2009
Tendra vonarljós
April 2009


Tendra vonarljós

Varanlegi menntunarsjóðurinn hefur blessað og breytt lífi þúsunda Síðari daga heilagra í Brasilíu.

Þegar Dilson Maciel de Castro yngri missti vinnuna í São Paulo, fluttu hann og kona hans til Recife, stórrar hafnarborgar í norðaustur Brasilíu, svo að þau gætu búið hjá foreldrum hans. Þrátt fyrir reynsu Dilsons í fjarskiptum stóð honum ekkert til boða í Recife annað en stöku lausastörf.

„Þetta var mjög erfitt fyrir okkur á þeim tíma,“ segir Dilson. Vandi þeirra átti enn eftir að versna þegar þau hjónin misstu allt sem þau áttu í flóði.

Dilson, sem þjónað hafði á suðurtrúboðssvæðinu í São Paulo í Brasilíu, hitti á þessum erfiðu tímum öldung Gutenberg Amorim, sem var einn af svæðissjötíu og yfirmaður trúarskólans, og ræddi við hann um starf- og menntunarmöguleika. Meðan Dilson ræddi um áhugamál sín, fékk hann andlegan innblástur um að hann skyldi mennta sig á heilbrigðissvæðinu. Hinn varanlegi menntunarsjóður kirkjunnar var þá nýstofnaður og það var honum að þakka að Dilson gat árið 2003 fylgt þessum innblæstri og hafið 18 mánaða nám í hjúkrun.

„Án þessa sjóðs hefði verið útilokað fyrir mig að stunda þetta nám,“ segir Dilson, sem vinnur nú á ríkissjúkrahúsi í Recife. Á sama hátt hefði eiginkona hans, Alexsandra, ekki getað fengið lán til kosta þá menntun sem hún þarfnaðist til að verða skólakennari.

„Fyrir sex árum vorum við atvinnulaus,“ segir Dilson. „Án sjóðsins hefðum við ekki náð því marki sem við náðum. Hann hefur breytt lífi okkar.“

Svar frá Drottni

Þegar meðlimir kirkjunnar í Brasilíu lýsa Varanlega menntunarsjóðnum geta þeir ekki annað en notað hástemmd lýsingarorð: miraculoso, inspirado, maravilhoso. Það er vegna þess að sjóðurinn hefur náð því marki sem Gordon B. Hinckley (1910–2008) spáði að hann myndi ná: „Hann mun verða blessun öllum þeim sem hann snertir—ungum piltum og stúlkum, verðandi fjölskyldum þeirra, kirkjunni sem blessuð verður með sterkum innfæddum leiðtogum,“ og hann mun lyfta „þúsundum úr díki fátæktar upp í sólskin þekkingar og velmegunar.“1

Þegar Hinckley forseti tilkynnti þennan sjóð, höfðu kirkjuleiðtogar eins og Paulo R. Grahl, svæðisstjóri yngri og eldri deildar trúarskólans í Brasilíu, miklar áhyggjur af menntunar- og atvinnuhorfum Síðari daga heilagra í Brasilíu—einkum ungum heimkomnum trúboðum.

„En við fengum ekkert svar fyrr en Drottinn opinberaði Hinckley forseta að þessi dásamlegi sjóður skyldi stofnaður,“ segir bróðir Grahl. „Áður komu margir piltanna okkar heim úr trúboði án þess að eiga möguleika á menntun eða starfi. Nú vita þeir, að þegar þeir koma til baka er sjóðurinn þar, ef þeir þarfnast hans. Þetta er mikil blessun og mikill hagur fyrir unga fólkið. Það vekur von.“

Um það bil 10.000 Síðari daga heilagir í Brasilíu treysta nú á sjóðinn til að auka menntun sína og um leið starfsmöguleika. Efnahagur Brasilíu er sterkur og tækifærin nóg fyrir hina menntuðu—einkum þegar menntuninni fylgja þeir eiginleikar sem unga fólkið leggur rækt við á trúboðsakrinum.

dyr opnast

Öldungur Pedro Penha, einn af svæðissjötíu og yfirmaður Recife North trúarskólans, segir heimkomna trúboða hafa þá hæfileika sem atvinnurekendur sækist eftir. „Dyr opnast þeim og atvinnutækifæri gefast fljótt vegna reynslu þeirra, námsvenja, útlits og framkomu,“ segir hann. „Frami þeirra er skjótur og breytni þeirra laðar fólk að kirkjunni.“

Eftir að hafa lokið þjónustu sinni á norðurtrúboðssvæði São Paulo í Brasilíu árið 2002 notaði Ricardo Aurélio da Silva Fiusa lán sitt úr sjóðnum til tveggja ára náms í viðskiptafræði.

„Sjóðurinn hefur þroskað mig, búið mig undir atvinnu og giftingu, og betri þjónustu í kirkjunni,“ segir Ricardo. Líkt og með marga lánþega sjóðsins fékk hann atvinnutilboð áður en hann brautskráðist. „Sjóðurinn hefur verið mér mikil blessun. Ég greiði þakklátur mánaðarlegar afborgarnir af láni mínu, svo að aðrir geti einnig notið sjóðsins.“

Í trúboðsstarfi sínu lærði Ricardo að tala við fólk, læra mikið og vel og hlýða—hæfileikar sem hafa gert hann að góðum nemanda og starfsmanni.

„Margir prófessorarnir mínir sögðu að ég væri öðruvísi á einhvern þann hátt sem þeir gátu ekki útskýrt,“ segir Ricardo, sem vinnur að skipulagsmálum hjá fyrirtæki í Port Suape, fyrir sunnan Recife. „Ég sagði þeim að það stafaði af trúarreglum mínum.“ Það svar veitti Ricardo tækifæri til að ræða við prófessora sína og aðra um kirkjuna.

Maricoio A. Araújo, einn af fyrstu Brasilíumönnunum sem lauk trúboði, naut blessunar sjóðsins og hann bætir við: „Með auknum starfsframa gefast mér fleiri tækifæri til að hafa áhrif á aðra með fordæmi mínu. Stundum segir fólk við mig: ‘Hæ, þú ert öðruvísi. Þú ert trúr konu þinni. Þú lætur verkin tala.‘ Með því að nýta okkur VMS sjóðinn og gera okkar hlut hljótum við blessanir og við blessum aðra.“

Mauricio, sem var við trúboð í Rio de Janeiro í Brasilíu á síðari hluta tíunda áratugarins, hefur mörgum sinnum fengið stöðuhækkun siðan hann með hjálp sjóðsins lauk námi í almannatengslum—fyrst var hann sölumaður, þá deildarstjóri, svo framkvæmdastjóri og síðan í stjórn mikilvægs fyrirtækis í São Paulo.

„Varanlegi menntunarsjóðurinn er innblásinn af Guði,“ segir hann. „Sjóðurinn var lykillinn sem ég þarfnaðist til að ljúka menntun minni og ná starfsframa.“

Góð fjárfesting

Þótt Gabriel Salomão Neto sé ekki Síðari daga heilagur, finnst honum engu að síður að hann hafi notið blessunar sjóðsins. „Það er stórkostleg sem kirkjan gerir,“ segir hann, og talar fyrir munn atvinnurekenda í Brasilíu.

Mr. Neto, framkvæmdastjóri og meðeigandi í vélasölufyrirtæki í São Paulo, hefur ástæðu til að vera þakklátur. Hann varð svo hrifinn af hæfni kirkjumeðlimans Silvia O. H. Parra, sem lauk námi í viðskiptafræði með hjálp VMS sjóðsins, að hann réði hana sem framkvæmdaritara sinn.

„Við erum mjög hrifin af vinnu hennar. Hún er harð-dugleg og afkastamikil. Við trúum á hana og við treystum henni,“ segir hr. Neto. „Fjárfesting kirkjunnar í henni hefur borgað sig—fyrir ykkur, fyrir hana og fyrir okkur.“

Þakklát fyrir Varanlega menntunarsjóðinn og fyrir aðild sína að kirkjunni kennir Silvia ensku í kirkjudeild sinni í São Paulo, bæði kirkjuþegnum og öðrum. „Sem ég hef hlotið,“ segir hún, „svo vil ég gefa.“

Eins og velgengni Silviu sýnir eru ungir menn ekki þeir einu sem njóta góðs af Varanlega menntunarsjóðnum í Brasilíu. Af fjárhagsástæðum verða Síðari daga heilagra konur í Brasilíu einnig að leita sér atvinnu.

„Flestar konur í Brasilíu vinna ekki úti vegna þess að þær vilja fá nýjan bíl eða dýr föt, heldur af nauðsyn,“ segir Lorival Viana de Aguirra, framkvædastjóri atvinnumiðlunar kirkjunnar í Curitiba, suðurhluta Brasilíu. „Þær vilja að fjölskylda þeirra fái betri mat og börn sín viðeigandi fatnað og góða menntun.“

Aukin hamingja, sterkari vitnisburðir

Keite de Lima A. Ahmed og Viviana Torres Noguera áttu erfitt með að láta enda mætast, jafnvel þótt eiginmenn þeirra ynnu mikið til að sjá fyrir fjölskyldunni. Fyrir báðar var VMS sjóðurinn mikil blessun.

Líttvirkir meðlimir Keite-fjölskyldunnar létu þó í ljós efasemdir þegar hún hóf 18 mánaða öryggis- og tækninám. En hún skaraði fram úr í námi sínu og henni bauðst fullt starf á sínu sviði árið 2007.

„Sjóðurinn gerði meira en aðeins og hjálpa mér með menntun og starf; ég hlaut aukið sjálfsálit og aukið traust á minni eigin getu. Þetta innblásna starf hefur fært fjölskyldu okkar aukna hamingju og sterkari vitnisburð,“ segir hún.

Foreldrar Keite og systkini eru hrifin af dugnaði hennar og festu og hvernig VMS sjóðurinn hefur blessað fjölskyldu hennar, og þau eru nú aftur komin til starfa í kirkjunni. „Þau voru minnt á að kirkjan lyftir fólki og hjálpar því að vaxa á margan hátt—ekki aðeins andlega heldur einnig á allan þann hátt sem skiptir svo miklu ef lifa á góðu lífi,“ segir hún.

Viviana og eiginmaður hennar, Rafael, fluttu frá Kolumbíu til Manaus, þýðingarmikils iðnaðarbæjar í norðurhluta Brasilíu, árið 2002 í leit að fjárhagslegum tækifærum. „Bænir, fjölskyldufundir, leiðbeiningar prestdæmisleiðtoga og fagnámskeið auðvelduðu okkur að vita hvað faðir okkar á himnum vildi að við gerðum og líka að taka réttar ákvarðanir á réttum tíma,“ segir Viviana, sem fékk innblástur um að nota lán frá VMS sjóðnum til að læra alþjóðaviðskipti.

Árið 2007 hélt Viviana til starfa og sá um innflutning fyrir stórmarkað í Manaus. Fjöl-skylda hennar þarfnaðist aukinna tekna, en hún varð barnshafandi og þurfti að draga sig í hlé. Nokkrum mánuðum eftir að barnið—fjórða barn þeirra hjóna—fæddist, var Viviana boðið starf sem yfirmaður alþjóðaviðskipta hjá öðru fyrirtæki. Þegar hér var komið hafði hún lært portúgölsku, og móðurmál hennar, spænskan, gerði hana mjög dýrmæta í viðskiptum við spænskumælandi nágrannanna Brasilíu.

„Þegar mér var boðið starfið svaraði ég: ‚Ég á fjögur börn. Ég get ekki skuldbundið mig að vinna frá 8:00 f.h. til 6 e.h.,‘“ segir Viviana. „Yfirmaður minn sagðist hafa mikla trú á getu minni og sagði: ‘Ég þarfnast einhvers sem ég get treyst. Þú getur unnið heima.‘ Þetta kom mér á óvart.“

Viviana notar alnetið og tölvuna og vinnur heima meðan eldri börn hennar eru í skóla og ungbarnið sefur. Hún þarf aðeins öðru hverju að fara á skrifstofuna.

Rafael segir blessanir fjölskyldunnar meira en aðeins tilviljanir. „Þær blessanir sem við höfum hlotið stafa af ýmsum bænheitum ákvörðunum og gerðum okkar sem kirkjan hefur gert mögulegar,“ segir hann.

Vonarljósið

Gilmar Dias da Silva, stjórnandi VMS sjóðsins í Brasilíu, segir suma Síðari daga heilögu í Brasilíu standa andspænis atvinnuleysisvanda eftir að hafa lokið námi, en flestum lánþegum sjóðsins gengur vel í starfi og þeir lifa betra lífi. Vel gengur með sjóðinn hér.“

Sú velgengni segir Thomas S. Monson, „hefur tendrað vonarljós í augum þeirra sem fannst þeir dæmdir til meðalmennsku en gefst nú tækifæri til bjartari framtíðar.“2

Heimildir

  1. Gordon B. Hinckley, „The Perpetual Education Fund,“ Liahona, júlí 2001, 62; Ensign, maí 2001, 52; „The Need for Greater Kindness,“ Liahona og Ensign, maí 2006, 61.

  2. Thomas S. Monson, „They Marked the Path to Follow,“ Liahona, okt. 2007, 6; Ensign, okt. 2007, 8.

Ljósmyndir: Michael R. Morris

Merki VMS: Beth M. Whittaker

Með hjálp frá Varanlega menntunarsjóðnum breytti Dilson Maciel de Castro yngri andlegum innblæstri í starfsgrein og varð hjúkrunarfræðingur í Recife í Brasilíu. Að neðan: Mynd af Recife frá nýlendubænum Olinda.

Að ofan: Verslunarhús í Largo da Ordem, sögulegum miðbæ Curitiba. Varanlegi menntunarsjóðurinn var lykillinn að menntun og starfsframa Ricardo Aurélio da Silva Fiusa, Mauricio A. Araújo sést hér stjórna viðskiptafundi með trúsystkinum sínum Renato A. Romeru (til vinstri) og João B. Moreira (í miðið); og Silviu O. H. Parra, ásamt Adan Tallmann, svæðisritara yngri og eldri deildar trúarskólans.

Að ofan: Keite de Lima A. Ahmed ræðir öryggismál við Lorival Viana de Aguirra, framkvæmdastjóra atvinnumiðlunar kirkjunnar í Curitiba. Að neðan: Viviana Torres Noguera sinnir vinnu sinni heima hjá sér í Manaus. Innfellt: Viviana ásamt eiginmanni sínum, Rafael, og börnum þeirra.