Aðalráðstefna
Innbyrðast í gleði Krists
Aðalráðstefna apríl 2024


Innbyrðast í gleði Krists

Ég ber vitni um að himneskur faðir heyrir tárvotar bænir ykkar og mun ávallt svara af fullkominni visku.

Okkur þykir vænt um þig öldungur Kearon Má ég fá þennan hreim lánaðan í 10 mínútur?

Þráð kraftaverk

Í Nýja testamentinu er sagt frá Bartímeusi hinum blinda, sem hrópaði til Jesú og þráði kraftaverk. „Jesús sagði við hann: Far þú, trú þín hefur bjargað þér. Jafnskjótt fékk hann sjónina.“1

Við annað tækifæri þráði maður nokkur í Betsaídu lækningu. Þetta kraftaverk gerðist hins vegar ekki samstundis. Þess í stað blessaði Jesús hann tvisvar áður en hann „varð albata.“2

Í þriðja dæminu var það Páll postuli sem „þrisvar [bað] Drottin“ í þrengingu sinni,3 en eftir því sem við best vitum var einlæg bæn hans ekki uppfyllt.

Þrjár ólíkar manneskjur. Þrjár einstakar upplifanir.

Af því leiðir spurning: Hvers vegna hljóta sumir sín þráðu kraftaverk fljótt á meðan aðrir þrauka og bíða eftir Drottni?4 Við vitum ekki alltaf ástæðuna, samt þekkjum við, í þakklæti, hann sem „elskar [okkur]“5 og „[gjörir allt okkur til eilífrar] velferðar og hamingju.“6

Guðlegur tilgangur

Guð, sem sér endinn frá upphafinu,7 fullvissar: „Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund“8 og mun helgað „þér til góðs.“9

Til að hjálpa okkur að finna frekari þýðingu í raunum okkar, kenndi öldungur Orson F. Whitney: „Allur sársauki sem við líðum verður ekki til einskis. Hann verður okkur til lærdóms. … Allt … sem við þolum [í þolinmæði] … styrkir manngerð okkar, hreinsar hjörtu okkar, víkkar út sálir okkar og gerir okkur ljúfari og kærleiksríkari. … Það er fyrir tilstilli sorgar og sársauka, amsturs og andstreymis, sem við hljótum þann lærdóm sem ætlunin er að við hljótum hér og gerir okkur líkari föður okkar og móður á himnum.“10

Páll postuli skildi að „kraftur Krists myndi [búa] yfir [honum]“ í þrengingum hans og sagði því auðmjúkur: „Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.“11

Þrengingar lífsins sannreyna okkur.12 Jafnvel frelsarinn „lærði … að hlýða“ og var „[fullkomnaður] með þjáningum.“13

Sá dagur mun koma að hann lýsir yfir af kærleika: „Ég hreinsaði þig, … ég reyndi þig í bræðsluofni þjáningarinnar.“14

Að læra að treysta á hinn æðri tilgang Guðs, innblæs þreyttum sálum von og vekur staðfestu á tímum þjáninga og hjartasára.15

Guðleg yfirsýn

Fyrir mörgum árum miðlaði Russell M. Nelson forseti, þessum dýrmæta skilningi: „Ef við horfum á alla hluti út frá eilífu sjónarhorni, mun það létta byrði okkar umtalsvert.“16

Ljósmynd
Holly og Trey Porter.

Ég og eiginkona mín, Jill, urðum nýlega vitni að þessum sannleika í trúföstu lífi Holly og Rick Porter, en 12 ára sonur þeirra, Trey, lést í hörmulegum eldsvoða. Með illa brenndar hendur og fætur, eftir hetjulega baráttu við að bjarga kærum syni sínum, bar Holly síðar vitni á sakramentissamkomu deildarinnar um þann mikla frið og þá miklu gleði sem Drottinn hafði úthellt yfir fjölskyldu hennar í angist þeirra og notaði orð eins og kraftaverk, ótrúlegt og undursamlegt.

Ljósmynd
Læknandi hendur lagðar saman

Ólýsanlegur friður kom í stað óbærilegrar sorgar þessarar hjartfólgnu móður, ásamt þessari hugsun: „Hendur mínar eru ekki hendurnar sem frelsa. Þær hendur eru frelsarans! Í stað þess að líta á örin mín sem áminningu um það sem ég gat ekki gert, þá minnist ég öranna sem frelsari minn ber.“

Vitnisburður Hollyar uppfyllir loforð spámanns okkar: „Þegar þið hugsið himneskt munuð þið sjá raunir og mótlæti í nýju ljósi.“17

Öldungur D. Todd Christofferson sagði: „Ég trúi að áskorunin um að sigrast á og vaxa af mótlæti, hafi höfðað til okkar þegar Guð kynnti endurlausnaráætlun sína í fortilverunni. Við ættum að takast á við þá áskorun í vitneskju um að himneskur faðir muni styrkja okkur. Það er þó nauðsynlegt að við leitum til hans. Án Guðs ala myrkar upplifanir þjáninga og mótlætis örvæntingu, uppgjöf og jafnvel biturð.“18

Guðlegar reglur

Til að forðast myrkur óánægju og finna þess í stað aukinn frið, von og jafnvel gleði í erfiðleikum lífsins, þá býð ykkur ég þrjár guðlegar reglur.

Fyrsta – sterkari trú fæst með því að hafa Jesú Krist í fyrirrúmi19 Hann segir: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.“20 Nelson forseti kenndi:

„Eilíft líf [okkar] er háð trú [okkar] á [Krist] og friðþægingu hans.“21

„Þegar ég hef glímt við ákafan sársauka, eftir meiðsl sem ég varð fyrir nýlega, hef ég fundið jafnvel enn dýpra þakklæti fyrir Jesú Krist og óskiljanlega gjöf friðþægingar hans. Hugleiðið hana! Frelsarinn leið ‚alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar‘ svo hann gæti huggað okkur, læknað okkur, bjargað okkur á erfiðleikatímum.“22

Hann hélt áfram: „Meiðsli mín hafa knúið mig til að íhuga aftur og aftur ‚mikilleik hins heilaga Ísraels.‘ Í bataferli mínu, hefur Drottinn sýnt guðlegan kraft sinn á friðsælan og óyggjandi hátt.“23

„Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir,“ hvetur Drottinn okkur „Ég hef sigrað heiminn.“24

Annað – Bjartari von fæst með því að sjá fyrir sér eilíf örlög okkar.25 Systir Linda Reeves ræddi um þann kraft sem felst í því að „hafa skýra sýn á [hinum] undursamlegu fyrirheitnu [blessunum] … á degi hverjum“ og bar vitni: „Ég veit ekki af hverju raunir okkar eru svo miklar, en það er mín tilfinning … að launin verði svo mikil, … svo gleðirík og utan okkar skilnings, að á degi umbunar munum við segja við okkar miskunnsama og kærleiksríka föður: ‚Er þetta allt sem krafist var?‘ … Hverju skipta þjáningar okkar hér, … ef slíkar raunir leiða … til þess að við verðum [fullgild] til eilífs lífs … í ríki Guðs?“26

Nelson forseti miðlaði þessari sýn: „Íhugið svar Drottins til Josephs Smith, þegar hann sárbað um hjálp í Liberty-fangelsinu. Drottinn kenndi spámanninum að hin ómannúðlega meðferð myndi veita honum reynslu og yrði honum til góðs. ‚Ef þú stenst það vel,‘ lofaði Drottinn, ‚þá mun Guð upphefja þig í upphæðum.‘ Drottinn var að kenna Joseph að hugsa himneskt og sjá fyrir sér eilífa umbun, frekar en að einblína á óbærilega erfiðleika dagsins.“27

Viðhorfsbreyting Josephs færði dýpri helgun, eins og kemur fram í þessu bréfi til vinar: „Eftir að hafa verið innilokaður innan veggja fangelsis í fimm mánuði, finnst mér sem hjarta mitt verði alltaf mildara eftir þetta en nokkru sinni fyrr. … Mér finnst sem mér gæti ekki liðið líkt og nú, ef ég hefði ekki þolað ranglætið sem ég hef þolað.“28

Þriðja – Meiri máttur hlýst af því að einblína á gleði.29 Á erfiðustu og þjáningarfyllstu stundum eilífðarinnar, hörfaði frelsarinn ekki undan, heldur tæmdi hinn beiska bikar.30 Hvernig gerði hann það? Við lærum að „[Kristur] leið með þolinmæði á krossi, … af því að hann vissi hvaða gleði beið hans“31 og að vilji hans „innbyrðist í vilja föðurins.“32

Ljósmynd
Kristur í Getsemane.

Orðið „innbyrðist“ snertir mig djúpt. Áhugi minn jókst þegar ég komst að því að á spænsku er „innbyrðist“ þýtt sem „gagntekinn“; á þýsku sem „uppgleyptur“; og á kínversku „umlukinn.“ Þegar því áskoranir lífsins eru sársaukafyllstar og yfirþyrmandi, þá minnist ég loforðs Drottins – að við ættum engar þrengingar að líða nema þær séu innbyrðar [gagnteknar, uppgleyptar og umluktar] eða hverfi í gleði Krists.33

Ég sé í svo mörgum ykkar þessa gleði, sem „er æðri [mannlegum] … skilningi,“34 jafnvel þótt hinir beisku bikarar ykkar hafi enn ekki verið frá ykkur teknir. Þakka ykkur fyrir að halda sáttmála ykkar og standa sem vitni fyrir Guð.35 Þakka ykkur fyrir að rétta fram höndina og blessa okkur öll, þótt „í hljóðu hjarta [ykkar sé] hulin sorg sem augað fær ei séð.“36 Því þegar þið færið öðrum líkn frelsarans, munuð þið finna hana sjálf, kenndi Camille N. Johnson forseti.37

Guðleg loforð

Snúið nú aftur með mér á sakramentissamkomuna, þar sem við vorum vitni að kraftaverki fjölskyldu Holly Porter þegar Drottinn liðsinnti þeim.38 Þegar ég hugleiddi á pallinum hvað ég gæti sagt til að færa þessarri trúföstu fjölskyldu og kærum vinum þeirra huggun, kom þessi hugsun til mín: „Notaðu orð frelsarans.“39 Ég mun því ljúka í dag, líkt og þann hvíldardag, með hans orðum, „sem [lækna] hrjáða sál.“40

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“41

„Og ég mun einnig létta byrðarnar, sem lagðar hafa verið á herðar yðar, já, svo að þér finnið ekki fyrir þeim á bökum yðar, jafnvel á meðan þér eruð ánauðug. … [og þér] megið vita með vissu, að ég, Drottinn Guð, vitja fólks míns í þrengingum þess.“42

„Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar.“43

Vitni mín

Í gleði og lotningu, ber ég vitni um að frelsarinn lifir og loforð hans eru örugg.44 Sérstaklega ykkur sem eigið erfitt eða sem eruð „[þjáð] á einhvern hátt,“45 ber ég vitni um að himneskur faðir heyrir tárvotar bænir ykkar46 og mun ávallt svara ykkur af fullkominni visku.47 „Megi þá Guð gefa,“ líkt og hann hefur gert fyrir fjölskyldu okkar á stundum mikillar neyðar, „að byrðar ykkar verði léttar,“48 munu jafnvel „[innbyrðast í gleði] Krists.“49 Í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.