Líahóna
Mínir dýrmætustu fjársjóðir
Janúar 2024


„Mínir dýrmætustu fjársjóðir,“ Líahóna, jan. 2024.

Frá Síðari daga heilögum

Mínir dýrmætustu fjársjóðir

Að þykjast vera Síðari daga heilagur leiddi til skírnar minnar og nýs lífs í fagnaðarerindi Jesú Krists.

Ljósmynd
hendur útbúa mat, Mormónsbók liggur nærri

Myndskreyting: Ben Simonsen

Líf mitt sem matreiðslumaður var mér allt. Ég ferðaðist um heiminn og eldaði á lúxushótelum og á skemmtiferðaskipum. Ég var í teymi með mörgum frábærum kokkum sem unnu margar alþjóðlegar matreiðslukeppnir.

Eitt sinn var ég að heiman í þrjú ár. Móðir mín hringdi oft í mig í tárum og sagði mér að koma heim.

Dag nokkurn í Mílanó á Ítalíu, þar sem ég var á samningi sem matreiðslumaður á hóteli, hitti ég trúboðana á troðinni lestarstöð. Þeir sögðu mér frá Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og miðluðu nokkrum trúarreglum. Ég naut þess sérstaklega sem þeir kenndu mér um fjölskylduna.

Trúboðarnir gáfu mér eintak af Mormónsbók og báðu mig að biðjast fyrir um hana. Þeir létu mig líka fá bækling með leiðbeiningum um hvernig skuli biðja.

Ég sneri glaður aftur til hótelsins, fór inn á herbergi, baðst fyrir og hóf lesturinn. Því meira sem ég las í Mormónsbók, því meira þráði ég að lesa. Því miður hélt vinnan mér frá því að hitta trúboðana aftur. Þegar hótelsamningnum lauk, sneri ég aftur heim til Bari, þar sem ég tók að elda á öðru hóteli.

Dag nokkurn reyndi annar matreiðslumaður á óviðeigandi máta að komast á stefnumót með nokkrum þjónustustúlkum þar. Hann reiddist þar sem þjónustustúlkurnar, sem voru Síðari daga heilagar, neituðu honum.

Ég minntist trúboðanna sem ég hafði hitt í Mílanó og sagði matreiðslumanninum að þær hefðu rétt á því að afþakka boð hans.

„Svo að þú ert mormóni líka?“ spurði hann.

Vegna þess að ég kunni við reglurnar sem trúboðarnir höfðu kennt mér og þar sem mér fannst ég hafa gert rétt með því að verja þjónustustúlkurnar, svaraði ég „já“.

Næst þegar matreiðslumaðurinn sá stúlkurnar, sagði hann þeim að ég væri Síðari daga heilagur. Þær voru spenntar. Þegar við komum saman í hádegismat, byrjuðu þær að spyrja út í kirkjuna í Mílanó. Ég sagði þeim frá borginni og að ég hefði hitt trúboðana þar. Þegar maturinn var borinn fram, teygði ég mig í vínglas á borðinu.

„Hvað ertu að gera, að drekka vín?“ spurði ein þjónustustúlkan.

„Er eitthvað rangt við það?“ spurði ég.

„Ertu nokkuð virkur?“ spurði önnur.

„Á hvaða hátt?“ spurði ég.

„Hvernig varstu klæddur á skírnardaginn?“ spurðu þær.

„Ég man ekki eftir því,“ sagði ég við þær. „Ég var aðeins eins mánaða.“

Þær voru mjög reiðar þar sem þær héldu að ég væri að gera gys að þeim. Ég fullvissaði þær um að ég væri ekki að því. Ég viðurkenndi að ég væri ekki meðlimur kirkjunnar en ég sagði þeim að mér líkaði Mormónsbók og þær trúarreglur sem ég hafði lært. Ég spurði síðan hvernig ég gæti lært meira um kirkjuna þeirra.

Þjónustustúlkurnar kynntu mig bráðlega fyrir trúboðunum. Þær trúðu vart eigin augum þegar ég kláraði lexíurnar og skírðist.

Ljósmynd
móðir og faðir með tvo drengi

Fjölskyldumynd birt með leyfi höfundar

Líf mitt breyttist með skírn minni. Ég komst að því að ekki er hægt að stíga einum fæti í heiminn og hinum í fagnaðarerindið. Ég komst að því að vinnan er ekki mikilvægasti hluti lífsins. Ég komst að því að Drottinn og fjölskylda mín ganga fyrir. Að lokum skildi ég sorg móður minnar yfir fjarveru minni og ég bað hana fyrirgefningar.

Ég hætti að ferðast um heiminn, giftist í Bern-musterinu í Sviss, stofnaði fjölskyldu og réði mig í starf við eldamennsku á sjúkrahúsi á svæðinu, þar sem ég notaði hæfileika mína við að hjálpa sjúkum að ná sér. Nú er ég mannauðsstjóri sjúkrahússins. Það að vinna á staðnum gefur mér tíma sem ég tileinka fjölskyldu minni og kirkjuköllunum.

Allt frá þeim degi sem ég fór í musterið og hlaut musterisgjöfina, tveimur árum eftir skírnina, hef ég elskað heilagleika musterisins og starfsins sem þar fer fram. Þegar faðir minn lést fjórum árum síðar, var ég niðurbrotinn. Hann var hetjan mín. Þökk sé fagnaðarerindi Jesú Krists, veit ég nú að hann lifir enn.

Þegar ég kom í himneska herbergið eftir að hafa unnið staðgengilsverk föður míns, fann ég hann vefja mig örmum. Á því augnabliki vissi ég að faðir minn hefði móttekið fagnaðarerindið og þá elsku sem Drottinn ber til barna sinna.

Við Síðari daga heilagir búum við þá blessun að þekkja hið sanna fagnaðarerindi. Ég er þakklátur fyrir það hvernig það breytti lífi mínu. Í fagnaðarerindinu fann ég sanna hamingju. Fagnaðarerindið og fjölskylda mín eru mínir dýrmætustu fjársjóðir.