Aðalráðstefna
Jesús Kristur er styrkur foreldra
Aðalráðstefna apríl 2023


Jesús Kristur er styrkur foreldra

Hjálpið börnum ykkar að styrkja trú sína á Jesú Krist, að elska fagnaðarerindi hans og kirkju og búa sig undir ævilangar réttlátar ákvarðanir.

Einu sinni var faðir í þann mund að fara á biskupsráðsfund að kvöldi. Fjögurra ára dóttir hans steig fram fyrir hann, íklædd náttfötum og hélt á eintaki af Sögum úr Mormónsbók.

„Af hverju þarftu að fara á fund?“ spurði hún.

„Vegna þess að ég er ráðgjafi í biskupsráðinu,“ svaraði hann.

„En þú ert pabbi minn!“ mótmælti dóttir hans.

Hann kraup fyrir framan hana. „Elskan,“ sagði hann, „ég veit að þú vilt að ég lesi fyrir þig og hjálpi þér að sofa, en í kvöld þarf ég að hjálpa biskupnum.“

Dóttir hans svaraði: „Á biskupinn ekki pabba til að hjálpa honum að sofa?“

Við erum eilíflega þakklát fyrir þá óteljandi meðlimi sem þjóna af kostgæfni í kirkju Jesú Krists á hverjum degi. Fórn ykkar er sannlega heilög.

En eins og þessi stúlka virtist skilja, þá er eitthvað jafn heilagt – eitthvað óbætanlegt – við það að foreldri ali upp barn. Það endurspeglar fyrirmynd himins.1 Faðir okkar á himnum, okkar guðlega foreldri, fagnar sannlega þegar börnum hans er kennt og rækt lögð við þau af foreldrum þeirra á jörðu.2

Foreldrar, takk fyrir allt sem þið eruð að gera til að ala upp börnin ykkar. Og börn, þakka ykkur fyrir allt sem þið gerið til að ala upp foreldra ykkar, því eins og hvert foreldri veit, lærum við oft jafn mikið af börnum okkar um trú, von og kærleika og þau læra af okkur!3

Foreldrar hafa helga skyldu

Hafið þið einhvern tíma hugsað um þá gríðarlegu áhættu sem faðir okkar á himnum tekur í hvert sinn sem hann sendir barn til jarðar? Þetta eru andasynir hans og dætur. Þau hafa takmarkalausa möguleika. Þeim er ætlað að verða dýrðarverur gæsku, náðar og sannleika. Og samt koma þau til jarðar algjörlega hjálparvana, geta varla gert neitt annað en að gráta eftir hjálp. Minningin um tíma þeirra í návist Guðs er hulin, ásamt þekkingunni um það hver þau í raun eru og hver þau geta orðið. Þau móta skilning á lífinu, kærleikanum, Guði og áætlun hans út frá því sem þau skynja frá fólkinu umhverfis – einkum foreldrum sínum, sem satt að segja eru enn sjálfir að reyna að átta sig á hlutunum.

Ljósmynd
Nýfætt barn

Guð hefur falið foreldrum „þá helgu skyldu að ala börn sín upp í kærleika og réttlæti, að sjá fyrir líkamlegum og andlegum þörfum þeirra, að kenna þeim að … virða boðorð Guðs.“4

Það nægir til að halda vöku fyrir jafnvel bestu foreldrum á næturnar.

Boðskapur minn til allra foreldra er þessi:

Drottinn elskar ykkur.

Hann er með ykkur.

Hann er við hlið ykkar.

Hann er styrkur ykkar við að kenna börnum ykkar að taka réttlátar ákvarðanir.

Takið á móti þessum forréttindum og ábyrgðarskyldum af hugdirfsku og gleði. Framseljið ekki einhverjum öðrum þessa uppsprettu himneskra blessana. Innan ramma gilda og reglna fagnaðarerindisins, ber ykkur að leiðbeina barninu ykkar í hinu smáa í daglegu lífi. Hjálpið börnum ykkar að styrkja trú sína á Jesú Krist, að elska fagnaðarerindi hans og kirkju og búa sig undir ævilangar réttlátar ákvarðanir. Það er í raun áætlun Guðs fyrir foreldra.

Satan mun standa gegn ykkur, afvegaleiða ykkur, reyna að letja ykkur.

En hvert barn hefur hlotið ljós Krists sem beina línu til himins. Og frelsarinn mun hjálpa ykkur, leiðbeina ykkur og hvetja ykkur. Leitið hjálpar hans. Spyrjið Drottin!

Ljósmynd
Drottinn Jesús Kristur

Rétt eins og Jesús Kristur er styrkur ungmenna, þá er Jesús Kristur líka styrkur foreldra.

Hann eykur elskuna

Stundum gætum við velt fyrir okkur hvort einhver annar gæti verið hæfari til að leiðbeina og kenna börnum okkar. En sama hversu ófullnægjandi ykkur kann að finnast þið vera, þá búið þið yfir nokkru sem gerir ykkur einkar hæf: Elsku til barnsins ykkar.

Elska foreldra til barns er eitt sterkasta afl alheimsins. Hún er eitt af því fáa á þessari jörðu sem sannlega getur verið eilíft.

Ykkur finnst ef til vill núna að samband ykkar við barnið ykkar sé ekki upp á það besta. Það er einmitt þá sem máttur frelsarans kemur að málum. Hann læknar hina sjúku og hann getur læknað sambönd. Hann margfaldaði brauð og fiska og hann getur margfaldað elsku og gleði á heimili ykkar.

Elska ykkar til barna ykkar skapar dýrmætt umhverfi til að kenna sannleika og stuðla að trú. Gerið heimili ykkar að húsi bænar, lærdóms og trúar; húsi gleðiríkra upplifana; að stað sem tilheyra má; að húsi Guðs.5 Og „biðjið … til föðurins … af öllum hjartans mætti, að [þið] megið fyllast elsku [hans], sem hann [gefur] öllum … fylgjendum sonar síns, Jesú Krists.“6

Hann eflir hina smáu og einföldu viðleitni

Annar styrkur sem þið hafið sem foreldri, er tækifæri til daglegra, viðvarandi áhrifa. Jafnaldrar, kennarar og áhrifamenn fjölmiðla koma og fara. En þið getið verið stöðugasti áhrifavaldurinn í lífi barnsins ykkar.

Viðleitni ykkar kann að virðast smávægileg í samanburði við háværu raddirnar sem börn ykkar hlusta á í heiminum. Stundum finnst ykkur kannski sem þið séuð ekki að ná miklum árangri. En hafið hugfast að „með litlu getur Drottinn komið miklu til leiðar.“7 Ein kvöldstund heima, eitt spjall um fagnaðarerindið eða eitt gott dæmi breytir kannski ekki lífi barnsins ykkar á augnabliki, ekki frekar er einn regndropi fær plöntu til að vaxa þegar í stað. En stöðugir smáir og einfaldir hlutir dag eftir dag, næra börnin ykkar mun betur en stöku flóð.8

Þetta er háttur Drottins. Hann talar til ykkar og barnsins ykkar með kyrrlátri, lágri röddu, ekki þrumuraust.9 Hann læknaði Naaman ekki með því að láta hann gera „eitthvað erfitt,“ heldur með einföldum, endurteknum þvotti.10 Ísraelsmenn nutu lynghænsnaveislunnar í eyðimörkinni, en það sem hélt þeim á lífi var hið litla og einfalda kraftaverk manna – hið daglega brauð þeirra.11

Bræður og systur, daglegt brauð er best að tilreiða og bera fram heima. Best er að rækta trú og vitnisburð á eðlilegan og náttúrlegan hátt, einn bita í einu, á litlum og einföldum augnablikum, í stöðugu flæði daglegs lífs.12

Sérhver stund er kennslustund. Hvert orð og hver breytni getur verið leiðarvísir að ákvarðanatökum.13

Þið sjáið ef til vill ekki áhrif erfiðis ykkar þegar í stað. En gefist ekki upp. „Allt verður að gerast á sínum tíma,“ sagði Drottinn. „Þreytist þess vegna ekki á að gjöra gott, því að [þið] eruð að leggja grunninn að miklu verki.“14 Hvaða starf gæti verið mikilvægara en að hjálpa dýrmætum börnum Guðs að læra hver þau í raun eru og stuðla að trú á Jesú Krist, fagnaðarerindi hans og kirkju hans? Jesús Kristur mun blessa og efla stöðuga viðleitni ykkar.

Hann veitir opinberun

Önnur áhrifamikil leið Drottins til að styðja foreldra, er með gjöf persónulegrar opinberunar. Guð vill óðfús úthella anda sínum foreldrum til leiðsagnar.

Þegar þið eruð bænheit og næm fyrir andanum, mun hann vara ykkur við duldum hættum.15 Hann mun opinbera gjafir barna ykkar, styrkleika þeirra og ótjáðar áhyggjur.16 Guð mun hjálpa ykkur að sjá börnin ykkar eins og hann sér þau – handan þeirra ytra útlits og inn í hjörtu þeirra.17

Með hjálp Guðs getið þið lært að þekkja börnin ykkar á hreinan og himneskan hátt. Ég býð ykkur að taka á móti boði Guðs um að leiðbeina fjölskyldu ykkar með persónulegri opinberun. Leitið leiðsagnar hans í bænum ykkar.18

Mikil breyting

Ef til vill er mikilvægasta hjálpin sem Jesús Kristur getur boðið foreldrum hin „mikla breyting“ hjartans.19 Það er kraftaverkið sem við öll þurfum á að halda.

Ímyndið ykkur augnablik þessar aðstæður: Þið eruð í kirkju og hlustið á ræðu um fjölskyldur. Ræðuflytjandinn lýsir fullkomnu heimili og jafnvel enn fullkomnari fjölskyldu. Hjónin rífast aldrei. Börnin hætta bara að lesa ritningarnar þegar tími er kominn til að gera heimavinnuna. Og lagið „Elskið hver annan“20 heyrist í bakgrunni. Áður en fyrirlesarinn kemur glaðlega að þeim hluta að allir taki þátt í að þrífa baðherbergið, hugsið þið nú þegar: „Fjölskyldan mín er vonlaus.“

Kæru bræður og systur, slappið af! Allir í söfnuðinum eru að hugsa það sama! Staðreyndin er sú að allir foreldrar hafa áhyggjur af því að vera ekki nógu góðir.

Sem betur fer er til guðleg hjálp fyrir foreldra: hún er Jesús Kristur. Hann er uppspretta hinnar miklu breytingar hjartans.

Þegar þið ljúkið upp hjarta ykkar fyrir frelsaranum og kenningum hans, mun hann sýna ykkur veikleika ykkar. Ef þið treystið Jesú Kristi með auðmjúku hjarta, mun hann gera hið veika að styrk.21 Hann er Guð kraftaverka.

Þýðir það að þið og fjölskylda ykkar verðið óaðfinnanleg? Nei. En þið munuð verða betri. Fyrir náð frelsarans, smátt og smátt, munið þið þróa fleiri eiginleika sem foreldrar þurfa: Elsku til Guðs og barna hans, þolinmæði, óeigingirni, trú á Krist og hugrekki til að taka réttar ákvarðanir.

Jesús Kristur veitir stuðning með kirkjunni sinni

Viðleitni okkar til að stuðla að trú á Jesú Krist er heimamiðuð, sem tekur mið af einstaklingnum. Hún er líka styrkt af kirkjunni. Fyrir utan helgar ritningar og orð spámanna, býður kirkja frelsarans upp á mörg úrræði til að hjálpa foreldrum og börnum við að taka réttlátar ákvarðanir:

Ljósmynd
Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvarðanatökum.
  • Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir að ákvarðanatökum sér ykkur ekki fyrir upptalningu af því sem á að gera og ekki gera. Þar er kenndur eilífur sannleikur til að hjálpa ykkur að taka ákvarðanir sem hafa líf og kenningar Jesú Krists að viðmiði. Lesið hann með börnum ykkar. Látið þau ræða um hann. Hjálpið þeim að láta leiðast af þessum eilífa og guðlega sannleika við ákvarðanatökur.22

  • Ráðstefnur FSY eru annað dásamlegt úrræði. Ég vona að allir unglingar mæti. Ég býð ungu einhleypu fullorðnu fólki að taka þátt í þessum ráðstefnum sem leiðbeinendur og ráðgjafar. Ég býð foreldrum að byggja á þeim andlega krafti sem ungmenni þeirra koma með heim frá FSY-ráðstefnum.

  • Börn og ungmenni í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hafa kennara, leiðtoga og leiðbeinendur. Oft komið þið í líf ungrar manneskju á mikilvægum tímapunkti til að stuðla að og styðja trú og vitnisburð. Sum ykkar eru einhleypt fullorðið fólk. Sum eignuðust aldrei eigin börn. Gleðirík þjónusta ykkar við börn Guðs er heilög í augum Guðs.23

Gefið aldrei upp vonina á kraftaverki

Kæru vinir mínir, kæru bræður og systur, að stuðla að trú hjá barni, er svolítið eins og að hjálpa blómi að vaxa. Þið getið ekki togað í stilkinn til að stækka það. Þið getið ekki þvingað upp brumið til að fá það til að blómstra fyrr. Þið getið heldur ekki vanrækt blómið og vænst þess að það vaxi eða dafni af sjálfu sér.

Það sem þið getið gert og verðið að gera fyrir hina upprennandi kynslóð, er að búa henni auðugan, nærandi jarðveg, með aðgang að rennandi himnesku vatni. Fjarlægið illgresi og allt sem skyggir á hið himneska sólarljós. Skapið bestu mögulegu skilyrði til vaxtar. Verið þolinmóð við að leyfa hinni upprennandi kynslóð að taka innblásnar ákvarðanir og látið Guð vinna sitt kraftaverk. Árangurinn verður fallegri, meira töfrandi og gleðilegri en nokkuð sem þið gætuð komið til leiðar af sjálfsdáðum.

Í áætlun himnesks föður er samböndum fjölskyldna ætluð að vera eilíf. Það er ástæðan fyrir því að þið, sem foreldri, gefist aldrei upp, jafnvel þótt þið séuð ekki stolt af því hvernig hlutirnir þróuðust í fortíðinni.

Með Jesú Kristi, meistaralækninum og frelsaranum, getur alltaf verið ný byrjun; það er alltaf von.

Jesús Kristur er styrkur fjölskyldna.

Jesús Kristur er styrkur ungmenna.

Jesús Kristur er styrkur foreldra.

Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Næstum allir foreldrar hafa meðfædda þrá til að að kenna börnum sínum gott siðferði. Það er hluti kraftaverks áætlunar himnesks föður. Hann vill að börn hans komi til jarðar, samkvæmt eilífri fyrirmynd fjölskyldna á himnum. Fjölskyldan er grunnstofnun hins eilífa ríkis og því ætlar hann henni að vera það líka á jörðu. Þótt jarðneskar fjölskyldur séu langt frá því að vera fullkomnar, þá eru þær besti kosturinn til að veita börnum Guðs þá elsku á jörðu sem kemst næst himneskri elsku – eða foreldraást. Fjölskyldan er líka best til þess fallin að varðveita og viðhalda dyggðum siðgæðis og sönnum reglum, sem líklegastar eru til að leiða okkur aftur í návist Guðs“ (Henry B. Eyring, „Safna samansöfnun fjölskyldu Guðs,“ aðalráðstefna, apríl 2017, 20).

  2. Auðvitað vitum við að vilji Guðs nær ekki alltaf fram að ganga „á jörðu sem á himni“ (Matteus 6:10). Jarðneskt foreldrahlutverk bliknar vissulega í samanburði við hugsjón Guðs. Hann sér það vissulega. Hann hlýtur að gráta yfir öllum sorgum og særindum í fjölskyldusamböndum. Samt hefur hann ekki gefist upp á fjölskyldunni. Það mun hann heldur ekki gera, því Guð hefur dýrðlega áætlun varðandi eilíf örlög barna sinna. Og miðpunktur þeirrar áætlunar er fjölskyldan.

  3. Sjá Matteus 18:1–5; Markús 3:19.

  4. Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ KirkjaJesuKrists.is; sjá einnig Kenning og sáttmálar 68:25–28.

  5. Sjá „Learning at Home Is Founded on Relationships,“ Teaching in the Savior’s Way: For All Who Teach in the Home and in the Church (2022), 30–31; sjá einnig Kenning og sáttmálar 109:8.

  6. Moróní 7:48.

  7. 1. Nefí 16:29; sjá einnig Alma 37:6–7.

  8. Sjá „Learning at Home Consists of Small, Simple, Consistent Efforts,“ Teaching in the Savior’s Way, 31. David O. McKay forseti kenndi: „Við skulum ekki halda að vegna þess að sumir [hlutir] … virðast smáir og léttvægir, að þeir skipti ekki máli. Þegar allt kemur til alls, þá samanstendur lífið af litlum hlutum. Líf okkar, tilvera okkar, líkamlega, samanstendur af litlum hjartsláttum. Látið þetta litla hjarta hætta að slá og lífið í þessum heimi endar. Sólin mikla er voldugur kraftur í geimnum, en við erum blessuð með geislum [hennar], vegna þess að þeir berast okkur sem litlir geislar, sem samanlagðir fylla allan heiminn sólarljósi. Hin myrka nótt er gerð þægileg með glampa frá því sem virðast litlar stjörnur; og því er hið sanna kristna líf byggt upp af litlum kristilegum athöfnum sem eiga sér stað á þessari stundu, þessari mínútu – á heimilinu“ (Teachings of Presidents of the Church: David O. McKay [2003], 219).

  9. Sjá Helaman 5:30.

  10. Sjá 2. Konungabók 5:9–14.

  11. Sjá 2. Mósebók 16.

  12. Sjá „Búið börn ykkar undir ævilanga veru á sáttmálsvegi Guðs,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023, viðauki (aðeins stafrænt).

  13. Sjá „Learning at Home Can Be Planned but Also Spontaneous,“ Teaching in the Savior’s Way, 31; 1. Pétursbréf 3:15.

  14. Kenning og sáttmálar 64:32–33.

  15. Sjá Matteus 2:13.

  16. Sjá Alma 40:1; 41:1; 42:1.

  17. Sjá 1. Samúelsbók 16:7.

  18. Sjá 1. Nefí 15:8.

  19. Alma 5:13.

  20. Sjá „Elskið hver annan,“ Sálmar, nr. 117.

  21. Sjá Eter 12:27.

  22. „Þegar um börn er að ræða, hvílir sú ábyrgð að veita siðferðilega leiðsögn á foreldrum. Þeir þekkja tilhneigingar, skilning og vitsmuni hvers barns. Foreldrar verja ævinni við að reyna að koma á og viðhalda góðum samskiptum við sérhvert barna sinna. Þeir eru í bestu aðstöðu til að taka endanlegar siðferðilegar ákvarðanir um velferð og farsæld eigin afkvæma“ (James E. Faust, „The Weightier Matters of the Law: Judgment, Mercy, and Faith,“ Ensign, nóv. 1997, 54).

  23. Tvö önnur úrræði sem vert er að minnast á: Stafræna útgáfan af kennslubókinni Kom, fylg mér í ár, hefur að geyma nýjan hluta sem heitir „Búið börn ykkar undir ævilanga veru á sáttmálsvegi Guðs.“ Þar er bent á einfaldar, heimamiðaðar hugmyndir til að hjálpa börnum að búa sig undir skírn og aðra sáttmála og helgiathafnir. Og hin ný endurskoðaða Kenna að hætti frelsarans hefur hluta sem heita „Heimili og fjölskylda“ sem lýsir því hvernig reglur kristinnar kennslu eiga við um heimilið (sjá bls. 30–31).