Líahóna
Af hverju breytti Guð ekki lífi mínu?
Janúar 2024


„Af hverju breytti Guð ekki lífi mínu?,“ Líahóna, jan. 2024.

Ungt fullorðið fólk

Af hverju breytti Guð ekki lífi mínu?

Þegar hjónaband mitt breyttist í martröð, lærði ég um sjálfræði.

Ljósmynd
hönd heldur á penna og skrifar í opna bók

Þegar ég var 23 ára, innsiglaðist ég draumamanni mínum í musterinu. Ég man ekki eftir stærri gleðidegi í lífi mínu.

En allt það sem ég vonaðist eftir í lífinu byrjaði að molna á gríðarhraða. Eiginmaður minn varð sífellt ofbeldishneigðari í minn garð, líkamlega og andlega.

Ég var ráðvillt og kvalin. Ég skildi ekki hvers vegna trúfesti mín virtist ekki breyta neinu í hjónabandinu. Ég hafði þjónað í fastatrúboði, haldið sáttmála mína, haldið boðorðin og jafnvel þjónað sem musterisþjónn. En sama hversu mikið ég reyndi að nálgast Jesú Krist, þá varð hjónabandið eingöngu erfiðara.

Þegar ég horfi til baka, áttaði ég mig á því að þótt ég hafi íhugað í bænarhug hvort ég ætti að giftast eiginmanni mínum og hafði trú á að við gætum unnið okkur í gegnum vandamál, þá hafði ég hunsað merki um möguleg vandamál sem síðar urðu að veruleika í hjónabandi okkar.

Finna svör

Eftir fimm ár af einmanaleika og ofbeldi, þá leið samband mitt við himneskan föður og Jesú Krist. Vonir mínar í lífinu voru langt af leið og óuppfylltar.

Ég var buguð.

Þegar augljóst varð að eiginmaður minn var ekki tilbúinn til að breytast, tók ég að biðja Guð um að frelsa mig frá aðstæðum mínum eða sýna mér réttan veg til að fara. En þegar svörin sem ég þarfnaðist bárust ekki, fór ég að ásaka himneskan föður eins og hann væri orsök sársauka míns.

Ég hélt áfram að sækja kirkju og halda sáttmála mína, en hjarta mínu var misboðið yfir stefnuleysinu.

Dag nokkurn áttaði ég mig svo á því að ég hafði svar við aðstæðum mínum – ég varð að nota sjálfræði mitt til að framkvæma og breyta aðstæðunum. Og ég vissi hvaða ákvörðun væri best fyrir mig, með lokatakmarki mínu um að snúa aftur til himnesks föður.

Ég ákvað loksins að taka framfaraskref: Ég ræddi við eiginmann minn og á undraverðan hátt, bundum við samhljóma enda á samband okkar.

Mátturinn til að velja

Þessi erfiða upplifun hjálpaði mér að læra um mátt og nauðsyn þeirrar guðsgjafar að stunda sjálfræði.

Dallin H. Oaks, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, hefur kennt: „Eftir á að hyggja sjáum við að sumar ákvarðanir okkar hafa skipt miklu máli í lífinu. Við tökum betri ákvarðanir, ef við skoðum valkostina og íhugum útkomu þeirra. Með því að gera það, erum við að fylgja þeirri leiðsögn Russells M. Nelson forseta um að í upphafi skuli endinn skoða. Fyrir okkur er sá endir alltaf sáttmálsvegurinn í gegnum musterið til eilífs lífs, hinnar mestu allra gjafa Guðs.“1

Ég skil að himneskur faðir stendur ekki í vegi fyrir sjálfræði neins – hann lét mig taka sjálfstæða ákvörðun er ég giftist eiginmanni mínum. Hann þvingaði eiginmann minn heldur ekki til að breytist, jafnvel þó ég héldi sáttmála mína, því eilíft hjónaband þarfnast andlegrar og stundlegrar viðleitni beggja aðila, er þau fylgja Jesú Kristi.

Þegar við glímum við erfiðleika, getum við notað sjálfræði okkar til að breyta sýn okkar, afstöðu okkar og jafnvel okkur sjálfum. Þetta er hin guðlega gjöf sjálfræðis. Himneskur faðir vill að við leitum hans og andans og treystum síðan okkur sjálfum til að taka bestu ákvarðanirnar í lífinu.

Snúa til frelsarans

Í upphafi bjóst ég við því að komast fljótlega yfir ofbeldisfullt hjónabandið og halda ótrauð áfram, en ferlið hefur verið hægt og erfitt. Með hjálp sálfræðimeðferðar, hlustunar á boðskap spámanna, ritningarlesturs, bæna og með því að finna kærleika og stuðning vina og fjölskyldu, á ég von um bjartari framtíð. Þegar ég nota sjálfræði til að finna lækningu, lít ég fram til lífs sem inniheldur fyrirgefningu og falleg sambönd við aðra, frelsarann þar með talinn.

Með auknum skilningi á því hvernig ég get notað sjálfræði í lífi mínu, breyttist biturð mín gagnvart Guði í skilning og samband mitt við hann gréri.

Um þetta snýst fagnaðarerindið – taka sjálfstæðar ákvarðanir um að koma til Krists, breyta eftir leiðsögn spámannanna sem hvetja okkur til að nota sjálfræði okkar til að treysta Drottni og lifa fallegu, trúarfylltu lífi.

Líkt og systir Camille N. Johnson aðalforseti Líknarfélagsins kenndi: Hið göfuga lögmál sjálfræðis leyfir okkur að sjálfsögðu að skrifa okkar eigin sögur. … Jesús Kristur er samt fús til að nota okkur sem guðleg verkfæri … til að rita meistaraverk … [ef við höfum] trú til að leyfa honum það, ef [við leyfum] honum að vera [höfundur] sögu okkar.“2

Að binda endi á hjónaband mitt var ein sú sársaukafyllsta upplifun sem ég hef tekist á við. En ég hef lært að þegar við stöndum frammi fyrir óvæntum raunum í lífinu, getum við leitað andlegrar leiðsagnar og tekið ákvarðanir sem færa okkur áfram á sáttmálsveginum. Með því að fylgja himneskum föður og Jesú Kristi, getum við alltaf haldið í von á að góðir hlutir gerist og á fyrirheitnar blessanir þeirra um frið og von.

Höfundur býr í Síle.