Aðalráðstefna
Gleðjumst yfir gjöf prestdæmislykla
Aðalráðstefna apríl 2024


Gleðjumst yfir gjöf prestdæmislykla

Prestdæmislyklar stjórna því hvernig nota má prestdæmi Guðs til að koma tilgangi Drottins til leiðar og til að blessa alla þá sem taka á móti hinu endurreista fagnaðarerindi.

Kæru bræður og systur, í dag er sögulegur dagur fyrir mig og Dallin H. Oaks forseta. Það var fyrir 40 árum, þann 7. apríl 1984, þegar við vorum studdir í Tólfpostulasveitina.1 Við höfum notið þess að vera á öllum aðalráðstefnum frá því að það gerðist og líka á þessari. Við höfum enn á ný verið blessaðir með helgri úthellingu andans. Ég vona að þið munið stöðugt læra boðskap þessarar ráðstefnu á komandi mánuðum.

Þegar ég fæddist,2 voru sex starfandi musteri í kirkjunni – eitt á hverjum stað í St. George, Logan, Manti og Salt Lake City, Utah; sem og í Cardston, Alberta, Kanada; og Laie, Havaí. Tvö eldri musteri höfðu verið starfrækt um skamma hríð í Kirtland, Ohio og Nauvoo, Illinois. Þegar öll kirkjan fluttist vestur, neyddust hinir heilögu til að skilja þessi tvö musteri eftir.

Nauvoo-musterið eyðilagðist í eldi brennuvargs. Það var endurbyggt og svo vígt af Gordon B. Hinckley forseta.3 Kirtland-musterið var vanhelgað af óvinum kirkjunnar. Kirtland-musterið komst síðar í eignarhald Samfélags Krists, sem hefur átt það í mörg ár.

Í síðasta mánuði tilkynntum við að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hafi fest kaup á Kirtland-musterinu og einnig nokkrum merkum sögustöðum í Nauvoo. Við þökkum mjög hjartanlegar og velviljaðar gagnkvæmar umræður sem við áttum við leiðtoga frá Samfélagi Krists sem leiddu til þessa samkomulags.

Ljósmynd
Kirtland-musterið.

Kirtland-musterið hefur óvenjulega þýðingu í endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists. Nokkrir atburðir sem þar áttu sér stað höfðu verið fyrirspáðir í árþúsundir og voru nauðsynlegir til að hin endurreista kirkja Drottins fengi uppfyllt síðari daga hlutverk sitt.

Mikilvægasti atburðurinn gerðist á páskadag, 3. apríl 1836.4 Á þeim degi upplifðu Joseph Smith og Oliver Cowdery nokkrar merkilegar vitjanir. Fyrst birtist Drottinn Jesús Kristur. Spámaðurinn skráði að „augu [frelsarans] voru sem eldslogi, hárið á höfði hans var hvítt sem nýfallin mjöll, ljóminn frá svip hans bar af ljóma sólarinnar og rödd hans var sem dynur mikilla vatnsfalla.“5

Í þessari vitjun staðfesti Drottinn hver hann væri. Hann sagði: „Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti. Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var. Ég er málsvari yðar hjá föðurnum.“6

Jesús lýsti síðan yfir að hann hefði meðtekið musterið sem hús sitt og gaf þetta dásamlega loforð: „Af miskunn mun ég opinbera mig fólki mínu í þessu húsi.“7

Þetta mikilvæga loforð á við um öll vígð musteri á okkar tíma. Ég býð ykkur að íhuga merkingu loforðs Drottins fyrir ykkur persónulega.

Eftir vitjun frelsarans, birtist Móse. Móse veitti Joseph Smith lyklana að samansöfnun Ísraels og endurkomu ættkvíslanna tíu.8

Þegar þessari sýn lauk, „birtist Elías og fól [Joseph] ráðstöfun fagnaðarboðskapar Abrahams.“9

Síðan birtist spámaðurinn Elía. Vitjun hans uppfyllti loforð Malakís um að áður en síðari koman yrði, myndi Drottinn senda Elía til að „sætta feður við syni og syni við feður.“10 Elía veitti Joseph Smith lykla innsiglunarvaldsins.11

Ekki verður lögð of rík áhersla á mikilvægi þess að þessir lyklar voru aftur veittir á jörðu af þremur sendiboðum, undir handleiðslu Drottins. Prestdæmislyklar mynda vald og kraft forsætisráðs. Prestdæmislyklar stjórna því hvernig nota má prestdæmi Guðs til að koma tilgangi Drottins til leiðar og til að blessa alla þá sem taka á móti hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.

Mikilvægt er að taka fram að fyrir stofnun kirkjunnar höfðu himneskir sendiboðar veitt spámanninum Joseph Aronsprestdæmið og Melkísedeksprestdæmið og falið honum í hendur lykla beggja prestdæmanna.12 Þessir lyklar veittu Joseph Smith valdsumboð til að skipuleggja kirkjuna árið 1830.13

Í Kirtland-musterinu árið 1836, var síðan veiting þessara þriggja prestdæmislykla til viðbótar nauðsynleg – sem sagt, lykla að samansöfnun Ísraels, lykla fagnaðarerindis Abrahams og lykla innsiglunarvaldsins. Þessir lyklar veittu Joseph Smith – og öllum forsetum kirkju Drottins sem á eftir komu – valdsumboð til að safna saman Ísrael beggja vegna hulunnar, blessa öll sáttmálsbörn með blessunum Abrahams, setja fullgilt innsigli á helgiathafnir og sáttmála prestdæmisins og innsigla fjölskyldur að eilífu. Kraftur þessara lykla prestdæmisins er altækur og hrífandi.

Íhugið hvernig líf ykkar væri öðruvísi, ef prestdæmislyklar hefðu ekki verið endurreistir á jörðu.14 Án lykla prestdæmisins gætuð þið ekki hlotið kraft Guðs.15 Án lykla prestdæmisins gæti kirkjan aðeins þjónað sem mikilvæg kennslu- og hjálparstofnun og ekki mikið meira en það. Án lykla prestdæmisins hefði ekkert okkar aðgang að nauðsynlegum helgiathöfnum og sáttmálum sem binda okkur eilíflega ástvinum okkar og gera okkur endanlega mögulegt að dvelja hjá Guði.

Prestdæmislyklar aðgreina Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu frá öllum öðrum stofnunum á jörðinni. Margar aðrar stofnanir geta gert og munu gera líf ykkar betra hér í jarðlífinu. En engin önnur stofnun getur haft og mun hafa áhrif á líf ykkar eftir dauðann.16

Prestdæmislyklar veita okkur vald til að færa öllum körlum og konum sem halda sáttmála sína allar þær blessanir sem lofaðar voru Abraham. Musterisstarf gerir þessar óviðjafnanlegu blessanir tiltækar öllum börnum Guðs, hvar eða hvenær sem þau lifðu eða lifa nú. Fögnum því að prestdæmislyklar séu enn á ný á jörðu!

Ég hvet ykkur til að íhuga vandlega eftirfarandi þrjár staðhæfingar:

  1. Samansöfnun Ísraels er staðfesting á því að Guð elskar öll börn sín hvarvetna.

  2. Fagnaðarboðskapur Abrahams staðfestir enn frekar að Guð elskar öll börn sín hvarvetna. Hann býður öllum að koma til sín – „svörtum [og] hvítum, ánauðugum [og] frjálsum, karli [og] konu, … allir eru jafnir fyrir Guði.“17

  3. Innsiglunarvaldið er guðleg staðfesting á því hve heitt Guð elskar öll sín börn hvarvetna og vill að hvert þeirra velji að snúa aftur heim til hans.

Prestdæmislyklar, sem endurreistir voru fyrir tilverknað spámannsins, Josephs Smith, gera hverjum karli og konu sem heldur sáttmála sína mögulegt að njóta dásamlegra persónulegra andlegra forréttinda. Hér er líka margt sem við getum lært af hinni helgu sögu Kirtland-musterisins.

Vígslubæn Josephs Smith í Kirtland-musterinu er kennsluefni um það hvernig musterið veitir okkur andlegan kraft til að takast á við áskoranir lífsins á þessum síðustu dögum. Ég hvet ykkur til að læra bænina sem skráð er í Kenningu og sáttmálum, kafla 109. Vígslubænin, sem var meðtekin með opinberun, kennir að musterið sé „hús bænar, hús föstu, hús trúar, hús fræðslu, hús dýrðar, hús reglu, hús Guðs.“18

Þessi efnislega upptalning er miklu meira en lýsing á musterinu. Hún er loforð um það sem þau munu upplifa sem þjóna og tilbiðja í húsi Drottins. Þau geta vænst þess að hljóta bænheyrslu, persónulega opinberun, meiri trú, styrk, huggun, aukna þekkingu og aukinn kraft.

Tími varinn í musterinu mun hjálpa ykkur að hugsa himneskt og skilja hver þið í raun eruð, hver þið getið orðið og hvers konar lífi þið getið lifað að eilífu. Reglubundin musteristilbeiðsla mun gera ykkur mögulegt að sjá ykkur sjálf og hvernig hin undursamlega áætlun Guðs á við um ykkur. Ég lofa ykkur þessu.

Okkur er líka lofað að í musterinu getum við „hlotið fyllingu heilags anda.“19 Ímyndið ykkur hvað í þessu loforði felst, um að himnarnir séu opnir öllum þeim sem einlæglega leita eilífs sannleika.

Okkur er sagt að allir sem tilbiðja í musterinu muni hafa kraft Guðs og að „englar [muni] vaki yfir þeim.“20 Hve mikið eykur það sjálfstraust ykkar að vita að þið, sem konur eða karlar með musterisgjöf, brynjuð krafti Guðs, þurfið ekki að takast ein á við lífið? Hvaða hugrekki veitir það ykkur að vita að englar munu í raun hjálpa ykkur?

Loks er okkur lofað að „engin ranglát samtök“ fái sigrast á þeim sem tilbiðja í húsi Drottins.21

Skilningur á þeim andlegu forréttindum sem eru möguleg í musterinu, er okkur öllum lífsnauðsynlegur í dag.

Kæru bræður og systur, þetta er loforð mitt. Ekkert hjálpar ykkur meira við að halda fast í járnstöngina22 en að tilbiðja í musterinu, eins reglubundið og aðstæður ykkar leyfa. Ekkert veitir ykkur meiri vernd er þið horfist í augu við heimsins niðdimmu þoku. Ekkert getur styrkt meira vitnisburð ykkar um Drottin Jesú Krist og friðþægingu hans eða hjálpað ykkur að skilja betur hina undursamlegu áætlun Guðs. Ekkert mun sefa anda ykkar meira á tíma sársauka. Ekkert mun ljúka meira upp himninum. Alls ekkert!

Musterið er hliðið að æðstu blessunum Guðs, sem hann geymir hverju okkar, því musterið er eini staðurinn á jörðu þar sem við getum tekið á móti öllum þeim blessunum sem lofaðar voru Abraham.23 Af þeirri ástæðu gerum við allt sem í okkar valdi stendur, undir handleiðslu Drottins, til að gera blessanir musterisins aðgengilegri fyrir kirkjumeðlimi. Við erum því ánægðir að tilkynna að við hyggjumst byggja nýtt musteri á hverjum eftirtalinna fimmtán staða:

  • Uturoa, Frönsku-Pólýnesíu

  • Chihuahua, Mexíkó

  • Florianópolis, Brasilíu

  • Rosario, Argentínu

  • Edinborg, Skotlandi

  • Suðursvæði Brisbane, Ástralíu

  • Vancouver, Bresku-Kólumbíu

  • Yuma, Arisóna

  • Suðursvæði Houston, Texas

  • Des Moines, Iowa

  • Cincinnati, Ohio

  • Honolulu, Havaí

  • Vestur-Jordan, Utah

  • Lehi, Utah

  • Maracaibo, Venesúela

Kæru bræður mínir og systur, ég ber vitni um að þetta er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari dag heilögu. Hann er höfuð hennar. Við erum lærisveinar hans.

Gleðjumst yfir endurreisn prestdæmislykla, sem gera okkur mögulegt að njóta allra þeirra andlegu blessana sem við erum fús og verðug til að meðtaka. Um það vitna ég í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.