Aðalráðstefna
Greinargerð um það sem ég hef séð og heyrt
Aðalráðstefna apríl 2024


Greinargerð um það sem ég hef séð og heyrt

Það hefur aldrei verið betri tími til að vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu en í dag.

Eftir að ég útskrifaðist úr laganáminu, völdum ég og eiginkona mín, Marcia, að ganga til liðs við lögfræðistofu sem sérhæfði sig í réttarhöldum. Þegar ég hóf starfsþjálfun mína, varði ég miklum tíma í að búa vitni undir að bera vitni í réttarhöldum. Ég komst fljótt að því að staðreyndir væru ákvarðaðar í réttarsalnum, er eiðsvarin vitni báru vitni um sannleiksgildi þess sem þau höfðu bæði séð og heyrt. Þegar vitnin báru vitni voru orð þeirra bæði skráð og varðveitt. Mikilvægi trúverðugra vitna var ávallt í fyrirrúmi í undirbúningi mínum.

Ekki leið á löngu þar til mér varð ljóst að nákvæmlega sömu hugtökin og ég notaði daglega sem lögfræðingur voru líka þau sem ég notaði í samtölum mínum um fagnaðarerindið. „Vitni“ og „vitnisburður“ eru hugtök sem við notum er við miðlum þekkingu okkar og tilfinningum um sannleiksgildi fagnaðarerindis Jesú Krists.

Þegar ég var studdur sem nýr svæðishafi Sjötíu, lauk ég upp ritningunum til að læra skyldur mínar og las Kenningu og sáttmála 107:25, en þar segir: „Hinir sjötíu eru einnig kallaðir til … að vera Þjóðunum sérstök vitni og um allan heim.“ Eins og þið getið ímyndað ykkur, þá festust augu mín við orðtakið „sérstök vitni“. Mér varð ljóst að ég hefði þá ábyrgð að bera vitni – að vitna um nafn Jesú Krists – hvar sem ég ferðaðist um heiminn.

Dæmin eru mörg í ritningunum um þau sem voru sjónarvottar og báru vitni um það sem þau bæði sáu og heyrðu.

Hinn forni spámaður Mormón hefur heimild sína á því að rita: „Og nú færi ég, Mormón, í letur það, sem ég hef séð og heyrt og nefni það Bók Mormóns.“1

Postular frelsarans, Pétur og Jóhannes, læknuðu mann í nafni Jesú Krists frá Nasaret.2 Þegar þeim var boðið að mæla ekki í nafni Jesú, svöruðu þeir:

„Dæmið sjálfir hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast ykkur fremur en honum.

Við getum ekki talað annað en það sem við höfum séð og heyrt.“3

Annar óyggjandi vitnisburður kemur frá hinum heilögu í Mormónsbók, sem urðu vitni að vitjun frelsarans, Jesú Krists. Hlustið á lýsingu vitnisburðar þeirra: „Og á þennan hátt bar það vitni: Hvorki hefur auga séð né eyra heyrt áður jafn mikla og undursamlega hluti og við sáum og heyrðum Jesú tala til föðurins.“4

Bræður og systur, í dag lýsi ég yfir vitnisburði mínum og legg fram greinargerð um það sem ég hef séð og heyrt í helgri þjónustu minni sem einn hinna Sjötíu Drottins Jesú Krists. Er ég geri svo, ber ég ykkur vitni um kærleiksríkan himneskan föður og gæskuríkan son hans, Jesú Krist, sem þjáðist, dó og reis aftur upp til að bjóða börnum Guðs eilíft líf. Ég ber vitni um „dásemdarverk og undur“5 og að Drottinn hefur enn á ný rétt út hönd sína til að endurreisa fagnaðarerindi sitt á jörðu með lifandi spámönnum sínum og postulum.6 Ég ber ykkur vitni, byggt á því sem ég hef séð og heyrt, um að það hefur aldrei verið betri tími til að vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu en í dag. Ég þekki þetta af eigin raun, óháð öllum öðrum heimildum, vegna þess sem ég hef séð og heyrt.

Á efsta ári mínu í menntaskóla, þurfti ég að auðkenna öll 15 musteri kirkjunnar til að útskrifast úr trúarskólanum. Mynd af hverju musteri var fremst í kennslustofunni og ég varð að vita hvar hvert þeirra væri staðsett. Nú, mörgum árum síðar, væri það gífurleg áskorun – með 335 starfrækt eða ráðgerð musteri – að bera kennsl á hvert og eitt þeirra. Ég hef persónulega séð mörg þessara húsa Drottins og ber vitni um að Drottinn býður blessanir sínar og helgiathafnir stöðugt fleiri börnum sínum um allan heim.

Vinir mínir hjá FamilySearch hafa sagt mér að þeir bæti dag hvern yfir einni milljón nýrra nafna við FamilySearch. Ef þið funduð ekki áa ykkar í gær, býð ég ykkur að leita aftur á morgun. Hvað varðar samansöfnun Ísraels handan hulunnar, þá hefur aldrei verið betri tími til að vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu en í dag.

Við höfðum takmarkaðan skilning á heimskirkjunni, þar sem við ólum upp börn okkar í Twin Falls, Idaho. Þegar ég var kallaður sem aðalvaldhafi, var okkur Marciu falið að þjóna á Kyrrahafssvæðinu, stað sem við höfðum aldrei komið á. Við vorum ánægð með að finna stikur frá norðri til suðurs í Nýja-Sjálandi, með musteri sem var vígt árið 1958. Það var eitt af þessum 15 sem ég lærði utanbókar í trúarskólanum. Við fundum musteri í öllum stórborgum Ástralíu, með stikum um alla heimsálfuna. Við vorum með verkefni á Samóaeyjum, þar sem eru 25 stikur, og á Tonga, þar sem næstum helmingur íbúanna eru meðlimir kirkjunnar. Við vorum með verkefni á eyjunni Kíribatí, þar sem við fundum tvær stikur. Okkur var úthlutað því verkefni að heimsækja stikur í Ebeye á Marshalleyjum og Daru í Papúa Nýju-Gíneu.

Eftir þjónustu okkar á Kyrrahafseyjunum, var okkur falið að þjóna á Filippseyjum. Mér til undrunar vex kirkja Jesú Krists á Filippseyjum meira en ég hafði gert mér grein fyrir. Nú eru 125 stikur, 23 trúboð og 13 starfrækt eða ráðgerð musteri. Ég varð vitni að því að yfir 850.000 meðlimir voru í þessu landi. Hvernig hafði mér yfirsést að kirkja Krists hafði verið stofnsett um allan heim?

Eftir þrjú ár á Filippseyjum, var ég beðinn um að þjóna í trúboðsdeildinni. Það verkefni mitt fór með okkur í trúboðsstöðvar um allan heim. Sýn mín á heimskirkju frelsarans stækkaði svo um munaði. Mér og Marciu var falið að heimsækja trúboðsstöðvar í Asíu. Við fundum fallega stikumiðstöð í Singapúr, með frábærum, trúföstum meðlimum. Við heimsóttum meðlimi og trúboða í kapellu í Kota Kinabalu, Malasíu. Við hittum trúboða í Hong Kong og tókum þátt í dásamlegri stikuráðstefnu með trúföstum heilögum.

Þessi upplifun endurtók sig þegar við hittum trúboða og meðlimi um alla Evrópu, í Rómönsku Ameríku, á Karíbaeyjum og í Afríku. Kirkja Jesú Krists vex gríðarlega í Afríku.

Ég er sjónarvottur að áframhaldandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists og uppfyllingu þessa spádóms Josephs Smith: „Sannleikur Guðs mun sækja fram óháður, ákveðinn og göfugur, þar til hann hefur farið um hvert meginland, vitjað hvers lands, þrætt hvert hérað og hljómað í hverju eyra.“7

Okkar dásamlegu trúboðar sem nú þekja heiminn eru rúmlega 74.000 talsins. Þeir vinna með meðlimum og skíra yfir 20.000 manns í hverjum mánuði. Nýlega hafa það verið 18, 19 og 20 ára piltar og stúlkur sem hafa með hjálp Drottins framkallað þetta máttuga kraftaverk samansöfnunar. Við finnum þessar stúlkur og pilta í litlum þorpum á Vanúatú og í stórborgunum New York, París og London. Ég hef fylgst með þeim kenna um frelsarann meðal afskekktra safnaða á Fídjíeyjum og meðal stærri safnaða á stöðum eins og í Texas, Kaliforníu og Flórída í Bandaríkjunum.

Þið munið finna trúboða hvarvetna um jörðu, sem tala 60 mismunandi tungumál og framfylgja hinu mikla boði frelsarans í Matteusi 28: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.“8 Ég heiðra trúboða kirkjunnar, bæði fyrrverandi og núverandi, og minni hina upprennandi kynslóð á boð Russells M. Nelson forseta um að koma og safna saman Ísrael.9

Í dag ber ég vitni um að ég hef sjálfur litið þessa miklu endurreisn fagnaðarerindis frelsarans eigin augum og heyrt hana með eigin eyrum. Ég er vitni um verk Guðs um allan heim. Það hefur aldrei verið betri tími til að vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu en í dag.

Innblásnasta kraftaverk endurreisnarinnar sem ég hef orðið vitni að eruð ef til vill þið, hinir trúföstu meðlimir kirkjunnar í hverju landi. Ykkur, hinum Síðari daga heilögu, er lýst af Nefí í Mormónsbók, eins og hann sá okkar daga og bar vitni: „Og svo bar við, að ég, Nefí, sá vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.“10

Ég ber vitni um að ég hef séð eigin augum það sem Nefí sá – ykkur, hina sáttmálsheilögu í öllum löndum, vopnaða réttlæti og krafti Guðs. Þegar ég sat í ræðustól einnar þessara miklu þjóða heims, vakti Drottinn upp í huga minn nokkuð sem Benjamín konungur kenndi í Mósía 2 í Mormónsbók. Brent, „mig [langar] til, að [þú hugleiðir] blessun og hamingju þeirra, sem halda boðorð Guðs. Því að sjá. Þeir njóta blessunar í öllu, jafnt stundlegu sem andlegu.“11

Ég ber ykkur vitni um að ég hef séð þetta með eigin augum og heyrt það með eigin eyrum er ég hef hitt ykkur, hina trúföstu heilögu Guðs um heim allan sem haldið boðorðin. Þið eruð sáttmálsbörn föðurins. Þið eruð lærisveinar Jesú Krists. Þið vitið líka það sem ég veit, vegna þess að þið hafið hlotið persónulegan vitnisburð um sannleiksgildi hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Frelsarinn kenndi: „En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.“12

Við munum, undir leiðsögn Drottins og leiðsögn spámanna hans og postula, halda áfram að undirbúa trúboða, gera og halda helga sáttmála, stofna kirkju Krists um allan heim og meðtaka blessanirnar sem hljótast af því að halda boðorð Guðs. Við erum einhuga. Við erum börn Guðs. Við þekkjum hann og við elskum hann.

Ég tek undir með ykkur öllum, vinir mínir, er við berum sameiginlega vitni um að þetta er sannleikur. Við greinum frá því sem við höfum séð og heyrt. Ég og þú erum vitni sem vitna. Það er með krafti þessa sameinaða vitnis sem við sækjum fram í trú á Drottin Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Ég ber mitt vitni um að Jesús Kristur lifir. Hann er frelsari okkar og lausnari. Í nafni Jesú Krists, amen.