2009
Hvaða þýðingu hefur friðþægingin fyrir þig?
April 2009


Hvaða þýðingu hefur friðþægingin fyrir þig?

Úr ávarpi sem flutt var á kvennráðstefnu Brigham Young háskólans 5. maí 2006.

Friðþægingin er mjög persónuleg og sérstaklega sniðin að okkar eigin aðstæðum og tilfelli.

Ljósmynd
Elder Cecil O. Samuelson Jr.

Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postula og spámanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, reis upp á þriðja degi og sté upp til himna. Og allt annað sem varðar trúarbrögð okkar er aðeins viðauki við þetta.1

Þessar grundvallarreglur byggjast á friðþægingu Jesú Krists. Enska orðið Atonement „lýsir þeim sem hefur verið fráhverfur en lætur í ljós sátt milli manns og Guðs. Syndin er orsök fráhvarfsins og því er tilgangur friðþægingarinnar að leiðrétta eða sigrast á afleiðingum syndarinnar.“2 Ég tel einnig að mögulegt sé að hverfa frá Guði af mörgum ástæðum öðrum en beinni synd.

Hættan á að við fjarlægumst föður okkar á himnum og frelsarann er veruleg og stöðugt fyrir hendi. Sem betur fer er friðþægingin ætluð jafnt fyrir allar aðstæður. Þess vegna lýsti Jakob, bróðir Nefís, friðþægingunni sem „algjörri“ (2 Nefí 9:7), sem merkir að hún er án takmarkana og óháð ytri hömlunum. Þess vegna er friðþægingin svo undursamleg og svo nauðsynleg. Engan þarf því að undra að við þurfum ekki aðeins að kunna að meta þessa óviðjafnanlegu gjöf, heldur einnig að skilja hana greinilega.

Jesús Kristur var sá eini sem gat framkvæmt hina undursamlegu friðþægingu vegna þess að hann var eini fullkomni maðurinn og hinn eingetni sonur Guðs föðurins. Faðir hans fól honum þetta mikilvæga verk áður en heimurinn var skapaður. Hið fullkomna og syndlausa jarðlíf hans, úthellingin á blóði hans, þjáningar hans í garðinum og á krossinum, sjálfviljugur dauði hans og upprisinn líkami hans í gröfinni, allt gerði þetta fullkomna friðþægingu mögulega fyrir menn af öllum kynslóðum og tíma.

Friðþægingin gerir upprisuna raunverulega fyrir alla. Hvað varðar okkar eigin lögmálsbrot og syndir krefjast þó skilyrtir þættir friðþægingarinnar trúar okkar á Drottin Jesú Krist, iðrunar okkar, og hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.

Ódauðleiki og eilíft líf

Það vers sem ef til vill oftast er vitnað í á samkomum okkar og í skrifum okkar er hið dásamlega og skýra vers í Bók Móse: „Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín—að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

Vegna upprisunnar munum við öll verða ódauðleg. Vegna friðþægingarinnar munu þeir, sem eiga nægilega trú á Drottin Jesú Krist til að taka á sig nafn hans, sem iðrast og lifa í samræmi við fagnaðarerindi hans, sem halda sáttmála sína við hann og föður hans og sem taka þátt í frelsandi helgiathöfnum sem í boði eru á helgan hátt og á helgum stöðum, þeir munu eiga og njóta eilífs lífs.

Ég man ekki eftir að hafa hitt nokkurn sem játað hefur sterka trú á Jesú Krist og haft hefur miklar áhyggjur af upprisunni. Við getum að vísu öll haft spurningar um einstök atriði, en við skiljum að grundvallarloforðið er algilt og öruggt.

Eilíft líf er skilyrt og krefst viðleitni okkar og hlýðni og því berjumst við flest öðru hverju—jafnvel stöðugt—við spurningar varðandi það að lifa eins og okkur ber að lifa. Öldungur David A. Bednar í sveit hinna Tólf spurði: „Erum við haldin þeirri villu að við verðum að ganga þá ferð, að bæta okkur stöðugt og verða heilög, alein og af einskærri þrautseigju, vilja og sjálfsaga“?3

Ef sáluhjálp okkar væri aðeins undir okkur sjálfum komin værum við í alvarlegum málum, vegna þess að við erum öll ófullkomin og ófær um að hlýða að fullu á allan hátt og öllum stundum. Hvernig hljótum við þá hjálp og aðstoð sem nauðsynleg er? Nefí útskýrði vandann milli náðar og verka þegar hann sagði: „Því að vér vitum, að vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört“ (2 Nephi 25:23).

Biblíuorðabókin minnir okkur á að náð merkir guðlegt tæki eða ráðstöfun sem færir styrk eða hjálp fyrir miskunn og elsku Jesú Krists og verður tiltæk með friðþægingu hans.4 Þannig er það fyrir náð Krists að við munum rísa upp, og það er náð hans, elska og friðþæging sem hjálpa okkur að vinna þau góðu verk og ná þeirri framþróun sem annars væri útilokuð ef við yrðum eingöngu að treysta á eigin getu og úrræði.

Hamingja vegna friðþægingarinnar

Eitt af því sem ég dáðist af í fari Nefís var viðhorf hans. Líf hans var ekki auðvelt, sérstaklega borið saman við þau þægindi sem flestum okkar veitist nú á tímum. Nefí og fjölskylda hans lifðu árum saman í óbyggðunum áður en þau komust til fyrirheitna landsins. Þau bjuggu oft við hungur, þorsta og hættur. Nefí varð að takast á við alvarlegan fjölskylduvanda sem Laman og Lemúel mögnuðu, og yfirgefa að lokum samferðafólk sitt, þá sem stóðu með Laman og Lemúel.

Andspænis öllum þessum þrengingum og erfiðleikum gat Nefí samt sagt: „Og svo bar við, að við lifðum eftir leiðum hamingjunnar“ (2 Nephi 5:27).

Hann skildi að hægt er að lifa þannig að það færi hamingju, óháð þeim erfiðleikum, vanda og vonbrigðum sem mæta okkur öllum. Honum tókst að beina sjónum sínum að heildarmyndinni af áætlun Guðs fyrir hann og fólk hans og komst þannig hjá því að láta ráðleysi eða neikvætt viðhorf draga sig niður. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt, en hann og fólk hans var engu að síður hamingjusamt. Þau skildu að friðþægingin myndi eiga sér stað, og þau treystu því að hún næði til þeirra.

Nefí spurði sjálfan sig mikilvægra spurninga, sem við gætum spurt okkur sjálf þegar við hugleiðum hlutverk friðþægingarinnar í okkar eigin lífi.

„Fyrst ég hef séð svo mikilfenglega hluti og Drottinn hefur í lítillæti sínu gagnvart mannanna börnum vitjað manna af svo mikilli miskunn, hví skyldi hjarta mitt þá gráta og sál mín dveljast í dal sorgarinnar, hví skyldi hold mitt tærast upp og styrkur minn minnka vegna þrenginga minna?

Og hví skyldi ég láta undan syndinni holds míns vegna? Já, hví skyldi ég gefa eftir fyrir freistingum, til þess eins að hinn illi komist í hjarta mitt, tortími friði mínum og nái að þrengja að sálu minni? Hví reiðist ég vegna óvinar míns? (2 Nefí 4:26–27).

Eftir harmakvein sitt svaraði hann eigin spurningum, vissi hvernig átti að nálgast vandann sem hann varð að takast á við: „Vakna, sál mín! Lát ei framar vanmegnast í synd. Fagna, ó hjarta mitt, og ljá ei framar óvini sálar minnar rúm. … Ó Drottinn, ég hef treyst þér og mun að eilífu treysta þér“ (2 Nefí 4:28, 34).

Þýðir þetta að Nefí var nú laus við allan vanda? Þýðir það að hann skildi að fullu það sem var að gerast? Munið svarið sem hann gaf englinum nokkrum árum áður þegar hann var spurður þýðingarmikillar spurningar varðandi friðþægingu Krists, sem verða mundi í framtíðinni: „Ég veit, að [Guð] elskar börn sín. Samt þekki ég ekki merkingu allra hluta“ (1 Nefí 11:17).

Einnig við getum ekki og munum ekki þekkja merkingu allra hluta, en við getum og verðum að vita að Drottinn elskar börn sín og að við fáum að fullu notið náðar Krists og friðþægingarinnar í lífi okkar og lífsbaráttu. Eins þekkjum við og verðum að muna heimskuna og hættuna sem fylgja því að gefa hinum illa rúm í hjörtum okkar.

Jafnvel þegar við skiljum að fullu og heitum því að útiloka hið illa og hinn illa úr hjörtum okkar og úr lífi okkar, bregðumst við of oft vegna þess að við erum „nátturlegir“ karlar og konur (sjá Mósía 3:19). Þótt við tölum oft um iðrun okkar sem atburð, sem hún er, þá er hún fyrir flesta ævilangt og stöðugt ferli.

Að sjálfsögðu er bæði um vanrækslusyndir og aðrar syndir að ræða sem við getum samstundis iðrast. Til er sérstök tegund ranglætis og mistaka sem við getum látið af nú og aldrei gert aftur. Við getum til dæmis greitt tíund að fulla það sem eftir er ævinnar, jafnvel þótt svo hafi ekki alltaf verið. En aðrir þættir í lífi okkar krefjast áframhaldandi umbóta og stöðugrar athygli, svo sem andlegheit okkar, kærleikur, næmni fyrir öðrum, tillitssemi við fjölskyldu okkar, umhyggja fyrir öðrum, skilningur á ritningunum, musterisþjónusta og gæði einkabæna okkar.

Við getum verið þakklát fyrir að frelsarinn, sem skilur okkur betur en við skiljum okkur sjálf, innleiddi sakramentið svo að við gætum reglulega endurnýjað sáttmála okkar með því að meðtaka hin helgu tákn og heita því að taka á sig hans heilaga nafn, hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans. Þegar við höfum þann háttinn á að „lifa eftir leiðum hamingjunnar,“ mun iðrun okkar og framganga rísa hærra og geta okkar til að skilja og meta friðþæginguna mun aukast.

Iðrun og hlýðni

Vikurnar fyrir stofnun kirkjunnar árið 1830 fékk spámaðurinn Joseph Smith undursamlega oinberun sem eykur skilning okkar á friðþægingunni, vegna þess að það var frelsarinn sjálfur sem talaði og kenndi. Hann lýsti sjálfum sér sem „lausnara heimsins“ (K&S 19:1), viðurkenndi að hann væri að fylgja vilja föðurins og sagði: „Þess vegna býð ég þér að iðrast og halda boð þau, sem þú hefur meðtekið“ (K&S 19:13).

Þessi einfaldi iðrunarmáti og hlýðni er í raun undirstaða þess að „lifa eftir leiðum hamingjummar.“ Við vitum að þetta er það sem við þurfum að gera, þótt við gleymum stundum hvers vegna. Drottinn minnir okkur á ástæðuna í eftirfarandi orðum úr sömu opinberun:

„Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast—

En iðrist þeir ekki, verða þeir að þjást, alveg eins og ég—

Þjáningu, sem varð þess valdandi, að ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, og þjáðist bæði á líkama og í anda—og með hrolli óskaðí ég þess að þurfa ekki að bergja þennan beiska bikar—

Dýrð sé föðurnum eigi að síður, og ég tæmdi hann og lauk undirbúningi mínum fyrir mannanna börn“ (K&S 19:16–19).

Hve undursamleg lexía. Ég tel víst að ekkert okkar geti ímyndað sér hvorki mikilvægi né magn þess sársauka sem Drottinn leið þegar hann færði hina miklu friðþægingu. Ég efa að Joseph Smith hafi á þeim tíma haft fullkominn skilning á þjáningum frelsarans, þótt mat spámannsins og skilningur hafi síðar aukist fyrir eigin raunir og kvalir. Hugsið til leiðréttandi leiðbeiningar Jesú sjálfs þegar hann ráðlagði og hughreysti Joseph á hinum myrku stundum hans í Liberty-fangelsinu. Drottinn sagði einfaldlega: „Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann?“ (K&S 122:8).

Þessi spurning til Josephs er einnig spurning til sérhvers okkar í okkar eigin baráttu og áskorunum. Ekkert okkar ætti nokkru sinni að efa hið rétta svar.

Að Jesús reyndi allt sem hann mátti reyna, ekki vegna þess að hann gat ekki komist hjá því, heldur vegna þess að hann elskar okkur, það er vissulega sláandi. Jesús elskar einnig og heiðrar föður sinn af þeirri dýpt og hollustu sem við getum aðeins ímyndað okkur. Ef við viljum reyna að heiðra og elska frelsarinn á móti, megum við aldrei gleyma því að hann gerði það sem hann gerði fyrir okkur, svo að við þyrftum ekki að þjást í sama mæli og réttvísin ein myndi krefjast af okkur.

Húðstrýking, bjargarleysi, misþyrming, naglar og óskiljanlegt álag og þjáningar, allt leiddi þetta til þess að hann leið slíkar þjáningar sem enginn hefði getað þolað án hans máttar og án þeirrar föstu ákvörðunar hans að halda stefnunni og standast allt sem á hann var lagt.

Yfirgrip friðþægingarinnar

Þegar við hugleiðum yfirgrip friðþægingarinnar og vilja lausnarans til að þjást fyrir allar okkar syndir, ættum við þakklát að viðurkenna að friðþægingarfórnin nær yfir miklu meira! Hugleiðið þessi orð Alma til hins trúfasta fólks Gídeons næstum heillri öld áður en friðþægingin átti sér stað:

„Og [Jesús] mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns.

„Og hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess.

Nú veit andinn alla hluti, en samt þjáist sonur Guðs að hætti holdsins til að geta tekið á sig syndir fólks síns og þurrkað út lögmálsbrot þess í krafti frelsunarverks síns. Og sjá, þetta er vitnisburðurinn, sem í mér er“ (Alma 7:11–13).

Hugsið um fullkomna og altæka lækningu fyrir sársauka okkar, þrengingar, freistingar, sjúkdóma, syndir, vonbrigði og lögmálsbrot. Kemur ykkur nokkuð annað í hug en friðþæging Jesú? Bætið síðan við óviðjafnanlegri upprisunni, og þá förum við að skilja nægilega til að syngja, „Um Jesú ég hugsa og undrast hans ást til mín.“5

Hvaða þýðingu hefur friðþægingin fyrir þig og mig? Hún er okkur allt. Jakob sagði að við gætum „[leitað] sátta [föðurins] fyrir friðþægingu Krists, hans eingetna sonar“ (Jakob 4:11). Það táknar að við getum iðrast, náð fullri einingu og fullkominni sátt við hann, og forðast mistök eða misskilning sem „afneitar miskunn Krists, og metur friðþægingu hans og endurlausnarkraft einskis“ (Moróní 8:20).

Við forðumst að vanvirða og smána friðþægingu frelsarans þegar við fylgjum ráðum Helamans, sem gilda í dag rétt eins og á árunum rétt fyrir komu Drottins til jarðar: „Og synir mínir. Hafið hugfast og munið … að hvorki er til önnur leið né aðferð til frelsunar mannsins, nema með friðþægingarblóði Jesú Krists, sem koma mun. Já, hafið hugfast, að hann kemur til að endurleysa heiminn“ (Helaman 5:9).

Friðþæging hans nær vissulega til alls heimsins og allra manna frá upphafi til enda. Gleymum því ekki, að á sinn víðtæka og fullkomna hátt er hún einnig afar persónuleg og henni er sérstaklega ætlað að laga sig fullkomlega og beinast að aðstæðum hvers og eins. Faðirinn og sonurinn þekkja sérhvert okkar betur en við þekkjum okkur sjálf og hafa undirbúið friðþægingu fyrir okkur sem að fullu mætir þörfum okkar, vanda og möguleikum.

Guði sé þökk fyrir soninn sem hann gaf okkur, og frelsaranum sé þökk fyrir friðþægingu hans. Hún er sönn og er í gildi og mun leiða okkur þangað sem við þörfnumst og viljum vera.

Heimildir

  1. Joseph Smith, Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (Melchizedek Priesthood and Relief Society course of study, 2007), 49.

  2. Bible Dictionary, „Atonement,“ 617; sjá einnig Leiðarvísir að ritningunum, „Friðþægja, Friðþæging,“ 48.

  3. David O. Bednar, „In the Strength of the Lord,“ í Brigham Young University 2001–2002 Speeches (2002), 123.

  4. Sjá Bible Dictionary, „Grace,“ 697; sjá einnig Leiðarvísir að ritningunum, „Náð,“ 135.

  5. „Um Jesú ég hugsa,“ Sálmar, nr. 65.

Til vinstri: Bænin í Getsemane, eftir Del Parson

Síðasta kvöldmáltíðin, eftir Simon Dewey, birt með leyfi Altus Fine Art, American Fork, Utah

Teikning: Frank Helmrich