Aðalráðstefna
„Þú munt vera í mér og ég í þér. Gakk þess vegna með mér“
Aðalráðstefna apríl 2023


„Þú munt vera í mér og ég í þér. Gakk þess vegna með mér“

Fyrirheit frelsarans um að vera í okkur er raunverulegt og stendur öllum sáttmálshaldandi meðlimum hinnar endurreistu kirkju hans til boða.

Hinn forni spámaður Enok, sem lýst er í Gamla testamentinu, Kenningu og sáttmálum og Hinni dýrmætu perlu,1 átti lykilþátt í stofnun borgarinnar Síon.

Frásögn ritninganna af köllun Enoks til að þjóna segir að „hann [hafi heyrt] rödd frá himni, er sagði: Enok, sonur minn, spá þú fyrir þetta fólk og seg því – Iðrist, … því að hjörtu þess hafa harðnað og eyru þess daufheyrast og augu þess sjá ekki langt.“2

„Og þegar Enok hafði heyrt þessi orð, laut hann til jarðar …, talaði frammi fyrir Drottni og sagði: Hvernig má það vera, að ég hef fundið náð fyrir augum þínum, og er ég þó aðeins drengur, og allir fyrirlíta mig, því að mér er tregt um mál. Hvers vegna er ég þjónn þinn?“3

Takið eftir að á þeim tíma sem Enok var kallaður til að þjóna, varð hann skyndilega meðvitaður um misbresti sína og takmarkanir. Og ég vænti þess að okkur öllum hafi endrum og eins liðið eins og Enok í þjónustu okkar í kirkjunni. En ég tel að svar Drottins við spurningu Enoks sé lærdómsríkt og eigi við um okkur öll á okkar tíma.

„Og Drottinn sagði við Enok: Far og gjör eins og ég hef boðið þér, og enginn maður skal granda þér. Ljúk upp munni þínum og hann skal fyllast, og ég mun gefa þér málið. …

Sjá, andi minn er yfir þér, þess vegna mun ég réttlæta öll þín orð. Og fjöllin munu hörfa undan þér og fljótin breyta farvegi sínum. Og þú munt vera í mér og ég í þér. Gakk þess vegna með mér.4

Enok varð að lokum mikill spámaður og verkfæri í höndum Guðs til að inna af hendi mikið verk, en þó hóf hann ekki þjónustu sína á þann hátt! Geta hans jókst með tímanum, er hann lærði að vera í og ganga með syni Guðs.

Ég bið einlæglega fyrir liðsinni heilags anda, er við íhugum saman þá leiðsögn sem Drottinn veitti Enok og hvað hún getur þýtt fyrir þig og mig í dag.

Þú munt vera í mér

Drottinn Jesús Kristur býður hverju okkar að vera í sér.5 En hvernig getum við í raun lært að vera í honum og dvalið áfram í honum?

Orðtakið vera í merkir hér að vera fastur fyrir eða stöðugur og að standast án þess að gefa eftir. Öldungur Jeffrey R. Holland útskýrði að merking orðtaksins „vera í“ væri „‚[að] dvelja áfram – en [að] dvelja áfram til eilífðar.‘ Það er boðskapur fagnaðarerindisins til … allra … í heiminum. Komið, en komið til að dvelja áfram. Komið af sannfæringu og þrautseigju. Komið til að dvelja áfram, sjálfra ykkar vegna og vegna allra kynslóðanna sem á eftir ykkur verða að koma.“6 Við erum því í Kristi þegar við erum staðföst og stöðug í hollustu okkar við lausnarann og helgan tilgang hans, bæði á góðum og slæmum tímum.7

Við hefjum dvöl okkar í Drottni þegar við iðkum sjálfræði okkar við að taka á okkur hans ok8 með sáttmálum og helgiathöfnum hins endurreista fagnaðarerindis. Sáttmálstengslin sem við eigum við himneskan föður og upprisinn og lifandi son hans er himnesk uppspretta heildarsýnar, vonar, krafts, friðar og varanlegrar gleði; hún er líka hinn bjargfasti grundvöllur9 sem við ættum að byggja líf okkar á.

Við dveljum í honum með því að keppa stöðugt að því að styrkja eigið sáttmálssamband við föðurinn og soninn. Að biðja af einlægni til hins eilífa föður í nafni hans elskaða sonar, dýpkar og eflir sáttmálssambandið við þá.

Við dveljum í honum með því að endurnærast sannlega á orðum Krists. Kenning frelsarans dregur okkur, sem erum börn sáttmálans, nær honum10 og segir okkur að fullu hvað okkur ber að gera.11

Við dveljum í honum með því að búa okkur heilshugar undir að taka þátt í helgiathöfn sakramentisins, ígrunda og íhuga sáttmálsheit okkar og iðrast einlæglega. Að meðtaka verðug sakramentið, er að vitna fyrir Guði að við erum fús til að taka á okkur nafn Jesú Krists og leggja okkur fram við að „hafa hann ávallt í huga,“12 eftir þann stutta tíma sem þátttaka í þessari helgiathöfn tekur.

Og við dveljum í honum með því að þjóna Guði, er við þjónum börnum hans og liðsinnum bræðrum okkar og systrum.13

Frelsarinn sagði: „Ef þér haldið boðorð mín verðið þér stöðug í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“14

Ég hef aðeins lýst stuttlega nokkru af því mörgu sem við getum gert til að dvelja í frelsaranum. Og nú býð ég hverju okkar, sem lærisveinum hans, að biðja, leita, knýja á og finna sjálf með krafti heilags anda hvað annað innihaldsríkt við getum gert til að hafa Krist að þungamiðju í öllu sem við gerum í lífi okkar.

Og ég í ykkur

Loforð frelsarans til fylgjenda sinna er tvíþætt: Ef við dveljum í honum, mun hann dvelja í okkur. En er það í raun mögulegt fyrir Krist að dvelja í þér og mér – einstaklingsbundið og persónulega? Svarið við þessari spurningu er afgerandi já!

Í Mormónsbók lærum við um Alma sem kenndi og vitnaði fyrir hinum fátæku sem höfðu neyðst til auðmýktar vegna þjáninga sinna. Í leiðsögn sinni líkti hann orðinu við sáðkorn sem þarf að gróðursetja og næra og hann lýsti „orðinu“ sem lífi, hlutverki og friðþægingarfórn Jesú Krists.

Alma sagði: „Farið að trúa á son Guðs, að hann komi til að endurleysa fólk sitt, og að hann muni þjást og deyja til að friðþægja fyrir syndir þess. Að hann muni aftur rísa frá dauðum, sem gjörir upprisuna að veruleika, að allir menn muni standa frammi fyrir honum og verða dæmdir á efsta og dómsins degi eftir verkum sínum.“15

Að gefinni þessari lýsingu Alma á „orðinu,“ íhugið þá hið innblásna samband sem hann síðan bendir á.

„Og nú … óska ég þess, að þið gróðursetjið þetta orð í hjörtum ykkar, og þegar það tekur að vaxa, þá nærið það með trú ykkar. Og sjá. Það mun verða að tré og vaxa í ykkur til ævarandi lífs. Og megi þá Guð gefa, að byrðar ykkar verði léttar fyrir gleðina yfir syni hans. Og allt þetta getið þið gjört, ef þið viljið.“16

Orðið er sáðkornið sem við ættum að leitast við að gróðursetja í hjörtum okkar – jafnvel líf, hlutverk og kenning Jesú Krists. Og þegar orðið er nært með trú getur það orðið að tré og vaxið upp í okkur til ævarandi lífs.17

Hver var táknræn merking trésins í sýn Lehís? Tréð gæti verið líkingarmynd af Jesú Kristi.18

Kæru bræður og systur, er orðið í okkur? Er sannleikur fagnaðarerindis frelsarans ritaður á hjartaspjöld okkar?19 Erum við að smám saman að verða líkari honum? Vex tré Krists í okkur? Leggjum við okkur fram við að verða „[nýir menn]“20 í honum?21

Ef til vill hvatti þetta mögulega kraftavek Alma til að spyrja: „Hafið þér fæðst andlega af Guði? Hefur mynd hans greypst í svip yðar? Hefur þessi gjörbreyting orðið í hjörtum yðar?“22

Við ættum alltaf að hafa leiðsögn Drottins til Enoks í huga: „Þú munt vera í mér og ég í þér.“23 Ég ber vitni um að fyrirheit frelsarans um að vera í okkur er raunverulegt og stendur öllum sáttmálshaldandi meðlimum hinni endurreistu kirkju hans til boða.

Gakk þess vegna með mér

Páll postuli áminnti hina trúuðu sem tekið höfðu á móti Drottni: „Lifið því í honum.“24

Að dvelja í og hjá frelsaranum, undirstrikar tvo nauðsynlega þætti lærsveinshlutverksins: (1) að hlýða boðorðum Guðs og (2) að virða og hafa hugfasta hina helgu sáttmála sem tengja okkur við föðurinn og soninn.

Jóhannes sagði:

„Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans.

Sá sem segir: ‚Ég þekki hann,‘ og heldur ekki boðorð hans er lygari og sannleikurinn er ekki í honum.

En hver sem varðveitir orð Guðs, hann elskar sannarlega Guð á fullkominn hátt. Þannig þekkjum við að við erum í honum.

Þeim sem segist vera í honum ber sjálfum að breyta eins og Jesús Kristur breytti.“25

Jesús hvetur sérhvert okkar: „Kom, fylg mér“26 og „gakk með mér.“27

Ég ber vitni um að þegar við sækjum fram í trú og göngum í hógværð anda Drottins,28 munum við blessuð með krafti, leiðsögn, vernd og friði.

Vitnisburður og fyrirheit

Alma setur fram innilegt boð Drottins til allra lifandi sálna:

„Sjá. Hann býður öllum mönnum til sín, því að armur miskunnarinnar er útréttur til þeirra, og hann segir: Iðrist, og ég mun taka á móti yður.

… Komið til mín og neytið ávaxtarins af lífsins tré. Já, þér skuluð eta og drekka óspart af brauði og vatni lífsins.“29

Ég legg áherslu á hið altæka víðfemi boðs frelsarans. Hann þráir að blessa með náð sinni og miskunn hvern einasta einstakling sem nú lifir, hefur einhvern tíma lifað og mun lifa á jörðinni.

Sumir meðlimir kirkjunnar taka þeim kenningum, reglum og vitnisburðum sem sönnum, sem endurtekin eru í þessu ræðupúlti í Ráðstefnuhöllinni og í söfnuðum um víða veröld – en eiga þó erfitt með að trúa að sá eilífi sannleikur eigi sérstaklega við um líf og aðstæður þeirra sjálfra. Þeir trúa einlæglega og þjóna af hlýðni en sáttmálssamband þeirra við föðurinn og hinn endurleysandi son hans hefur enn ekki orðið lifandi og umbreytandi raunveruleiki í lífi þeirra.

Ég lofa að fyrir kraft heilags anda getið þið sjálf þekkt og skynjað þann sannleika fagnaðarerindisins sem ég hef reynt að útskýra fyrir ykkur – einstaklingsbundið og persónulega.

Ég ber gleðilegt vitni um að Jesús Kristur er kærleiksríkur og lifandi frelsari okkar og lausnari. Ef við erum í honum, þá mun hann vera í okkur.30 Og þegar við dveljum í og hjá honum, munum við blessuð til að bera fram mikinn ávöxt. Um það vitna ég í heilögu nafni Drottins, Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá 1. Mósebók 5:18–24; Kenning og sáttmálar 107:48–57; HDP Móse 6–7.

  2. HDP Móse 6:27.

  3. HDP Móse 6:31.

  4. HDP Móse 6:32, 34; leturbreyting hér.

  5. Sjá Jóhannes 15:4–9.

  6. Jeffrey R. Holland, „Verið í mér,“ aðalráðstefna, apr. 2004.

  7. Sjá Jóhannes 15:10.

  8. Sjá Matteus 11:29–30.

  9. Sjá Helaman 5:12.

  10. Sjá 3. Nefí 27:14–15.

  11. Sjá 2. Nefí 32:3.

  12. Moróní 4:3; 5:2.

  13. Sjá Mósía 2:17.

  14. Jóhannes 15:10.

  15. Alma 33:22.

  16. Alma 33:23; leturbreyting hér.

  17. Sjá Alma 26:13.

  18. Ég útskýrði þessa reglu á trúarsamkomu árið 2017:

    „Alma … ‚[tók] að boða fólkinu orð Guðs og [fór] inn í samkunduhús og inn á heimili þess, já, og þeir boðuðu jafnvel orðið á götum úti‘ [Alma 32:1; leturbreyting hér]. Hann bar orð Guðs einnig saman við sáðkorn.

    ‚Ef þið gefið rúm í hjarta ykkar, þannig að gróðursetja megi sáðkorn þar, sjá, sé það sáðkorn sannleikans, eða gott sáðkorn, og þið varpið því eigi burt vegna vantrúar ykkar, og standið eigi gegn anda Drottins, sjá, þá mun það fara að þenjast út í brjóstum ykkar. Og þegar þið finnið þessar vaxtarhræringar, munuð þið segja með sjálfum ykkur: Þetta hlýtur að vera gott sáðkorn – eða að orðið sé gott – því að það er farið að víkka sálarsvið mitt. Já, það er farið að upplýsa skilning minn, já, það er farið að verða mér unun‘ [Alma 32:28; leturbreyting hér].

    Áhugavert er að gott sáðkorn verður að tré þegar það er gróðursett í hjartanu og byrjar að þenjast út, spíra og vaxa.

    ‚Og sjá. Þegar tréð tekur að vaxa, munuð þið segja: Við skulum næra það af mikilli umhyggju, svo að það skjóti rótum, vaxi upp og beri okkur ávöxt. Og sjá nú. Ef þið nærið það af mikilli umhyggju, mun það skjóta rótum, vaxa upp og bera ávöxt.

    En ef þið vanrækið tréð og hugsið ekkert um næringu þess, sjá, þá mun það ekki festa rætur. Og þegar sólarhitinn kemur og breiskjar það, visnar það upp, vegna þess að það hefur engar rætur, og þið rífið það upp og varpið því burt.

    En þetta er ekki vegna þess, að sáðkornið var ekki gott, og það er heldur ekki vegna þess, að ávöxturinn yrði ekki girnilegur, heldur er það vegna þess, að jarðvegur ykkar er ófrjór og þið viljið ekki næra tréð. Þess vegna getið þið ekki uppskorið ávöxt þess.

    Og ef þið viljið ekki næra orðið og vænta ávaxtar þess með augum trúarinnar, þá getið þið aldrei uppskorið ávextina af lífsins tré.

    En ef þið viljið næra orðið, já, næra tréð með trú ykkar af mikilli kostgæfni og þolinmæði, þegar það tekur að vaxa, og vænta ávaxtar þess, þá mun það festa rætur. Og sjá, það verður að tré, sem vex upp til ævarandi lífs‘ [Alma 32:37–41; leturbreyting hér].

    … Miðpunktur draums Lehís er tré lífsins – framsetning á ‚elsku Guðs‘ [1. Nefí 11:21–22].

    ‚Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf [eingetinn son] sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf‘ [Jóhannes 3:16].

    Fæðing, líf og friðþægingarfórn Drottins Jesú Krists eru æðstu birtingarmyndir elsku Guðs til barna sinna. Eins og Nefí vitnaði um, var þessi elska ‚eftirsóknarverðust af öllu‘ og ‚færir sálinni mestu gleði‘ [1. Nefí 11:22–23; sjá einnig 1. Nefí 8:12, 15]. Í kapítula 11 í 1. Nefí er að finna ítarlega lýsingu á lífsins tré sem tákni fyrir líf, þjónustu og fórn frelsarans – ‚lítillæti Guðs‘ [1. Nefí 11:16]. Tréð getur talist vera framsetning á Kristi.

    Ein leið til að hugsa sér ávöxt trésins er sem táknrænan fyrir blessanir friðþægingar frelsarans. Ávextinum er lýst sem ‚til þess [föllnum] að færa mönnum hamingju‘ [1. Nefí 8:10] og að hann ali af sér mikla gleði og þrá til að miðla öðrum þessari gleði.

    Þýðingarmikið er að almennt þema Mormónsbókar, að bjóða öllum að koma til Krists [sjá Moróní 10:32], er lykilatriði í sýn Lehís [sjá 1. Nefí 8:19]“ („The Power of His Word Which Is in Us“ [ræða flutt á námskeiði fyrir nýja trúboðsleiðtoga, 27. júní 2017], 4–5).

  19. Sjá 2. Korintubréf 3:3.

  20. 2. Korintubréf 5:17.

  21. Líking Alma kennir okkur að þráin til að trúa gróðursetur sáðkornið í hjörtum okkar, þegar við nærum sáðkornið með trú okkar sprettur lífsins tré upp og er við nærum tréð, þá ber það ávöxt sem er „ljúffengari en allt, sem ljúffengt er“ (Alma 32:42) og er „stærst allra gjafa Guðs“ (1. Nefí 15:36).

  22. Alma 5:14.

  23. HDP Móse 6:34; leturbreyting hér.

  24. Kólossubréfið 2:6.

  25. 1. Jóhannes 2:3–6; leturbreyting hér.

  26. Lúkas 18:22.

  27. HDP Móse 6:34.

  28. Sjá Kenning og sáttmálar 19:23.

  29. Alma 5:33–34; leturbreyting hér.

  30. Sjá Jóhannes 15:5.