Aðalráðstefna
Æðri gleði
Aðalráðstefna apríl 2024


Æðri gleði

Megum við öll leita og finna hina æðri gleði sem hlýst af því að helga líf okkar himneskum föður og hans ástkæra syni.

Ég hef nú notið þeirrar miklu blessunar í þrjá áratugi að fá að tala á aðalráðstefnu. Á þeim tíma hafa margir víða um heim spurt mig spurninga sem tengjast ræðum mínum. Upp á síðkastið hefur ein ákveðin spurning stöðugt komið upp. Hún hljómar yfirleitt eitthvað á þessa leið: „Öldungur Uchtdorf, ég hlustaði vandlega á síðustu ræðuna þína en … ég hef ekki heyrt neitt um flugvélar.“

Eftir þennan dag heyri ég kannski ekki spurninguna að sinni.

Að „ferðast af gleði á sólríkum skýjum“1

Það er erfitt að trúa að það séu einungis 120 ár frá því að Wilbur og Orville Wright fóru fyrst í loftið og flugu yfir sanda Kitty Hawk í Norður-Karólínu. Fjórar stuttar flugferðir þennan dag í desember breyttu heiminum og luku upp dyrum að einni mestu uppfinningu í sögu heimsins.

Flugið var áhættusamt í þá daga. Þetta vissu bræðurnir. Það gerði faðir þeirra, Milton, líka. Í raun var hann svo hræddur við að missa báða syni sína í flugslysi að þeir lofuðu honum að þeir myndu aldrei fljúga saman.

Það gerðu þeir heldur aldrei – með einni undantekningu þó. Sjö árum eftir þennan sögulega dag á Kitty Hawk gaf Milton Wright loks samþykki sitt og horfði á Wilbur og Orville fljúga saman í fyrsta skipti. Eftir lendingu, sannfærði Orville föður sinn um að fara í sína fyrstu og einu flugferð til að hann sæi sjálfur hvernig þetta væri.

Þegar vélin lyftist frá jörðu varð hinn 82 ára gamli Milton svo yfirtekinn af fluggleðinni að honum hvarf allur ótti. Orville fagnaði um leið og faðir hans hrópaði glaðlega: „Hærra, Orville, hærra!“2

Þetta var maður að mínu skapi!

Kannski er ástæðan fyrir því að ég tala stundum um flugvélar sú að ég veit nokkuð um það sem Wright-bræður upplifðu. Ég hef líka „losnað úr drungalegum fjötrum jarðar og dansað í lofthjúpi á silfurtærum hlátursvængjum“.3

Fyrsta flugferð Wright-bræðra, sem átti sér stað aðeins 37 árum fyrir fæðingu mína, opnaði dyr ævintýra, undrunar og hreinnar gleði í líf mitt.

Eins dásamleg og sú gleði er, þá er jafnvel til enn æðri gleði. Í dag, í anda gleðihróps Miltons Wright: „Hærra, Orville, hærra,“ langar mig að ræða um þessa æðri gleði – hvaðan hún kemur, hvernig hún berst í hjörtu okkar og hvernig við getum upplifað hana í ríkari mæli.

Allur tilgangur mannlegrar tilveru

Það segir sig sjálft að allir vilja vera hamingjusamir.4 Engu að síður segir það sig sjálft að ekki eru allir hamingjusamir. Því miður virðist það svo að margir eigi erfitt með að finna hamingju.5

Af hverju er það svo? Ef hamingjan er það sem við mennirnir þráum mest, hvers vegna tekst okkur þá ekki að finna hana? Svo ég umorði kántrílag: Kannski höfum við leitað gleði á röngum stöðum.6

Hvar getum við fundið hamingju?

Áður en við ræðum hvernig finna á gleði, leyfið mér þá að benda á að þunglyndi og aðrir erfiðir, andlegir og tilfinningalegir erfiðleikar eru raunverulegir og svarið er ekki einfaldlega: „Reyndu að vera hamingjusamari.“ Tilgangur minn í dag er ekki að gera lítið úr geðrænum veikindum. Ég syrgi með ykkur og stend við hlið ykkar, ef þið takist á við slíkan vanda. Fyrir suma getur gleði falist í því að leita sér aðstoðar hjá þjálfuðu geðheilbrigðisstarfsfólki sem helgar líf sitt því að iðka sitt afar mikilvæga fag. Við ættum að vera þakklát fyrir slíka hjálp.

Lífið er ekki endalaus röð tilfinningalegra hæða. „Því að andstæður eru nauðsynlegar í öllu.“7 Og ef Guð sjálfur grætur, eins og ritningarnar staðfesta að hann geri,8 þá munum ég og þú auðvitað líka gráta. Að vera dapur er ekki merki um mistök. Gleði og sorg eru hið minnsta óaðskiljanlegir félagar í þessu lífi.9 Ég, líkt og þið öll, hef upplifað minn skerf af vonbrigðum, sorg, sút og sektarkennd.

Hins vegar hef ég líka sjálfur upplifað hina dýrðlegu dögun sem fyllir sálina af svo mikilli gleði að varla er hægt að höndla hana. Ég hef sjálfur komist að því að þessi friðsæla fullvissa á rætur í því að fylgja frelsaranum og ganga á hans vegum.

Friðurinn sem hann veitir okkur er ekki líkur þeim sem heimurinn gefur.10 Hann er betri. Hann er æðri og helgari. Jesús sagði: „Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð.“11

Fagnaðarerindi Jesú Krists er sannlega „mikil tíðindi fagnaðar og gleði“!12 Það er boðskapur óviðjafnanlegrar vonar! Boðskapur um að bera ok og létta byrðar.13 Um að safna sér ljósi. Um himneska hylli, æðri skilning, heilagri sáttmála, eilíft öryggi og ævarandi dýrð!

Gleði er einmitt tilgangur áætlunar Guðs fyrir börn hans. Til þess voruð þið sköpuð – „til þess að [þið megið] gleði njóta“!14 Þið voruð búin til fyrir þetta!

Faðir okkar á himnum hefur ekki falið veg hamingjunnar. Hún er ekki leyndarmál. Hún stendur öllum til boða!15

Hún er lofuð þeim sem ganga veg lærisveinsins, fylgja kenningum og fordæmi frelsarans, halda boðorð hans og heiðra sáttmálana sem þeir gera við Guð. Hve yndislegt loforð!

Guð hefur eitthvað meira að bjóða

Við þekkjum öll einhverja sem segjast ekki þurfa Guð til að njóta hamingju, að það sé nógu hamingjusamt án trúarbragða.

Ég viðurkenni og virði slíkar tilfinningar. Okkar ástkæri faðir á himnum vill að öll börn hans séu eins hamingjusöm og mögulegt er, svo hann hefur fyllt þennan heim fallegri, heilnæmri ánægju og yndisauka, „bæði til að þóknast auganu og gleðja hjartað“.16 Það veitti mér mikla gleði að fljúga. Aðrir finna hana í tónlist, í listgreinum, í áhugamálum eða í náttúrunni.

Með því að bjóða öllum og miðla hinum góðu tíðindum frelsarans um mikla gleði, gerum við ekki lítið úr neinum þessara gleðigjafa. Við segjum einfaldlega að Guð hafi eitthvað meira að gefa. Æðri og innilegri gleði – gleði sem er æðri öllu því sem þessi heimur býður upp á. Það er gleði sem stenst hörmungar, smýgur gegnum sorg og dregur úr einmanaleika.

Veraldleg hamingja varir hins vegar ekki. Hún getur það ekki. Það er eðli allra jarðneskra hluta að eldast, eyðast, slitna eða verða útjaskaðir. En guðleg gleði er eilíf, því Guð er eilífur. Jesús Kristur kom til að lyfta okkur upp úr hinu stundlega og skipta út forgengileika fyrir óforgengileika. Aðeins hann hefur þann kraft og einungis gleði hans er varanleg.

Ef þið viljið meira af slíkri gleði í lífi ykkar, þá býð ég ykkur að hefja þá ferð að fylgja Jesú Kristi og vegi hans. Þetta er ævilangt ferðalag – og lengra en það. Leyfið mér að leggja til nokkur upphafsskref á þessari verðugu ferð til að uppgötva sanna gleði.

Nálgist Guð17

Munið þið eftir konunni í Nýja testamentinu sem tókst á við blæðandi sjúkdóm í 12 ár?18 Hún hafði eytt öllu sem hún átti í lækna, en hlutirnir versnuðu bara. Hún hafði heyrt um Jesú; kraftur hans til lækningar var vel þekktur. Gæti hann læknað hana? Hvernig gæti hún yfirhöfuð komist nálægt honum? Sjúkdómur hennar gerði hana „óhreina“ samkvæmt lögmáli Móse og því var henni gert að halda sig fjarri öðrum.19

Að koma opinberlega til hans og biðja um lækningu virtist útilokað.

Hún hugsaði samt: „Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða.“20

Trúin sigraði loks óttann. Hún stóðst ávítur annarra og þrýsti sér áfram í átt að frelsaranum.

Loks var hann innan seilingar. Hún rétti fram hönd sína.

Og hún læknaðist.

Erum við ekki öll að nokkru eins og þessi kona?

Það geta verið margar ástæður fyrir því að við erum hikandi við að nálgast frelsarann. Við gætum þurft að takast á við háðung eða fordæmingu annarra. Í drambi okkar gætum við hafnað þeim möguleika að svo einfaldur hlutur hafi svo mikið gildi. Við gætum talið að ástand okkar geri okkur á einhvern hátt óhæf fyrir lækningu hans – að fjarlægðin sé of mikil eða syndir okkar of margar.

Mér hefur lærst, líkt og þessi kona, að ef við nálgumst Guð og réttum fram hönd okkar til að snerta hann, þá getum við vissulega fundið lækningu, frið og gleði.

Leitið þessa

Jesús kenndi: „Leitið og þér munuð finna.“21

Ég trúi að þessi einföldu orð feli ekki aðeins í sér andlegt loforð; þau eru yfirlýsing um staðreynd.

Ef við leitum ástæðna til að vera reið, bitur, efast eða vera einmana, þá munum við líka finna þær.

Ef við hins vegar leitum gleði – ef við leitum ástæðna til að fagna og fylgja frelsaranum af gleði, þá munum við finna þær.

Við finnum sjaldan eitthvað sem við leitum ekki að.

Eruð þið að leita að gleði?

Leitið og þér munuð finna.

Berið hver annars byrðar22

Jesús kenndi: „Sælla er að gefa en þiggja.“23

Getur verið að í leit okkar að gleði sé besta aðferðin til að finna hana fólgin í því að gleðja aðra?

Bræður og systur, þið og ég vitum að þetta er sannleikur! Gleði er eins og skjóla með mjöli eða krús með viðsmjöri sem aldrei gengur á.24 Sönn gleði margfaldast þegar henni er miðlað.

Til þess þarf ekkert stórbrotið eða flókið.

Við getum gert einfalda hluti.

Eins og að biðja fyrir einhverjum af öllu hjarta.

Hrósa einhverjum einlæglega.

Hjálpa einhverjum að finna sig velkominn, virtan, metinn og elskaðan.

Miðla eftirlætisritningarversi og merkingu þess fyrir okkur.

Eða bara með því að hlusta.

„Þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar“25 og Guð mun umbuna gæsku ykkar ríkulega.26 Gleðin sem þið veitið öðrum, mun koma aftur til ykkar sem „góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur“.27

„Hvað eigum við þá að gera?“28

Mætti ég bjóða ykkur á komandi dögum, vikum og mánuðum að:

  • Verja tíma í einlægri og hjartnæmri viðleitni til að komast nær Guði.

  • Leita af kostgæfni hversdagslegra stunda vonar, friðar og gleði.

  • Færa öðrum gleði sem umhverfis eru.

Kæru bræður og systur, kæru vinir, þegar þið leitið orða Guðs til að öðlast dýpri skilning á eilífri áætlun Guðs, takið þá á móti þessu boði og reynið að ganga á hans vegi, munið þið upplifa „frið Guðs, sem er æðri öllum skilningi“,29 jafnvel mitt í sorginni. Þið munið finna aukna óviðjafnanlega elsku Guðs þenjast út í hjarta ykkar. Dögun himnesks ljóss mun smjúga gegnum skugga rauna ykkar og þið munið taka að upplifa ólýsanlegar dýrðir og undur hins óséða, hins fullkomna himneska sviðs. Þið munuð finna anda ykkar lyftast frá alvarleika þessa heims.

Þið gætuð ef til vill, líkt og hinn góði Milton Wright, hafið upp raust ykkar í fögnuði og hrópað: „Hærra, faðir, hærra!“

Megum við öll leita og finna hina æðri gleði sem hlýst af því að helga líf okkar himneskum föður og hans ástkæra syni. Það er einlæg bæn mín og blessun, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. John Gillespie Magee yngri, „High Flight,“ poetryfoundation.org.

  2. Sjá Christopher Klein, „10 Things You May Not Know about the Wright Brothers,“ History, 28. mars 2023, history.com.

  3. Magee, „High Flight.“

  4. Fyrir tvö þúsund og fjögur hundruð árum sagði Aristóteles að hamingjan væri það sem allir menn þráðu heitast. Í ritgerð sinni, Nicomachean Ethics, kenndi hann að það besta í lífinu væri það sem við sæktumst eftir sem hinu endanlega lokamarkmiði (öfugt við það sem við sækjumst eftir og er áfangi að einhverju öðru markmiði). Hamingja, umfram allt annað, er einmitt eitt slíkt. „Við þráum alltaf hamingju, hamingjunnar vegna,“ sagði hann, „og aldrei sem áfanga að einhverju öðru“ (The Nichomachean Ethics of Aristóteles, þýðing J. E. C. Weldon [1902], 13–14).

  5. Sjá Harry Enten, „American Happiness Hits Record Lows,“ CNN, 2. febrúar 2022, cnn.com; Tamara Lush, „Poll: Americans Are the Unhappiest They’ve Been in 50 Years,“ Associated Press, 16. júní 2020, apnews.com; „The Great Gloom: In 2023, Employees Are Unhappier Than Ever. Why?“ BambooHR, bamboohr.com.

  6. Sjá Wanda Mallette, Patti Ryan og Bob Morrison, „Lookin’ for Love (in All the Wrong Places)“ (1980).

  7. 2. Nefí 2:11.

  8. Sjá Jóhannes 11:35; HDP Móse 7:28–37.

  9. Sjá 2. Nefí 2:11.

  10. Sjá Jóhannes 14:27.

  11. Jóhannes 10:10.

  12. Lúkas 2:10, Ný uppfærð stöðluð útgáfa.

  13. Sjá Matteus 11:28–30.

  14. 2. Nefí 2:25.

  15. Ef þið hafið einhverjar áhyggjur af því hvort faðir ykkar á himnum muni taka á móti ykkur eða leyfa að þið öðlist gleði hans, þá býð ég ykkur að lesa kostgæfið dæmisögu Krists um glataða soninn (sjá Lúkas 15:11–32). Í þeirri dæmisögu lærum við hvað himneskum föður finnst um börn sín og hvernig hann væntir og fagnar endurkomu okkar eftir að við höfum villst frá honum! Frá þeirri stundu sem við „komum til sjálfs okkar“ (sjá vers 17) og hefjum ferð okkar heim, mun hann sjá okkur koma, því hann stendur skimandi og bíður. Og eftir hverju er hann að bíða? Eftir okkur! Þegar við nálgumst hann, mun hann fagna endurkomu okkar og kalla okkur barnið sitt.

  16. Kenning og sáttmálar 59:18. Þessi opinberun útskýrir einnig: „Það er Guði gleðiefni að hafa gefið manninum allt þetta, því að í þeim tilgangi var það gjört“ (vers 20).

  17. Þeim sem nálgast Guð, gefur hann þetta mikla loforð: „Ég mun nálgast yður“ (Kenning og sáttmálar 88:63; sjá einnig Jakobsbréfið 4:8).

  18. Sjá Markús 5:24–34.

  19. Sjá Leiðarvísir að ritningunum, „Hreint og óhreint.“

  20. Markús 5:28.

  21. Matteus 7:7.

  22. Með því að bera byrðar hver annars, „uppfyllum við lögmál Krists“ (Galatabréfið 6:2; sjá einnig Mósía 18:8).

  23. Postulasagan 20:35.

  24. Sjá 1. Konungabók 17:8–16.

  25. Mósía 2:17.

  26. Í Rómverjabréfinu segir Páll að Guð „mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans: Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika, [eilífs lífs], … en vegsemd, heiður og frið hlýtur sérhver sá er gjörir hið góða“ (Rómverjabréfið 2:6–7, 10).

  27. Lúkas 6:38. Sjálf sáluhjálp okkar og eilíf hamingja getur verið háð samúð okkar og góðvild í garð annarra (sjá Matteus 25:31–46).

  28. Lúkas 3:10.

  29. Filippíbréfið 4:7.