2009
Rödd góða hirðisins
April 2009


Rödd góða hirðisins

Sem búgarðseigandi í Montana lengst af mínum 70 árum met ég mikils dæmisöguna um góða hirðinn, sem finna má í Jóh 10:1–18, því ég hef upplifað hana. Eftirfarandi reynsla átti verulegan þátt í að gera þessa dæmisögu lifandi.

Á tímum Biblíunnar kallaði hver hirðir á hjörð sína úr þeim stóra hópi hjarða sem söfnuðust saman í birginu yfir nóttina (sjá v. 3–4). Alltaf þegar ég þurfti að færa hjörð mína, gerði ég eins, ég einfaldlega kallaði og hún fylgdi mér.

Fyrir mörgum árum veiktist Alice, minn annars hressi og 96 ára nágranni og fjáreigandi, meðan á lambburðinum stóð og því bauðst ég til að taka vaktina um nóttina. Þegar ég kom í fjárhús hennar fyrsta kvöldið „á vakt,“ höfðu hinar nær 100 ær Alice búið sig rólegar undir nóttina. En þegar ég birtist skynjuðu þær strax að einhver ókunnugur var meðal þeirra. Óttaslegnar leituðu þær samstundis öryggis með því að þjappa sér saman í fjærsta horninu (sjá v. 5).

Þannig hélst það í nokkrar nætur. Einu gilti hve hljóðlega ég kom inn, kindurnar urðu hræddar og flúðu. Ég talaði blíðlega við nýborin lömbin og ærnar þegar ég annaðist þau. Fimmtu nóttina hreyfðu þær sig ekki lengur þegar ég vann á meðal þeirra. Þær þekktu orðið rödd mína og treystu mér.

Nokkru síðar sagði ég Alice að ég ætlaði að gefa heimalningunum hennar tólf pelana sína. (Heimalningur er sá sem móðirin hefur dáið frá eða mjólkar ekki nóg.) Ég hermdi eftir Alice og kallaði á lömbin hennar, „Komið, kibba! Komið, kibba!“ Ég bjóst við að lömbin myndi þyrpast að mér eins og þau gerðu við hana. En ekkert af lömbunum leit einu sinni upp. Alice kom þá út um eldhúsdyrnar og kallaði. Við rödd hennar þustu þau áköf í átt til hennar og heimtuðu mjólkina sína.

Við Alice ákváðum að gera tilraun. Alice stóð í réttinni minni og hermdi eftir kalli mínu: „Hérna, kibba, kibba! Hérna, kibba, kibba!“ en engin viðbrögð urðu. En þegar ég kallaði með nákvæmlega sömu orðum, komu kindurnar mínar strax til mín. Þótt orðin sem við notuðum til að kalla á kindurnar væru svipuð, þá gegndu þær ekki rödd sem þær þekktu ekki. Kindurnar voru aðeins tryggar sínum eigin sanna hirði (sjá v. 4).

Jóh 10 gerir greinarmun á fjárhirði og leiguliða. Fjárhirðir, sem sjálfur á féð ann því og lætur sér annt um öryggi þess. Hinn er einvörðungu „leiguliði“ og lætur sér „ekki annt“ um féð (v. 13). Dæmisagan sýnir einnig að leiguliðinn flýr og yfirgefur sauði sína (sjá v. 12), en fjárhirðirinn leggur fúslega líf sitt í sölurnar fyrir sauði sína (sjá v. 11). Þetta gildir vissulega um okkar góða hirði—frelsara okkar, Jesú Krist—sem af kærleika fórnaði lífi sínu fyrir okkur (sjá v. 15, 17–18).

Þessi reynsla staðfestir að mínum dómi aðalboðskap dæmisögunnar: Þegar við kappkostum að þekkja sjálf góða hirðinn okkar og þekkjum auðveldlega rödd hans, mun það koma í veg fyrir að við í ógáti fylgjum leiguliðanum. Þegar við af trúfestu hlýðum rödd góða hirðisins —og engum öðrum—munum við leidd í eilíft öryggi.

Drottinn er minn hirðir, eftir Simon Dewey, birt með leyfi Altus Fine Art, American Fork, Utah