Aðalráðstefna
Andstæður í öllu
Aðalráðstefna apríl 2024


Andstæður í öllu

Til að geta notað sjálfræði okkar, þurfum við að hafa andstæða valkosti til að íhuga.

Nýlega, þegar ég og eiginkona mín ókum um borg sem var okkur ókunnug, tók ég óvart ranga beygju sem beindi okkur út á hraðbraut í fjölda kílómetra án þess að við gætum snúið við aftur. Við höfðum fengið vingjarnlegt heimboð frá vini okkar og höfðum áhyggjur af því að nú kæmum við mun seinna en vænst var.

Þegar ég var á þessari hraðbraut og leitaði í örvæntingu að leið út, kenndi ég sjálfum mér um að hafa ekki fylgst betur með leiðsögukerfinu. Þessi upplifun fékk mig til að hugsa um það að stundum tökum við rangar ákvarðanir í lífinu og verðum að lifa með afleiðingunum af auðmýkt og þolinmæði, þar til við getum breytt stefnu okkar aftur.

Lífið snýst um að taka ákvarðanir. Faðir okkar á himnum gaf okkur hina guðlega gjöf sjálfræðis, einmitt til þess að við gætum lært af ákvörðunum okkar – af þeim réttu og einnig þeim röngu. Við leiðréttum rangar ákvarðanir þegar við iðrumst. Í þessum aðstæðum verður vöxtur. Áætlun himnesks föður fyrir okkur öll snýst um að læra, þroskast og þróast í átt að eilífu lífi.

Allt frá því að ég og eiginkona mín fengum kennslu frá trúboðunum og gengum í kirkjuna fyrir mörgum árum, hef ég ætíð verið hrifinn af hinni djúpstæðu kennslu Lehís til sonar síns Jakobs í Mormónsbók. Hann kenndi honum að „Drottinn Guð [gæfi] manninum rétt til að breyta samkvæmt sjálfstæðum vilja“1 og að „andstæður [væru] nauðsynlegar í öllu“.2 Til að geta notað sjálfræði okkar, þurfum við að hafa andstæða valkosti til að íhuga. Þegar við gerum það, minnir Mormónsbók okkur einnig á að við höfum verið „nægjanlega [uppfrædd]“3 og að „andi Krists“4 hefur verið gefinn okkur öllum til að „þekkja gott frá illu“.5

Í lífinu stöndum við stöðugt frammi fyrir mörgum mikilvægum ákvörðunum. Til dæmis:

  • Að velja hvort við fylgjum boðorðum Guðs eða ekki.

  • Að velja að hafa trú og bera kennsl á það þegar kraftaverk gerast eða að bíða í efa eftir að eitthvað gerist áður en við veljum að trúa.

  • Að velja að þróa traust á Guð eða að sjá óttaslegin fram á að takast á við aðra áskorun daginn eftir.

Líkt og þegar ég tók röngu beygjuna á þjóðveginum, þá getur þjáning vegna afleiðinga slæmra ákvarðana okkar sjálfra oft verið sérstaklega sár, því við getum sjálfum okkur um kennt. Þrátt fyrir það, getum við alltaf valið að njóta hughreystingar í gegnum hið guðlega ferli iðrunar, leiðrétt ranga hluti aftur og lært þannig lífsbreytandi lexíur.

Stundum getum við einnig upplifað mótlæti og raunir vegna einhvers sem við ekki höfum stjórn á, svo sem:

  • Góðri heilsu og tímabilum veikinda.

  • Friðartímum og styrjaldartímum.

  • Klukkustundum dags og nætur og árstíðum sumars og vetrar.

  • Vinnustundum og hvíldartíma í kjölfarið.

Jafnvel þótt við getum yfirleitt ekki valið á milli þess háttar aðstæðna vegna þess að þær einfaldlega gerast, er okkur samt frjálst að velja hvernig við bregðumst við þeim. Það getum við gert með jákvæðu eða svartsýnu viðhorfi. Við getum leitast við að læra af reynslunni og beðið Drottin um hjálp og stuðning eða við getum talið að við séum ein í þessari raun og að við verðum að þjást einsömul. Við getum „hagað seglum“ eftir hinum nýja veruleika eða valið að breyta engu. Í næturmyrkrinu getum við kveikt á ljósum okkar. Í vetrarkuldanum ættum við að velja að klæðast hlýjum fötum. Á tímum veikinda getum við leitað læknishjálpar og andlegrar hjálpar. Við veljum hvernig við bregðumst við þessum aðstæðum.

Aðlaga, læra, leita, velja eru allt sagnorð. Minnist þess að við erum áhrifavaldar en ekki hlutir. Við skulum heldur aldrei gleyma því að Jesús lofaði að „taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns … svo að hann megi … liðsinna“ eða hjálpa okkur er við snúum okkur til hans.6 Við getum valið að byggja undirstöðu okkar á bjarginu sem er Jesús Kristur, svo að þegar hvirfilvindurinn skellur á „mun [hann] ekkert vald hafa [yfir okkur]“.7 Hann hefur lofað að „[hann muni] taka á móti hverjum þeim, sem koma vill. Og blessaðir eru þeir, sem koma til [hans]“.8

Ein regla til viðbótar er líka sérlega mikilvæg. Lehí sagði að „andstæður [væru nauðsynlegar] í öllu“.9 Þetta þýðir að andstæður geta ekki án hvor annarar verið. Þær geta jafnvel bætt hvor aðra upp. Við gætum ekki greint gleði nema við hefðum líka upplifað sorg á einhverjum tímapunkti. Það að finna endrum og eins til hungurs, hjálpar okkur að vera sérlega þakklát þegar við eigum aftur nóg að borða. Við gætum ekki greint sannleikann nema við hefðum líka séð lygar hér og þar.

Þessar andstæður eru allar eins og tvær hliðar á sama peningnum. Báðar hliðar eru alltaf til staðar. Charles Dickens gaf dæmi um þessa hugmynd þegar hann skrifaði: „Þetta voru bestu tímar, þetta voru verstu tímar.“10

Lof mér að gefa dæmi úr lífi okkar. Að giftast, stofna fjölskyldu og eignast börn hefur fært okkur mestu gleðistundir sem við höfum nokkru sinni upplifað í lífinu en líka djúpstæðustu stundir sársauka, angistar og sorgar, þegar eitthvað hefur komið fyrir eitthvert okkar. Óendanlegri gleði og sælu með börnum okkar fylgdu líka stundum endurtekin veikindatímabil, sjúkrahúsvist og svefnlausar nætur fullar af þjáningu, ásamt því að finna líkn í bænum og prestdæmisblessunum. Þessar andstæðu upplifanir kenndu okkur að við erum aldrei ein á þjáningartímum og þær sýndu okkur líka hversu mikið við getum borið með liðsinni og hjálp Drottins. Þessar upplifanir hafa átt þátt í að móta okkur á dásamlegan hátt og það hefur fyllilega verið þess virði. Komum við ekki hingað þess vegna?

Í ritningunum má einnig finna áhugaverð dæmi:

  • Lehí fræddi son sinn Jakob um að þrengingarnar sem hann þoldi í óbyggðunum hafi hjálpað honum að þekkja mikilleika Guðs og að „[Guð muni] helga þrengingar [hans honum] til góðs“.11

  • Þegar Joseph Smith var grimmilega vistaður í Liberty-fangelsinu, sagði Drottinn honum að „allt [myndi] þetta veita [honum] reynslu og verða [honum] til góðs“.12

  • Að lokum, þá var hin óendanlega fórn Jesú Krists vissulega stórtækasta dæmið um sársauka og þjáningu sem sést hefur, en hún gerði einnig að veruleika hinar dásamlegu blessanir friðþægingar hans fyrir öll börn Guðs.

Þar sem er sólskin hljóta skuggar líka að vera. Flóð geta valdið eyðileggingu en þau vekja yfirleitt líka líf. Sorgartár verða oft að tárum léttis og hamingju. Sorgartilfinningar við andlát ástvina verða síðar bættar upp með þeirri gleði að hittast aftur. Á tímum styrjalda og eyðileggingar, eru líka mörg smá góðverk og kærleiksverk unnin hjá þeim sem hafa „augu til að sjá eða eyru til að heyra“.13

Heimurinn í dag einkennist oft af ótta og kvíða – ótta við það sem framtíðin gæti borið í skauti sér. Jesús hefur þó kennt okkur að treysta og „[beina] öllum hugsunum [okkar] til [hans]. [Efast] ekki, [óttast] ekki“.14

Við skulum stöðugt leggja okkur afar meðvitað fram við að sjá báðar hliðar á öllum þeim peningum sem okkur eru úthlutaðir í lífinu. Jafnvel þó að báðar hliðar séu stundum ekki sýnilegar okkur undir eins, getum við vitað og treyst því að þær eru ávallt til staðar.

Við getum verið viss um að erfiðleikar okkar, sorgir, þrengingar og sársauki skilgreina okkur ekki; heldur er það hvernig við tökumst á við þau, sem mun hjálpa okkur að vaxa og komast nær Guði. Það eru viðhorf okkar og valkostir sem skilgreina okkur miklu betur en áskoranir okkar.

Þegar við erum heilsuhraust, skulum við njóta og vera þakklát fyrir hvert augnablik. Þegar við glímum við veikindi, leitumst þá eftir því að læra af þeim með þolinmæði og vita að ástandið getur breyst aftur samkvæmt vilja Guðs. Þegar við syrgjum, treystum þá að hamingjan sé handan við hornið; oftar en ekki sjáum við hana bara ekki enn þá. Beinið athyglinni vísvitandi að og lyftið hugsunum ykkar til jákvæðra þátta áskorananna, því þær eru án efa alltaf til staðar líka! Gleymið aldrei að vera þakklát. Veljið að trúa. Veljið að hafa trú á Jesú Krist. Veljið að treysta Guði ávallt. Veljið að „hugsa himneskt“, líkt og Russell M. Nelson forseti kenndi okkur nýlega!15

Við skulum ávallt hafa í huga hina dásamlegu áætlun himnesks föður fyrir okkur. Hann elskar okkur og sendi sinn elskaða son til að hjálpa okkur í þrengingum okkar og opna dyrnar fyrir okkur til að snúa aftur til hans. Jesús Kristur lifir og er til staðar hvert augnablik og bíður þess að við veljum að ákalla hann til að veita liðsinni, styrk og sáluhjálp. Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.