Líahóna
Ljós okkar í óbyggðunum
Janúar 2024


„Ljós okkar í óbyggðunum,“ Líahóna, jan. 2024.

Ljós okkar í óbyggðunum

Þau sem lesa Mormónsbók af einlægni, lifa eftir lífsreglum hennar og biðjast fyrir um sannleiksgildi hennar munu finna fyrir heilögum anda og auka trú sína og vitnisburð um frelsarann.

Ljósmynd
bróðir Jareds með skínandi steina

Mynd af bróður Jareds með skínandi steina, eftir Normandy Poulter

Ég hafði vitnisburð um Mormónsbók, jafnvel sem ungur drengur. Sagan um bróður Jareds og þjóð hans á leið til „lands fyrirheitisins“ (Eter 2:9) hafði fyrir mig sérlega sterkt aðdráttarafl.

Þegar þau stóðu frammi fyrir því að ferðast í niðdimmum bátum, spurði bróðir Jareds: „Ó Drottinn, leyfir þú að við förum yfir þetta mikla vatn í myrkri?“ Guð svaraði: „Hvað vilt þú, að ég gjöri, til að þið hafið ljós í skipum ykkar?“ (Eter 2:22, 23).

Bróðir Jareds vissi að Drottinn var almáttugur. Hann vissi að Drottinn var uppspretta alls ljóss. Hann vissi að Drottinn hefði boðið þjóð sinni að ákalla hann á erfiðleikatímum. Bróðir Jareds iðkaði því trú sína á Drottin og gerði til reiðu 16 litla steina. Þið munið að hann bað svo Drottin um að snerta steinana með fingri sínum „og láta þá lýsa í myrkri“ (Eter 3:4).

Sú mynd er Drottinn snerti þessa steina hefur verið greypt í huga mér síðan ég fyrst heyrði þessa sögu. Ég get séð sögusviðið fyrir mér eins og ég hefði séð það með eigin augum. Ef til vill er það vegna þess að sú mynd að myrkrið víki fyrir ljósinu er mér raunveruleg.

Þegar ég finn ekki fyrir heilögum anda, þegar ég er ekki fullkomlega samstilltur anda Drottins, finn ég fyrir myrkrinu. En þegar ég les Mormónsbók snýr ljósið aftur. Mormónsbók hefur lýst mér eins og steinarnir sem Drottinn snerti. Hún hefur lýst mér leiðina í gegnum lífið.

Eilíft ljós

Líkt og þeir sem Drottinn leiddi til Ameríku til forna, stöndum við öll frammi fyrir stormum og tímum myrkurs á ferð okkar til fyrirheitins lands upphafningar. En Drottinn mun gera það fyrir okkur sem hann gerði fyrir Jaredítana og Nefítana. Hann mun leiða okkur og lýsa veginn – ef við hlýðum honum, iðkum trú á hann og áköllum hann um hjálp.

Drottinn sagði við Nefí: „Einnig mun ég vera ljós yðar í óbyggðunum, og ég mun greiða götu yðar, ef þér haldið boðorð mín. Þér munuð þess vegna verða leidd til fyrirheitna landsins, ef þér haldið boðorð mín. Og það skuluð þér vita, að það er ég, sem leiði yður“ (1. Nefí 17:13).

Drottinn sagði við Jakob, bróður Nefís: „Ég verð þeim að eilífu ljós, sem orð mín heyra“ (2. Nefí 10:14).

Spámaðurinn Abinadí vitnaði um frelsarann: „Hann er ljós og líf heimsins, já, óendanlegt ljós, sem aldrei getur myrkvast“ (Mósía 16:9).

Frelsarinn vitnaði um sjálfan sig: „Ég er ljós og líf heimsins.“ Hann bætti við: „Sjá ég er ljósið. Ég hef sýnt yður fordæmi“ (3. Nefí 9:18; 18:16).

Ljósmynd
Russell M. Nelson forseti á göngu

Finna fyrir ljósinu

Ég elska spámann okkar, Russell M. Nelson forseta. Ég nýt þeirrar blessunar að þjóna við hlið hans. Þegar hann gengur í herbergi, verður það þá þegar bjartara. Hann ber ljós Krists með sér.

Ljós Krists er raunverulegt. Það er „guðleg orka, kraftur eða áhrif sem kemur frá Guði með Kristi og gefur öllu líf og ljós“. Það er dýrmæt andleg gjöf sem getur leitt börn Guðs til heilags anda og fagnaðarerindis Jesú Krists.1 Lestur Mormónsbókar eflir þetta ljós.

Stundum þurfum við að líta um öxl á líf okkar til að muna hvernig okkur hefur verið hjálpað á ferð okkar. Þegar við lítum til baka, getum við aftur fundið áhrif frelsarans. Þegar í ritningunum stendur „munið og hafið hugfast“ (Helaman 5:12), þá held ég að þær séu að segja við okkur: „Ekki bara minnast þess sem þú vissir eða fannst einu sinni fyrir; finndu frekar þetta ljós aftur.“

Sumir finna auðveldlega fyrir andlegu ljósi. Fyrir aðra getur verið erfitt að finna andlegt ljós, vegna persónulegra erfiðleika eða truflana heimsins. En ef við erum trú mun ljósið koma – stundum á óvæntan hátt.

Nelson forseti, sem hefur ráðlagt okkur að „læra og ígrunda Mormónsbók daglega af kostgæfni,“2 hefur miðlað nokkrum leiðum hvernig Mormónsbók getur fært okkur nær frelsaranum og hjálpað okkur að finna ljós fagnaðarerindisins, skilja sannleika fagnaðarerindisins og lifa eftir kenningum þess.

Nelson forseti sagði að þegar við lesum Mormónsbók mun skilningur okkar á og þakklæti okkar fyrir friðþægingu Jesú Krists aukast.

Við munum finna þrá til að „endurfæðast“ (Mósía 27:25) þegar bókin hjálpar okkur að finna breytingu í hjörtum okkar (sjá Mósía 5:2).

Þegar við lesum og lærum um kenningar Mormónsbókar um samansöfnun Ísraels, munum við finna fyrir aukinni þrá til að leita okkar látnu og framkvæma helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar fyrir þau í musterinu.

Við munum finna fyrir ljósinu er við hljótum svör við spurningum okkar, leiðsögn í ákvarðanatökum og styrk til að iðrast og standast hið illa.

Þegar við lesum sannindin sem eru í Mormónsbók finnum við lækningu, huggun, endurreisn, hjálp, styrk, hughreystingu og gleði í sál okkar.3

„Og er þetta þá ekki raunverulegt?“ spurði Alma um vöxt og spírun sáðkorns sannleika, vitneskju og vitnisburðar. „Ég segi ykkur, jú, vegna þess að það er ljós, og allt, sem er ljós er gott, vegna þess að hægt er að greina það, þess vegna hljótið þið að vita, að það er gott“ (Alma 32:35).

Ljósmynd
mynd af Jesú Kristi

Ímynd Krists, eftir Heinrich Hofmann

Finnið frelsarann myrkrinu

Þegar Kamryn vinkona mín var 10 ára, fékk hún sjaldgæfan en varanlegan augnsjúkdóm sem sýkti hornhimnu hægra auga hennar.4 Stundum, þegar sársaukinn sem fylgdi varð stöðugur og óbærilegur, þoldi Kamryn ekkert ljós. Foreldrar hennar, sem höfðu áhyggjur af því að hún yrði blind, drógu fyrir gluggana í svefnherberginu hennar til að láta henni líða bærilega. Janna móðir Kamryn minnist þessa:

„Nokkrum mánuðum eftir greininguna fór ég inn í dimmt herbergi hennar. Þegar augu mín aðlöguðust gat ég séð Kamryn í fósturstellingu á rúminu. Hún var svo kvalin að hún hreyfði sig hvorki né grét þegar hún heyrði mig koma. Hún bara lá þarna með bæði augu svo bólgin að þau voru lokuð.

Ég kraup við rúmið hennar, tók í hönd hennar, þrýsti hana þrisvar sinnum – dulmálið okkar fyrir ‚ég elska þig‘. Yfirleitt þrýsti hún fjórum sinnum til baka, fyrir „ég elska þig meira“ en hún brást ekki við. Hún var of kvalin. Tárin flæddu niður kinnar mínar þegar ég sá 10 ára dóttur mín, sem eitt sinn hafði verið svo lífleg, vöðlaða saman í hnút. Hjarta mitt brast.“

Janna fór með hljóða, innilega bæn.

„Ég sagði himneskum föður að ég vissi að hann vissi best, en ég bað: ‚Gerðu það, hjálpaðu henni.‘ Þegar ég sat þarna á bæn kom hlý alda yfir mig. Ég fann til rósemdar þegar hugsun um frelsarann Jesú Krist kom í huga mér: ‚Hann er ljósið. Finndu hann í myrkrinu.‘“

Janna lyfti höfðinu og hvíslaði í eyra Kamryn: „Þú þarft að finna frelsarann í myrkrinu.“

Seinna sofnaði Kamryn við að hlusta á sálma og ritningarlestur í kirkjuappinu.

Ljósmynd
stúlka með lepp fyrir auganu

Þegar augnsýkingin rýkur upp, finnur Kamryn frelsarann í myrkrinu.

Ljósmynd birt með leyfi fjölskyldu Kamryn

Sjúkdómur Kamryn er yfirleitt í dvala, en þegar hann rýkur upp, hugga hana Janna og eiginmaður hennar Darrin og setja teppi fyrir svefnherbergisgluggana. Á þessum sársaukafullu tímum segir Kamryn: „Ég er bara að finna frelsarann í myrkrinu.“5

Þegar lífið virðist eins og „dimm og drungaleg eyðimörk“ (1. Nefí 8:4), gætum við einnig þurft að finna frelsarann myrkrinu. Ég vitna um að Mormónsbók, með vitni hennar um að „Jesús er Kristur, hinn Eilífi Guð,“6 muni leiða okkur til hans. Ég veit að þau sem lesa Mormónsbók af einlægni, lifa eftir lífsreglum hennar og biðjast fyrir um sannleiksgildi hennar munu finna fyrir heilögum anda og auka trú sína og vitnisburð um frelsarann.

Megum við sýna þakklæti fyrir þessa „réttustu“ bók7 með því að lesa hana, hafa hana í hávegum og nota hana til að efla trú okkar og trú annarra á Ljós heimsins.