki yrði ágreiningur í líkamanum heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.“26

Eining krefst ekki einsleika, en hún krefst samhljóms. Hjörtu okkar geta verið bundin saman í kærleika, verið eitt í trú og kenningu og samt hvatt mismunandi lið, verið ósammála um ýmis stjórnmálaleg málefni, rökrætt markmið og réttu leiðina að þeim og margt annað þess háttar. Við megum hins vegar aldrei vera ósátt eða sýna hvert öðru reiði eða fyrirlitningu. Frelsarinn sagði:

„Því að sannlega, sannlega segi ég yður, að sá, sem haldinn er anda sundrungar er ekki minn, heldur djöfulsins, sem er faðir sundrungar og egnir menn til deilna og reiði hver gegn öðrum.

Sjá! Það er ekki mín kenning að egna menn til reiði hver við annan, heldur er það kenning mín, að slíkt skuli afnumið.“27

Fyrir ári síðan, bað Russell M. Nelson forseti okkur um eftirfarandi með þessum orðum: „Ekkert okkar getur stjórnað þjóðum eða gjörðum annarra, eða jafnvel fjölskyldumeðlimum okkar. Við getum þó haft stjórn á okkur sjálfum. Ákall mitt í dag, kæru bræður og systur, er að þið bindið enda á átök sem geisa í hjörtum ykkar, á heimilum ykkar og í lífi ykkar. Grafið hvers kyns tilhneigingar til að særa aðra – hvort sem þær tilhneigingar eru skapofsi, illyrði eða gremja gagnvart einhverjum sem hefur sært ykkur. Frelsarinn bauð okkur að bjóða hinn vangann [sjá 3. Nefí 12:39], að elska óvini okkar og að biðja fyrir þeim sem misnota okkur [sjá 3. Nefí 12:44].“28

Ég segi aftur að það er einungis í og með einstaklingshollustu okkar og elsku gagnvart Jesú Kristi að við getum vonast til að vera eitt – eitt hið innra, eitt heima við, eitt í kirkjunni og að lokum eitt í Síon, og framar öllu, eitt með föðurnum og syninum og heilögum anda.

Ég sný aftur að atburðum dymbilvikunnar og algerum sigri lausnara okkar. Upprisa Jesú Krists ber vitni um guðdómleika hans og að hann hafi sigrast á öllu. Upprisa hans ber vitni um að við getum einnig sigrast á öllu og orðið eitt ef við erum bundin honum í sáttmála. Upprisa hans ber vitni um að ódauðleiki og eilíft líf eru raunveruleg fyrir tilstuðlan hans.

Í dag ber ég vitni um bókstaflega upprisu hans og alls þess sem hún felur í sér, í nafni Jesú Krists, amen.