Aðalráðstefna
Brúa æðstu boðorðin tvö
Aðalráðstefna apríl 2024


Brúa æðstu boðorðin tvö

Hæfni okkar til að fylgja Jesú Kristi er háð styrk og krafti okkar til að lifa eftir æðsta og næstæðsta boðorðinu og gæta jafnvægis og tryggðar.

Aðfaraorð

Þegar ég og eiginkona mín, Lesa, ferðumst um heiminn og vinnum að verkefnum, njótum við þeirra forréttinda að hitta ykkur í stórum og smáum söfnuðum. Trúfesti ykkar við verk Drottins fyllir okkur krafti og er vitnisburður um fagnaðarerindi Jesú Krists. Við komum heim úr hverri ferð og veltum fyrir okkur hvort við höfum mögulega gefið jafn mikið og við fengum.

Ljósmynd
Regnbogabrúin.
Ljósmynd
Tsing Ma-brúin.
Ljósmynd
Turnbrúin.

Á ferðalögum gefst okkur lítill tími til skoðunarferða. Ég ver þó nokkrum stundum við ákveðna ástríðu mína þegar mögulegt er. Ég hef áhuga á byggingum og hönnun og er einkar heillaður af brúm. Hengibrýr heilla mig sérstaklega. Hvort sem það er Regnbogabrúin í Tókýó, Tsing Ma-brúin í Hong Kong, Turnbrúin í London eða aðrar sem ég hef séð, dáðist ég að verkfræðisnilldinni sem þessi flóknu mannvirki byggjast á. Brýr koma okkur á staði sem við gætum annars ekki farið á. (Áður en ég held áfram tek ég fram að hörmulegt brúarslys átti sér stað í Baltimore frá því að þessi boðskapur var undirbúinn. Við syrgjum mannfallið og vottum fjölskyldum sem líða vegna þess samúð.)

Stórbrotin hengibrú

Nýlega fór ég til Kaliforníu vegna ráðstefnuverkefnis, þar sem ég fór enn á ný yfir hina frægu Golden Gate-brú, sem er talin verkfræðilegt undur heimsins. Í þessu gríðarstóra mannvirki fléttast saman fallegt form, hagnýtur tilgangur og meistaraleg verkfræði. Þetta er klassísk hengibrú með endaturnum, studdum af gríðarmiklum brúarstólpum. Hinir risastóru, tignarlegu tvíburaturnar, sem bera uppi brúna og gnæfa upp úr sjónum, voru fyrstu hlutirnir sem byggðir voru. Saman bera þeir álagið af láréttu og lóðréttu brúarstrengjunum, sem stramma af akbrautina fyrir neðan. Hinn ótrúlegi stöðugleiki – burðargeta turnanna – er galdurinn á bak við verkfræði brúarinnar.

Ljósmynd
Golden Gate-brúin í smíðum.

Golden Gate-brúarhverfið

Fyrstu byggingarmyndir af brúnni bera vitni um þessa verkfræðireglu. Hver brúarhlutur hvílir af þunga á samstæðum turnunum, sem tengir þá við hvor annan.

Ljósmynd
Golden Gate-brúin í smíðum.

Getty Images/Underwood Archives

Fullbyggð brúin með máttuga turnana tvo, óhagganlega á sínum stað, með stólpana festa við berggrunn, er ímynd styrks og fegurðar.

Ljósmynd
Golden Gate-brúin.

Í dag býð ég ykkur að horfa á þessa tignarlegu brú – með gnæfandi tvíburaturnunum byggðum á sterkri undirstöðu – í gegnum sjóngler fagnaðarerindisins.

Þegar dró að lokum jarðneskrar þjónustu Jesú Krists, í vikunni sem við köllum nú dymbilviku, spurði farísei sem var lögvitringur1 frelsarann spurningar sem hann vissi að var nær ómögulegt að svara:2 „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Lögvitringurinn, sem „freistaði hans“ og leitaði lögfræðilegs svars, að því er virtist með fölskum ásetningi, fékk ósvikið, heilagt, guðlegt svar.

„Jesús svaraði honum: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.“ Samkvæmt brúarlíkingunni okkar er þetta annar turninn!

„Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þetta er hinn turninn!

„Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“3 Þetta er það sem eftir er af brúnni!

Við skulum kanna tvö æðstu boðorðin, hvort fyrir sig, sem voru opinberuð og komu fram í svari Jesú Krists. Þegar við gerum það, látum þá ímynd hinnar tignarlegu hengibrúar leika fyrir sjónum okkar.

Elskið Drottin

Hið æðsta: Að elska Drottin af öllu hjarta, sálu og huga.

Í þessu svari dregur Jesús Kristur saman kjarna lögmálsins sem felst í hinum helgu kenningum Gamla testamentisins. Að elska Drottin höfðar fyrst til hjarta ykkar – eðlis ykkar. Drottinn biður ykkur að elska af allri sálu ykkar4 – öllu því sem við erum – og að lokum, að elska af öllum huga ykkar – af vitsmunalegum mætti ykkar. Elska til Guðs er ekki takmörkuð. Hún er ótakmörkuð og eilíf.

Stundum finnst mér iðkun æðsta boðorðsins vera óhlutbundin og óárennileg. Sem betur fer, er ég ígrunda þessi orð Jesú enn frekar, verður þetta boðorð mun skiljanlegra: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.“5 Þetta get ég gert. Ég get elskað himneskan föður og Jesú Krist, sem síðan leiðir til bænar, ritningarnáms og musteristilbeiðslu. Við elskum föðurinn og soninn með því að greiða tíund, halda hvíldardaginn heilagan, vera dyggðug og skírlíf og hlýðin.

Að elska Drottin er oft mælt í smáum daglegum verkum, fótsporum á sáttmálsveginum: fyrir ungt fólk, að nota samfélagsmiðla til að byggja upp, fremur en að rífa niður; fara úr partíinu, yfirgefa kvikmyndina eða athöfnina þar sem staðlar gætu verið í tvísýnu; bera lotningu fyrir því sem heilagt er.

Íhugið þetta ljúfa dæmi. Það var sunnudagur þegar ég og Vance6 bönkuðum á dyr á litlu, fábrotnu heimili. Við og aðrir djáknar í sveitinni vorum orðnir vanir að heyra orðin „komið endilega inn“ kölluð nokkuð hátt og hlýlega með þýskum hreim í gegnum dyrnar. Systir Muellar var ekkja, ein nokkurra innflytjenda í deildinni. Hún komst ekki auðveldlega til dyra, þar sem hún var alveg blind. Er við gengum inn í daufa birtu heimilisins, heilsaði hún okkur með ljúfum spurningum: Hvað heitið þið? Hvernig hafið þið það? Elskið þið Drottin? Við svöruðum þeim og sögðumst vera komnir eftir föstufórninni hennar. Þótt við værum ungir að árum, voru fátæklegar aðstæður hennar augljósar og trúarfyllt svar hennar var djúpt og hjartnæmt: „Ég setti tíkall á borðið fyrr í morgun. Ég er svo þakklát fyrir að bjóða fram föstufórnina mína. Viljið þið vera svo vænir að setja hana í umslagið og útfylla föstufórnarseðilinn minn?“ Elska hennar til Drottins lyfti trú okkar í hvert sinn sem við fórum frá heimili hennar.

Benjamín konungur lofaði þeim undraverðum krafti sem fylgdu hinu mikla æðsta boðorði. „[Mig langar] til, að þér hugleiðið blessun og hamingju þeirra, sem halda boðorð Guðs. … Þeir njóta blessunar í öllu, … og ef þeir haldast staðfastir allt til enda, er tekið á móti þeim á himni … í óendanlegri sælu.“7

Að elska Drottin leiðir til eilífrar hamingju!

Elskið náunga ykkar

Jesús sagði síðan: „Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“8 Þetta er hinn turn brúarinnar.

Hér brúar Jesús himneskt auglit okkar upp á við, að elska Drottin, með okkar jarðneska augliti, að elska samferðafólk okkar. Bæði þessi boðorð eru háð hvort öðru. Elska til Drottins er ekki fullnægjandi ef við vanrækjum náunga okkar. Þessi elska á við um öll börn Guðs, án tillits til kyns, þjóðfélagsstéttar, kynþáttar, kynhneigðar, tekna, aldurs eða þjóðernis. Við leitum þeirra sem eru særðir og niðurbrotnir, hinna jaðarsettu, því „allir eru jafnir fyrir Guði“.9 Við „[styðjum] þá óstyrku, lyftum máttvana örmum og [styrkjum] veikbyggð kné“.10

Hugleiðið þetta dæmi: Bróðir Evans11 varð hissa þegar hann fékk hugboð um að stöðva bílinn sinn og banka á hurð óþekktrar fjölskyldu. Þegar ekkja ein, meira en tíu barna móðir, kom til dyra, varð honum fljótt ljóst hve erfiðar aðstæður þeirra og miklar þarfir væru. Sú fyrsta var einföld, málning fyrir heimilið þeirra, en á eftir kom margra ára stundleg og andleg þjónusta í þágu þessarar fjölskyldu.

Þessi þakkláta móðir skrifaði síðar um himneskan vin sinn: „Þú hefur varið lífi þínu í að liðsinna hinum minnsta. Hve ég myndi njóta þess að heyra það sem Drottinn hefur að segja við þig, er hann tjáir velþóknun sína fyrir hið góða sem þú hefur gert fjárhagslega og andlega fyrir fólk sem aðeins þú og hann munuð nokkurn tíma vita um. Þakka þér fyrir að blessa okkur á svo marga vegu, … fyrir trúboðana sem þú sást farborða. … Ég velti oft fyrir mér hvort Drottinn hafi valið þig eingöngu eða hvort það varst bara þú sem hlustaðir.“

Að elska náungann felur í sér kristilega breytni góðvildar og þjónustu. Getið þið látið af óvild, fyrirgefið óvinum, boðið náunga ykkar velkomna og þjónað og hjálpað öldruðum? Sérhvert ykkar verður innblásið er þið byggið turn kærleika til náunga ykkar.

Russell M. Nelson forseti kenndi: „Að liðsinna öðrum – að láta okkur meðvitað annt um aðra, jafn mikið eða meira en okkur sjálf – er gleði okkar. Einkum … þegar það er ekki hentugt og er utan þægindaramma okkar. Að lifa eftir þessu næstæðsta boðorði, er lykill að að því að verða sannur lærisveinn Jesú Krists.“12

Samstæð tengsl

Jesús kenndi enn fremur: „Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“13 Þetta er mjög lærdómsríkt. Mikilvæg samstæð tengsl eru á milli þess að elska Drottin og elska aðra. Til að Golden Gate-brúin geti gegnt tilætluðu hlutverki sínu, eru báðir turnarnir jafn sterkir og bera jafnan þunga af strengjunum, akbrautinni og umferðinni sem fer yfir brúna. Án þessarar verkfræðilegu samhverfu, gæti brúin verið í hættu, sem jafnvel gæti leitt til hruns. Til að hengibrú geri það sem hún var byggð til að gera, verður virkni turnanna að vera í fullkomnu jafnvægi. Hæfni okkar til að fylgja Jesú Kristi er sömuleiðis háð styrk og krafti okkar til að lifa eftir æðsta og næstæðsta boðorðinu og gæta jafnvægis og tryggðar við bæði.

Ljósmynd
Golden Gate-brúin.

Hinar auknu deilur í heiminum, benda þó til þess að stundum sjáum við hvorki né munum eftir þessu. Sumir eru svo einbeittir við að halda boðorðin að þeir sýna lítið umburðarlyndi gagnvart þeim sem þeir telja síður réttláta. Sumum reynist erfitt að elska þá sem kjósa að lifa lífi sínu utan sáttmálans eða jafnvel án neinnar trúarþátttöku.

Þeir eru líka til sem leggja áherslu á mikilvægi þess að elska aðra, án þess að viðurkenna að við berum öll ábyrgð frammi fyrir Guði. Sumir hafna algjörlega þeirri hugmynd að til sé algildur sannleikur eða rétt og rangt og trúa að það eina sem krafist sé af okkur sé fullkomið umburðarlyndi og samþykki fyrir vali annarra. Annar hvor þessara mislægu þátta gæti valdið því að ykkar andlega brú brotni eða jafnvel hrynji.

Dallin H. Oaks forseti lýsti þessu er hann sagði: „Í þessu felst að okkur er boðið að elska alla, þar sem dæmisaga Jesú um miskunnsama Samverjann kennir að allir séu náungi okkar. Ákafi okkar við að halda þetta næstæðsta boðorð má ekki verða til þess að við gleymum því æðsta, að elska Guð af öllu hjarta, sálu og huga.“14

Lokaorð

Spurning til okkar allra er: Hvernig byggjum við brú trúar og hollustu – reisum háa brúarturna, bæði til að elska Guð og náunga okkar? Við einfaldlega byrjum bara. Fyrsta viðleitni okkar gæti litið út eins og áætlun aftan á munnþurrku eða upphafsteikning af brú sem við vonumst til að fá byggt. Hún gæti falist í nokkrum raunhæfum markmiðum um að skilja fagnaðarerindi Drottins betur eða að heita því að dæma síður aðra. Enginn er of ungur eða of gamall til að byrja.

Ljósmynd
Hönnunarteikning af brú.

Með tímanum og kostgæfinni og íhugulli áætlanagerð, munu grófar hugmyndir slípast til. Nýjar athafnir verða að vana. Fyrstu drög verða að fáguðum teikningum. Við byggjum okkar persónulegu andlegu brú með hjarta og huga sem helgaður er himneskum föður og eingetnum syni hans, sem og þeim bræðrum okkar og systrum sem við störfum og leikum og lifum með.

Á komandi dögum, þegar þið farið yfir tignarlega hengibrú, eða jafnvel þegar þið sjáið mynd af henni með sínum gnæfandi turnum, þá býð ég ykkur að minnast æðstu boðorðanna tveggja, sem Jesús Kristur lýsti í Nýja testamentinu. Megi leiðsögn Drottins veita okkur innblástur. Megi hjörtu okkar og hugur lyftast upp í elsku til Drottins og leita út á við í elsku til náunga okkar.

Megi þetta styrkja trú okkar á Jesú Krist og friðþægingu hans, sem ég vitna um, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Í Nýja testamentinu [var hugtakið lögvitringur] jafngilt fræðimanni, sem að atvinnu var nemandi og kennari í lögum, þar á meðal rituðu lögmáli Mósebókanna og einnig ‚erfikenningum öldunganna‘ (Matteus 22:35; Markús 12:28; Lúkas 10:25)“ (Bible Dictionary, „Lawyer“).

  2. Til forna höfðu fræðimenn Gyðinga talið upp 613 boðorð í Tóra og rökrætt á virkan hátt um hlutfallslegt mikilvægi eins vers fram yfir annars. Ef til vill ætlaði lögvitringurinn að nota svar Jesú gegn honum. Ef hann segði eitt boðorð vera mikilvægast, gæti það hafa opnað á ásakanir gegn Jesú um að hunsa annan þátt lögmálsins. Svar frelsarans þaggaði niður í þeim sem höfðu komið til að egna fyrir hann með staðhæfingu sem á okkar tíma er grunnurinn að öllu sem við gerum í kirkjunni.

  3. Matteus 22:36–40.

  4. Sjá Kenning og sáttmálar 88:15.

  5. Jóhannes 14:15.

  6. Báðum nöfnum breytt í þessari frásögn til að vernda friðhelgi.

  7. Mósía 2:41.

  8. Matteus 22:39.

  9. 2. Nefí 26:33.

  10. Kenning og sáttmálar 81:5.

  11. Nafni breytt til að vernda friðhelgi.

  12. Russell M. Nelson, „Annað æðsta boðorðið,“ aðalráðstefna, október 2019.

  13. Matteus 22:40.

  14. Dallin H. Oaks, „Æðstu boðorðin tvö,“ aðalráðstefna, október 2019.