Aðalráðstefna
Fylgjendur friðarhöfðingjans
Aðalráðstefna apríl 2023


Fylgjendur friðarhöfðingjans

Þegar við vinnum að því að þroska eiginleika eins og frelsarans, getum við orðið verkfæri hans til friðar í heiminum.

Til uppfyllingar spádóms þess sem Sakaría var gefinn,1 kom Jesús sigurviss inn í borgina helgu, ríðandi á asna, sem var álitið í bókmenntum „fornt tákn um konunglega ættgöfgi Gyðinga,“2 eins og var sannarlega viðeigandi fyrir konung konunganna og friðarhöfðingjann.3 Hann var umkringdur fagnandi lærisveinum sem útbreiddu klæði sín, pálmalaufum og öðrum laufskrúði á veginn þar sem Jesús fór um. Þeir dásömuðu Drottin og sögðu háum rómi: „Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni Drottins. Friður á himni og dýrð í upphæðum.“4 Og svo áfram: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum.“5 Þessi stórfenglegi atburður, sem við fögnum á þessum degi sem kunnur er sem pálmasunnudagur, var gleðilegur forleikur að hinum hryllilega atburði sem átti eftir að eiga sér stað þessa örlagaríku viku og náði hámarki með óeigingjarnri fórn frelsarans og hinu stórkostlega kraftaverki hinnar tómu grafar.

Sem fylgjendur hans, erum við eignalýður hans, kölluð til að víðfrægja dáðir hans,6 boðendur friðarins sem er örlátlega gefinn fyrir tilstuðlan hans og friðþægingarfórnar hans. Þessi friður er gjöf sem er fyrirheitinn öllum sem snúa hjörtum sínum til frelsarans og lifa réttlátlega, slíkur friður veitir okkur styrk til að njóta jarðlífsins og gerir okkur kleift að þola hinar sársaukafullu prófraunir ferðar okkar.

Árið 1847 veitti Drottinn brautryðjendum hinna heilögu, sem þurftu frið til að halda ró og vera sameinaðir, ákveðnar leiðbeiningar, er þeir stóðu frammi fyrir óvæntum erfileikum á ferð sinni vestur. Meðal þess sem Drottinn sagði hinum heilögu var: „Leggið niður allar þrætur yðar á meðal, hættið illu umtali hvert um annað.“7 Ritningarnar staðfesta að þeir sem iðka verk réttlætis og leggja sitt fram við að ganga í auðmýkt í anda Drottins, er lofað friði sem þeir þurfa til að komast af á hinum róstursömu tímum sem við búum á í dag.8

Sem lærisveinar friðarhöfðingjans, hefur okkur verið boðið að lifa með „hjörtu … tengd böndum einingar og elsku hver til annars.“9 Ástkær spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, sagði nýlega: „Deilur eru í andstöðu við allt sem frelsarinn stóð fyrir og kenndi.“10 Spámaðurinn bað einnig um að við gerðum allt sem við gætum til að binda enda á þau persónulegu átök sem geysa í hjörtum okkar og í lífi okkar.11

Hugleiðum þessar reglur út frá hreinni ást Krists til okkar, sem við, sem fylgjendur hans, leitumst við að hafa og sýna hver öðrum. Ritningarnar skilgreina slíka ást sem kærleika.12 Þegar við hugsum um kærleika, kemur yfirleitt í hug okkar örlætisverk og framlög til að létta þjáningar þeirra sem upplifa líkamlega, efnislega og tilfinningalega erfiðleika. Samt er kærleikur ekki einungis tengdur því sem við gefum öðrum, heldur er hann eiginleiki frelsarans og getur orðið hluti af okkar persónueinkennum. Það kemur ekki á óvart að Drottinn sagði okkur að klæðast bandi kærleikans, eða „bandi fullkomnunar og friðar.“13 Án kærleika erum við ekkert,14 og við getum ekki erft þann stað sem Drottinn hefur fyrirbúið okkur í híbýlum himnesks föður.15

Jesús er fullkomið dæmi um hvað það þýðir að eiga þetta band fullkomnunar og friðar, sérstaklega þegar hann leit fram til hinnar kvalafullu atburðarásar sem leiddi að píslardauða hans. Hugsið eitt augnablik um það sem Jesús hlýtur að hafa upplifað er hann þvoði fætur lærisveina sinna í auðmýkt, vitandi að einn þeirra myndi svíkja hann þetta sama kvöld.16 Eða klukkustundum síðar, þegar Jesú læknaði á undraverðan hátt eyra eins mannanna sem höfðu komið með Júdasi, svikara hans, til að handtaka hann.17 Eða jafnvel þegar æðstu prestarnir og öldungarnir ásökuðu frelsarann ranglega frammi fyrir Pílatusi, mælti hann ekki eitt orð gegn þessum fölsku ásökunum á hendur honum og olli það rómverska landshöfðingjanum undrun.18

Í gegnum þessa þrjá hörmulegu atburði, og þrátt fyrir að vera þrúgaður af mikilli sorg og álagi, kenndi frelsarinn okkur með eigin fordæmi að „kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður … öfundar ekki … Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki [og] er ekki langrækinn.“19

Annað sem er mikilvægt að leggja áherslu á, og sem hefur bein áhrif á hlutverk okkar sem lærisveina og hvernig við boðum frið frelsarans, er hvernig við komum fram við hvert annað. Í jarðneskri þjónustu sinni, lagði frelsarinn sérstaka – en ekki eingöngu – kenningarlega áherslu á dyggðir elsku, kærleika, þolinmæði, auðmýktar og samúðar – grundvallareiginleika þeirra sem vilja koma nær honum og boða frið hans. Slíkir eiginleikar eru gjöf frá Guði og er við leitumst við að þroska þá, tökum við að líta á veikleika náunga okkar og það sem greinir okkur í sundur með aukinni samhyggð, næmni, virðingu og umburðarlyndi. Eitt af mest áberandi táknum þess að við erum að nálgast frelsara okkar og verða líkari honum er hið ástríka, þolinmóða, góðviljaða viðhorf sem við sýnum náunga okkar, sama hverjar aðstæðurnar eru.

Við sjáum fólk ítrekað taka þátt í neikvæðum og jafnvel niðurrífandi athugasemdum varðandi eiginleika, veikleika og skoðanir annarra, aðallega þegar slíkir eiginleikar og skoðanir eru andstæð því hvernig það breytir sjálft og hugsar. Það er mjög algengt að sjá þetta fólk láta frá sér slíkar athugasemdir til annarra, sem svo endurtaka það sem þeir hafa heyrt án þess að þekkja raunverulega allar aðstæður í málinu. Því miður hvetja samfélagsmiðlar til slíkrar hegðunar í nafni afstæðs sannleika og gagnsæis. Hömlulaus, rafræn samskipti leiða fólk oft út í persónulegar árásir og miklar deilur, vekja vonbrigði, særa hjörtu og breiða út logandi óvild.

Nefí spáði fyrir því að á síðari dögum myndi óvinurinn ólmast og reita fólk til reiði gegn því sem gott er.20 Ritningarnar kenna að „allt, sem hvetur og lokkar til góðs og til að elska Guð og þjóna honum, [sé] innblásið af Guði.“21 Hins vegar er „allt illt frá djöflinum. Því að djöfullinn er óvinur Guðs og stríðir stöðugt gegn honum og lokkar og hvetur til syndar og til þess að gjöra sífellt það, sem illt er.“22

Sé þessi spámannlega kennsla höfð í huga er það ekkert skrítið að ein af aðferðum andstæðingsins sé að espa upp óvild og hatur í hjörtum barna Guðs. Hann fagnar því þegar hann sér fólk gagnrýna, hæða og rægja hvert annað. Þessi hegðun getur tortímt mannorði fólks, orðspori og sjálfsmynd, sérstaklega þegar einstaklingurinn er dæmdur óréttlátlega. Það er mikilvægt að benda á að þegar við hleypum slíku viðhorfi í líf okkar, gerum við rými í hjörtum okkar fyrir óvininn til að gróðursetja fræ sundrungar meðal okkar og eigum á hættu að falla í óseðjandi gildru hans.

Ef við erum ekki varkár með hugsanir okkar, orð og gjörðir, gætum við endað á því að flækjast í lævísleg brögð óvinarins, eyðileggja sambönd okkar við fólkið í kringum okkur og ástvini okkar.

Bræður og systur, sem eignarlýður Drottins og friðflytjendur hans, höfum við ekki ráð á að leyfa þessum klækjum hins illa að taka sér ból í hjörtum okkar. Við getum ekki borið svo tærandi byrðar sem tortíma tilfinningum, samböndum og jafnvel lífi. Fagnaðarerindið stendur fyrir mikinn fögnuð.

Að sjálfsögðu er ekkert okkar fullkomið og eðlilega erum við stundum tæld út í slíka hegðun. Í fullkominni elsku hans og alvitri þekkingu á mannlegu eðli, reynir frelsarinn ávallt að vara okkur við slíkri hættu. Hann kenndi okkur: „Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.“23

Kæru bræður mínir og systur, er við leitumst við að öðlast samskonar eiginleika og frelsarinn, getum við orðið hans verkfæri til friðar í heiminum, að þeirri fyrirmynd sem hann kom á sjálfur. Ég býð ykkur að hugleiða hvernig þið getið breytt ykkur sjálfum í upplyftandi og stuðningsríka einstaklinga, sem hafa skilningsríkt og fyrirgefandi hjarta, fólk sem leitar að því besta í öðrum, ávallt með í huga að „sé eitthvað dyggðugt, fagurt, háleitt eða lofsvert, þá sækjumst vér eftir því.“24

Ég lofa ykkur því að er við leggjum á okkur að þroska þessa eiginleika, verðum við ástúðlegri og næmari fyrir þörfum náunga okkar25 og munum upplifa gleði, frið og andlegan vöxt.26 Drottinn mun án efa bera kennsl á framlag okkar og gefa okkur þær gjafir sem við þörfnumst til að vera umburðarlyndari og þolinmóðari gagnvart mismuni, veikleika og ófullkomleika hvers annars. Ennfremur munum við eiga auðveldara með að standast þá freistingu að láta móðgast eða móðga þá sem særa okkur. Þrá okkar til að fyrirgefa þeim sem koma illa fram við okkur eða tala illa um okkur, eins og frelsarinn gerði, mun sannarlega aukast og verða hluti af persónueinkennum okkar.

Megum við í dag, á þessum pálmasunnudegi, breiða út kærleiks klæði okkar og pálmalauf og feta í fótspor friðarhöfðingjans, er við búum okkur undir að fagna kraftaverki hinnar tómu grafar næstkomandi sunnudag. Sem bræður og systur í Kristi, hrópum við af gleði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum.“27

Ég ber vitni um að Jesús Kristur lifir og að fullkomin elska hans, sem tjáð er með friðþægingarfórn hans, er ætluð öllum sem þrá að ganga með honum og njóta friðar hans í þessum heimi og í þeim næsta. Ég segi þetta í hinu heilaga nafni frelsarans og lausnarans, Jesú Krists, amen.