Líahóna
Finna fyllingu fyrir milligöngu Jesú Krists
Janúar 2024


„Finna fyllingu fyrir milligöngu Jesú Krists,“ Líahóna, jan 2024.

Eldast trúfastlega

Finna fyllingu fyrir milligöngu Jesú Krists

Með nýfengnu frelsi mínu, tækifærum og ævintýrum sem fylgja því að vera tómhreiðrungur, af hverju fann ég ekki fyllingu? Hvað vantaði?

Ljósmynd
hönd frelsarans teygir sig niður til móður, trúboðinn sonur hennar hefur samband við mögulega meðlimi kirkjunnar

Myndskreyting: Dilleen Marsh

Tár féllu er ég baðst fyrir um frið þegar yngsti sonur minn útfyllti trúboðsumsóknina sína. Ég vildi sannarlega að hann færi í trúboð. Ég gerði það. Ég reyndi stöðugt að sannfæra sjálfa mig um það.

Ég elska frelsarann og var raunverulega ánægð fyrir tækifæri sonar míns til að miðla þeirri gleði sem við getum fundið fyrir tilstilli Jesú Krists. Undir niðri var ég þó hrædd við brottför hans. Ég vissi að hann myndi aldrei koma aftur til fullnustu eftir trúboðið. Jafnvel ef hann byggi heima, yrði það ekki eins.

Vinir mínir sögðu mér að líf tómhreiðrungsins væri dásamlegt. Eiginmaður minn og ég vorum spennt og hlökkuðum til frelsisins og tækifæranna sem við höfðum ekki fengið á meðan við ólum upp börnin okkar.

Með nýfundnu frelsi, dembdi ég mér í ógrynni athafna. Ég ferðaðist með eiginmanni mínum, lærði að spila á orgel fyrir köllun mína, lék mér við barnabörnin og vann musteris- og ættarsöguverk.

Ég fann spennu og ævintýri. Ég fann sjálfsbetrun. Ég fann dásamlega hluti.

En þó vantaði alltaf eitthvað. Eitthvað var enn ekki til staðar. Þegar sonur minn fór, skildi hann eftir stórt skarð í hjarta mínu sem ég virtist ekki geta fyllt.

Um ári eftir að sonur minn fór, fékk ég geðvonskukast sem jafnaðist á við öll geðvonskuköst sem börnin mín fengu þegar þau voru ung. Eiginmaður minn leit á mig og sagði: „Michelle, þú þarft að þjóna.“ Ég skráði mig í þjónustuverkefni.

Hjarta mitt var samt í sárum. Ég átti erfitt með að helga mig þjónustunni eða öllum hinum verkefnunum sem ég tók mér fyrir hendur. Með öll börnin farin, leið mér eins og líf mitt yrði aldrei samt aftur.

Kvöld nokkurt, þegar ég baðst fyrir um hjálp, upplýsti andinn mig að ég væri að glíma við tómleikann sem fylgdi missi – tilgangsleysi. Ég hélt ég hefði tekist á við þá tilteknu sorg með því að fylla líf mitt af öllum þessum dásamlegu athöfnum.

Að leita svara

Þegar ég leitaði svara, fann ég þessa yfirlýsingu í sögu Josephs Smith: „Þegar við glötum [einhverju eða einhverjum] sem liggur okkur á hjarta, ætti það að vera sem viðvörun fyrir okkur. … Ástúð okkar ætti að vera sterkari á Guði og verki hans, frekar en á samferðarfólki okkar.“1

Ljósgeisli braust skyndilega í gegnum dimma skýjahuluna yfir hjarta mér. Ég hafði reynt að stoppa í sorgargatið með hlutum, viðfangsefnum og upplifunum – þjóna, elska, þroska hæfileika. Allt góðir hlutir, en þeir fylltu ekki í stóru holuna. Þeir læknuðu ekki á þann hátt sem ég þarfnaðist lækningar.

Ég áttaði mig á því að þess háttar friður og fylling gæti aðeins borist fyrir tilstilli frelsarans, Jesú Krists. Jesús kenndi: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóhannes 14:6). Það er aðeins með honum sem við finnum gleði og fyllingu, frið og ánægju. Sálmarnir 16:11 segja: „Kunnan gerðir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu.“

Hvernig ég breyttist

Lífið breyttist ekki skyndilega. Hjarta mitt læknaðist ekki samstundis. En ég vissi á hvað ég þyrfti að einblína til að það gerðist.

Bænir mínar breyttust. Ég tók að biðja himneskan föður að hjálpa mér að byggja sterkara samband við frelsara minn. Þegar ég var niðurdregin, minnti ég mig meðvitað á að Jesús Kristur var til staðar fyrir mig og með náð friðþægingarkrafts hans, myndi hann hjálpa mér. Ritningarnám mitt varð einbeittara á að efla samband mitt við hann. Það tók tíma, en ég hélt ótrauð áfram að beina tilfinningum mínum, krafti og hugsunum til Jesú Krists.

Þegar ég gerði það létti hinu þunga myrkri. Ég gat notið betur litlu þjónustuverkanna og kærleikans á hverjum degi. Ljós og von lýsti veg minn og fyllti í tómleikann í hjarta mér. Að setja frelsarann í fyrsta sæti gaf mér dýpri tilgang og gleði á öllum stigum lífsins, frá þjónustu til þess að verja tíma með fjölskyldu, frá ferðalögum til þess að þroska hæfileika mína. Allt varð ríkara með Krist sem miðdepil.

Ferðalag hvers og eins um breytilega tíma lífsins er einstakt. Hvað sem því líður, þá er lausnin við sorgum okkar að bregðast við ákalli Krists þegar hann segir: „Komið til mín í einlægum ásetningi, og ég mun gjöra [ykkur] heila“ (3. Nefí 18:32). Það er aðeins fyrir hans tilstilli sem finnum sanna lækningu, frið, kærleika og gleði.

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.