Aðalráðstefna
Vitnisburðurinn um Jesú
Aðalráðstefna apríl 2024


Vitnisburðurinn um Jesú

Ég býð ykkur að bregðast við núna til að tryggja stöðu ykkar sem einstaklingur sem er hugdjarfur í vitnisburðinum um Jesú.

Árið 1832 fengu Joseph Smith og Sidney Rigdon merkilega sýn sem varðaði eilíf örlög Guðs barna. Í þessari opinberun var rætt um þrjú himnesk ríki. Dallin H. Oaks forseti ræddi í október síðastliðnum um þessi þrjú „dýrðarríki“1 og „í gegnum sigur og dýrð lambsins,“2 verða öll nema fáein að lokum endurleystir til lífs í þessum dýrðarríkjum „í samræmi við þær þrár sem þau hafa staðfest með eigin vali.“3 Endurlausnaráætlun Guðs felur í sér alhliða tækifæri fyrir öll börn hans, hvenær og hvar sem þau kunna að hafa dvalið á jörðinni.

Þótt dýrð hins lægsta af þessum þremur ríkjum, hið jarðneska, sé „ofar öllum skilningi,“4 er það von föður okkar að við munum velja – og, fyrir náð sonar hans, verða hæf fyrir – hið hæsta og dýrðlegasta þessara ríkja, hið himneska, þar sem við munum njóta eilífs lífs sem „samarfar Krists.“5 Russell M. Nelson forseti hefur hvatt okkur til að „hugsa himneskt“ og gera himneska ríkið að eilífu markmiði okkar og „íhuga svo vandlega til hvaða staðar ákvarðanir ykkar hér á jörðu munu leiða ykkur í næsta heimi.“6

Þeir sem eru í himneska ríkinu eru „þau sem veittu vitnisburðinum um Jesú viðtöku, … réttvísir menn, fullkomnir gjörðir fyrir Jesú, meðalgöngumann hins nýja sáttmála.“7 Íbúum þess næsta, eða yfirjarðneska ríkisins, er lýst í meginatriðum sem góðum og þar á meðal eru hinir „heiðvirðu menn jarðarinnar, sem blindaðir voru af slægð mannanna.“ Þeirra helstu annmarkar eru að vera „ekki … hugdjarfir í vitnisburðinum um Jesú.”8 Á hinn bóginn, eru þau sem dvelja í hinu lægra, jarðneska ríkinu, þau „sem hvorki meðtóku fagnaðarerindið, né vitnisburðinn um Jesú.“9

Gætið að því að það sem einkennir íbúa hvers ríkis er hvernig þeir tengjast „vitnisburðinum um Jesú,“ frá því að vera (1) fullkomlega trúfastir til (2) þess að vera ekki hugdjarfir til (3) algjörrar höfnunar. Á viðbrögðum hverrar manneskju veltur eilífð framtíð hennar.

I.

Hvað er vitnisburðurinn um Jesú?

Það er vitnisburður heilags anda um að Jesús sé guðdómlegur sonur Guðs, Messías og lausnarinn. Það er vitnisburður Jóhannesar um að Jesús var í upphafi með Guði, skapari himins og jarðar og að „í honum var líf og lífið var ljós mannanna.”10 Það er „vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú, … að hann dó, var grafinn, og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins.“11 Það er sú vitneskja að „ekkert annað nafn er til, sem sáluhjálp veitir.”12 Það er síðasti „vitnisburður spámannsins Josephs Smith“ að hann lifi! … Að hann er hinn eingetni föðurins – að með honum, fyrir hann, og af honum eru og voru heimarnir skapaðir, og íbúar þeirra eru getnir synir og dætur Guðs.“13

II.

Handan við þennan vitnisburð er spurningin: Hvað gerum við í því?

Þeir sem erfa himneska ríkið „veittu“ vitnisburðinum um Jesú viðtöku á fyllsta hátt með því að láta skírast, meðtaka heilagan anda og sigra fyrir trú.14 Reglur og sannleikur fagnaðarerindis Jesú Krists ráða forgangsröðun þeirra og vali. Vitnisburðurinn um Jesú er birtingarmynd þess sem þeir eru og eru að verða. Hvati þeirra er kærleikurinn „hin hreina ást Krists.“15 Þeir einblína á að ná „vaxtartakmarki Krists fyllingar.“16

Sumir þeirra sem verða í yfirjarðneska ríkinu veittu líka vitnisburðinum um Jesú viðtöku, en aðgreinast af því sem þeir gera ekki varðandi hann. Að vera ekki hugdjörf í vitnisburði frelsarans bendir til ákveðins sinnuleysis eða hirðuleysis – vera „hálfvolgur“17 – andstætt þegnum Ammons í Mormónsbók sem „einkenndust af guðrækni sinni.“18

Þau sem dvelja í jarðneska ríkinu eru þau sem hafna vitnisburðinum um Krist ásamt fagnaðaerindi hans, sáttmála og spámönnum. Þeim lýsir Abínadí og segir þau „hafa breytt eftir vilja og þrá síns eigin holds, en aldrei leitað til Drottins, meðan faðmur miskunnarinnar stóð þeim opinn, því að faðmur miskunnarinnar var þeim opinn, en [þau] tóku ekki við honum.“19

III.

Hver er merking þess að vera hugdjörf í vitnisburðinum um Jesú?

Það eru nokkrir möguleikar sem koma til greina til að svara þessari spurningu. Ég ætla að nefna fáeina. Að vera hugdjörf í vitnisburðinum um Jesú felur í sér að næra og styrkja þann vitnisburð. Sannir lærisveinar hunsa ekki litlu hlutina sem viðhalda og styrkja vitnisburðinn um Jesú, eins og bænir, ritninganám, að halda hvíldardaginn heilagan og meðtaka sakramentið, iðrast, þjóna og og tilbiðja í húsi Drottins. Nelson forseti áminnir okkur að „á ógnarhraða getur vitnisburður, sem ekki er daglega nærður ‚hinu góða orði Guðs‘ [Moróní 6:4] orðið að engu. Því þurfum við, … að tilbiðja Drottin daglega og læra fagnaðarerindi hans.“ Hann bætti síðan við: „Ég bið ykkur að láta Guð ríkja í lífi ykkar. Gefið honum sanngjarnan hluta af tíma ykkar. Þegar þið gerið það, takið þá eftir því sem gerist varðandi jákvæðan andlegan skriðþunga ykkar.“20

Að vera hugdjörf bendir til þess að vera opinskár og að miðla vitnisburði sínum. Í skírninni staðfestum við fúsleika okkar til að „standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem við kunnum að vera, já, allt til dauða.“21 Sérstaklega um páskahátíðina boðum við gleðilega, opinberlega og án fyrirvara vitnisburð okkar um hinn upprisna, lifandi Krist.

Einn þáttur þess að vera hugdjörf í vitnisburðinum um Jesú er að gefa gaum að sendiboðum hans. Guð þvingar okkur ekki inn á betri veg, sáttmálsveginn, heldur býður hann spámönnum sínum að gera okkur fullkomlega meðvituð um afleiðingar þess sem við veljum. Það á ekki bara við um meðlimi kirkjunnar. Með spámönnum sínum og postulum biður hann ástúðlega allan heiminn að gefa gaum að sannleikanum sem mun gera menn frjálsa,22 hlífa þeim við óþarfa þjáningum og veita þeim varanlega gleði.

Að vera hugdjörf í vitnisburðinum um Jesú þýðir að hvetja aðra með orðum og fordæmi að vera líka hugdjörf, einkum þau sem eru í fjölskyldu okkar. Öldungur Neal A. Maxwell ræddi eitt sinn um þá meðlimi [kirkjunnar] sem í „meginatriðum eru ‚heiðarlegir,‘ en fleyta af yfirborðinu í stað þess að kafa djúpt í lærisveinshlutverk sínu, eru lauslega virkir, fremur en að ,starfa af kappi‘ (Kenning og sáttmálar 76:75; 58:27).“23 Öldungur Neal A. Maxwell tiltók að öllum væri frjálst að velja, en harmaði: „Því miður er þó svo að þegar sumir velja að slá slöku við, væru þeir ekki eingöngu að velja fyrir sig sjálfa, heldur fyrir næstu kynslóð og þar næstu. Smávægileg frávik hjá foreldrum geta valdið miklum frávikum hjá börnum þeirra! Fyrri kynslóðir í fjölskyldu gætu hafa sýnt trúfesti, meðan sumir í núverandi kynslóð hennar sýna tvíræðni. Því miður gætu sumir í þeirri næstu valið ósætti, því eyðing tekur sinn toll.“24

Fyrir mörgum árum sagði öldungur John H. Groberg sögu um unga fjölskyldu sem bjó í lítilli grein á Havaí upp úr aldamótunum 1990. Þau höfðu verið meðlimir kirkjunnar í um tvö ár þegar ein dætra þeirra veiktist af óþekktum sjúkdómi og var lögð inn á sjúkrahús. Í kirkjunni næsta sunnudag, höfðu faðirinn og sonurinn til sakramentið, eins og þeir gerðu flestar vikurnar, en þegar faðirinn ungi kraup á kné til að blessa brauðið, áttaði greinarforsetinn sig skyndilega á hver væri við borðið, stökk á fætur og hrópaði: „Stopp. Þú mátt ekki snerta sakramentið. Dóttir þín er með óþekktann sjúkdóm. Farið þegar í stað í burtu á meðan einhver annar hefur til nýtt sakramentisbrauð. Við getum ekki haft ykkur hér. Farið.“ Undrandi faðirinn horfði íhugull á greinarforsetann og síðan yfir söfnuðinn og skynjaði ákafan ótta og vandræðagang hjá öllum, gaf fjölskyldu sinni bendingu og þau fóru hljóðlega út úr kapellunni.

Enginn sagði stakt orð er fjölskyldan gekk sorgmædd áleiðis að litla heimilinu sínu. Þar sátu þau saman í hring og faðirinn sagði, „Verið endilega hljóð þar til ég er undir það búinn að tjá mig.“ Ungi sonurinn íhugaði hvað þau myndu gera til að hefna sín fyrir smánina sem þau þurftu að þola: Myndu þau drepa svín greinarforsetans eða brenna húsið hans eða ganga í aðra kirkju? Fimm, tíu, fimmtán, tuttugu og fimm mínútur liðu í þögn.

Slakna tók á krepptum hnefum föðurins og tár tóku að spretta fram. Móðirinn tók að gráta og brátt tókr hvert barna þeirra að gráta hljóðlega. Faðirinn snéri sér að eiginkonu sinni og sagði: „Ég elska þig,“ og endurtók svo þessi orð til sérhvers barns. „Ég elska ykkur öll og vil að við verðum saman að eilífu sem fjölskylda. Eina leiðin til þess að það geti orðið, er að við séum góðir meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og verðum innsigluð með hinu heilaga prestdæmi í musterinu. Þetta er ekki kirkja greinarforsetans. Þetta er kirkja Jesú Krists. Við munum ekki leyfa að nokkur maður eða nokkur særindi eða smán eða dramb hindri okkur frá því að vera saman að eilífu. Næsta sunnudag munum við fara aftur til kirkju. Við verðum ein saman þar til sjúkdómur dóttur okkar er orðin ljós, en við munum fara aftur.“

Þau fóru aftur í kirkju, dóttir þeirra náði heilsu og fjölskyldan var innsigluð saman í Laie Havaí-musterinu, þegar byggingu þess var lokið. Í dag eru vel yfir 100 manns sem kalla föður sinn, afa og langafa blessaðan, því hann beindi augliti sínu að eilífðinni.25

Einn síðasti þátturinn sem ég vil nefna um að vera hugdjörf í vitnisburðinum um Jesú, er leit okkar sjálfra að persónulegum heilagleika. Jesús er okkar ómissandi lausnari26 og hann sárbiður okkur: „Iðrist, öll endimörk jarðar og komið til mín og látið skírast í mínu nafni, svo að þér megið helgast fyrir móttöku heilags anda og þér fáið staðið flekklaus frammi fyrir mér á efsta degi.“27

Spámaðurinn Mormón lýsir einum hópi heilagra sem þannig stóðst, þrátt fyrir að þurfa að „líða miklar þrengingar“28:

„Engu að síður fastaði það og baðst oft fyrir og varð sífellt styrkara í auðmýkt sinni og stöðugt ákveðnara í trúnni á Krist, þar til sálir þess fylltust gleði og huggun, já, sem hreinsaði og helgaði hjörtu þess, þeirri helgun, sem fæst með því að gefa hjörtu sín Guði.“29 Það er þessi mikla umbreyting hjartans – að snúa hjörtum okkar til Guðs og að endurfæðast andlega fyrir náð frelsarans – sem við leitumst eftir.30

Ég býð ykkur að bregðast við núna til að tryggja stöðu ykkar sem einstaklingur sem er hugdjarfur í vitnisburðinum um Jesú. Ef iðrunar er þörf, „[skjótið þá] ekki degi iðrunar ykkar á frest,”31 svo að „á þeirri stundu, þegar þér teljið að sumarið sé enn ekki á enda runnið né uppskeru lokið, [verði] sálir yðar … ekki hólpnar.”32 Verið kappsöm við að halda sáttmála ykkar við Guð. Ekki „[reiðast] vegna strangleika orðsins.“33 „Ég vildi, að þér hefðuð hugfast að varðveita ætíð nafnið [Kristur] í hjörtum yðar, svo að … þér [þekkið] röddina sem mun kalla yður, og einnig það nafn sem hann gefur yður.“34 Að lokum „ákveð þetta því í hjarta þínu, að þú munir gera það sem ég [Jesús] kenni og býð þér.“35

Faðir okkar vill að öll börn sín sem það vilja, njóti eilífs lífs með sér í himneska ríki sínu. Jesús dó og reis upp til að gera það mögulegt. Hann „hefur stigið upp til himins og sest til hægri handar Guði, til að krefja föðurinn um rétt sinn til miskunnar fyrir mannanna börn.”36 Ég bið þess að við megum öll verða blessuð með brennandi vitnisburði um Drottin Jesú Krist, gleðjast og vera hugdjörf í þeim vitnisburði og njóta stöðugt ávaxta náðar hans í lífi okkar. Í nafni Jesú Krists, amen.