2009
Viltu bjarga föður mínum
April 2009


Viltu bjarga föður mínum

Það var faðir minn sem leitaði sannleikans og fann trúboðana. Þeir kenndu okkur fagnaðarerindið og nokkru síðar létum við—foreldrar mínir og fimm systkini mín—skírast. Vitnisburðir okkar styrktust. Við lærðum margt, einkum um frelsarann og fjölskyldur.

Árið 1992, meðan faðir minn þjónaði sem biskup í deildinni okkar á Filippseyjum, fékk hann hjartaáfall. Hann var fluttur í flýti á sjúkrahús. Þegar fréttin barst um að hann væri á gjörgæsludeild varð það fjölskyldu minni mikið áfall. Óttinn altók okkur. Möguleikarnir á að faðir minn lifði þetta af voru litlir. Móðir mín grét og bað okkur öll að biðjast fyrir.

Ég vissi ekki hvað tímanum leið eftir það—minningarnar flykktust að mér. Með tárvot augu kraup ég í bæn. Mér var þungt um hjartað, mér fannst sem ég væri að springa. Mig langaði til að hljóða til að lina sársaukann og fjarlægja óttann sem greip mig þann dag. Þess í stað bað ég aðeins: „Viltu bjarga föður mínum.“ Það var einlæg bæn, sem átti að heyrast.

Sama kvöld var mér leyft að fara inn á gjörgæsludeildina. Faðir minn var meðvitundarlaus og við móðir min og systkini urðum að búa okkur undir það versta. Þetta var sársaukaþrungin reynsla fyrir fjölskylduna. Framtíðin var dapurleg og óviss. Þegar ég kvaddi hann í hljóði minntist ég fyrsta fjölskyldukvöldsins okkar. Við höfðum horft á kvikmynd kirkjunnar, Fjölskyldur eru eilífar.

Áður en ég gekk til hvílu þetta kvöld sneri jarðneskur faðir minn hljóðlega til föður síns á himnum.

Andlát föður míns, þegar ég var 22ja ára, markaði upphafið að ótal breytingum í lífi mínu. Í fjarveru hans komst ég að því að ég bjó yfir styrk sem ég hafði ekki vitað af. Ég hef gert meira úr lífi mínu en ég annars gæti hafa gert vegna þess að breytingu og þroska var þröngvað upp á mig.

Þegar faðir minn á himnum varð ekki við bæn minni kom mér aldrei í hug að hann hefði ekki heyrt hana. Ég veit að hann var að hlusta. Hann vissi nákvæmlega hvað ég var að ganga í gegnum. Hann vissi nákvæmlega hvað fjölskylda okkar þarfnaðist á þeim tíma og það veitti hann okkur—styrk til að sigrast á áskorunum lífsins, styrk til að takast á við raunveruleikann. Hann kenndi okkur að takast á við raunir okkar í trú.

Rúm 15 ár hafa liðið síðan þennan sársaukafulla dag. Ég er enn að læra og er enn að vaxa í trúnni. Ég á mína eigin fjölskyldu, ég er svo hamingjusamur yfir að við erum innsigluð í musterinu. Ég vík aldrei af þeirri braut sem faðir minn markaði okkur.

Fyrir friðþægingu og upprisu Jesú Krists veit ég að fjölskylda okkar mun einhvern tíma sameinast aftur. Ég á enn langa leið fyrir höndum, en ég er hamingjusamur að vita að ég mun sjá föður minn í lok þeirrar ferðar.