Aðalráðstefna
Forvígð til að þjóna
Aðalráðstefna apríl 2024


Forvígð til að þjóna

Himneskur faðir þráir að opinbera ykkur persónulega forvígslu ykkar og hann mun gera það þegar þið leitist við að læra og fylgja vilja hans.

Í kvöld tala ég til ungmenna kirkjunnar, hinnar upprennandi kynslóðar pilta og stúlkna, sem eru merkisberar næstu kynslóðar.

Í október 2013 sagði okkar ástkæri spámaður, Russell M. Nelson forseti: „Himneskur faðir hefur þekkt ykkur afar lengi. Þið, sem synir hans og dætur, voruð útvalin af honum til að koma til jarðarinnar á þessum sérstaka tíma, til að vera leiðtogar í hinu mikla verki hans á jörðu.“1

Fyrir tveimur árum sagði Nelson forseti enn fremur:

„Í dag staðfesti ég eindregið að Drottinn hefur boðið sérhverjum verðugum, dugandi, ungum manni að búa sig undir og þjóna í trúboði. Fyrir Síðari daga heilaga pilta, er trúboðsþjónusta prestdæmisskylda. Þið piltar, hafið verið fráteknir fyrir þennan tíma, er hin fyrirheitna samansöfnun Ísraels á sér stað. …

Fyrir ykkur, ungu og dugandi systur, er trúboð einnig áhrifaríkt, en valfrjálst tækifæri. … Biðjið til að komast að því hvort Drottinn vilji að þið þjónið í trúboði og heilagur andi mun svara ykkur í hjarta og huga.“2

Orð spámanns okkar um að Drottinn hafi geymt ungmenni okkar tíma til samansöfnunar Ísraels að þessu sinni og boð hans um að biðjast fyrir til að hljóta vitneskju um það sem Drottinn vill að þið gerið, eiga að hluta við um það líf sem þið lifðuð og blessanirnar sem þið hlutuð frá Guði áður en þið fæddust á þessari jörðu.3 Við öll, sem fæðumst á þessa jörðu, lifðum fyrst hjá himneskum föður sem andabörn hans.4 Drottinn sagði við Móse: „Ég, Drottinn Guð, [skapaði alla hluti] andlega, áður en þeir urðu náttúrlegir á jörðunni.“5

Þegar hann skapaði ykkur andlega, elskaði hann ykkur sem andasyni sína og dætur og gæddi ykkur öll guðlegu eðli og eilífum örlögum.6

Í fortilverunni „þróuðuð þið persónuleika ykkar og eflduð andlega hæfni ykkar“.7 Þið voruð blessuð með gjöf sjálfræðis, eiginleikanum til að taka ákvarðanir fyrir ykkur sjálf og þið tókuð mikilvægar ákvarðanir, eins og þá ákvörðun að fylgja sæluáætlun himnesks föður, sem er að „[hljóta] efnislíkama og öðlast jarðneska reynslu … og að lokum gera að veruleika guðleg örlög [ykkar] sem erfingjar eilífs lífs“.8 Þessi ákvörðun hafði áhrif á líf ykkar þá, í fortilverunni, og heldur áfram að hafa áhrif á líf ykkar núna.9 Þið lifðuð sem börn Guðs í fortilverunni, uxuð „að vitsmunum, og lærðuð að elska sannleikann“.10

Áður en þið fæddust, útnefndi Guð hvert ykkar til að uppfylla ákveðin hlutverk í jarðnesku lífi ykkar á jörðunni.11 Ef þið yrðuð verðug, myndu blessanir þessarar tilskipunar fortilverunnar gera ykkur mögulegt að hljóta fjölmörg tækifæri í þessu lífi, þar með talið tækifæri til að þjóna í kirkjunni og taka þátt í mikilvægasta verkinu sem á sér stað á jörðinni í dag: samansöfnun Ísraels.12 Þessi loforð og blessanir fortilverunnar kallast forvígsla ykkar. „Kenningin um forvígslu á við um alla meðlimi kirkjunnar.“13 Forvígsla tryggir ekki að þið hljótið ákveðnar kallanir eða ábyrgð. Þessar blessanir og tækifæri hljótast í þessu lífi vegna réttlátrar iðkunar sjálfræðis, á sama hátt og forvígsla ykkar í fortilverunni varð ávöxtur réttlætis.14 Þegar þið sannreynið að þið eruð verðug og náið framþróun á sáttmálsveginum, munuð þið hljóta tækifæri til að þjóna í námsbekk Stúlknafélagsins eða í prestdæmissveit ykkar. Þið verðið blessuð til að þjóna í musterinu, að verða þjónandi bróðir eða systir og þjóna í trúboði sem lærisveinn Jesú Krists.

Af hverju er mikilvægt að þekkja og skilja forvígslu ykkar? Á degi er spurningar vakna, þegar svo margir leitast við að þekkja sitt sanna auðkenni, færir sú staðreynd að Guð þekkir okkur og hefur blessað sérhvert okkar persónulega áður en við fæddumst á þessa jörðu með „[nauðsynlegum eiginleikum sem samræmast] tilgangi [einstaklingsins] í fortilveru, jarðneskri tilveru og um eilífð“ okkur ljúfan frið og fullvissu í huga og hjarta.15 Að vita hver þið eruð, hefst á því að skilja þær forvígðu blessanir Guðs sem ykkur voru veittar áður en þið fæddust á þessari jörðu. Himneskur faðir þráir að opinbera ykkur persónulega forvígslu ykkar og hann mun gera það þegar þið leitist við að læra og fylgja vilja hans.16

Ég nýt þess að lesa Instagram-færslur Nelsons forseta. Ein af mínum uppáhaldsfærslum er frá 20. júlí 2022. Hann skrifaði:

„Ég trúi að ef Drottinn talaði beint til ykkar, þá myndi hann fyrst tryggja að þið skilduð ykkar sönnu sjálfsmynd. Kæru vinir mínir, þið eruð bókstaflega börn Guðs. …

Velkist ekki í vafa um það: Möguleikar ykkar eru guðlegir. Með kostgæfinni leit mun Guð veita ykkur leiftursýn af því hver þið gætuð orðið.“17

Mætti ég deila með ykkur hvernig jarðneskur faðir kenndi mér að uppgötva auðkenni mitt og áætlun Guðs í lífi mínu?

Laugardagsmorgun einn, þegar ég var 13 ára, sló ég grasið, sem var hluti af mínum vikulegu húsverkum. Þegar ég lauk slættinum, heyrði ég að bakdyrunum var lokað á húsinu okkar og vænti þess að faðir minn kallaði á mig til liðs við sig. Ég gekk að bakveröndinni og hann bauð mér að sitja hjá sér á þrepunum. Þetta var fallegur morgunn. Ég man enn eftir að hann sat svo nálægt mér að axlir okkar snertust. Hann byrjaði á því að segja mér að hann elskaði mig. Hann spurði mig hver markmið mín væru í lífinu. Ég hugsaði: „Það er auðvelt.“ Ég vissi tvennt fyrir víst: Ég vildi verða hærri og ég vildi fara oftar í útilegu. Ég var einföld sál. Hann brosti, staldraði við um stund og sagði: „Steve, mig langar að segja þér nokkuð sem er mér mjög mikilvægt. Ég hef beðið þess að himneskur faðir sjái til þess að það sem ég segi núna verði varanlega greypt í huga þinn og sál, svo þú gleymir því aldrei.“

Faðir minn hafði fulla athygli mína á þeirri stundu. Hann snéri sér að mér, horfði í augu mín og sagði: „Sonur, gættu vel að einkastundum lífs þíns.“ Það varð löng þögn, er hann lét merkinguna síga djúpt inn í hjarta mér.

Hann hélt síðan áfram: „Þú veist, þær stundir þegar þú ert einsamall og enginn annar veit hvað þú ert að gera? Á þeim tímum þegar þú hugsar: ‚Hvað sem ég geri núna hefur ekki áhrif á neinn annan nema mig sjálfan?‘“

Síðan sagði hann: „Það sem þú gerir á einkastundum lífs þíns mun hafa mest áhrif á það hvernig þú tekst á við áskoranir og sorgir sem þú munt upplifa. Og það sem þú gerir á einkastundum lífs þíns mun líka hafa meiri áhrif á hvernig þú tekst á við velgengni og gleði sem þú munt upplifa, en nokkrar aðrar stundir lífs þíns.

Hjartans ósk föður míns varð að veruleika. Hljómur raddar hans og kærleikurinn sem ég upplifði í orðum hans urðu varanlega greypt í huga minn og sál þennan dag.

Ég hef lært í gegnum árin að stórkostlegasta kraftaverk þessa dags, á tröppum æskuheimilis míns, var að á einkastundum lífs míns get ég farið til Guðs í bæn til að hljóta opinberun. Faðir minn var að kenna mér hvernig ég gat lært um forvígðar blessanir Guðs. Á þessum einkastundum lærði ég að Mormónsbók er orð Guðs. Ég komst að því að Guð hafði forvígt mig til að þjóna í trúboði. Ég lærði að Guð þekkir mig og heyrir og svarar bænum mínum. Ég lærði að Jesús er Kristur, frelsari okkar og lausnari.

Þótt mér hafi orðið á fjölmörg mistök frá þessum eftirminnilega degi með föður mínum, þá hefur það verið mér akkeri að keppa að því að varðveita einkastundir lífs míns og gert mér mögulegt að leita skjóls og læknandi, styrkjandi blessana kærleika og friðþægingarfórnar frelsara okkar.

Kæru ungu bræður og systur, er þið varðveitið einkastundir lífs ykkar með heilbrigðri afþreyingu, hlustið á upplyftandi tónlist, lesið ritningarnar, flytjið reglubundið þýðingarmiklar bænir og gerið ykkar besta til að taka á móti og ígrunda patríarkablessun ykkar, þá munið þið hljóta opinberun. Með orðum Nelsons forseta, þá munu augu ykkar „opnast upp á gátt gagnvart þeim sannleika að þetta líf er í raun sá tími sem þið getið ákveðið hvers konar lífi þið viljið lifa að eilífu“.18

Faðir okkar á himnum mun svara bænum ykkar, einkum bænum ykkar sem fluttar eru á einkastundum lífs ykkar. Hann mun opinbera ykkur forvígðar gjafir ykkar og hæfileika og þið munið finna hann umvefja ykkur elsku sinni, ef þið biðjið einlæglega og þráið innilega að vita það. Þegar þið varðveitið einkastundir lífs ykkar, mun þátttaka ykkar í helgiathöfnum og sáttmálum fagnaðarerindisins verða innihaldsríkari. Þið munið bindast Guði enn betur í sáttmálunum sem þið gerið við hann og ykkur mun lyft upp til að öðlast aukna von, trú og fullvissu um loforð hans til ykkar. Viljið þið þekkja áætlun Guðs fyrir ykkur? Ég ber vitni um að hann þráir að þið þekkið hana og hann innblés spámann sinn fyrir heiminn til að bjóða hverju og einu okkar að biðja og meðtaka þessa opinberandi upplifun fyrir okkur sjálf.19 Ég ber vitni um raunveruleika og kraft friðþægingarfórnar frelsara okkar, sem gerir okkur mögulegt að lifa í samræmi við og njóta allra forvígðra blessana Guðs, í nafni Jesú Krists, amen.