Líahóna
Hæglestur: Sjá frelsarann í ritningunum
Janúar 2024


„Hæglestur: Sjá frelsarann í ritningunum,“ Líahóna, jan. 2024.

Hæglestur: Sjá frelsarann í ritningunum

Að fá þessa aðferð að láni úr listaheiminum getur hjálpað okkur að bera kennsl á Jesú Krist í Mormónsbók.

Ljósmynd
höggmynd af Maríu halda á líkama Jesú eftir krossfestinguna

La Pietà, eftir Michelangelo

Það tók Michelangelo meira en ár til að skapa La Pietà, áhrifamikla höggmynd af Maríu halda á líkama Jesú eftir krossfestinguna. Leonardo da Vinci varði enn lengri tíma, um þremur árum, í að mála hið víðfræga málverk Síðasta kvöldmáltíðin.

Ef þið þyrftuð að giska, hve lengi haldið þið að gestir í listasafni horfi að meðaltali á hvert listaverk?

Svarið er 17 sekúndur, samkvæmt einni rannsókn.1

Hugsið ykkur: Að virða listaverk fyrir sér í 17 sekúndur, sem listamaðurinn varði jafnvel mörgum árum í að skapa.

Það er skiljanlegt. Í listasöfnum eru hundruð listaverk og höggmyndir og við erum upptekið fólk. Við drífum okkur því í gegn og meðtökum eins mikið og við getum. Það er kaldhæðnislegt að vegna ótta við að missa af einhverju, missum við af tilgangi listaverkanna – þeim tilfinningum og hugsunum sem listamennirnir vildu að við upplifðum. Við berjum öll listaverkin augum en sjáum í raun ekkert þeirra. Síðan yfirgefum við listasafnið dauðþreytt og andlaus. Við gætum jafnvel velt fyrir okkur hvað fólk sér í list yfirhöfuð – og erum ef til vill viss um að listir séu fyrir menntafólk, ekki alla.

Hæghorf

Til að bregðast við þessu vandamáli hvetja listasöfn um allan heim gesti til að gera eitthvað sem þau kalla „hæghorf“.2 Fólki er boðið að velja eitt listaverk í safninu, koma sér fyrir og skoða það vandlega í nokkra stund – 5 til 10 mínútur. Skoða það frá mismunandi sjónarhornum. Stíga nær til að skoða smáatriðin. Taka skref til baka og meðtaka verkið sem heild. Stundum er gestum jafnvel sagt að lesa ekki túlkunarskilti safnsins sem greinir listaverkið – að minnsta kosti ekki þangað til þeir hafa fengið tækifæri til að mynda sér eigin skoðanir og gera eigin uppgötvanir.

Hæghorf hefur gjörbylt upplifun margra á listasafninu. Fólk sem leit aldrei á sig sem listunnendur hefur öðlast ástríðu fyrir list. Það öðlast traust á að geta uppgötvað þýðingu í hvaða listaverki sem er og finnur gleði yfir uppgötvunum. Þau komast að því að þau þurfa ekki háskólagráðu í listasögu til að hrífast af list; þau þurfa bara að hægja á sér og gefa listaverkunum tækifæri til að gera það sem þau voru sköpuð til að gera.

Gætu sömu reglur átt við um ritningarlestur – til dæmis um nám okkar á Mormónsbók í Kom, fylg mér á þessu ári?

Við vitum að Mormónsbók, sem er annað vitni um Jesú Krist, var skrifuð með þeim ásetningi að efla trú okkar á frelsarann (sjá 1. Nefí 6:4). Við vitum að hún var skrifuð sérstaklega fyrir okkar tíma af innblásnum spámönnum Guðs (sjá, til dæmis Mormón 8:35). Við vitum að hinir fornu spámenn sem skrifuðu Mormónsbók, fórnuðu miklu til að gera svo. Bara það ferli að letra orð á málmtöflur var nákvæmnisvinna og erfið (sjá Jakob 4:1). Sumir þeirra hættu lífi sínu til að varðveita heimildina svo hún yrði tiltæk fyrir okkur í dag (sjá Mormón 6:6; Moróní 1).

Þó flýtum við okkur stundum í Mormónsbókarlestrinum í annríki okkar. Kannski náum við að renna augunum yfir nokkur vers yfir morgunmatnum eða á leiðinni til vinnu. Við berjum kannski öll orð kapítulans augum, en ekki mikið síast inn. Ekki alltaf, en stundum, lokum við bókinni eða appinu og finnum engan mun frá því fyrir lesturinn.

Hæglestur

Ef listaverk er þess verðugt að vera dáðst að með hæghorfi, á Mormónsbók kannski skilið „hæglestur“ okkar. Þetta þýðir ekki endilega að ritningarnám okkar þurfi að taka lengri tíma, bara að við gætum haft gott af hraðabreytingunni. Í stað þess að drífa okkur til að klára kaflann, gæti námið í dag einblínt á þrjú eða fjögur vers. En að við köfum djúpt í þau vers. Að við tökum eftir smáatriðum, orðum og orðtökum. Að við íhugum hvers vegna hvert og eitt þeirra séu mikilvæg – kennir það mér eitthvað um frelsarann? Eflir það elsku mína til hans og trú mína á hann? Er eitthvað sem hann vill að ég viti?

Hæglestur gerir okkur kleift að taka eftir hlutum í Mormónsbók sem við hefðum annars ekki tekið eftir. Mikilvægast er að hann getur hjálpað okkur að sjá frelsarann oftar í þessari bók, sem var skrifuð til að vitna um hann. Hæglestur er leið til að opna augu okkar, huga og hjörtu fyrir máttugum vitnisburði Mormónsbókar um Jesú Krist. Þegar við gefum okkur tíma til að virða hvetjandi listaverk fyrir okkur af alvöru, getur það breytt lífi okkar. Á enn dýpri hátt, getur það að sjá frelsarann í ritningunum haft sterk áhrif á hugsanir okkar og tilfinningar – og þar af leiðandi líf okkar.

Gerum til dæmis ráð fyrir að þið séuð að lesa 1. Nefí, kapítula 1. Athygli ykkar beinist að versi 6, því hægið þið á ykkur og dveljið þar um stund. Þið veitið athygli „eldstólpanum“ sem Lehí sá „á klettinum“. Það er óvanaleg hegðun fyrir eld. Hvað gæti þetta þýtt? Hugsanir ykkar gætu minnst annarra eldstólpa sem getið er í ritningunum (neðanmálsgreinarnar gætu hjálpað ykkur við það). Þið gætuð velt fyrir ykkur hvers vegna návist Guðs er svo oft líkt við eld. Hvað segir það um hann? Hefur hann nokkurn tímann verið sem eldstólpi í lífi ykkar?

Það er heilmikið til að hugsa um. Og þið hafið ekki einu sinni lokið við versið.

Auðvitað felst virði í því að lesa Mormónsbók hratt. Það getur hjálpað okkur að læra heildarsöguna og fengið skilið aðalatriði sem koma endurtekið fyrir. En margt er hægt að læra um Jesú Krist í smáatriðum Mormónsbókar og stundum er besta leiðin til að sjá þessi atriði sú að hægja á og velta hlutunum vandlega fyrir sér.

Nefí sagði þetta um orðin sem hann ritaði í Mormónsbók: „Þessi orð … eru orð Krists; og … Kristur mun sýna yður, með mætti og mikilli dýrð … að þau eru hans orð“ (2. Nefí 33:10–11). Þið þurfið ekki að vera lipur við lestur til að finna orð frelsarans í Mormónsbók. Þið þurfið bara að hægja á ykkur og gefa Mormónsbók möguleikann á að gera það sem hún var sköpuð til að gera – efla trú ykkar á Jesú Krist.

Heimildir

  1. Sjá Trent Morse, „Slow Down, You Look Too Fast,“ ARTnews, 1. apr. 2011, artnews.com.

  2. Sjá „Slow Art Day,“ slowartday.com/about.