Líahóna
Leitið af kostgæfni og þér munuð finna
Janúar 2024


„Leitið af kostgæfni og þér munuð finna,“ Líahóna, jan. 2024.

Leitið af kostgæfni og þér munuð finna

Drottinn hefur opinberað hvernig við getum leitað sannleika og leiðsagnar í lífi okkar.

Ljósmynd
stækkunargler

Þegar ég og eiginkona mín Regina snerum aftur heim til Brasilíu, eftir þjónustu í Lúandatrúboðinu í Angóla frá 2016 til 2019, þurftum við að taka mikilvæga ákvörðun. Við höfðum selt húsið okkar fyrir trúboðið. Ári eftir að við snerum aftur heim þurfum við að velja milli þess að kaupa eða leigja húsnæði. Hvernig gætum við valið hvort var rétt fyrir okkur?

Þess háttar ákvörðun er meðal hinna mörgu verkefna, athafna og áhyggja hversdagslífsins sem við öll þurfum að glíma við. Stundum draga þær athyglina frá hinum dýrðlegu blessunum og forréttindum sem einungis endurreist fagnaðarerindi Jesú Krists býður okkur. Þegar við höfum svo margar skuldbindingar og svo mikla ábyrgð, getur verið erfitt að vita hvað sé satt eða hvaða átt við eigum að leita í. Þetta getur valdið því að við erum skyndilega ofurliði borin vegna gríðarlegrar ásóknar.

Himneskur faðir hefur til allrar hamingju ekki skilið okkur eftir ein til að komast að raun um hvað sé satt eða hvað við ættum að gera.

Uppspretta alls sannleika

Áður en frelsari okkar Jesús Kristur yfirgaf þessa jörð, lofaði hann lærisveinum sínum að faðirinn myndi senda huggara, eða heilagan anda, þeim til blessunar. Jesús sagði: „Andinn heilagi mun kenna yður allt og minna yður á allt“ (Jóhannes 14:26).

Lykilhlutverk heilags anda er að opinbera sannleika (sjá Jóhannes 16:13). Himneskur faðir okkar er uppspretta alls opinberaðs sannleika, hvort sem hann berist okkur fyrir tilstilli spámanna, sjáenda og opinberara eða með heilögum anda, hvert fyrir sig. Þegar við keppum að því að hafa samfélag heilags anda, leiðir himneskur faðir okkur jafnvel í gegnum hina erfiðustu tíma.

Biðjið, leitið og knýið á

Þar sem himneskur faðir vill hvetja, kenna, leiðbeina og byggja okkur upp, þá er okkur boðið: „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða“ (Matteus 7:7; sjá einnig Lúkas 11:9; 3. Nefí 14:7).

Þegar Nefí heyrði orð föður síns Lehís um sýn Lehís um lífsins tré, sagði Nefí: „[Ég fylltist] einnig löngun til að geta séð, heyrt og vitað um þessi mál fyrir kraft heilags anda, sem er gjöf Guðs til allra þeirra, er leita hans af kostgæfni“ (1. Nefí 10:17).

Leit að sannleikanum krefst kostgæfni. Þegar við erum kostgæfin, þá keppum við stöðugt, einlæglega og ákaft að því að þekkja sannleikann og vilja Drottins fyrir líf okkar. Kostgæfni í leitinni að sannleika Drottins færir okkur nær honum á öllum stigum lífsins.

Spámaðurinn Joseph Smith lærði snemma í sínu lífi að ein af áhrifamestu leiðunum til að finna sannleika væri að leita einlæglega svara við spurningum (sjá Joseph Smith – Saga 1:10, 18). Við gætum spurt eftirfarandi spurninga er við leitum að sannleika. Svörin sýna forskrift sem við getum fylgt til að komast að raun um sannleikann.

Ljósmynd
kona heldur á ritningunum og biðst fyrir

Að hverjum snúum við okkur fyrir sannleika?

Í lok Mormónsbókar býður spámaðurinn Moróní öllum að spyrja Guð í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist „hvort þetta er ekki sannleikur“. Moróní vitnar að Guð „[muni] opinbera yður sannleiksgildi [Mormónsbókar] fyrir kraft heilags anda. Og fyrir kraft heilags anda getið þér fengið að vita sannleiksgildi allra hluta“ (Moróní 10:4–5).

Guð, eilífur faðir okkar, hefur komið á hagnýtri og aðgengilegri leið fyrir börn hans til að spyrja hann (sjá Jakobsbréfið 1:5) og nálgast hann á hverjum degi, á hverri klukkustund – jafnvel alltaf. Þessi einfalda en kraftmikla leið er bænin.

Kenningar Alma til sonar síns Helamans eiga algjörlega við um okkur: „Ákallaðu Guð, þér til stuðnings í öllu.“ Í „[öllum gjörðum þínum] … [og hvert sem þú ferð,] … lát allar hugsanir þínar beinast til Drottins. Já, lát elsku hjarta þíns beinast til Drottins að eilífu“ (Alma 37:36). Alma kenndi líka: „Ráðgastu við Drottin um allt, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann mun leiðbeina þér til góðs“ (Alma 37:37). Við þurfum ekki ákveðinn tíma eða stað til að biðja. Þó við getum ekki alltaf beðist fyrir upphátt, þá getum við alltaf haft bæn í hjarta (sjá Alma 34:27).

Svörin sem við fáum við bænum okkar eru ekki alltaf þau sem við búumst við. Stundum ganga þau jafnvel gegn vilja okkar. Svör við bænum okkar gætu líka borist síðar en við hefðum óskað. Stundum mætir þeim þögn í nokkra stund. En himneskur faðir hefur þarfir okkar í huga. Svör hans verða okkur alltaf til góðs. Við þurfum bara að sækja fram með trú á Jesú Krist. (Sjá Lúkas 11:9–13.)1

Frelsari okkar og lausnari hefur lýst því yfir að við munum aldrei ná til himnesks föður nema í gegnum hann. „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið,“ sagði Jesús. „Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig“ (Jóhannes 14:6). Þetta útilokar alla aðra kosti, sem og allar hindranir í samskiptum okkar við Guð. Þetta er ástæða þess að allar bænir, ræður, vitnisburðir, námsbekkir og svo margt fleira sem við gerum – í kirkju, heima með fjölskyldu okkar, eða alein – er gert í nafni Jesú Krists.

Hvert ætti viðhorf okkar að vera?

Til að finna sannleika þurfum við að vera einlæg og hafa fölskvalausan ásetning. Þegar við áköllum auðmjúk himneskan föður, gefum við færi á okkur til að breyta eftir þeim svörum sem við hljótum og auka við getu okkar til að gera það.

Einlægni og raunverulegur ásetningur hvetja okkur til að gera það sem himneskur faðir vill að við gerum, ekki það sem við viljum gera. Við sýnum himneskum föður greinilega traust okkar á honum þegar við erum undirgefin, hógvær, auðmjúk, þolinmóð, elskurík og reiðubúin að axla allt, sem Drottni þóknast á okkur að leggja (sjá Mósía 3:19). Með þessum eiginleikum komumst við í skilning um og treystum að himneskur faðir muni alltaf gera það sem okkur er fyrir bestu.

Ljósmynd
einstaklingur situr og horfir upp á fjall

Ljósmynd: Lee Michael Ragsdale

Hvernig berast svörin?

Við ákvörðunina hvort við ættum að kaupa eða leigja hús, báðust ég og eiginkona mín fyrir, hugleiddum og ræddum málið vandlega. Að lokum barst okkur sú tilfinning í huga og hjarta að við ættum ekki að kaupa hús. Við fylgdum svarinu sem okkur hafði borist í trú og vissum ekki hvað myndi gerast í lífi okkar.

Um 18 mánuðum síðar, í apríl 2022, var ég kallaður sem aðalvaldhafi Sjötíu. Eftir aðalráðstefnuna í apríl 2022 höfðum við aðeins þrjár vikur til að yfirgefa Brasilíu fyrir okkar fyrsta verkefni. Búseta í leiguhúsnæði á þeim tíma einfaldaði flutninginn töluvert. Nú sjáum við Regina greinilega að Drottinn leiðbeindi okkur í ákvarðanatökunni.

Nefí hlaut einnig í samræmi við þrá sína. Með því að leita kostgæfið að sannleikanum og trúa og treysta því að himneskur faðir myndi opinbera Nefí sannleika, var hann blessaður með því að berja augum það sem faðirinn sá. Hann sá tré lífsins, sem táknar elsku Guðs – elsku sem er „eftirsóknarverðust af öllu“ og „færir sálinni mesta gleði“ (1. Nefí 11:22, 23).

Himneskur faðir opinberar sannleika með heilögum anda sem er aðgengilegur öllum börnum hans. Drottinn opinberaði með spámanninum Joseph Smith að heilagur andi gæti talað til huga okkar og hjartna (sjá Kenning og sáttmálar 8:2), „sækja … á [okkur]“ (Kenning og sáttmálar 128:1), láta brjóst okkar „brenna hið innra með [okkur]“ (Kenning og sáttmálar 9:8), fylla sál okkar með gleði, upplýsa huga okkar eða færa hjörtum okkar ró (sjá Kenning og sáttmálar 11:!3; 6:14–15, 22–23).

Ég vitna um að sannleikur Guðs bægir frá efa og ótta og styrkir vitnisburði okkar. Ég tek undir með Nefí: „Sá, sem leitar af kostgæfni, mun finna“ (1. Nefí 10:19). Guð mun opinbera sannleika ef við leitum hans af kostgæfni, því hann „umbunar þeim, er hans leita“ (Hebreabréfið 11:6). Hann mun gera það greinilega, svo ekki leikur vafi á að hönd hans leiðir okkur í gegnum lífið.

Heimildir

  1. Sjá Richard G. Scott, „Hin yfirnáttúrlega gjöf bænar,“ aðalráðstefna, apríl 2007.