Aðalráðstefna
Jesús Kristur sem þungamiðja í lífi okkar
Aðalráðstefna apríl 2024


Jesús Kristur sem þungamiðja í lífi okkar

Tekist er á við hinar djúpstæðu spurningar sálarinnar, þær sem koma upp á okkar myrkustu stundum og erfiðustu raunum, fyrir óhagganlega elsku Jesú Krists.

Á ferð okkar um jarðlífið upplifum við stundum prófraunir: Mikinn sársauka vegna ástvinamissis, erfiða baráttu við sjúkdóma, brodd óréttlætis, skelfilegar upplifanir eineltis eða misnotkunar, skugga atvinnuleysis, fjölskylduþrengingar, hljóðan grát einmanaleika eða átakanlegar afleiðingar vopnaðra átaka.1 Á slíkum stundum þráir sál okkar athvarf.2 Við leitumst einlæglega eftir að vita: Hvar getum við fundið smyrsl friðar?3 Á hvern getum við sett traust til hjálpar við að öðlast sjálfsöryggi og styrk til að sigrast á þessum erfiðleikum?4 Hver hefur þolinmæði, alltumlykjandi kærleika og almáttuga hönd til að lyfta okkur og styðja?

Tekist er á við hinar djúpstæðu spurningar sálarinnar, þær sem koma upp á okkar myrkustu stundum og erfiðustu raunum, fyrir óhagganlega elsku Jesú Krists.5 Í honum og í fyrirheitnum blessunum hins endurreista fagnaðarerindis,6 finnum við svörin sem við leitum að. Það er í gegnum altæka friðþægingu hans sem okkur er boðin óviðjafnanleg gjöf – gjöf vonar, lækningar og fullvissu um stöðuga og varanlega nærveru hans í lífi okkar.7 Þessi gjöf stendur öllum þeim til boða sem leggja sig fram í trú, meðtaka friðinn og endurlausnina sem hann býður svo fúslega.

Drottinn réttir út hönd sína til hvers okkar, tjáningarmáti sem er kjarni guðlegrar elsku hans og góðvildar. Boð hans til okkar er hafið yfir einfalda köllun; það er guðlegt loforð, sem styrkt er með varanlegum krafti náðar hans. Í ritningunum fullvissar hann okkur ástúðlega:

„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“8

Skýrleiki boðs hans, „komið til mín“ og „takið á yður mitt ok,“ staðfestir hið djúpstæða eðli fyrirheits hans – loforðs sem er svo víðtækt og altækt að það felur í sér elsku hans og býður okkur af hátíðlegri fullvissu: „Þér munuð finna hvíld.“

Þegar við leitum andlegrar leiðsagnar af kostgæfni,9 hefjum við djúpstæða umbreytandi ævintýraferð sem styrkir vitnisburð okkar. Þegar við skynjum hinn mikla og fullkomna kærleika himnesks föður og Jesú Krists,10 fyllast hjörtu okkar þakklæti, auðmýkt11 og aukinni þrá til að ganga veg lærisveinsins.12

Russell M. Nelson kenndi: „Þegar við einblínum á sáluhjálparáætlun Guðs … og Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, þrátt fyrir það sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar. Gleðin á rætur í honum og er sökum hans.“13

Alma talaði til sonar síns, Helamans, og sagði: „Og nú, ó Helaman, sonur minn. Sjá, þú ert ungur að árum, og þess vegna sárbæni ég þig að hlusta á orð mín og læra af mér, því að ég veit, að hver, sem setur traust sitt á Guð, hlýtur stuðning í raunum sínum, erfiðleikum og þrengingum, og honum mun lyft upp á efsta degi.“14

Helaman talaði til sona sinna og kenndi þeim þessa eilífu reglu, að hafa frelsarann að þungamiðju í lífi okkar: „Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar.“15

Í Matteusi 14 lærum við að Jesús sóttist eftir einveru eftir að hafa frétt af dauða Jóhannesar skírara. Mikill mannfjöldi fylgdi honum þó. Jesús bauð fólkið velkomið af samúð og kærleika og leyfði ekki að sorgin truflaði sig frá hlutverki sínu og læknaði hina sjúku meðal fólksins. Þegar kvölda tók, stóðu lærisveinarnir frammi fyrir ógnvekjandi áskorun: Miklum mannfjölda með takmarkaðan mat á boðstólnum. Þeir lögðu til að Jesús sendi mannfjöldann burtu til að afla sér matar, en Jesús bað lærisveinana af mikilli elsku og miklum væntingum að gefa þeim þess í stað að borða.

Á meðan að lærisveinarnir voru uppteknir við hina aðkallandi áskorun, sýndi Jesús traust sitt og kærleika til föður síns, ásamt óhagganlegum kærleika til fólksins. Hann bauð mannfjöldanum að setjast á grasið og tók aðeins fimm brauðhleifi og tvo fiska. Hann valdi að færa föður sínum þakkir og viðurkenndi forsjá Guðs yfir mætti sínum og valdi.

Eftir að Jesús hafði fært þakkir, braut hann brauðið og lærisveinarnir dreifðu því til fólksins. Fyrir kraftaverk varð maturinn ekki aðeins nægur, heldur var hann ríkulegur, með tólf körfur afgangs. Hópurinn var fimm þúsund karlar, auk kvenna og barna.16

Þetta kraftaverk kennir djúpstæða lexíu: Þegar áskoranir steðja að, er auðvelt að verða niðursokkinn í erfiðleika okkar. Jesús Kristur sýndi hins vegar mátt þess að einblína á föður sinn, sýna þakklæti og viðurkenna að lausnir á vanda okkar eru ekki alltaf á okkar valdi, heldur Guðs valdi.17

Þegar erfiðleikar steðja að, er okkur eðlislægt að einbeita okkur að þeim hindrunum sem við stöndum frammi fyrir. Áskoranir okkar eru áþreifanlegar og krefjast athygli okkar, en við einbeitum okkur samt að þeirri reglu að sigrast á þeim. Með því að hafa Krist sem kjarna hugsana okkar og verka, lögum við okkur að viðhorfi hans og styrk.18 Þessi aðlögun gefur ekki afslátt af baráttu okkar; hann hjálpar okkur þess í stað að ganga í gegnum hana undir guðlegri handleiðslu.19 Þannig uppgötvum við lausnir og stuðning sem á sér rætur í æðri visku. Að tileinka okkur þetta kristilega viðhorf, veitir okkur styrk og innsýn til að snúa þrengingum okkar upp í sigur,20 sem minnir okkur á að með frelsaranum getur það sem virðist vera flókið vandamál orðið leið að frekari andlegri framþróun.

Sagan um Alma yngri í Mormónsbók er áhrifamikil frásögn um endurlausn og hin djúpstæðu áhrif þess að hafa Krist að þungamiðju í lífi sínu. Í fyrstu var Alma andstæðingur kirkju Drottins og leiddi marga afvega af vegi réttlætisins. Guðlegt inngrip, sem einkenndist af vitjun engla, vakti hann hins vegar af misgjörðum sínum.

Á sinni myrkustu stundu, þjakaður af sektarkennd og örvæntingu við að finna leið út úr andlegri sálarkvöl sinni, mundi Alma eftir því sem faðir hans hafði kennt um Jesú Krist og kraft friðþægingar hans. Með þrá í hjarta eftir endurlausn, iðraðist hann einlæglega og bað heitt um miskunn Drottins. Þessi mikilvæga stund algjörrar uppgjafar, sem kallaði Krist fram í huga Alma er hann leitaði miskunnar hans af einlægni, kom af stað merkilegri umbreytingu. Þungir hlekkir sektarkenndar og örvæntingar hurfu og í staðin komu yfirþyrmandi gleði og friður.21

Jesús Kristur er von okkar og svarið við mesta sársauka lífsins. Með fórn sinni greiddi hann fyrir syndir okkar og tók á sig allar þjáningar okkar – sársauka, óréttlæti, sorg og ótta – og hann fyrirgefur og læknar okkur þegar við treystum á hann og reynum að breyta lífi okkar til hins betra. Hann er græðari okkar22 og huggar og læknar hjörtu okkar með kærleika sínum og mætti, á sama hátt og hann læknaði marga á tíma sínum á jörðu.23 Hann er hið lifandi vatn, sem uppfyllir okkar dýpstu þarfir sálna okkar með sinni stöðugu elsku og góðvild. Það er líkt og loforðið sem hann gaf samversku konunni við brunninn, er hann bauð henni vatn sem streymir fram til eilífs lífs.24

Ég ber hátíðlegt vitni um að Jesús Kristur lifir, að hann er í forsæti þessarar helgu kirkju, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.25 Ég ber vitni um að hann er frelsari heimsins, friðarhöfðingi,26 konungur konunganna, Drottinn drottnanna,27 lausnari heimsins. Ég staðfesti af fullvissu að við erum alltaf í huga hans og hjarta. Sem vitnisburð um það, hefur hann endurreist kirkju sína á þessum síðari dögum og kallað Russell M. Nelson forseta sem spámann sinn og forseta kirkjunnar á þessum tíma.28 Ég veit að Jesús Kristur gaf líf sitt, svo að við mættum hljóta eilíft líf.

Þegar við reynum að hafa hann sem þungamiðju í lífi okkar, munu opinberanir afhjúpast okkur, djúpur friður hans umvefja okkur og altæk friðþæging hans færa okkur fyrirgefningu og lækningu.29 Það er í honum sem við uppgötvum styrkinn til að sigra, hugrekki til að fá staðist og friðinn sem er æðri öllum skilningi. Megum við dag hvern keppa að því að komast nær honum, uppsprettu alls þess sem gott er,30 vonarljósi á leið okkar aftur til návistar himnesks föður. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.