Aðalráðstefna
Orð skipta máli
Aðalráðstefna apríl 2024


Orð skipta máli

Orð gefa tóninn. Þau tjá hugsanir okkar, tilfinningar og reynslu, hvort sem það er gott eða slæmt.

Bræður, systur og vinir um heim allan, mér er heiður að því að ávarpa þennan mikla áhorfendahóp, sem margir eru meðlimir kirkjunnar okkar og margir hverjir eru vinir og nýir hlustendur sem hlýða á þessa ráðstefnuútsendingu. Velkomin!

Boðskapurinn frá þessu ræðupúlti er fluttur í orðum. Hann er fluttur á ensku og þýddur yfir á nærri eitt hundrað mismunandi tungumál. En grunnurinn er ávallt sá sami. Orð. Og orð skipta miklu máli. Ég ætla að endurtaka þetta. Orð skipta máli!

Þau eru undirstaða þess hvernig við tengjumst; tjáum skoðanir okkar, siðferði og sjónarmið. Stundum mælum við orð; í önnur skipti hlustum við. Orð gefa tóninn. Þau tjá hugsanir okkar, tilfinningar og reynslu, hvort sem það er gott eða slæmt.

Því miður geta orð verið skeytingalaus, höstugleg og særandi. Sögð orð er ekki hægt að taka til baka. Þau geta sært, refsað, tætt sundur og jafnvel leitt til eyðileggjandi gjörða. Þau geta íþyngt okkur.

Á hinn veginn geta orð fagnað sigri, veitt von og hughreyst. Þau geta vakið okkur til umhugsunar, endurstillt okkur og breytt stefnu okkar. Orð geta opnað huga okkar fyrir sannleikanum.

Þess vegna skipta orð Drottins fyrst og fremst máli.

Í Mormónsbók áttu spámaðurinn Alma og hans fólk í Ameríku til forna í stanslausum átökum við þá sem höfðu hunsað orð Guðs og hert hjörtu sín og spillt menningu sinni. Hinir trúföstu hefðu getað barist, en Alma leiðbeinir: „Og þar eð boðun orðsins hafði mikla tilhneigingu til að leiða fólkið í réttlætisátt – já, það hafði haft kröftugri áhrif á huga fólksins en sverðið eða nokkuð annað, sem fyrir það hafði komið – þá áleit Alma ráðlegast að þér létu reyna á kraft Guðs orðs.“1

„Guðs orð“ er æðra allri tjáningu. Það hefur verið svo frá sköpun jarðarinnar þegar Drottinn mælti: „Verði ljós. Og það varð ljós.“2

Í Nýja Testamentinu má finna þetta loforð: „Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.“3

Einnig þetta: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann.Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum.“4

María móðir Jesú mælti þessi auðmjúku orð: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“5

Að trúa og hlýða orði Guðs mun færa okkur nær honum. Russel M. Nelson forseti hefur lofað: „Ef þið lærið orð hans, mun hæfileiki ykkar til að líkjast honum vaxa.”6

Viljum við ekki öll vera eins og segir í sálminum: „Meira blessuð og heilög – meira eins og frelsarinn“?7

Ég sé fyrir mér ungan Joseph Smith á hnjánum þegar hann heyrir orð föður síns á himnum: „[Joseph,] þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“8

Við „hlýðum á hann“ í orðum ritninganna, en látum við þar við sitja eða gerum við okkur grein fyrir því að hann er að tala til okkar? Breytumst við?

Við „hlýðum á hann“ í persónulegum opinberunum heilags anda, í bænarsvörum, á þeim stundum þegar einungis Jesús Kristur getur með friðþægingu sinni létt byrðar okkar, fyrirgefið okkur og veitt frið „og elskandi armar hans umlykja [okkur].“9

Í öðru lagi, þá skipta orð spámannsins máli.

Spámenn vitna um guðdómleika Jesú Krists. Þeir kenna fagnaðarerindi hans og sýna elsku hans til allra.10 Ég ber þess vitni að okkar lifandi spámaður, Russel M. Nelson forseti, heyrir og mælir orð Drottins.

Nelson forseti kann að orða hlutina. Hann hefur sagt: „Haldið ykkur á sáttmálsveginum,“11 „safnið saman Ísrael,“12 „látið Guð ríkja,“13 „byggið brýr til skilnings,“14 „sýnið þakklæti,“15 „aukið trú ykkar á Jesú Krist,“16 „verið ábyrg fyrir vitnisburði ykkar“17 og „verið friðflytjendur.“18

Nýlega bað hann okkur að „hugsa himneskt.“ „Þegar þið standið frammi fyrir vandamáli,“ sagði hann, „hugsið þá himneskt! Þegar ykkar er freistað, hugsið þá himneskt! Þegar lífið eða ástvinir valda ykkur vonbrigðum, hugsið þá himneskt! Þegar einhver deyr ótímabært, hugsið þá himneskt. …Þegar álag lífsins er óbærilegt, hugsið þá himneskt! … Þegar þið hugsið himneskt, mun hjarta ykkar smám saman breytast, … þið munið sjá prófraunir og andstöðu í nýju ljósi, … [og] trú ykkar mun aukast.“19

„Þegar við hugsum himneskt, sjáum við hlutina eins og þeir í raun eru og eins og … þeir í raun munu verða.“20 Í þessum heimi sem er hlaðinn ruglingi og deilum þurfum við öll á því sjónarhorni að halda.

Löngu áður en öldungur George Albert Smith varð forseti kirkjunnar, ræddi hann um að styðja spámanninn og gefa gaum að orðum hans. Hann sagði: „Sú skuldbinding sem við tökum á okkur með handarupplyftingu … er af afar helgum toga. … Hún þýðir … að við stöndum með honum; við munum biðja fyrir honum; … og við munum leitast við að fylgja leiðsögn hans eins og Drottin mælir fyrir um.“21 Með öðrum orðum, við munum fara af kostgæfni eftir orðum spámanns okkar.

Sem einn hinna 15 spámanna, sjáenda og opinberara sem studdir voru í gær af kirkjunni um víða veröld, vil ég miðla ykkur einni reynslu minni við að styðja spámanninn og meðtaka orð hans. Fyrir mér var það líkt og fyrir spámanninn Jakob sem rifjaði upp: „Sömuleiðis hafði ég heyrt rödd Drottins, sem talaði til mín öðru hverju berum orðum.“22

Ljósmynd
Öldungur og systir Rasband í Taílandi.

Í október síðastliðnum vorum ég og konan mín Melanie í Bangkok, Taílandi þar sem ég bjó mig undir að vígja það sem yrði hundrað áttugusta og fimmta musteri kirkjunnar.23 Fyrir mér var verkefnið bæði óraunverulegt og vakti með mér auðmýkt. Þetta var fyrsta musterið á suðausturhluta Asíuskagans.24 Það var meistaralega hannað – sex hæða, níu súlna bygging, „guðdómlega hannað“25 til að vera hús Drottins. Mánuðum saman hafði ég hugleitt vígsluna. Það sem hafði sest að í sál minni og huga var að landið og musterið höfðu verið í umsjá og faðmi spámanna og postula. Thomas S. Monson forseti hafði tilkynnt byggingu musterisins26 og Nelson forseti tilkynnt vígslu þess.27

Ljósmynd
Bangkok-musterið, Taílandi.

Ég hóf undirbúning vígslubænarinnar mánuðum fyrr. Þau helgu orð höfðu verið þýdd yfir á 12 tungumál. Við vorum tilbúin. Eða svo hélt ég.

Nóttina fyrir vígsluna, vaknaði ég úr svefni mínum með ónotalega og áríðandi tilfinningu um vígslubænina. Ég reyndi að ýta þessari tilfinningu burt og hélt að bænin væri sú rétta. En andinn lét mig ekki í friði. Ég skynjaði að ákveðin orð vantaði og að guðlegri tilstuðlan komu þau til mín í opinberun, og ég setti þessi orð inn í bænina undir lokin: „Megum við hugsa himneskt, leyfa anda þínum að ríkja í lífi okkar og leitast við að vera ávallt friðflytjendur.”28 Drottinn var að áminna mig á að hafa í huga orð okkar lifandi spámanns: „Hugsið himneskt,“ „látið andann ríkja“ „verið friðflytjendur.“ Orð spámannsins skipta Drottin máli og okkur.

Hið þriðja og svo mikilvæga eru okkar eigin orð. Í okkar heimi sem fylltur er brosköllum29 skipta orð okkar máli.

Orð okkar geta verið sögð af reiði, gleði, illgirni, samúð eða þeim verið kastað á glæ. Í hita augnabliksins, geta orð stungið og valdið sálinni djúpum sársauka – og fest rætur þar. Orð okkar á Alnetinu, textaskilaboð, samfélagsmiðlar eða tíst fá sjálfstætt líf. Sýnið varúð hvað þið segið og hvernig. Í fjölskyldum okkar geta orð, sérstaklega milli eiginmanna, eiginkvenna og barna fært okkur saman eða rekið fleyg á milli okkar.

Leyfðu mér að stinga upp á þremur einföldum setningum sem við getum notað til að taka broddinn úr erfiðleikum og ágreiningi, lyft og hughreyst hvert annað.

„Takk fyrir.“

„Mér þykir þetta leitt“

Og „ég elska þig.“

Ekki spara þessi auðmjúku orð fyrir sérstakan atburð eða stórslys. Notið þau oft og af einlægni, því þau sýna tillitssemi við aðra. Orð eru sífellt oftar sögð án ábyrgðar; ekki fylgja því mynstri.

Við getum sagt „takk fyrir“ í lyftunni, á bílastæðinu, í versluninni, á skrifstofunni, í biðröð, með nágrönnum okkar eða vinum. Við getum sagt „mér þykir þetta leitt“ þegar við gerum mistök, missum af fundi, gleymum afmælum, eða „mér þykir það leitt“ við einhvern sem upplifir sársauka. Við getum sagt „ég elska þig“ og þessi orð geta merkt „ég er að hugsa um þig,“ „mér þykir vænt um þig,“ „ég er hér fyrir þig“ eða „þú ert mér allt.“

Leyfið mér að deila persónulegu dæmi. Eiginmenn, hlustið vel. Systur, þetta mun hjálpa ykkur líka. Áður en ég fór í fullt starf fyrir kirkjuna, ferðaðist ég víða fyrir fyrirtækið mitt. Ég fór oft í burtu í þó nokkurn tíma til fjarlægra staða um allan heim. Alltaf í lok dags, hringdi ég heim. Þegar kona mín Melanie, tók upp símtólið og ég lét vita af mér, leiddi samtal okkar alltaf til orðanna: „Ég elska þig.“ Dag hvern voru þessi orð sem akkeri fyrir sálina og breytni mína: þau voru vernd gegn illum öflum. „Melanie, ég elska þig“ bar vott um hið dýrmæta traust okkar á milli.

Thomas S. Monson forseti var vanur að segja: „Það eru fætur sem styrkja þarf, hendur sem grípa þarf, hugir sem hvetja þarf, hjörtu sem innblása þarf og sálir sem frelsa þarf.”30 Með því að segja „takk fyrir,“ „mér þykir þetta leitt,“ „ég elska þig“ verður þetta gert.

Bræður og systur, orð skipta máli.

Ég lofa því að ef við „endurnærumst af orðum Krists“31 sem leiða til hjálpræðis, orðum spámannsins sem leiðbeina og hvetja okkur og okkar eigin orðum sem mæla hver við erum og hvað sé okkur kært, munu kraftar himins úthellast yfir okkar. „Orð Krists munu segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra.“32 Við erum börnin hans og hann er okkar Guð og hann ætlast til þess að við tölum með „tungu engla,“33 með krafti heilags anda.34

Ég elska Drottin Jesú Krist. Hann er samkvæmt orðum Jesaja í Gamla testamentinu nefndur „Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi“35 Og eins og Jóhannes postuli gerði ljóst, þá er Jesús Kristur sjálfur orðið.36

Um þetta ber ég vitni sem postuli kallaður til guðlegrar þjónustu Drottins – til að boða orð hans – og kallaður til að standa sem sérstakt vitni um hann. Í nafni Drottins Jesú Krists, amen.