Líahóna
Rétt tíðni
Janúar 2024


„Rétt tíðni,“ Líahóna, jan. 2024.

Frá Síðari daga heilögum

Rétt tíðni

Ég skildi ekki hvers vegna týndi flugmaðurinn talaði ekki við okkur.

Ljósmynd
lítil flugvél með flugturn í bakgrunni

Myndskreyting: Roger Motzkusart

Þegar ég var flugumferðarstjórnarnemi á flugvellinum í Tíjúana, Mexíkó, tóku leiðbeinandi minn og ég eftir því eitt síðdegið að þokubakki hafði komið utan af hafi og hulið flugvöllinn og stóran hluta borgarinnar. Skyggni var þó innan leyfilegra marka fyrir lendingu og flugtak.

Brátt urðum við varir við Cessna 172 á ratsjánni, sem kom að sunnan meðfram ströndinni og flaug eftir sjónflugsreglum (VFR). Samkvæmt VFR staðsetja flugmenn sig eftir sjóninni með viðmiðunarpunktum á jörðinni til að komast á áfangastað.

Til allrar óhamingju hafði flugmaðurinn týnst í þokunni. Hann flaug í hringi um ströndina og reyndi að staðsetja sig gagnvart flugvellinum, en slæma skyggnið takmarkaði honum sýn. Ég spurði leiðbeinandann hvað við gætum gert til að aðstoða hann.

„Hann þarf að stilla sig inn á tíðni flugturnsins og tala við okkur,“ sagði hann. „Annars getum við ekkert gert fyrir hann.“

Ég skildi ekki hvers vegna týndi flugmaðurinn talaði ekki við okkur. Var talstöðin hans biluð? Fannst honum hann geta komist úr hættunni af sjálfsdáðum?

Mínúturnar liðu. Að lokum stillti flugmaðurinn sig inn á tíðni turnsins. Með áhyggjutón bað hann um aðstoð. Við gáfum honum undir eins leiðbeiningar sem vísuðu örugga leið að flugbrautinni. Hann varð bara að treysta leiðbeiningum okkar og flugmælum sínum.

Það veitti okkur ólýsanlega gleði að sjá flugvélina birtast úr þokunni nokkrum mínútum síðar og lenda örugglega.

Á leiðinni heim, íhugaði ég upplifun flugmannsins. Að hafa samband við okkur á réttri tíðni gerði gæfumuninn milli þess að fá aðstoð eða fljúga í hringi – eða þess verra.

Eins og þessi flugmaður, týnist ég stundum í „niðdimmri þoku“ (1. Nefí 8:23). Þegar ég þarfnast leiðsagnar Guðs, bíður hann þolinmóður þess að heyra rödd mína.

Alveg eins og ég gat séð týndu flugvélina á ratsjánni, þá sér himneskur faðir okkur og erfiðleika okkar. Ég er þakklátur fyrir að hann leiðbeinir okkur. Hann liðsinnir okkur í gegnum bæn, ritningar, lifandi spámenn og gjöf heilags anda. Hann mun leiða okkur úr líkamlegri og andlegri hættu ef við stillum okkur inn á rétta tíðni, biðjum um leiðsögn og hlýðum á rödd hans.