Aðalráðstefna
Allt mun fara vel vegna musterissáttmála
Aðalráðstefna apríl 2024


Allt mun fara vel vegna musterissáttmála

Það er ekkert er mikilvægara en að heiðra þá sáttmála sem þið hafið gert eða munuð gera í musterinu.

Kæru bræður og systur, þessi hluti aðalráðstefnunnar hefur verið mér helgur tími. Ég er þakklátur fyrir það verkefni að fá að tala til milljóna Síðari daga heilagra og vina okkar um allan heim. Ég elska ykkur og ég veit að Drottinn elskar ykkur.

Fyrir rúmum 50 árum, naut ég þeirra forréttinda að þjóna sem skólastjóri Ricks College í Rexburg, Idaho. Að morgni 5. júní 1976, ókum ég og eiginkona mín, Kathy, frá Rexburg til Idaho Falls-musterisins, til að vera viðstödd innsiglun náins vinar. Þar sem við höfðum fjóra unga drengi á heimilinu, var musterisferðin auðvitað aðeins möguleg með aðstoð hugrakkrar barnapíu! Við skildum dýrmæt börnin okkar eftir í hennar umsjá og fórum í hið stutta, 30 mínútna ferðalag.

Upplifun okkar í musterinu þennan dag var dásamleg, eins og alltaf áður. Eftir musterisinnsiglunina – og þegar við bjuggum okkur undir að fara aftur heim – tókum við hins vegar eftir að margir þjónar og gestir musterisins ræddu áhyggjufullir saman í anddyri musterisins. Eftir andartak sagði einn musterisþjónanna okkur að hin nýbyggða Teton-stífla í austurhluta Idaho hefði brostið! Meira en 300 milljón rúmmetrar af vatni flæddu gegnum stífluna, niður í nálæga dali sem eru 775 ferkílómetrar að stærð. Stór hluti borgarinnar Rexburg var undir vatni og heimili og farartæki sópuðust burt með flóðinu. Tveir þriðju af 9.000 íbúum urðu skyndilega heimilislausir.1

Eins og þið gætuð ímyndað ykkur, beindust hugsanir okkar og áhyggjur að öryggi kærra barna okkar, mörg hundruð háskólanema og kennara og samfélagsins sem okkur þótti vænt um. Við vorum í innan við 50 km fjarlægð frá heimili okkar og samt, á þessum degi, löngu áður en farsímar og textaskilaboð komu til sögunnar, var engin leið að ná samstundis sambandi við börnin okkar eða aka frá Idaho Falls til Rexburg, þar sem öllum vegum hafði verið lokað.

Eini valkostur okkar var að gista á móteli í Idaho Falls. Kathy og ég krupum saman á litla mótelherberginu okkar og sárbáðum himneskan föður auðmjúklega um að gæta kæru barnanna okkar og þúsunda annarra sem urðu fyrir áhrifum af þessum hörmulega atburði. Ég man eftir því að Kathy gekk um gólf snemma morguns, áhyggjufull yfir börnunum sínum. Þrátt fyrir mínar eigin áhyggjur, gat ég róað hugann og sofnað.

Það leið ekki á löngu áður en minn ástkæri eilífi lífsförunautur vakti mig og sagði: „Hal, hvernig getur þú sofið á svona stundu?“

Þessi orð komu síðan greinilega í huga minn og hjarta. Ég sagði við eiginkonu mína: „Kathy, hver sem niðurstaðan verður, þá mun allt fara vel vegna musterisins. Við höfum gert sáttmála við Guð og verið innsigluð sem eilíf fjölskylda.“

Á þeirri stundu var eins og andi Drottins staðfesti í hjörtum okkar og huga það sem við vissum bæði að væri sannleikur: Helgiathafnir innsiglunar, sem aðeins finnast í húsi Drottins og framkvæmdar eru með réttmætu prestdæmisvaldi, höfðu bundið okkur saman sem eiginmann og eiginkonu og börnin okkar höfðu verið innsigluð okkur. Það var sannlega engin ástæða til að óttast og við vorum þakklát fyrir að fá síðar fréttir um að drengirnir okkar væru öruggir.

Ef til vill lýsa þessi orð Thomas S. Monson forseta best tilfinningum okkar Kathy þetta ógleymanlega kvöld. „Við hljótum tilfinningu andlega víddar og friðar er við sækjum musterið heim. … Við munum læra sanna merkingu þessara orða frelsarans: ‚Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. … Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist [Jóhannes 14:27].‘“2

Ég hef notið þeirrar blessunar að finna þann frið í hvert sinn sem ég fer í hið helga musteri. Ég minnist fyrsta dagsins sem ég gekk inn í Salt Lake-musterið. Ég var ungur piltur.

Ég leit upp í hátt, hvítt loftið, sem olli því að herbergið var svo bjart að það virtist næstum opnast til himins. Á því augnabliki komu þessi skýru orð í huga mér: „Ég hef áður verið í þessu bjarta rými.“ Um leið komu í huga mér þessi orð, sem ekki voru frá mér sjálfum: „Nei, þú hefur ekki komið hingað áður. Þú minnist stundar fyrir fæðingu þína. Þú varst á helgum stað eins og þessum, þar sem Drottinn gat komið.“

Bræður og systur, ég ber ykkur auðmjúklega vitni um að þegar við sækjum musterið heim, getur vaknað minning um eilíft eðli anda okkar, samband okkar við föðurinn og guðlegan son hans og endanlega þrá til að snúa aftur til okkar himnesku heimkynna.

Í nýlegri ráðstefnuræðu kenndi Russell M. Nelson forseti:

Andlega öruggasti staðurinn til að vera á, er að lifa innan marka musterissáttmála ykkar!“

Allt sem við trúum og öll loforð sem Guð hefur gefið sáttmálsfólki sínu er sett fram í musterinu.“3

„Sérhver einstaklingur sem gerir sáttmála í skírnarfonti og í musteri – og heldur þá – hefur aukinn aðgang að krafti Jesú Krists.“4

Hann kenndi líka að „þegar við eitt sinn gerum sáttmála við Guð, yfirgefum við hlutleysi að eilífu. Guð mun ekki fyrirgera sambandi sínu við þá sem hafa bundist honum slíkum böndum. Allir þeir sem hafa gert sáttmála við Guð, hafa í raun aðgang að sérstökum kærleika og náð.“5

Undir innblásinni stjórnun Nelsons forseta, hefur Drottinn hraðað og mun halda áfram að hraða byggingu mustera um allan heim. Þetta gerir öllum börnum Guðs mögulegt að taka á móti helgiathöfnum sáluhjálpar og upphafningar og að gera og halda helga sáttmála. Að gera helga sáttmála er ekki einn atburður, heldur ævilangt lífsmynstur. Drottinn hefur sagt að það muni krefjast alls hjarta okkar, máttar, huga og styrks.6

Tíð þátttaka í helgiathöfnum musterisins, getur skapað lífsmynstur að hollustu við Drottin. Þegar þið haldið musterissáttmála ykkar og hafið þá hugfasta, bjóðið þið heilögum anda að bæði styrkja ykkur og hreinsa.

Þið gætuð þá fundið ljós og von sem vitna um að loforðin séu sönn. Ykkur mun skiljast að sérhver sáttmáli við Guð felur í sér tækifæri til að komast nær honum, sem mun vekja þrá í hjarta ykkar til að halda musterissáttmála.

Okkur hefur verið lofað: „Vegna sáttmála okkar við Guð, mun hann aldrei þreytast á viðleitni sinni til að hjálpa okkur og við munum aldrei þurrausa hina náðarsamlegu þolinmæði hans til okkar.“7

Það er í gegnum innsiglunarsáttmálana í musterinu sem við getum tekið á móti fullvissunni um ástkær fjölskyldusambönd, sem ná út fyrir dauða og vara eilíflega. Að heiðra hjónabands- og fjölskyldusáttmála sem gerðir eru í musterum Guðs, mun veita vernd frá illsku sjálfselsku og drambsemi.

Stöðug umhyggja systkina fyrir hvert öðru, vaknar aðeins með stöðugri viðleitni til að leiða fjölskyldu ykkar að hætti Drottins. Gefið börnum tækifæri til að biðja fyrir hvert öðru. Greinið fljótt upphaf sundrungar og berið kennsl á óeigingjarna þjónustu, einkum gagnvart hvert öðru. Þegar systkini biðja fyrir hvert öðru og þjóna hvert öðru, munu hjörtu mildast og snúast til hvers annars og foreldra sinna.

Að hluta er þetta það sem Malakí lýsir er hann sagði fyrir um komu spámannsins Elía: „Hann mun gróðursetja í hjörtum barnanna fyrirheit þau, sem feðrunum voru gefin, og hjörtu barnanna munu snúast til feðra sinna. Ef svo væri ekki, mundi jörðin öll verða gjöreydd við komu hans.“8

Raunir, áskoranir og sorgir munu vissulega verða á vegi okkar allra. Ekkert okkar er ónæmt fyrir „[fleinum] í holdinu“.9 Þegar við förum í musterið og minnumst sáttmála okkar, getum við þó búið okkur undir að hljóta persónulega leiðsögn frá Drottni.

Þegar ég og Kathy giftumst og vorum innsigluð í Logan-musterinu í Utah, framkvæmdi Spencer W. Kimball, þá öldungur, innsiglunina. Meðal þeirra fáu orða sem hann sagði, var þessi leiðsögn: „Hal og Kathy, hagið lífi ykkar þannig að þegar kallið kemur, þá getið þið gengið auðveldlega í burtu frá öllu.“

Í upphafi skildum við ekki þessa leiðsögn fyrir okkur, en við gerðum okkar besta til að haga lífi okkar á þann hátt að við yrðum undir það búin að fara til að þjóna Drottni, þegar kallið kæmi. Eftir að við höfðum verið gift í nærri 10 ár, barst óvænt símtal frá framkvæmdastjóra Fræðslumála kirkjunnar, Neal A. Maxwell.

Hin ástúðlega viðvörun sem Kimball forseti hafði gefið í musterinu, um að „ganga auðveldlega í burtu“ varð að veruleika. Ég og Kathy fengum köllun um að yfirgefa það sem virtust unaðslegar aðstæður í Kaliforníu, til að þjóna við verkefni og á stað sem ég vissi ekkert um. Fjölskylda okkar var fús til að yfirgefa þær, vegna þess að spámaður í heilögu musteri, stað opinberana, sá fyrir atburð í framtíðinni sem við yrðum þá búin undir.

Kæru bræður og systur, ég ber vitni um að ekkert er mikilvægara en að heiðra þá sáttmála sem þið hafið gert eða getið gert í musterinu. Ég hvet ykkur, sama hvar þið eruð á sáttmálsveginum, til að vera verðug og hæf til að fara í musterið. Heimsækið það eins oft og aðstæður leyfa. Gerið og haldið helga sáttmála við Guð. Ég get fullvissað ykkur um sama sannleika og ég sagði Kathy um miðja nótt, fyrir nærri fimm áratugum, í mótelherbergi í Idaho Falls: „Sama hver niðurstaðan verður, þá mun allt fara vel vegna musterissáttmála.“

Ég gef ykkur öruggt vitni mitt um að Jesús er Kristur. Hann lifir og leiðir kirkju sína. Musteri eru hús Drottins. Nelson forseti er lifandi spámaður Guðs á jörðu. Ég elska hann og ég elska hvert ykkar. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.