Aðalráðstefna
Kraftaverk, englar og prestdæmiskraftur
Aðalráðstefna apríl 2024


Kraftaverk, englar og prestdæmiskraftur

Ef þið þráið blessanir prestdæmisins, þar á meðal kraftaverk og þjónustu engla, gangið þá veg sáttmálanna sem Guð hefur gert tiltæka.

Margir á okkar tíma segja að kraftaverk séu ekki lengur til, að englar séu uppspuni og að himnarnir séu lokaðir. Ég ber vitni um að kraftaverkum hefur ekki linnt, englar eru meðal okkar og himnarnir eru sannlega opnir.

Þegar frelsari okkar, Jesús Kristur, var á jörðinni, fól hann aðalpostula sínum, Pétri, prestdæmislykla.1. Með þessum lyklum leiddu Pétur og hinir postularnir kirkju frelsarans. Þegar þessir postular dóu voru lyklar prestdæmisins hinsvegar teknir af jörðunni.

Ég ber vitni um að hinir fornu lyklar prestdæmisins hafa verið endurreistir. Pétur, Jakob og Jóhannes og aðrir fornir spámenn birtust sem upprisnar verur og veittu spámanninum Joseph Smith það sem Drottinn sagði vera „lykla ríkis míns og ráðstöfun fagnaðarerindisins.“2

Þessir sömu lyklar hafa verið yfirfærðir frá spámanni til spámanns fram til þessa dags. Þeir 15 menn sem við styðjum sem spámenn, sjáendur og opinberara nota þá til að leiða kirkju frelsarans. Eins og til forna, þá er einn postuli, með hæstan starfsaldur, sem hefur alla lykla prestdæmisins og hefur vald til þess að nota þá. Sá er Russell M. Nelson forseti, spámaður og forseti hinnar endurreistu kirkju Krists á okkar tíma: Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Í kirkju frelsarans meðtökum við blessanir prestdæmisins – þar með talið kraft Guðs okkur til hjálpar í lífinu. Með réttmætum prestdæmislyklum gefum við Guði helg loforð og meðtökum helgiathafnir sem búa okkur undir að lifa í návist hans. Fyrst með skírn og staðfestingu og síðan áfram í musterinu á vegi sáttmála sem leiðir okkur aftur til hans.

Með hendur lagðar á höfuð, hljótum við líka prestdæmisblessanir, þar með talið leiðsögn, huggun, lækningu og kraft til að fylgja Jesú Kristi. Allt mitt líf hef ég verið blessaður með þessum krafti. Líkt og greint hefur verið frá í ritningunum, þá vísum við til hans sem kraft hins heilaga Melkísedeksprestdæmis.3

Í æsku lærðist mér að bera mikla virðingu fyrir þessum krafti, einkum eins og hann afhjúpaðist í prestdæmisblessunum. Þegar ég þjónaði sem ungur trúboði í Síle, voru ég og félagi minn handteknir og aðskildir. Okkur var aldrei sagt hvers vegna. Þetta voru tímar mikilla pólitískra umróta. Þúsundir manna voru handteknir af herlögreglu og aldrei heyrðist frá þeim aftur.

Eftir yfirheyrslur sat ég einn í fangaklefa, óviss um hvort ég myndi nokkurn tíma sjá ástvini mína aftur. Ég sneri mér til himnesks föður míns og sárbað: „Faðir, mér hefur ætíð verið kennt að þú vakir yfir trúboðum þínum. Kæri faðir, ég er ekkert sérstakur, en ég hef verið hlýðinn og þarfnast hjálpar þinnar í kvöld.“

Sáðkorn slíkrar hjálpar hafði verið gróðursett mörgum árum áður. Eftir skírnina mína var ég staðfestur sem meðlimur kirkjunnar og mér var veitt gjöf heilags anda. Þegar ég baðst fyrir, einsamall á bak við lás og slá, kom heilagur andi þegar til mín og huggaði mig. Hann minnti mig á afar sérstaka hluta í patríarkablessun minni, sem er önnur blessun prestdæmisins. Í þeim lofaði Guð mér, að fyrir trúfesti mína myndi ég um tíma og eilífð verða innsiglaður konu mikillar fegurðar, dyggðar og kærleika, að við yrðum foreldrar dýrmætra sona og dætra og að ég yrði blessaður og efldur sem faðir í Ísrael.

Þessi innblásnu orð um framtíð mína fylltu sál mína friði. Ég vissi að þau væru frá kærleiksríkum himneskum föður mínum, sem alltaf heldur loforð sín.4 Á þeirri stundu veittist mér sú fullvissa að ég yrði leystur úr haldi og myndi lifa það að sjá þessi loforð uppfyllast.

Um ári síðar blessaði himneskur faðir mig með eiginkonu mikillar fegurðar, dyggðar og kærleika. Ég og Lynette vorum innsigluð í musterinu. Við vorum blessuð með þremur dýrmætum sonum og fjórum dýrmætum dætrum. Ég varð faðir, allt samkvæmt fyrirheitum Guðs í patríarkablessuninni sem ég hlaut þegar ég var 17 ára gamall drengur.

Hefur því kraftaverkum linnt, ástkærir bræður mínir [og systur], vegna þess að Kristur hefur stigið upp til himins? …

Nei, né heldur eru englar hættir að þjóna mannanna börnum.“5

Ég ber vitni um að kraftaverk og þjónusta gerast stöðugt í lífi okkar, oft sem bein afleiðing af prestdæmiskrafti. Sumar prestdæmisblessanir uppfyllast þegar í stað, á þann hátt sem við fáum séð og skilið. Aðrar eru að afhjúpast smám saman og munu ekki að fullu gerast í þessu lífi. Guð heldur þó alltaf öll sín loforð, eins og fram kemur í þessari frásögn ættarsögu okkar:

Afi minn í föðurætt, Grant Reese Bowen, var mikill trúmaður. Ég man vel eftir að hafa heyrt hann segja frá því hvernig hann hlaut sína eigin patríarkablessun. Hann skrifaði í dagbókina sína: „Patríarkinn lofaði mér lækningargjöf. Hann sagði: ,Sjúkir munu læknast. Já, dauðir munu upp rísa undir yðar höndum.‘“

Mörgum árum síðar var afi að stafla heyi þegar hann fann sig knúinn til að snúa aftur í húsið. Hann mætti föður sínum sem var á leið til hans. „Grant, móðir þín er nýlátin,“ sagði faðir hans.

Ég vitna aftur í dagbók afa: „Ég stoppaði ekki, heldur flýtti mér inn í húsið og út á veröndina þar sem hún lá á bedda. Ég leit á hana og sá að það var ekkert lífsmark með henni. Ég minntist patríarkablessunar minnar og loforðsins um að ef ég væri trúfastur, myndu hinir sjúku læknast fyrir trú; og dauðir yrðu upp reistir. Ég lagði hendur á höfuð hennar og sagði Drottni, að ef loforðið sem patríarkinn hefði gefið mér væri raunverulegt, þá myndi hann gera það ljóst á þessari stundu með því að reisa móður mína upp frá dauðum. Ég lofaði honum að ef hann myndi gera það, myndi ég aldrei hika við að gera allt sem í mínu valdi stæði til að byggja upp ríki hans. Þegar ég baðst fyrir, opnaði hún augun og sagði: ‚Grant, reistu mig upp. Ég hef verið í andaheiminum, en þú hefur kallað mig til baka. Þetta skal ætíð vera vitnisburður fyrir þig og alla í fjölskyldu minni.‘“

Russell M. Nelson forseti hefur kennt okkur að leita og vænta kraftaverka.6 Ég ber vitni um, að vegna þess að prestdæmið hefur verið endurreist, eru kraftur og vald Guðs á jörðu. Karlar og konur, ung sem aldin, geta tekið þátt í prestdæmisstarfi gegnum kallanir og ráð. Það er kraftaverk sem englar koma að. Það er verk himins og það blessar öll börn Guðs.

Árið 1989 var sjö manna fjölskylda okkar að koma heim úr deildarferð. Það var áliðið. Lynette átti von á okkar sjötta barni. Hún fann sterka áminningu um að spenna beltið, sem hún hafði gleymt að gera. Stuttu síðar komum við að beygju á veginum; bíll fór yfir línuna inn á akreinina okkar. Ég ók á um 112 kílómetra hraða á klukkustund og sveigði frá til að forðast að lenda á bílnum sem kom á móti. Smárútan okkar valt, rann eftir þjóðveginum og út af veginum, stöðvaðist loks og ofan í leðju farþegamegin.

Það næsta sem ég man eftir að hafa heyrt var rödd Lynette: „Shayne, við þurfum að komast út um dyrnar þínar.“ Ég hékk í loftinu í öryggisbeltinu. Það tók nokkrar sekúndur að ná áttum. Við tókum að lyfta hverju barnanna út úr smárútunni gegnum gluggann minn, sem nú var loftið á smárútunni. Þau grétu og veltu fyrir sér hvað gerst hafði.

Okkur varð brátt ljóst að 10 ára dóttur okkar, Emily, vantaði. Við hrópuðum nafn hennar en ekkert svar barst. Meðlimir deildarinnar, sem voru líka á heimleið, voru í óðagoti að leita að henni á staðnum. Það var svo dimmt. Ég leit aftur inn í bílinn með vasaljósi og mér til skelfingar sá ég lítinn líkama Emily fastan undir smárútunni. Ég kallaði örvæntingarfullur: „Við verðum að lyfta bílnum af Emily.“ Ég greip í þakið og ýtti á. Það voru aðeins fáeinir sem lyftu, en fyrir kraftaverk valt smárútan á hjólin og líflaus líkami Emily kom í ljós.

Emily andaði ekki. Andlit hennar var eins og fjólublá plóma. Ég sagði: „Við þurfum að gefa henni blessun.“ Kær vinur og deildarmeðlimur kraup með mér og við buðum henni að lifa með valdsumboði Melkísedeksprestdæmisins, í nafni Jesú Krists. Á því augnabliki dró Emily djúpt andann.

Eftir því er virtust margar klukkustundir, kom sjúkrabíllinn loks. Emily var flutt í skyndi á sjúkrahús. Hún var með samfallið lunga og slitna sin í hné. Heilaskaði var áhyggjuefni vegna þess tíma sem hún var án súrefnis. Emily var í dái í einn og hálfan dag. Við héldum áfram að biðja og fasta fyrir henni. Hún var blessuð með fullum bata. Í dag eiga Emily og eiginmaður hennar, Kevin, sex dætur.

Fyrir kraftaverk gátu allir aðrir gengið heilir í burtu. Barnið sem Lynette gekk með var Tyson. Honum var líka hlíft við meiðslum og hann fæddist í komandi febrúarmánuði. Átta mánuðum síðar, eftir að hafa fengið sinn jarðneska líkama, sneri Tyson aftur heim til himnesks föður. Hann er verndarengillinn okkar. Við finnum fyrir áhrifum hans í fjölskyldu okkar og hlökkum til að vera með honum aftur.7

Þeir sem lyftu smárútunni upp af Emily tóku eftir að hún virtist fislétt. Ég vissi að himneskir englar höfðu sameinast jarðneskum englum við að lyfta farartækinu upp af líkama Emily. Ég veit líka að Emily var lífguð upp frá dauðum með krafti hins heilaga prestdæmis.

Drottinn opinberaði þjónum sínum þennan sannleika: „Ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings.8

Ég ber vitni um að „hið heilaga prestdæmi, eftir reglu Guðssonarins“9 – Melkísedeksprestdæmið – með lyklum þess, valdi og krafti, hefur verið endurreist á jörðu á þessum síðari dögum. Ég veit að þótt allar kringumstæður fari ekki eins og við vonum og biðjum, þá munu kraftaverk Guðs ávallt berast samkvæmt vilja hans, tímasetningu og áætlun hans fyrir okkur.

Ef þið þráið blessanir prestdæmisins, þar á meðal kraftaverk og þjónustu engla, þá býð ég ykkur að ganga veg sáttmálanna sem Guð hefur gert hverju okkar tiltæka. Meðlimir og leiðtogar kirkjunnar sem elska ykkur munu hjálpa ykkur að taka næsta skref.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur, sonur Guðs, lifir og leiðir kirkju sína með lifandi spámönnum sem hafa og nota prestdæmislykla. Heilagur andi er raunverulegur. Frelsarinn gaf líf sitt til að græða okkur, endurheimta okkur og færa okkur heim.

Ég ber vitni um að kraftaverkum hefur ekki linnt, englar eru meðal okkar og himnarnir eru sannlega opnir. Já, hve opnir þeir eru! Í nafni Jesú Krists, amen.