2009
Aukamílan
April 2009


Aukamílan

Stundum getur örlítil áreynsla leitt til stórra hluta.

Þegar Stein Arthur Andersen var um 15 ára gamall var hann ekki virkur í kirkjunni. Fjölskylda hans var það ekki heldur. Þau höfðu búið á ýmsum stöðum í Noregi. Þessa stundina bjuggu þau í Stavanger. Hún er fjórða stærsta borg landsins og staðsett á suðvestur ströndinni. Stein hafði farið nokkrum sinnum í kirkju í Stavanger og hitt nokkra unglinga Síðari daga heilagra á svæðinu. Einn ungur maður hafði sérstaklega sterk áhrif á Stein—en hann hét Tor Lasse Bjerga.

Það var í einni af fáum komum hans í kirkju að Stein hitti Tor Lasse. Hann var tveimur árum eldri en ég og hafði veruleg áhrif á mig,“ sagði Stein. „Ég fann svo góðan anda þegar ég var með honum, og mér fannst hann fínn strákur.“ Hefði Stein ekki orðið fyrir þessum áhrifum frá Tor Lasse hefði hann ekki orðið fús til að hlusta á hann þegar Tor Lasse kom heim til Steins með sérstakt boð til hans.

Boð þetta kom á miðjum áttunda áratugnum þegar trúarskólastarfið var kynnt í Noregi, og Tor hafði verið kallaður sem fyrsti trúarskólakennarinn. Tor Lasse var þá aðeins 18 ára og hafði nokkrar áhyggjur af því að taka á sig svo mikla ábyrgð. „Hann sagði: „Ég baðst töluvert fyrir varðandi það.“ Eitt vissi hann þó fyrir víst, og það var að hann vildi ná til til lítt virkra unglinga á sínu svæði. Tor Lasse sagði: „Ég fann samstundis að ég ætti að heimsækja Stein Arthur.“

„Nafn mitt var sennileg eitt nafna á listanum,“ segir Stein. En í huga Tor Lasse var Stein meira en aðeins nafn á lista. Hann minnist þess að hafa hrifist af greind Steins og hæglátum en ákveðnum persónuleika hans. Tor Lasse ákvað því að heimsækja sjálfur Stein og bjóða honum að taka þátt í hinu nýja trúarskólanámi.

Hann hringdi fyrst og ræddi við foreldra Steins til að tryggja að hann yrði heima þegar hann kæmi. Til að komast heim til Steins varð Tor Lasse að taka strætisvagn í 35 minútur að ferjunni. Þá tók við 45 mínútna ferjusigling. Að lokum varð hann að ganga í 30 mínútur. „Ég hef hugsað mikið um þetta,“ segir Stein. „Tor Lasse gekk svo sannarlega aukamíluna.“

Báðir muna þeir vel andann sem þeir fundu á þessu fundi fyrir nær 35 árum. Þeir sátu í borðstofunni og Stein hugleiddi allt það sem hann var þátttakandi í. „Ég var mjög upptekinn af fótbolta og skátastarfi og lék á trompet, og ég var á kafi í öllu mögulegu. Ég var mjög önnum kafinn.“

Tor Lasse sneri sér að mér þegar hann ræddi um trúarskólann og sagði: ‚Stein Arthur, vilt þú skrá þig í trúarskólann og læra ritningarnar með okkur?“ Ég sat við arininn og sagði já. Öll rök mæltu með því að ég hafnaði þessu boði því ég hafði engan tíma. En ég sagði já. Og það kom öllu af stað.“

Þetta „allt“ fól í sér að byrja á því á hverjum morgni að lesa ritningarnar og læra trúarskólalexíurnar sjálfur heima. Síðan hittist smáhópur, fjórir eða fimm nemendur, einu sinni í viku. „Smátt og smátt tók ég að finna andann þessar morgunstundir, þegar ég reis árla úr rekkju og las einn. Eftir nokkurn tíma fór mér að finnast að dagurinn yrði ekki það sem gæti orðið ef ég lærði ekki á morgnana. Og ég fór að fá vitnisburð án þess að gera mér grein fyrir því.“

Stein bætir við: „Innan tíðar tók ég skilja hverjar þessar tilfinningar voru. Mér leið vel varðandi það sem ég lærði og ég fann andann. Ég fann að þetta var rétt. Og ég vissi að þetta var það sem ég vildi byggja líf mitt á.“

En hvers vegna sagði Stein já úr því að hann var svo önnum kafinn? „Ég tel að heilagur andi hafi haft áhrif á mig,“ svarar hann. „Ég hlýt að hafa verið undirbúinn á einhvern hátt. Þegar svo Tor Lasse kom í trú, gekk hann aukamíluna og ég var reiðubúinn að taka boði hans. Þannig vinnur Drottinn.“

Um ári síðar ákvað Tor Lasse að fara í trúboð og var kallaður til þjónustu í Noregi. En á meðan hélt Stein áfram að styrkja vitnisburð sinn um fagnaðarerindið. Þegar Tor kom aftur úr trúboði sínu tók ég af alvöru að hugsa um að fara sjálfur í trúboð,“ segir Stein. „Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég ætti að fara því ég vildi þjóna Drottni, og að ef ég færi ekki, myndi ég sjá eftir því alla ævi.“

Stein minnist þess að þegar hann kom frá prestdæmisleiðtogum sínum, eftir að hafa rætt við þá um trúboð, hafi honum fundist sem hann svifi á leiðinni heim. Áður en Stein hélt í trúboð (einnig í Noregi) hitti hann verðandi eiginkonu sína, Hilde, á æskulýðsráðstefnu í Osló. Þau skrifuðust á meðan hann var í trúboði og eftir að hann kom heim giftu þau sig. Nú eiga þau fjögur börn, tvo syni, sem báðir hafa gifst í musterinu, og tvær yngri dætur sem enn eru heima, en stunda vel trúarskólann.

„Þetta kvöld sem Tor Lasse kom heim til okkar—breytti gjörsamlega lífi mínu,“ segir Stein. Í þeirri heimsókn hélt hann út á þá braut sem leiddi til þess að hann hitti konu sína, þjónaði í trúboði, eignaðist fjölskyldu og festi rætur í frjósömum jarðvegi fagnaðarerindisins. „Ég hef verið greinarforseti, umdæmisforseti, biskup—allt vegna þess að Tor Lasse kom heim til okkar og ég hóf nám í trúarskólanum.“ Allt vegna þess að Tor Lasse gekk fúslega aukamíluna.

Teikningar: Gregg Thorkelson

Ljósmynd: Paul VanDenBerghe

Ida Andrsen (til hægri) og systir hennar, Ane, og foreldrar, Hilde og Stein.