Aðalráðstefna
Gleðiraust!
Aðalráðstefna apríl 2023


Gleðiraust!

Bygging mustera hefur verið eitt af helstu forgangsmálum allra spámanna, allt frá Joseph Smith.

„Hvað heyrum við nú í því fagnaðarerindi, sem við höfum meðtekið? Gleðiraust! Náðarraust frá himni, og sannleiksraust úr jörðu, … gleðiraust fyrir hina lifandi og hina dánu, gleðitíðindi um mikinn fögnuð.“1

Bræður og systur, það er nánast ómögulegt að hlusta á þessi orð spámannsins Josephs Smith án þess að breitt bros færist yfir andlit okkar!

Sigrihrósandi tjáning Josephs grípur sannlega hina fullkomnu og tignarlegu gleði sem við finnum í hinni miklu sæluáætlun Guðs, okkar himneska föður, því hann fullvissaði okkur: „Menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta.“2

Við fögnuðum öll3 í fortilverunni þegar við fengum fregnir af sæluáætlun Guðs og við fögnum áfram hér, er við lifum eftir áætlun hans. En hvert var samhengi þessarar gleðilegu yfirlýsingar frá spámanninum? Hvað vakti þessar djúpu og innilegu tilfinningar?

Spámaðurinn Joseph hafði verið að kenna um skírn fyrir hina dánu. Þetta var sannlega dýrleg opinberun sem vakti mikla gleði. Þegar meðlimir kirkjunnar komust fyrst að því að þeir gætu skírst fyrir látna ástvini, þá glöddust þeir. Wilford Woodruff sagði: „Um leið og ég frétti af henni tók sál mín kipp [af] gleði!“4

Skírn fyrir látna ástvini okkar var ekki eini sannleikurinn sem Drottinn átti eftir að opinbera og endurreisa. Það var fjöldi annarra gjafa eða hæfileika sem Guð hafði verið óðfús að veita sonum sínum og dætrum.

Meðal annarra gjafa voru prestdæmisvald, sáttmálar og helgiathafnir, hjónaband sem gat varið að eilífu, börn innsigluð foreldrum sínum í fjölskyldu Guðs og að endingu blessun þess að snúa aftur heim í návist Guðs, himnesks föður okkar, og sonar hans Jesú Krists. Allar blessanirnar voru gerðar mögulegar með friðþægingu Jesú Krists.

Þar sem Guð leit á þær sem mestu og helgustu blessanir sínar,5 bauð hann að byggja skyldi helgar byggingar, þar sem hann gæti veitt börnum sínum þessar dýrmætu gjafir.6 Þessar byggingar yrðu heimili hans á jörðu. Þessar byggingar yrðu musteri þar sem það sem innsiglað eða bundið væri á jörðu í hans nafni og með hans orði og með hans valdi, yrði bundið á himni.7

Sumum okkar, sem meðlimum kirkjunnar í dag, gæti fundist einfalt að taka þessum dýrlegu, eilífu sannindum sem sjálfsögðum. Þau hafa orðið okkur eðlislæg. Stundum er okkur gagnlegt að sjá þau með augum þeirra sem læra um þau í fyrsta skipti. Þetta varð mér augljóst, eftir nýlega reynslu.

Á síðasta ári, rétt fyrir endurvígslu Tókýómusterisins í Japan, skoðuðu margir gestir musterið sem ekki eru okkar trúar. Í einni slíkri skoðunarferð var íhugull leiðtogi annarar trúfélags. Við kenndum gesti okkar um sæluáætlun himnesks föður, endurleysandi hlutverk Jesú Krists í þeirri áætlun og kenninguna um að fjölskyldur geti verið sameinaðar að eilífu með helgiathöfn innsiglunar.

Undir lok skoðunarferðarinnar, bauð ég vini okkar að miðla tilfinningum sínum. Með tilvísun í sameiningu fjölskyldna – í fortíð, nútíð og framtíð – spurði þessi góði maður af einlægni: „Skilja meðlimir trúar ykkar raunverulega hve djúpstæð þessi kenning er?“ Hann bætti við: „Þetta gæti jafnvel verið ein af þeim meginkenningum sem fær sameinað þennan mjög svo klofna heim.“

Þetta er áhrifamikil ábending. Þessi maður var ekki bara snortinn yfir framúrskarandi handverki musterisins, heldur líka af hinni áhrifamiklu og djúpstæðu kenningu um að fjölskyldur væru sameinaðar og innsiglaðar himneskum föður og Jesú Kristi að eilífu.8

Við ættum því ekki að vera hissa þegar jafnvel einhver, ekki okkar trúar, ber kennsl á mikilfengleika þess sem gerist í musterinu. Það sem getur orðið okkur hversdagslegt eða venjubundið, er stundum séð í ljóma og mikilfengleika af þeim sem heyra um eða skynja það í allra fyrsta skiptið.

Þótt musteri hafi verið til í fornöld, þá hefur bygging þeirra orðið eitt af helstu forgangsmálum allra spámanna með endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists, allt frá Joseph Smith. Og það er auðvelt að skilja ástæðu þess.

Þegar spámaðurinn Joseph hafði verið að kenna um skírn fyrir hina dánu, gerði hann annan mikinn sannleika ljósan. Hann kenndi: „Ég [vil] fullvissa yður um, að þetta eru reglur varðandi hina dánu og hina lifandi, sem ekki má auðveldlega ganga fram hjá, hvað sáluhjálp vora varðar. Því að þeirra sáluhjálp er nauðsynleg og óhjákvæmileg fyrir vora sáluhjálp … að þeir án vor geti ekki orðið fullkomnir – né heldur getum vér án okkar dánu orðið fullkomin.“9

Eins og við getum séð, þá verður þörfin fyrir musteri og verkið sem er unnið fyrir lifandi og dána mjög skýrt.

Andstæðingurinn er í viðbragðsstöðu. Krafti hans er ógnað af helgiathöfnum og sáttmálum sem gerð eru í musterum og hann gerir allt sem hann getur til að reyna að stöðva verkið. Af hverju? Af því að hann þekkir kraftinn sem sprettur af þessu helga verki. Þegar hvert nýtt musteri er vígt, eykst hinn frelsandi kraftur Jesú Krists um allan heim til að draga úr áhrifum andstæðingsins og endurleysa okkur þegar við komum til hans. Andstæðingurinn verður því veikari sem musterum fjölgar og þeim sem halda sáttmála sína.

Á fyrri tíma kirkjunnar höfðu einhverjir áhyggjur þegar nýtt musteri var tilkynnt, því þeir sögðu: „Aldrei höfum við hafið byggingu musteris, án þess að bjöllur heljar taki að klingja.“ En Brigham Young svaraði hugdjarfur um hæl: „Ég vil heyra þær klingja aftur.“10

Í þessu jarðlífi munum við aldrei geta forðast þetta stríð, en við getum haft vald yfir andstæðingnum. Krafturinn og styrkurinn til þess kemur frá Jesú Kristi er við gerum og höldum musterissáttmála.

Russell M. Nelson forseti hefur kennt: „Sá tími er fyrir höndum að þeir sem ekki hlýða Drottni verði aðskildir þeim sem það gera. Öryggi okkar verður best tryggt með því að vera alltaf verðug inngöngu í hans heilaga hús.“11

Hér eru nokkrar blessanir til viðbótar sem Guð hefur lofað okkur með spámanni sínum:

Þurfið þið kraftaverk? Spámaður okkar hefur sagt: „Ég lofa ykkur því að Drottinn mun færa ykkur þau kraftaverk sem þið þurfið á að halda, er þið færið þær fórnir að þjóna og tilbiðja í musterum hans.“12

Þarfnist þið hins græðandi og styrkjandi kraftar frelsarans, Jesú Krists? Nelson forseti fullvissar okkur um að „allt sem kennt er í musterinu … eykur skilning okkar á Jesú Kristi. … Þegar við síðan höldum sáttmála okkar, gæðir hann okkur sínum græðandi og styrkjandi mætti. Ó, hve við þörfnumst þessa máttar á komandi dögum.“13

Á fyrsta pálmasunnudeginum, þegar Jesús Kristur hóf sigurinnreið sína í Jerúsalem, tók fjöldi lærisveina hans „að lofa Guð fagnandi hárri raustu“ og segja: „Blessaður sé konungurinn sem kemur í nafni Drottins.“14

Hve viðeigandi að Kirtland-musterið hafi verið vígt á pálmasunnudegi árið 1836. Lærisveinar Jesú Krists fögnuðu einnig við það tækifæri. Í þessari vígslubæn, sagði spámaðurinn Joseph Smith eftirfarandi lofgjörðarorð:

„Ó, Drottinn Guð almáttugur, heyr [oss] … og svara oss frá himni, … þar sem þú situr í hásæti, krýndur dýrð, heiðri, krafti, tign [og] mætti. …

Hjálpa oss með krafti anda þíns, svo að vér getum tekið undir með hinum björtu og ljómandi seröfum umhverfis hásæti þitt, með einróma lofi, og sungið hósanna Guði og lambinu!

Og lát þú þessa, þína heilögu hrópa hátt af gleði.“15

Bræður og systur, á þessum pálmasunnudegi skulum við, sem lærisveinar Jesú Krists, einnig lofa heilagan Guð okkar og fagna í gæsku hans til okkar. „Hvað heyrum við nú í því fagnaðarerindi, sem við höfum meðtekið?“ Sannlega „gleðiraust!“16

Ég ber vitni um að þið munið finna gleði í auknum mæli er þið gangið inn í heilög musteri Drottins. Ég ber vitni um að þið munið njóta gleðinnar sem hann endurgeldur ykkur með, í nafni Jesú Krists, amen.