Aðalráðstefna
Hirðisþjónusta
Aðalráðstefna apríl 2023


Hirðisþjónusta

Leggjum okkur fram við að annast fólk eins og frelsarinn myndi gera, sérstaklega þau sem eru okkur forréttindi að elska og við fáum úthlutuð í hirðisþjónustu.

Kæru bræður og systur, vinir, velkomin á aðalráðstefnu!

Eftir aðalráðstefnu síðasta október, gengum við systir Gong í gegnum Ráðstefnuhöllina til að heilsa upp á fólk og heyra upplifun þess af fagnaðarerindinu.

Meðlimir okkar frá Mexíkó sögðu: „Hoy es el tiempo de México.“

Ljósmynd
Gilly og Mary með öldungi og systur Gong

Við komust að því að Gilly og Mary eru vinir frá Englandi. Þegar Mary gekk í kirkjuna, missti hún heimili sitt. Gilly bauð Mary í örlæti sínu að koma og búa hjá sér. Full trúar segir Gilly: „Ég hef aldrei efast um að Drottinn sé með mér.“ Á ráðstefnunni átti Gilly gleðilega endurfundi með systurtrúboðanum sem kenndi henni fyrir 47 árum.

Ljósmynd
Jeff og Melissa með öldungi og systur Gong

Jeff og eiginkona hans, Melissa, voru á aðalráðstefnu í fyrsta sinn. Jeff var atvinnumaður í hafnabolta (hann var grípari) og er nú svæfingarlæknir. Hann sagði mér: „Mér til mikillar undrunar, þá er ég að færast nær skírninni, vegna þess að það virðist vera sannasta og heiðarlegasta leiðin til að lifa.“

Áður hafði Melissa beðið sinn úthlutaða hirðisþjón, bróður Jeffs, afsökunar: „Jeff vill ekki ‚hvítar skyrtur‘ í húsið okkar.“ Hinn þjónandi bróðir sagði: „Ég finn leið.“ Nú eru hann og Jeff góðir vinir. Við skírn Jeffs, kynntist ég söfnuði Síðari daga heilagra, sem Jeff, Melissa og dóttir þeirra, Charlotte, elska.

Sem fylgjendur Jesú Krists, leitumst við eftir að þjóna öðrum eins og hann myndi gera, því líf eiga eftir að breytast.

Þegar Peggy sagði mér að maður hennar til 31 árs, John, væri að fara að skírast, spurði ég hvað hefði breyst.

Peggy sagði: „John og ég vorum að læra saman í efni Nýja testamentisins í Kom, fylg mér og John spurði um kenningar kirkjunnar.“

Peggy sagði: „Bjóðum trúboðunum.“

John sagði: „Enga trúboða – nema vinur minn geti komið.“ Þjónandi bróðir Johns í yfir 10 ár hafði orðið einlægur vinur hans. (Ég hugsaði með mér, hvað ef þjónandi bróðir Johns hefði hætt að koma eftir eitt, tvö eða níu ár?)

John hlustaði. Hann las Mormónsbók af einlægum ásetningi. Þegar trúboðarnir buðu John að skírast, sagði hann já. Peggy sagði: „Ég datt af stólnum mínum og fór að gráta.“

John sagði: „Ég breyttist er ég kom til Drottins.“ Seinna voru John og Peggy innsigluð í hinu heilaga musteri. John lést síðasta desember, þá 92 ára að aldri. Peggy segir: „John var alltaf góður einstaklingur, en hann varð öðruvísi á yndislegan hátt eftir að hann skírðist.“

Ljósmynd
Jenny og Meb

Systir Gong og ég hittum Meb og Jenny rafrænt á meðan á Kóvidfaraldrinum stóð. (Við hittum mörg yndisleg hjón og einstaklinga rafrænt á Kóvidtímabilinu, hver og einn var í bænaranda kynntur af stikuforseta sínum.)

Meb og Jenny sögðu auðmjúklega að vandamál í lífi þeirra fengi þau til að efast um að hægt væri að bjarga musterishjónabandi þeirra, og ef svo, þá hvernig. Þau trúðu því að friðþæging Jesú Krists og sáttmálsskuldbinding þeirra gæti hjálpað þeim.

Þið getið rétt ímyndað ykkur gleði mína þegar Meb og Jenny fengu að nýju musterismeðmæli sín og fóru saman í musteri Drottins. Seinna var Meb nærri því dáin. Þvílík blessun að Meb og Jenny hafa endurreist sáttmálssamband sitt við Drottin og hvort annað og upplifa kærleikaríka hirðisþjónustu margra umhverfis.

Hvert sem ég fer, læri ég í þakklæti af þeim sem þjóna og elska, eins og frelsarinn myndi gera.

Ljósmynd
Salvador með öldungi og systur Gong

Í Perú hittum ég og systir Gong Salvador og systkini hans.1 Salvador og systkini hans eru munaðarlaus. Salvador átti afmæli. Kirkjuleiðtogarnir og meðlimirnir sem þjóna þessari fjölskyldu trúfastlega, eru mér innblástur. „Hrein og flekklaus guðrækni“ … er það – að „vitja munaðarlausra og ekkna,“2 „[styðja] þá óstyrku, [lyfta] máttvana örmum og [styrkja] veikbyggð kné.“3

Í Hong Kong miðlar öldungasveitarforseti því hæversklega hvernig öldungasveit þeirra nær ávallt hundrað próstnt þjónustuviðtölum. „Við skipuleggjum félaga í bænarhug svo að allir geti annast einhvern og einhver geti annast þá,“ segir hann. „Við spyrjum hverja félaga reglulega um þá sem þeir þjóna. Við merkjum ekki við í reiti, við þjónum þjónunum sem annast fólk okkar.“

Ljósmynd
Bokolo fjölskyldan

Í Kinsasa, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, miðlar Bokolo forseti því hvernig hann og fjölskylda hans gengu í kirkjuna í Frakklandi. Dag einn, er hann var að lesa patríarkablessun sína, blés andinn bróður Bokolo því í brjóst að fara aftur til Kongó með fjölskyldu sína. Bróðir Bokolo vissi að hann myndi þurfa að takast á við margar áskoranir ef þau færu aftur. Og kirkjan þeirra, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, hafði enn ekki verið stofnuð í Kinsasa.

Samt fylgdi Bokolo fjölskyldan anda Drottins í trú, eins og margir aðrir hafa gert. Í Kinsasa þjónuðu þau fólkinu umhverfis og blessuðu það, sigruðust á áskorunum, meðtóku andlegar og veraldlegar blessanir. Í dag gleðjast þau yfir því að hafa hús Drottins í landi sínu.4

Trúskiptingur hlaut þjónustu frá persónulegu fordæmi. Þegar hann var ungur, sagðist hann hafa varið tíma sínum í makindum á ströndinni. Dag einn sagði hann: „Ég sá fallega stúlku í siðsamlegum sundfötum.“ Undrandi fór hann og spurði hvers vegna svo falleg stúlka myndi klæðast svo siðsamlegum sundfötum. Hún var meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og svaraði brosandi: „Myndirðu vilja koma í kirkju næsta sunnudag?“ Hann sagði já.

Fyrir mörgum árum, sagði öldungur L. Tom Perry frá því hvernig hann og félagi hans sem unnu að verkefni saman, höfðu reglulega þjónað systur sem bjó í frekar hættulegu hverfi í Boston. Þegar öldungur Perry og félagi hans komu, var systirin varkár og sagði: „Rennið musterismeðmælum ykkar undir dyrnar.“ Aðeins eftir að hafa séð musterismeðmælin, aflæsti hún fjölda lása og opnaði dyrnar.5 Að sjálfsögðu er ég ekki að segja að hirðisþjónar þurfi að vera með musterismeðmæli. Hins vegar ann ég þeirri hugsun að þegar þeir þjóna sem heiðra sáttmála, þá opnast heimili og hjörtu.

Öldungur Perry bauð einnig fram hagnýt ráð. Hann sagði: „Veitið félögum skynsamlega mörg verkefni, valin með bæn, sett saman á viðeigandi landfræðilegan hátt, svo ferðatíminn nýtist vel.“ Hann ráðlagði: „Byrjið á þeim sem mest þarfnast heimsókna. Byrjið á þeim sem eru líklegastir til að bjóða þá velkomna og bregðast vel við heimsóknum.“ Hann lauk máli sínu: „Stöðug trúfesti gerir kraftaverk.“

Æðri og helgari þjónusta6 verður þegar við biðjum um „hreina ást Krists“7 og fylgjum andanum. Það gerist einnig þegar forsætisráð öldungasveita og Líknarfélaga hafa umsjón með hirðisþjónustu undir leiðsögn biskups, þar með talið að tilnefna þjónustufélaga. Gefið piltum okkar og stúlkum þörf tækifæri til að fara með og læra af reyndum þjónandi bræðrum og systrum. Og leyfið upprennandi kynslóð okkar að veita þjónandi bræðrum og systrum innblástur.

Sums staðar í kirkjunni er þjónustuskarð. Fleiri segjast vera að þjóna en segjast þiggja þjónustu. Við viljum ekki hafa gátlistaáhyggjur. Við þurfum samt oft meira en einlæga kveðju á ganginum eða hið algenga „get ég aðstoðað þig?“ á bílastæðinu. Á mörgum stöðum getum við veitt liðsinni, skilið aðra þar sem þeir eru staddir og byggt upp samband þegar við heimsækjum meðlimi reglulega á heimilum þeirra. Andrík boð breyta lífum. Þegar boð hjálpa okkur að gera og halda helga sáttmála, færumst við nær Drottni og hvert öðru.

Það er sagt að þeir sem skilji sannan anda hirðisþjónustu, geri meira en áður, á meðan þeir sem skilji ekki, geri minna. Gerum meira, eins og Drottinn myndi gera. Eins og segir í sálminum er „blessun í umhyggjuást.“8

Deildarráð, öldungasveitir og Líknarfélög, hlýðum á hinn góða hirði og hjálpum honum að „leita þess sem villist … sækja hið hrakta … binda um hið limlesta … styrkja hið veikburða.“9 Við kunnum að „[hýsa] engla án þess að vita“10 er við búum öllum stað í gistihúsi hans.11

Innblásin hirðisþjónusta blessar fjölskyldur og einstaklinga, hún styrkir einnig deildir og greinar. Hugsið um deild ykkar eða grein sem andlegt vistkerfi. Í anda líkingasögunnar í Mormónsbók um olífutrén, leiða herra víngarðsins og þjónar hans fram dýrmæta ávexti og styrkja hvert tré með því að binda saman styrkleika og veikleika allra trjánna.12 Herra víngarðsins og þjónar hans spyrja ítrekað: „Hvað hefði ég meira getað gjört?“13 Saman blessa þeir hjörtu og heimili, deildir og greinar, með innblásinni og stöðugri hirðisþjónustu.14

Ljósmynd
Samtvinnaðar rætur og greinar

Hirðisþjónusta – að vera fjárhirðar – gerir víngarð okkar að „[einum] líkama“15 – helgum lundi. Hvert tré í lundinum okkar er lifandi ættartré. Rætur og greinar fléttast saman. Hirðisþjónusta blessar kynslóðir. Þegar þörf er á þjónustu, spyrja vitrir biskupar og forsætisráð öldundasveita og Líknarfélaga: „Hverjir eru þjónustusysturnar og bræðurnir?“ Deildarráð og þjónustuviðtöl eru ekki bara til að spyrja um áskoranir og vandamál, heldur líka til að hafa vökult auga til að sjá og fagna mildri miskunn Drottins í lífi okkar, er við þjónum eins og hann myndi gera.

Frelsari okkar er fullkomið fordæmi okkar.16 Vegna þess að hann er góður, getur hann farið um og gert gott.17 Hann blessar hinn eina og hina níutíu og níu. Hann er persónugerð hirðisþjónusta. Við verðum líkari Jesú Kristi þegar við „[gerum] einum … [hinum] minnstu“ eins og við myndum gera honum,18 þegar við elskum náungann eins og okkur sjálf,19 þegar við „[elskum] hvert annað … eins og ég hef elskað yður,“20 og þegar „sá sem mikill vill verða meðal ykkar [sé] þjónn ykkar.“21

Jesús Kristur þjónar. Englar þjóna.22 Fylgjendur Jesú Krists „[þjóna] hver öðrum,“23 „[fagna] með fagnendum, [gráta] með grátendum,“24 „[vaka] yfir … og [næra fólkið] á öllu, sem réttlætið snertir,“25 „[minnast] … hinna fátæku og þurfandi, sjúku og aðþrengdu,“26 láta nafn hans vera þekkt í þjónustu sinni.27 Þegar við þjónum eins og hann myndi gera, verðum við vitni að kraftaverkum hans og blessunum.28 Við öðlumst „mun ágætari helgiþjónustu.“29

Við þreytumst kannski líkamlega. En í hans þjónustu „[þreytumst við] … ekki á að gjöra gott.“30 Við vinnum dyggilega að því að gera okkar besta, hlaupum ekki hraðar en við höfum styrk til,31 en treystum því, eins og Páll postuli kennir, að „Guð [elski] glaðan gjafara.“32 Því Guð sem „gefur sáðmanninnum sæði og brauð til fæðu mun og gefa ykkur sáð og margfalda það.“33 Með öðrum orðum, þá mun Guð „auðga ykkur í öllu.“34 Sá sem „sáir ríflega mun og ríflega uppskera.“35

Hvar sem við erum, þá skulum við leggja okkur fram við að annast fólk eins og frelsarinn myndi gera, sérstaklega þau sem eru okkur forréttindi að elska og við fáum úthlutuð í hirðisþjónustu. Þegar við gerum svo, megum við þá nálgast hann og hvert annað, verða líkari honum og þeir fylgjendur Jesú Krists, sem hann vill að hvert okkar verði. Í hans heilaga nafni, Jesú Krists, amen.