2009
Kenna sanna kenningu
April 2009


Æðsta forsætisráðið

Kenna sanna kenningu

Ljósmynd
President Henry B. Eyring

Stríð hefur verið háð á milli ljóss og myrkurs, milli góðs og ills, allt frá því áður en heimurinn var skapaður. Sú orrusta varir enn, og fórnarlömbunum virðist fjölga. Öll eigum við skyldmenni sem við elskum og sem berjast gegn öflum eyðandans, hans sem vill gera öll börn Guðs vansæl. Mörg höfum við átt svefnlausar nætur. Við höfum reynt að beita sérhverju tiltæku afli til góðs gegn þeim öflum sem sveima kringum þá sem í hættu eru. Við höfum elskað þau. Við höfum sýnt eins gott fordæmi og við gátum. Við höfum beðið heitt fyrir þeim. Vitur spámaður gaf okkur fyrir löngu ráðleggingar varðandi annað afl, sem við stundum vanmetum og notum því of lítið.

Alma var leiðtogi fólks sem stóð frammi fyrir tortímingu af hendi grimmilegra óvina. Andspænis hættunni gat hann ekki gert allt og varð því að velja. Hann gæti hafa byggt varnarvirki og þjálfað heri eða búið til vopn. En eina vonin um sigur var að hljóta hjálp Guðs og hann vissi að þá varð fólkið að iðrast. Og því valdi hann að reyna eitt andlegt fyrst: „Og þar eð boðun orðsins hafði mikla tilhneigingu til að leiða fólkið í réttlætisátt—já, það hafði haft kröftugri áhrif á huga fólksins en sverðið eða nokkuð annað, sem fyrir það hafði komið—þá áleit Alma ráðlegast að láta reyna á kraft Guðs orðs“ (Alma 31:5).

Opna huga og hjarta

Orð Guðs er kenningin sem Jesús Kristur og spámenn hans hafa kennt. Alma vissi að í kenningarorðunum er fólginn mikill kraftur. Þau geta lokið upp huga fólks fyrir því andlega sem ekki er sýnilegt hinu náttúrulega auga. Og þau geta lokið upp hjörtum fyrir kærleika Guðs og ást á sannleikanum. Frelsarinn beitti báðum þessum öflum, að ljúka upp augum okkar og hjörtum, í 18. kafla Kenningar og sáttmála, er hann kenndi kenningar sínar þeim er hann vildi að þjónuðu sem trúboðar. Meðan þið hlustið skuluð þið hugsa um unga manninn í fjölskyldu ykkar sem nú hikar við að búa sig undir trúboð. Þannig kenndi meistarinn tveimur þjónum sínum og þannig gætuð þið kennt unga manninum sem þið elskið sömu kenningu.

„Og nú tala ég til þín, Oliver Cowdery, og einnig til Davids Whitmer og gef yður boðorð. Því að sjá, ég býð öllum mönnum alls staðar að iðrast, og ég ávarpa yður, já, eins og Pál postula minn, því að þér eruð einmitt kallaðir til sömu köllunar og hann var kallaður.

Hafið hugfast að verðmæti sálna er mikið í augum Guðs“ (K&S 18:9–10).

Hann byrjar með því að segja hve mikið hann treysti þeim. Síðan beinir hann hjörtum þeirra til hans með því að segja hve heitt hann og faðir hans elska sérhverja sál. Þar næst snýr hann sér að grundvelli kenningar sinnar. Hann lýsir því hve mikla ástæðu við höfum til að elska hann:

„Því að sjá, Drottinn lausnari yðar leið píslardauða í holdinu. Hann leið þess vegna kvalir allra manna, svo að allir menn gætu iðrast og komið til hans.

Og hann hefur risið aftur upp frá dauðum, til þess að geta leitt alla menn til sín, gegn því að þeir iðrist.

Og hversu mikil er gleði hans yfir þeirri sál sem iðrast!“ (K&S 18:11–13).

Þegar hann hefur gefið kenninguna sem ljúka átti upp hjörtum þeirra, gefur hann þeim þetta boð: „Þess vegna eruð þér kallaðir til að boða þessu fólki iðrun“ (K&S 18:14).

Að lokum lýkur hann upp augum þeirra, að þeir sjái það sem handan hulunnar er. Hann tekur þau og okkur inn í framtíðina, lýsir hinni miklu sáluhjálparáætlun, sem við gætum enn náð. Hann segir okkur frá dásamlegu samfélagi, vel þess virði að gefa allt til að njóta:

„Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!

Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín inn í ríki föður míns, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín! (K&S 18:15–16).

Í þessum fáu línum kennir hann okkur að ljúka upp hjörtum okkar fyrir elsku hans. Og hann kennir okkur að ljúka upp augum okkar og sjá andlegan raunveruleika, ósýnilegan hverjum þeim sem ekki er upplýstur af anda sannleikans.

Hvernig við verðum að kenna

Þörfin á að ljúka upp augum og hjörtum segir okkur hvernig við verðum að kenna kenninguna. Kenningin öðlast kraft sinn þegar heilagur andi staðfestir sannleik hennar. Við búum þá sem við kennum, eins vel og við getum, undir að heyra hljóðlátt hvísl hinnar lágu og hógværu raddar. Til þess þarf í það minnsta einhverja trú á Jesú Krist. Það krefst í það minnsta nokkurrar auðmýktar, vilja til að lúta vilja frelsarans. Sú persóna sem þið viljið hjálpa kann að skorta hvorutveggja, en þið getið örvað löngun hans eða hennar til að trúa. Það sem meira er, þið getið treyst á annað afl kenningarinnar. Sannleikurinn fer sínar eigin leiðir. Sá má sæði trúar í hjartað einfaldlega með því að hlusta á orð kenningarinnar. Og jafnvel örsmátt sáðkorn trúar á Jesú Krist býður andanum heim.

Við höfum meira vald yfir okkar eigin undirbúningi. Við endurnærumst af orði Guðs í ritningunum og lærum orð lifandi spámanna. Við föstum og biðjum til þess að hljóta sjálf andann og einnig sá sem við kennum.

Við þörfnumst heilags anda og verðum því að fara varlega, gæta þess að ganga ekki lengra en hin sanna kenning nær. Heilagur andi er andi sannleikans. Staðfesting hans fæst ef við forðumst ágiskanir eða persónulega túlkun. Það getur reynst erfitt. Þið elskið þann sem þið reynið að hafa áhrif á. Hann eða hún kann að hafa sniðgengið þá kenningu sem áður var kennd. Það er freistandi að reyna eitthvað nýtt eða tilkomumikið. En við bjóðum heilögum anda heim sem félaga okkar þegar við gætum þess að kenna aðeins sanna kenningu.

Ein öruggasta leiðin til að forðast jafnvel nálgun falskenningar er að velja einfaldan kennslumáta. Öryggi felst í einfaldleikanum, og lítið glatast. Þetta vitum við vegna þess að frelsarinn hefur sagt okkur að kenna litlum börnum mikilvægustu kenninguna. Hlustið á fyrirmæli hans: „Og enn fremur, að því leyti sem foreldrar, er eiga börn í Síon eða einhverri skipulagðri stiku hennar, kenna þeim ekki, þegar þau eru átta ára að aldri, að skilja kenninguna um iðrun, trú á Krist, son hins lifanda Guðs, og um skírn og gjöf heilags anda með handayfirlagningu, fellur syndin á höfuð foreldranna“ (K&S 68:25).

Við getum jafnvel kennt barni að skilja kenningu Jesú Krists. Því er mögulegt, með Guðs hjálp, að kenna hina frelsandi kenningu á einfaldan hátt.

Byrja snemma

Bestu tækifærin gefast hjá hinum ungu. Besti tíminn til kennslu er á unga aldri, þegar börnin eru enn ónæm fyrir freistingum hins jarðneska óvinar og löngu áður en erfitt verður fyrir þau að heyra orð sannleikans fyrir hávaða sinnar eigin baráttu.

Skynsamt foreldri missir aldrei tækifæri til að safna börnum sínum saman til að læra kenningu Jesú Krists. Slíkar stundir eru svo fátíðar samanborið við tilraunir óvinarins. Fyrir hverja klukkustund sem börnin kynnast krafti kenningarinnar í lífi sínu gefast hundruð stunda af boðum og myndum sem afneita eða sniðganga hinn frelsandi sannleika.

Spurningin ætti ekki að vera sú hvort við séum of þreytt til að búa okkur undir að kenna, eða hvort betra samband næðist við barnið með einhverju sem gaman er að, eða hvort barninu finnist við predika of mikið. Spurningin hlýtur að vera: „Úr því tíminn er svo naumur og tækifærin fá, hvaða kenningarorð frá mér munu þá best verja þau gegn þeim árásum á trú þeirra, sem örugglega munu koma?“ Þau orð sem þið mælið í dag geta orðið þau sem þau best muna. Og dagurinn í dag er brátt á enda liðinn.

Árin líða, við kennum kenninguna eftir bestu getu, og þó bregðast sumir ekki við. Það er sorglegt. En í hinni ritningarlegu frásögn af fjölskyldum felst von. Hugsið um Alma yngri og Enos. Á örlagastundum minntust þeir orða feðra sinna, kenningarinnar um Jesú Krist (sjá Enos 1:1–4; Alma 36:16–19). Hún frelsaði þá. Kennsla ykkar um þá helgu kenningu verður í minnum höfð.

Varanleg áhrif kennslunnar

Tvær efasemdir geta vaknað Þið getið efast um að þið þekkið kenninguna nógu vel til að kenna hana. Og hafið þið þegar reynt að kenna hana, gæti vaknað sú spurning hvers vegna þið sjáið ekki mikinn árangur.

Í minni eigin fjölskyldu er saga um unga konu sem var nægilega hugrökk til að kenna kenninguna skömmu eftir að hún snerist til trúar og hafði litla fræðslu fengið. Sú staðreynd að áhrifum af kennslu hennar er enn ekki lokið veitir mér þolinmæði til að bíða eftir ávöxtum minnar eigin tilraunar.

Mary Bommeli var langamma mín. Ég hitti hana aldrei. Ömmudóttir hennar heyrði hana segja sögu sína og skrifaði hana niður.

Mary fæddist árið 1830. Trúboðarnir kenndu fjölskyldu hennar í Sviss þegar hún var 24 ára. Hún bjó enn heima og óf og seldi klæði og lagði þannig sitt af mörkum til framfærslu fjölskyldunnar á litla býlinu þeirra. Þegar fjölskyldan heyrði kenninguna um hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists, vissi hún að hún var sönn. Þau létu skírast. Bræður Mary voru kallaðir í trúboð, og fóru án pyngju og mals. Aðrir í fjölskyldunni seldu eigur sínar og fóru til Ameríku til að sameinast hinum heilögu.

Ekki var nægilegt fé til að þau gætu öll farið. Mary bauðst til að verða eftir, því hún taldi sig geta aflað nægilegra tekna með vefnaði sínum til að sjá fyrir sér og safna fyrir farinu. Hún fór til Berlínar, heim til konu sem réði hana til að vefa klæði í fatnað fjölskyldunnar. Hún bjó í herbergi ætlað þjónustufólki og setti upp vefstól sinn í setustofu fjölskyldunnar.

Það var þá brot á lögum að kenna kenningu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í Berlín. En Mary gat ekki þagað yfir þessum gleðitíðindum. Húsmóðirin og vinir hennar söfnuðust í kringum vefstól hennar til að heyra þessa svissnesku stúlku kenna. Hún sagði frá því þegar himneskur faðir og Jesús Kristur birtust Joseph Smith, sagði frá vitjun engils og frá Mormónsbók. Þegar kom að frásögn Alma sagði hún frá kenningunni um upprisuna.

Það olli nokkrum vanda við vefnað hennar. Á þeim tíma dóu mörg börn ung. Konurnar sem sátu í kringum vefstólinn höfðu misst börn, sumar þeirra nokkur börn. Þegar Mary kenndi sannleikann um að litlu börnin væru erfingjar hins himneska ríkis og að þessar konur gætu aftur verið með þeim og með frelsaranum og himneskum föður, runnu tárin niður kinnar þessara kvenna. Mary grét líka. Öll þessi tár vættu klæðið sem María hafði ofið.

Kennsla Mary skapaði enn alvarlegri vanda. Jafnvel þótt Mary bæði konurnar um að segja ekki frá því sem hún hafði sagt þeim, gerðu þær það. Þær sögðu vinum sínum frá þessari gleðilegu kenningu. Eitt kvöldið var því barið að dyrum. Það var lögreglan. Hún fór með Maríu í fangelsi. Á leiðinni spurði hún lögreglumanninn um nafn dómarans sem hún átti að mæta hjá morguninn eftir. Hún spurði hvort hann ætti fjölskyldu. Hún spurði hvort hann væri góður faðir og góður eiginmaður. Lögreglumaðurinn brosti er hann lýsti dómaranum sem heimsmanni.

Í fangelsinu bað Mary um blað og blýant. Hún skrifaði dómaranum bréf. Hún skrifaði um upprisu Jesú Krists eins og henni er lýst í Mormónsbók, um andaheiminn, og hve lengi dómarinn þyrfti að hugleiða og ígrunda líf sitt áður en hann stæði andspænis lokadóminum. Hún skrifaði að hún vissi að hann þyrfti margs að iðrast, sem myndi hryggja fjölskyldu hans og valda honum mikilli sorg. Hún skrifaði alla nóttina. Um morguninn bað hún lögreglumanninn að afhenda dómaranum bréf sitt. Hann gerði það.

Síðar var lögreglumaðurinn kallaður inn á skrifstofu dómarans. Bréf Mary var óhrekjandi sönnun á að hún var að kenna fagnaðarerindið og þannig brjóta lögin. Engu að síður leið ekki á löngu þar til lögreglumaðurinn kom aftur í fangaklefa Mary. Hann sagði henni að allar kærur gegn henni væru felldar niður og hún væri frjáls ferða sinna. Kennsla hennar um hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists hafði lokið upp augum og hjörtum nægilega til að henni var varpað í fangelsi. Og útskýring hennar á kenningunni um iðrun til dómarans hafði leyst hana úr fangelsi.1

Mótun niðja ykkar

Kennsla Mary Bommeli snerti fleiri en þessar konur í kringum vefstólinn og dómarann. Faðir minn, barnabarn hennar, ræddi við mig næturnar sem hann lá fyrir dauðanum. Hann talaði um gleðilega endurfundi sem brátt yrðu í andaheiminum. Hann ræddi um þetta af slíkri fullvissu, að ég gat næstum séð hið skæra sólarljós og brosin á þessum paradísarstað.

Einu sinni spurði ég hann hvort hann þyrfti ekki að iðrast einhvers. Hann brosti. Hann hló við og sagði blíðlega: „Nei, Hal, ég hef iðrast jafnóðum.“ Kenningin um paradís sem Mary Bommeli kenndi þessum konum var raunveruleg í augum ömmusonarins. Og jafnvel kenningin sem Mary kenndi dómaranum hafði mótað líf föður míns til góðs. Þetta verður ekki endirinn á kennslu Mary Bommeli. Frásögnin af orðum hennar mun færa ófæddum ættliðum fjölskyldu hennar hina sönnu kenningu. Hún trúði því að jafnvel nýr trúskiptingur vissi nóg um kenninguna til að kenna hana og vegna þess munu hugir og hjörtu afkomenda hennar ljúkast upp og styrkjast í baráttunni.

Afkomendur ykkar munu kenna hver öðrum kenninguna vegna þess að þið kennduð hana. Kenningin getur gert meira en ljúka upp hugum fyrir hinu andlega og hjörtum fyrir elsku Guðs. Þegar sú kenning færir gleði og frið, getur hún einnig haft kraft til að ljúka upp munnum. Líkt og konurnar í Berlín munu afkomendur ykkar ekki geta haldið þessum góðu tíðindum bara fyrir sig sjálfa.

Ég er þakklátur fyrir að lifa á þeim tíma, er við og fjölskyldur okkar hafa fyllingu hins endurreista fagnaðarerindis. Ég er þakklátur fyrir elsku frelsarans til okkar og fyrir þau lífsins orð sem hann hefur fært okkur. Ég bið þess að við munum deila þeim orðum með þeim sem við unnum. Ég ber vitni um að Guð faðir okkar lifir og elskar öll börn sín. Jesús Kristur er hans eingetni sonur í holdinu og frelsari okkar. Ég veit að hann er upprisinn, og ég veit að við getum laugast hrein með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindis Jesú Krists.

Ath.

  1. Sjá Theresa Snow Hill, Life and Times of Henry Eyring and Mary Bommeli (1997), 15–22.

Teikningar: Michael T. Malm

Ljósmynd: Christina Smith