Aðalráðstefna
Kenningar Jesú Krists
Aðalráðstefna apríl 2023


Kenningar Jesú Krists

Ritningarnar eru gefnar til að leiðbeina okkur í lífinu. Boðskapur minn samanstendur af úrvali orða frelsara okkar – því sem hann sagði.

Við trúum á Krist. Við sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu tilbiðjum hann og fylgjum kenningu hans í ritningunum.

Fyrir fallið, talaði himneskur faðir beint til Adams og Evu. Eftir það þá kynnti faðirinn hinn eingetna son, Jesú Krist, sem frelsara okkar og lausnara og bauð okkur: „Hlýðið á hann.“1 Af þessari leiðsögn má draga þá ályktun að þegar ritningargreinar vitna í orð „Guðs“ eða „Drottins,“ þá eru þau nánast alltaf orð Jehóva, upprisins Drottins okkar, Jesú Krists.2

Ritningarnar eru gefnar til að leiðbeina okkur í lífinu. Spámaðurinn Nefí kenndi okkur að við ættum að „endurnærast af orðum Krists. Því að sjá. Orð Krists munu segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra.“3 Flestar ritningargreinar sem segja frá jarðneskri þjónustu Jesú eru lýsingar á því sem hann gerði. Boðskapur minn samanstendur af úrvali orða frelsara okkar – því sem hann sagði. Þetta eru orð sem skráð eru í Nýja Testamentinu (þar með talið í innblásnum viðauka Josephs Smith) og í Mormónsbók. Flestir þessara völdu ritningarhluta eru settir fram í þeirri röð sem frelsari okkar mælti þá fram.

„Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann fæðist af vatni og anda.“4

„Blessaðir eru … þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, því að þeir munu fylltir verða heilögum anda.“5

„Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“6

„Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt ekki drýgja hór.

En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“7

„Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.

En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.

Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“8

„Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður.

En ef þér fyrirgefið ekki öðrum mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“9

„Væruð þér af heiminum mundi heimurinn elska sína. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“10

„Leitið því ekki þess sem heimsins er, heldur leitist fyrst við að byggja upp ríki Guðs og koma á réttlæti hans, og þá mun allt þetta bætast yður.“11

„Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.“12

„Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar.

Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum?

Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda.“13

„Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.“14

„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“15

„Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.

Og ef maðurinn tekur kross sinn, afneitar hann öllu óguðlegu, og hverri veraldlegri girnd, og heldur boðorð mín.“16

„Yfirgefið því heiminn og bjargið sálu yðar, hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“17

Sá sem vill gera vilja hans mun komast að raun um hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.18

„Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.“19

„Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“20

„Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.

Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja.“21

„[Þetta er æðsta boðorð lögmálsins]: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.

Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“22

„Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“23

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“24

„Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.“25

„Lítið á hendur mínar og fætur að það er ég sjálfur. Þreifið á mér og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þið sjáið að ég hef.“26

„Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda

og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“27

Eftir þjónustu sína í Landinu helga, birtist Jesús Kristur hinum réttlátu í Ameríku. Hér er sumt af því sem hann sagði þar:

„Sjá, ég er Jesús Kristur, sonur Guðs. Ég skapaði himnana og jörðina og allt, sem í þeim er. Ég var með föðurnum frá upphafi. Ég er í föðurnum og faðirinn í mér, og í mér hefur faðirinn gjört nafn sitt dýrðlegt.“28

„Ég er ljós og líf heimsins. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn.

Og ekki skuluð þér fórna mér blóðfórnum framar. Já, fórnir yðar og brennifórnir skulu undir lok líða, því að ég tek ekki lengur við fórnum yðar og brennifórnum.

En þér skuluð bjóða mér sem fórn sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda. Og hvern þann, sem kemur til mín með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda, mun ég skíra með eldi og heilögum anda. …

Sjá! Ég er kominn í heiminn til að endurleysa heiminn og frelsa heiminn frá synd.“29

„Og enn segi ég yður. Þér verðið að iðrast og láta skírast í mínu nafni og verða sem lítið barn, ella getið þér engan veginn erft Guðs ríki.“30

„Þess vegna vil ég, að þér séuð fullkomnir, rétt eins og ég eða faðir yðar á himni er fullkominn.“31

„Sannlega, sannlega segi ég yður, að þér verðið að halda vöku yðar og biðja án afláts, svo að djöfullinn freisti yðar ekki og leiði yður ánauðug burt.“32

„Þess vegna verðið þér ávallt að biðja til föðurins í mínu nafni.“33

„Hvað sem þér þess vegna gjörið, það skuluð þér gjöra í mínu nafni. Þess vegna skuluð þér nefna kirkjuna mínu nafni.“34

„Sjá, ég hef gefið yður fagnaðarerindi mitt, og þetta er fagnaðarerindið, sem ég hef gefið yður - að ég kom í heiminn til að gjöra vilja föður míns, vegna þess að faðir minn sendi mig.

Og faðir minn sendi mig, til þess að mér yrði lyft upp á krossinum. Til þess að ég gæti dregið alla menn til mín, eftir að mér hefði verið lyft upp á krossinum … og [þeir] dæmdir af verkum sínum, hvort heldur þau eru góð eða ill.“35

„En þetta er boðorðið: Iðrist, öll endimörk jarðar og komið til mín og látið skírast í mínu nafni, svo að þér megið helgast fyrir móttöku heilags anda og þér fáið staðið flekklaus frammi fyrir mér á efsta degi.“36

Við trúum á Krist. Ég lýk með því sem hann sagði varðandi það hvernig við getum borið kennsl á og fylgt kenningu hans:

„En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður.“37

Ég staðfesti sannleika þessara kenninga í nafni Jesú Krists, amen.