Líahóna
Komast yfir andlegt stefnuleysi – Hvað geri ég nú?
Janúar 2024


„Komast yfir andlegt stefnuleysi – Hvað geri ég nú?,“ Líahóna, jan. 2024.

Ungt fullorðið fólk

Komast yfir andlegt stefnuleysi – Hvað geri ég nú?

Þegar við færumst nær Jesú Kristi erum við aldrei stefnulaus.

Ljósmynd
fljótandi slanga á vatni

Skrefið upp í ungu fullorðinsárin var mér afar spennandi. Ég var tilbúinn að byrja að byggja upp það líf sem ég hafði alltaf viljað. Ég þjónaði í trúboði í Brasilíu og fór svo í háskóla þegar ég kom heim. Ég kláraði háskólagráðuna mína, fann gott starf og lagði mig fram við að lifa sem lærisveinn Krists.

Og ég er enn á þessu stigi lífsins. Ég geri bara mitt besta til að fylgja honum.

Ég er svo þakklátur fyrir tækifærin og blessanirnar sem ég hef hlotið hingað til. Þegar lít ég um öxl og sé að ég hef gert alla þá sáttmála sem ég get gert fram að þessum punkti (fyrir utan hjónaband) og náð öllum stóru áföngunum sem ég stefndi alltaf að, þá finnst mér ég svolítið fastur í sama farinu – óviss hvernig eigi að taka framförum, sérstaklega andlega.

Ég hef séð fleira ungt fullorðið fólk umhverfis mig í sömu baráttu. Sumt hefur jafnvel yfirgefið kirkjuna vegna þess að það er stefnulaust eða stendur frammi fyrir óuppfylltum væntingum. Háttalag þess hefur oftar en ekki bætt við spurningalista minn fyrir lífið.

Núna eru stærstu spurningar mínar til himnesks föður þó þessar: Hvernig get ég komist yfir tilfinningar andlegs stefnuleysis? Hvað geri ég núna?

Ég hef lært nokkur mikilvæg sannindi, er ég hef glímt við þessar spurningar, sem hafa hjálpað mér að rata um þennan óvissutíma.

Ekki láta truflanir koma ykkur af sporinu

Á þessum tíma óvissu meðhvert ég ætti að snúa mér eða hverju mætti búast við, hef ég tekið eftir því hvernig truflanir heimsins geta auðveldlega tekið forgang fram yfir andlega hluti. Systir Rebecca L. Craven, annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Stúlknafélagsins, sagði: „Heimurinn er fullur af truflunum sem geta jafnvel blekkt hina útvöldu og gert þá kærulausa við að lifa eftir sáttmálum sínum.“1

Ég hef séð annað ungt fullorðið fólk í baráttu með vitnisburði sína eftir að koma heim af trúboði. Ég hef líka séð hvernig sumir ná áföngum eins og að útskrifast úr háskóla eða giftast og fara að lokum af sporinu, frá því sem skiptir mestu, þegar þeir gefa fagnaðarerindi Jesú Krists ekki pláss í nýju lífsferli.

Ég hef líka upplifað andlegar sveiflur. Það hefur verið erfitt á stundum að finna hvatningu og vera ekki latur þegar kemur að andlegum venjum, sérstaklega þegar ákveðnar blessanir berast ekki eins fljótt og ég hefði viljað. Ég vil alltaf taka framförum og bæta mig – ég vil ekki vera andlega staðnaður. En stundum finnst mér eins og ég fylgi straumnum án tilgangs.

Þegar ég hins vegar tek frá tíma fyrir himneskan föður og Jesú Krist á hverjum degi, sérstaklega fyrir hið smáa og einfalda (sjá Alma 37:6), þá finn ég huggunina og stöðugleikann sem fagnaðarerindi hans færir mér, jafnvel í óstöðugleika heimsins.

Russell M. Nelson forseti sagði: „Ég bið ykkur að láta Guð ríkja í lífi ykkar. Gefið honum sanngjarnan hluta af tíma ykkar. Þegar þið gerið það, takið þá eftir því sem gerist varðandi jákvæðan andlegan skriðþunga ykkar.“2 Þegar ég vísvitandi vel að hafa trú á Jesú Krist á hverjum degi og taka frá tíma fyrir andlegar venjur sem tengja mig honum, minnist ég andlega mikilvægra augnablika og finn fyrir endurnýjuðum tilgangi, von fyrir framtíðinni og trú.

Leitið góðra áhrifa

Í annað skipti, þegar mér fannst ég stefnulaus, var ég á síðasta ári mínu í háskóla. Lífið var erfitt. Þetta var á tímum heimsfaraldursins, ég var því niðurdreginn þegar ég var fastur heima að klára námsbekkina. Líf mitt var mjög stefnu- og tengslalaust.

Ég átti jafnvel erfitt með kirkju á þessum tíma. Ég þurfti oft að þvinga mig upp úr rúminu í náttfötunum til að hlusta á sakramentissamkomu á netinu, því meiri hvöt fann ég ekki.

Á þessum myrka tíma, hafði ég samband við fjölskyldu mína og vini og útskýrði fyrir þeim hve stefnulaus og niðurdreginn ég var. Mér fannst ekki eins og ég hefði neina von fyrir framtíðina og vissi ekki hvernig hlutirnir myndu ganga upp. Það var þá sem þau sögðu mér að þau bæðu fyrir mér og styddu mig, jafnvel þótt þau væru langt í burtu.

Þegar ég hafði samband við ástvini mína, sem höfðu djúpa trú og þegar ég bað til himnesks föður með aðeins broti af andlegri hvatningu, fann ég stuðning og elsku sem hélt mér gangandi.

Ég hef tekið eftir að þegar ég er ofureinbeittur á óuppfylltar væntingar, efasemdir mínar eða baráttu, þá veldur það óreiðu í trúarlífi mínu. Ég missi sjónar af blessunum í lífi mínu. En með því að umvefja mig hinu góða með því að lesa patríarkablessun mína, hlusta á aðalráðstefnuræður og verja tíma með ástvinum sem hafa jákvæð áhrif á mig, þá einblíni ég upp á nýtt á þann undursamlega gæfumun sem fagnaðarerindi Jesú Krists gerir í lífi mínu.

Jafnvel þótt þið hafið stundum ekki skýran veg fram undan og hlutirnir ganga ekki eins og skyldi, þá er enn svo mikil gæska í lífi ykkar og svo mörg tækifæri í boði til að hjálpa ykkur að sækja fram á sáttmálsveginum. Alltaf er hægt að læra og vaxa meira, sérstaklega andlega. Biðjið himneskan föður um leiðsögn. Hann mun hjálpa ykkur að leita og finna góða áhrifavalda og vaxtar- og lærdómstækifæri í kringum ykkur (sjá Trúaratriðin 1:13).

Ljósmynd
ung fullorðin kona í kajak

Haldið áfram að leggja ykkur fram

Andleg viðleitni okkar fer stundum í bylgjum – upp og niður. Stundum erum við stöðug í trú okkar og gleði fagnaðarerindisins. En á öðrum stundum getur verið erfitt að vita hvert eigi að snúa sér næst. Við gætum átt erfitt þegar áskoranir koma, spurningar vakna eða blessanir koma seint, sérstaklega þegar við gerum okkar besta til að lifa eftir fagnaðarerindinu. Á þessum erfiðu tímum sé ég oft fólk fara eina af tveimur leiðum: eina, þar sem það reynir að nálgast frelsarann og aðra, þar sem það gerir það ekki.

Stundum ber ég þessi augnablik saman við söguna af Móse og eirorminum (sjá 4. Mósebók 21:8–9). Þegar Ísraelsmenn sóttust örvæntingarfullir eftir lækningu eftir að hafa verið bitnir af eitruðum höggormum, gaf Móse þeim auðvelda leið til að bjargast: einfaldlega horfa á eirorminn, sem táknaði Jehóva. Meira þurftu þeir ekki að gera. Með einni augngotu myndu þeir lifa. En afar margir ákváðu að gera það ekki og fórust. (Sjá 1. Nefí 17:41.)

Þessi saga vekur mig til umhugsunar um það hvernig við berum eitraða byrði vonbrigða og gremju vegna óuppfylltra væntinga, þegar lækningin er beint fyrir framan okkur!

Lykillinn að því að finna von, frið og trú fyrir framtíð okkar er einfaldlega að horfa til Jesú Krists (sjá Helaman 8:14–15; Jóhannes 3:14–17).

Ég hef alltaf verið strangur gagnrýnandi sjálfs mín þegar ég geri mistök. En vegna þess að ég hef reynt af alvöru að læra um og trúa á himneskan föður og Jesú Krist, þá veit ég að ég get alltaf reitt mig á þá til að hljóta fyrirgefningu, vöxt og lækningu á erfiðum tímum. Ég veit að þegar ég horfi til þeirra með bæn, með námi í Kom, fylg mér, ver tíma í musterinu og uppfylli köllun mína, finn ég fyrir þakklæti og endurnýjun.

Þegar ég leita þeirra, sé ég fagnaðarerindi Jesú Krists fyrir það sem það er: skjól sem veitir okkur huggun, öryggi og lækningu frá höggormum heimsins.

Öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni, gaf ástkært vitni: „‚Fullkomið vonarljós,‘ fætt af ást til Guðs og allra manna – það viljum við fyrir ykkar hönd. … Með þessari björtu von fylgir sá óyggjandi þytur að Guð elskar ykkur, að Kristur er málsvari ykkar, að fagnaðarerindið er satt. Birta þess mun minna ykkur á að í fagnaðarerindinu er alltaf – á hverjum degi, hverri klukkustund – nýtt tækifæri, nýtt líf, nýtt ár. Hve dásamlegt kraftaverk! Hvílík gjöf! Og vegna gjafar Krists eru hið besta í lífinu okkar, ef við staðfastlega höldum áfram að trúa og reyna og vona.“3

Færum okkur nær Jesú Kristi

Með fyrstu fullorðisárunum koma margar breytingar, mikil óvissa og já, jafnvel væntingar sem ekki standast. En fagnaðarerindi Jesú Krists er alltaf áreiðanlegt og stöðugt. Loforð hans og himnesks föður eru trygg þegar við höldumst stöðug á sáttmálsveginum. Heimurinn getur stundum gert okkur svo erfitt fyrir við að halda einbeitingunni á honum. En hvers konar skref sem færir okkur nær honum er framfaraskref. Þegar við færumst nær Kristi erum við aldrei stefnulaus – við færumst nær von, friði og gleði.

Höfundur býr í Manchester, Englandi.

Heimildir

  1. Rebecca L. Craven, „Vandvirkur eða værukær,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

  2. Russell M. Nelson, „Máttur andlegs skriðþunga,“ aðalráðstefna, apríl 2022.

  3. Jeffrey R. Holland, „A Future Filled with Hope“ (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk, 8. jan. 2023), broadcasts.ChurchofJesusChrist.org.