Aðalráðstefna
Musteri, hús Drottins þekja jörðu
Aðalráðstefna apríl 2024


Musteri, hús Drottins þekja jörðu

Þegar þið komið verðug og bænheit í hans heilaga hús, verðið þið brynjuð krafti hans.

Elskið þið ekki fallegu orðin sem við sungum? „Ég Guð þinn mun gefa þér mátt, á göngunnar leið, sem þú fyrir þér átt. … Þig … leiðir mín almáttug hönd.“1 Drottinn er að styrkja sína heilögu á öllum aldri, er þeir koma í hans heilaga hús. Allt frá Kinshasa til Zollikofen til Fukuoka til Oakland, er unga fólkið, að eigin frumkvæði, að yfirfylla skírnarsali musterisins. Áður voru flestir ástkæru musterisþjónarnir gráhærðir – en ekki lengur. Kallaðir trúboðar, þjónustutrúboðar og heimkomnir trúboðar eru handan við hvert horn. Um allan heim er vaxandi tilfinning sem dregur okkur að húsi Drottins.

Fyrir rúmu ári sagði 95 ára kær fjölskylduvinur, búsettur á austurströnd Bandaríkjanna og sem hafði verið að læra hjá trúboðunum í 70 ár, við dóttur sína: „Ég vil fara í musterið með þér.“

Dóttir hennar svaraði: „Jæja, mamma, þú þarft fyrst að láta skírast.“

Ljósmynd
Skírn eldri systur.

„Allt í lagi,“ svaraði hún, „þá mun ég láta skírast.“ Hún var skírð. Nokkrum dögum síðar fór hún lotningarfull í skírnarsal musterisins. Fyrir rúmum mánuði meðtók hún eigin musterisgjöf og innsiglun. „Með guðdómsins visku og valdi hann opnar í veraldar myrkrinu ljósinu dyr.“2

Ljósmynd
Eldri systir fyrir utan musterið.

Hafið þið velt fyrir ykkur af hverju Drottinn leiðbeinir spámanni sínum að þekja jörðina núna með sínum heilögu musterum?3 Af hverju ætti hann, á þessum ákveðna tíma, að veita sáttmálsfólki sínu þá miklu farsæld að hægt sé að reisa hundruð húsa Drottins fyrir helga tíund þess?

Í morgun sýndi Dallin H. Oaks forseti fallega mynd af musterum sem verið er að byggja víða um heim! Ég og Kathy vorum nýlega á Filippseyjum. Hugsið um þetta kraftaverk: Manila-musterið var vígt árið 1984. Það liðu 26 ár þar til lokið var við annað musterið í Cebuborg árið 2010. Nú, 14 árum síðar, er verið að byggja eða hanna 11 musteri eða búa undir vígslu. Frá norðri til suðurs: Laoag, Tuguegarao, Santiago, Urdaneta, Alabang, Naga, Tacloban City, Iloilo, Bacolod, Cagayan de Oro og Davao. Það er hrífandi að sjá undur Guðs!

Ljósmynd
Musteri á Filippseyjum.

Um allan heim eru hús Drottins að koma nær okkur. Af hverju á okkar tíma?

Efstu dagar

Drottinn varaði við því að á efstu dögum yrði ógæfa meðal þjóða,4 menn „verða sérgóðir,“5 „allt [yrði] í uppnámi,“5 glundroði myndi verða mikill7 „hjörtu mannanna [myndu] bregðast þeim.“8 Við höfum vissulega séð hjörtu karla og kvenna bregðast þeim: Láta lokkast af heiminum, truflast af heillandi röddum, vanrækja andlega næringu, þreytast á kröfum lærisveinsdómsins.9 Ef til vill hefur það hryggt ykkur að sjá einhvern sem þið elskið, sem eitt sinn talaði einlæglega um trú sína á Jesú Krist, bar vitni um Mormónsbók og hjálpaði óðfús við að byggja upp ríki Guðs, hverfa skyndilega frá trú sinni, hið minnsta í bili, og fara nær hliðarlínum kirkjunnar. Mitt ráð til ykkar er að láta ekki hugfallast! Allt fer vel. Því með Guði er ekkert ómögulegt.10

Með þessu fyrirspáða uppnámi og vantrú í heiminum, lofaði Drottinn að til yrði sáttmálsfólk, fólk sem vænti endurkomu hans með tilhlökkun; fólk sem stendur á helgum stöðum og lætur ekki haggast af þeim.11 Hann talaði um réttlátt fólk sem stæði gegn blekkingum andstæðingsins, væri agað í trú sinni, hugsaði himneskt og treysti algjörlega á frelsara sinn, Jesú Krist.

Af hverju er Drottinn nú að færa hundruð mustera sinna nær okkur? Ein ástæða er sú, að mitt í umróti og freistingum heimsins, hefur hann lofað að styrkja og blessa sína sáttmálsheilögu og loforð hans eru að uppfyllast!

Loforð frá Kirtland-musterinu

Hvernig styrkja þessi heilögu hús okkur, hugga og vernda? Við finnum svarið í bæn spámannsins Joseph Smith við vígslu Kirtland-musterisins. Það var í þessu musteri sem hinir heilögu sungu: „Við fagnandi syngjum með herskörum himna.“12 Frelsarinn sjálfur birtist og spámenn til forna komu aftur og veittu fleiri prestdæmislykla til endurreisnar fagnaðarerindisins.13

Á þessum helga viðburði í Kirtland musterinu bað spámaðurinn þess að hinir heilögu yrðu gæddir krafti Guðs í húsi Drottins, að nafn Jesú Krists yrði yfir þeim, að englar hans myndu vaka yfir þeim og að þeir myndu vaxa í Drottni og „hljóta fyllingu heilags anda.“14 Þetta máttuga bænarefni uppfyllist í lífi okkar er við tilbiðjum trúfastlega í húsi Drottins.

Vopnuð réttlæti

Í húsi hans erum við bókstaflega gædd himneskum krafti.15 Trú okkar á Jesú Krist og elska okkar til hans er staðfest og styrkt. Við erum andlega fullvissuð um okkar sanna auðkenni og tilgang lífsins.16 Þegar við erum trúföst, erum við blessuð með vernd frá freistingum og truflunum. Við finnum elsku frelsarans þegar hann lyftir okkur frá erfiðleikum, og sorgum. Við erum vopnuð mætti Guðs.

Nafn hans á okkur

Í hans heilaga húsi tökum við nafn hans meira á okkur. Þegar við skírumst, játum við trú á hann og erum fús til að halda boðorð hans. Í musterinu gefum við heilög loforð gegnum sáttmála okkar að fylgja honum að eilífu.

Ljósmynd
Teikning af Heber Valley musterinu í Utah.

Ungmenni þessarar kirkju eru ótrúleg. Í hrjáðum heimi taka þau á sig nafn Krists. Í Heber City í Utah var haldin opinber fundur til að ræða í smáatriðum áætlaða byggingu musteris. Þrjú hundruð ungmenni fylltu almenningsgarðinn við hliðina á til að sýna stuðning við fyrirhugað musteri. Einn ungur maður talaði til leiðtoga stjórnvalda á opnum vettvangi og sagði: „Ég vonast til þess að giftast í þessu musteri. [Musterið mun hjálpa] mér að halda mér hreinum og flekklausum.“ Annar lýsti musterinu sem tákni ljóss og vonar. Piltar og stúlkur kirkjunnar um allan heim eru að meðtaka nafn Jesú Krists.17

Ljósmynd
Ungmenni fylla almenningsgarð í Heber City.

Englar meðal okkar

Í Kirtland musterinu bað spámaðurinn Joseph þess að „englar [myndu] vaka yfir [hans heilögu].“18 Að framkvæma helgiathafnir reglubundið fyrir áa okkar, vekur okkur ljúfa og örugga staðfestingu um að lífið haldi áfram handan hulunnar.

Þótt margar af upplifunum okkar í húsi Drottins séu of helgar til að miðla þeim opinberlega, þá getum við miðlað sumum þeirra. Fyrir fjörutíu árum, er við bjuggum í Flórída, ferðuðumst ég og Kathy til musterisins í Atlanta, Georgíu. Miðvikudagskvöldið 9. maí 1984, þegar við lukum setu í musterinu, kom musterisþjónn til mín og spurði hvort ég hefði tíma til að vinna einungis að einni undirbúningshelgiathöfn innvígslunar. Nafn þess einstaklings sem ég var staðgengill fyrir var óvenjulegt. Hann hét Eleazer Cercy.

Daginn eftir var musterið fullt af heilögum. Þegar ég bjó mig undir að vinna að minni annarri musterisgjöf þann dag, var mér gefið nafn þess einstaklings sem ég yrði staðgengill fyrir. Það kom á óvart að nafnið var sami einstaklingurinn frá kvöldinu áður, Eleazer Cercy. Ég fann fyrir anda Drottins þegar musterisgjöfinni var lokið. Síðar um daginn, enn í musterinu, sá Kathy eldri fjölskylduvin, systur Dolly Fernandez, sem þá bjó í Atlanta. Þar sem enginn karlmaður var í fjölskyldu hennar, spurði hún hvort ég gæti mögulega aðstoðað við innsiglun föður hennar til föðurafa og ömmu hennar. Það var mér auðvitað heiður.

Þegar ég kraup við enda altarisins fyrir þessa helgu athöfn, heyrði ég enn á ný nafnið sem nú var greypt í huga minn, föður hennar, Eleazer Cercy. Ég trúi því fullkomlega að eftir þetta líf muni ég hitta og faðma þann mann sem þekktur var í sínu jarðneska lífi sem Eleazer Cercy.

Flestar upplifanir okkar í húsi Drottins veita gleðilegan frið og hljóðar opinberanir, fremur en tilþrifamikil inngrip. Þið megið treysta því að englar vaki yfir okkur!

Fylling heilags anda

Gjöf heilags anda er gefin okkur þegar við erum staðfest sem meðlimir kirkjunnar. Í hverri viku, er við meðtökum verðug af brauðinu og vatninu í minningu frelsara okkar, er okkur lofað að andi hans verði ætíð með okkur.19 Þegar við komum fús í hjarta í hús Drottins, hins allra helgasta staðar á jörðu, vöxum við í Drottni og getum „[hlotið] fyllingu heilags anda.“20 Fyrir kraft heilags anda fyllumst við friði og gleði og ólýsanlegri von.21 Við hljótum styrk til að vera lærisveinar hans, jafnvel þótt við finnum að við séum utan heilagra staða.

Russell M. Nelson forseti lýsti yfir: „Frelsari og lausnari okkar, Jesús Kristur, mun koma til leiðar einhverju sínu máttugasta verki frá þessum tíma fram að endurkomu sinni. Við munum sjá undursamlegar vísbendingar um að Guð faðirinn og … Jesús Kristur … ríkja yfir þessari jörðu í hátign og dýrð.“22 Að þekja jörðina með húsum Drottins, er máttugt verk og undursamlegt merki.23

Kæru vinir mínir, ef við getum, og höfum ekki þegar aukið sókn okkar í musterið, skulum við reglubundið gefa okkur meiri tíma til að tilbiðja í húsi Drottins. Biðjum fyrir musterunum sem tilkynnt hafa verið, að hægt verði að kaupa lóðir, að stjórnvöld samþykki áætlanir, að hæfileikaríkir verkamenn sjái gjafir sínar vegsamaðar og að hinar helgu vígslur muni njóta velþóknunar himins og vitjunar engla.

Loforð

Musterið er bókstaflega hús Drottins. Ég lofa ykkur að þegar þið komið verðug og bænheit í hans heilaga hús, munuð þið gædd krafti hans, nafn hans mun hvíla yfir ykkur, englar hans vaka yfir ykkur og þið munið vaxa upp í blessun heilags anda.

Drottinn lofaði: „Sérhver sál, sem hverfur frá syndum sínum og kemur til mín og ákallar nafn mitt og hlýðir rödd minni og heldur boðorð mín, mun sjá ásjónu mína og vita að ég er.“24 Það eru margar mismunandi leiðir til að sjá ásjónu Krists og það er ekki til betri staður en í hans heilaga húsi.25

Á þessum degi glundroða og uppnáms, ber ég vitni um að musterið er hans heilaga hús og mun hjálpa við að varðveita og vernda okkur og búa okkur undir hinn dýrðlega dag, er frelsari okkar kemur aftur með öllum sínum heilögu englum, í mikilfengleika, veldi og mikilli dýrð. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál,“ Sálmar, nr. 21.

  2. „Guðs andi,“ Sálmar, nr. 2.

  3. Starfrækt musteri eru nú 182 talsins. Sex eru í endurnýjun. Sjö bíða vígslu og eitt til viðbótar bíður endurvígslu. Það eru 45 í byggingu og 94 til viðbótar sem hafa verið tilkynnt eða eru í skipulagi og hönnun.

  4. Sjá Lúkas 21:10.

  5. 2. Tímóteusarbréf 3:2.

  6. Kenning og sáttmálar 88:91.

  7. Öldungur David A. Bednar sagði: „Reglur fagnaðarerindisins eru eins og stýri á skipi fyrir mig og ykkur. Réttar reglur gera okkur kleift að finna leiðina og standa sterk, staðföst og óbifanleg, þannig að við missum ekki jafnvægi og föllum í byljandi stormum myrkurs og ringulreiðar hinna síðari daga“ („Reglur fagnaðarerindis míns,“ aðalráðstefna, apríl 2021).

  8. Kenning og sáttmálar 45:26.

  9. „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér“ (Matteus 16:24).

  10. Sjá Lúkas 1:37.

  11. Sjá Kenning og sáttmálar 87:8.

  12. Hymns, nr. 2.

  13. Sjá Kenning og sáttmálar 110. Fram að þeim tíma, hafði spámaðurinn Joseph Smith meðtekið Aronsprestdæmið og lykla þess frá Jóhannesi skírara og meðtekið Melkísedeksprestdæmið og lykla þess frá postulunum Pétri, Jakobi og Jóhannesi (sjá Kenning og sáttmálar 13:1; 27:12–13).

  14. Kenning og sáttmálar 109:15; sjá einnig vers 22.

  15. Russell M. Nelson forseti sagði: „Musterið getur hjálpað í viðleitni okkar. Þar erum við gædd krafti Guðs, sem veitir okkur getu til að sigrast á Satan, hvatamanni allrar sundrungar“ („Friðflytjendur óskast,“ aðalráðstefna, apríl 2023).

  16. Sjá Russell M. Nelson, „Choices for Eternity,“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk, 15. maí 2022), Gospel Library.

  17. Öldungur Colin Stauffer, einkabréf, 30. jan. 2024.

  18. Kenning og sáttmálar 109:22.

  19. Sjá Kenning og sáttmálar 20:77, 79.

  20. Kenning og sáttmálar 109:15.

  21. Sjá Rómverjabréfið 15:13.

  22. Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna,, apríl 2018.

  23. Brigham Young forseti sagði: „Við munum hafa hundruð mustera og þúsundir karla og kvenna sem starfa þar fyrir þá sem sofnaðir eru, án þess að hafa haft þau forréttindi að hlýða á fagnaðarerindið og lifa eftir því“ (Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young [1997], 312). Og Ezra Taft Benson forseti sagði: „Forverar okkar hafa spáð því að musteri muni þekja land Norður- og Suður-Ameríku, Kyrrahafseyja, Evrópu og víðar. Ef þetta endurlausnarverk á að vera af þeirri stærðargráðu sem það verður að vera, þarf hundruð mustera“ (The Teachings of Ezra Taft Benson [1988], 247).

  24. Kenning og sáttmálar 93:1.

  25. Öldungur David B. Haight sagði:

    „Rétt er að sumir hafi raunverulega séð frelsarann, en þegar leitað er í orðabók, lærum við að orðið sjáhefur margar aðrar merkingar, t.d. að koma til hans, skynja hann, þekkja hann og verk hans, gera sér grein fyrir mikilvægi hans og að skilja hann.

    Slík himnesks uppljómun og blessun stendur hverju okkar til boða“ („Temples and Work Therein,“ Ensign, nóv. 1990, 61).