Aðalráðstefna
Sjá meira af Jesú Kristi í lífi okkar
Aðalráðstefna október 2022


Sjá meira af Jesú Kristi í lífi okkar

Frelsarinn býður okkur að skoða líf okkar út frá honum, til að geta séð meira af honum í lífi okkar.

Bræður og systur, ég stend auðmjúk frammi fyrir ykkur á þessum morgni. Hjarta mitt tengist ykkar með böndum þakklætis fyrir að vera saman komin, hvar sem þið eruð á jörðu, til að hlýða á boðskap spámanna, postula, sjáenda, opinberara og leiðtoga í ríki Guðs. Við verðum eins og lýðurinn á tímum Benjamíns konungs, tjöldum og snúum tjalddyrunum í átt að spámanni Guðs á jörðu,1 Russell M. Nelson forseta.

Ég hef haft slæma sjón eins lengi og ég man eftir mér og hef alltaf þurft á sérpöntuðum sjónglerjum að halda til að leiðrétta sjón mína. Þegar ég opna augun á hverjum morgni, virðist heimurinn afar óskýr. Allt er úr fókus, verður kornótt og brenglað. Jafnvel ástkær eiginmaður minn líkist heldur óhlutbundnu málverki en því sem er í raun hans elskulega og huggulega vaxtarlag! Ósjálfráð viðbrögð mín, áður en ég geri nokkuð annað í upphafi dags, eru að teygja mig eftir gleraugunum, til að hjálpa mér að skilja umhverfi mitt og njóta líflegri upplifana á leið minni í gegnum daginn.

Í áranna rás hef ég áttað mig á því að þessi hegðun sýnir að ég reiði mig daglega á tvo hluti: Í fyrsta lagi, tæki sem hjálpar mér að skýra, skerpa og jarðtengjast heiminum umhverfis; og í öðru lagi, þörfina fyrir áþreifanlega leiðsögn sem beinir mér stöðugt í rétta átt. Þessi einfalda venja endurspeglar þýðingarmikla athugun á sambandi okkar við frelsara okkar, Jesú Krist.

Í lífi okkar, sem oft er uppfullt af spurningum, áhyggjum, álagi og tækifærum, er elska frelsarans til hvers og eins okkar, sem sáttmálsbarns hans, og einnig kenningar hans og lögmál, aðgengileg dagleg úrræði sem við getum reitt okkur á til að vera „ljósið, sem ljómar … [og] lýsir upp augu [okkar] … [og] lífgar skilning [okkar].“2 Þegar við leitum blessana andans í lífi okkar, munum við getað séð „hlutina eins og þeir í raun eru og eins og þeir í raun munu verða,“3 eins og Jakob kenndi.

Við höfum verið einmuna blessuð sem sáttmálsbörn Guðs, með ríkulegum birgðum af guðlega gefnum verkfærum til að bæta andlega sjón okkar. Orð og kenningar Jesú Krists, eins og þau eru rituð í ritningunum, boðskapur frá útvöldum spámönnum hans og andi hans, sem hlýst með daglegri bæn, reglubundin musterisviðvera og hin vikulega helgiathöfn sakramentisins, geta hjálpað við að koma aftur á friði og veita okkur nauðsynlega gjöf dómgreindar, sem breiðir út ljós Krists og skilning hans í alla þætti lífs okkar og gerir það í heimi sem virðist þungbúinn. Frelsarinn getur einnig verið áttaviti okkar og leiðsögumaður, er við siglum í gegnum jafnt lygnan og ólgandi sjó lífsins. Hann getur greitt réttan veg, þann sem leiðir okkur að eilífum ákvörðunarstað okkar. Hvað vildi hann þá að við sæjum og hvert myndi hann vilja að við færum?

Okkar ástkæri spámaður hefur kennt að „við verðum að einblína á frelsarann og fagnaðarerindi hans“ og að við þurfum að „vinna að því að horfa til hans í allri hugsun.“4 Nelson forseti hefur einnig heitið því að „ekkert laðar andann meira að en einbeitt auglit á Jesú Krist. … Hann mun leiða ykkur í ykkar persónulega lífi, ef þið helgið honum tíma í lífi ykkar – hvern einasta dag.“5 Vinir, Jesús Kristur er bæði tilgangur stefnu okkar og ásetningur ákvörðunarstaðar okkar. Til að hjálpa okkur að haldast stöðug og stefna í rétta átt, þá býður frelsarinn okkur að skoða líf okkar út frá honum, til að geta séð meira af honum í lífi okkar. Ég hef lært meira um þetta ákveðna boð í námi mínu á Gamla testamentinu.

Lögmál Móse var gefið Ísraelsmönnum til forna til undirbúnings fyrir fagnaðarerindið, hannað til að búa fólkið undir æðra sáttmálssamband við Guð með Jesú Kristi.6 Lögmálið, ríkt af táknmáli sem benti hinum trúuðu á að „[vænta] … komu“ og friðþægingar Jesú Krists,7 átti að hjálpa Ísraelsmönnum að einblína á frelsarann með því að iðka trú á hann, fórn hans og lög hans og boðorðin í lífi þeirra8 – það var hugsað til þess að veita þeim aukinn skilning á lausnara sínum.

Fólki Guðs til forna var boðið, eins og okkur nú á dögum, að sjá líf sitt út frá honum, til að geta séð meira af honum í lífi sínu. En þegar dagur þjónustu frelsarans rann upp, höfðu Ísraelsmenn misst sjónar á því að hafa Krist í heiðri, höfnuðu honum og bættu ólögmætum siðum við lögmálið, sem ekki höfðu neina lærdómsríka táknræna tilvísun til hinnar sönnu og einu uppsprettu sáluhjálpar og endurlausnar – Jesú Krists.9

Hversdagsleiki Ísraelsmanna var orðinn bjagaður og óskýr. Ísraelsmenn, í því ástandi sem þeir voru, trúðu því að athafnir og helgisiðir lögmálsins væru leiðin til persónulegrar sáluhjálpar og drógu úr lögmál Móse með því að setja siðareglur ætlaðar til að stjórna lífi almennings.10 Þetta krafðist þess af frelsaranum að hann kæmi aftur á skerpu og skýrleika í fagnaðarerindi sínu.

Að lokum hafnaði stór hluti Ísraelsmanna boðskap hans og gekk jafnvel svo langt að saka frelsarann – þann sem setti fram lögmálið og lýsti því yfir að hann væri „lögmálið og ljósið“11 – um að brjóta það. Jesús sagði þrátt fyrir það í fjallræðunni, þegar hann talaði um lögmál Móse: „Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla.“12 Síðan, með eilífri friðþægingu sinni, batt frelsarinn endi á þá siði, reglur og helgiathafnir sem Ísraelsmenn héldu í heiðri á þeim tíma. Lokafórn hans leiddi til breytinga úr brennifórnum yfir í að hafa „sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda,“13 frá fórnarathöfn til helgiathafnar sakramentisins.

M. Russell Ballard forseti kenndi um þetta viðfangsefni og sagði: „Í ákveðnum skilningi færðist fórnin frá fórninni og yfir á þann sem fórnaði.“14 Þegar við færum frelsaranum fórn okkar, þá er okkur boðið að sjá meira af Jesú Kristi í lífi okkar, þegar við gefum okkur auðmjúk á vald vilja hans með þekkingu og skilningi á fullkominni auðmýkt hans fyrir vilja föðurins. Þegar við einblínum á Jesú Krist, þá þekkjum við og skiljum að hann er eina uppsprettan og eina leiðin til að hljóta fyrirgefningu og endurlausn, jafnvel eilíft líf og upphafningu.

Sem fylgjandi fagnaðarerindisins á árum áður, hitti ég marga sem tóku eftir breytingum í atferli, háttalagi og ákvarðanatöku minni eftir að ég gekk í kirkjuna. Þau voru forvitin yfir „ástæðu“ þess sem þau sáu – af hverju ég hafði valið að láta skírast og ganga í þennan söfnuð trúaðra, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu; af hverju ég valdi að halda mig frá ákveðnum athöfnum á hvíldardeginum; af hverju ég hélt staðföst Vísdómsorðið; af hverju ég las Mormónsbók; af hverju ég trúði á og tileinkaði mér kenningar nútíma spámanna og postula í lífi mínu; af hverju ég sótti kirkjufundi vikulega; af hverju ég byði öðrum að „koma og sjá, koma og hjálpa,koma og dvelja áfram15 og „koma og tilheyra.“16

Á sínum tíma virtust þessar spurningar yfirþyrmandi og ef ég tala opinskátt, stundum ásakandi. En þegar ég glímdi við það að vera undir smásjá fólks, áttaði ég mig á því að spurningar þeirra voru í raun fyrsta boð mitt að grípa og setja á mig andleg gleraugu til að skýra, skerpa og styrkja það sem hvatti mig til þess að fylgja boðum fagnaðarerindisins og stöðlum þess. Hver var uppspretta vitnisburðar míns? Var atferli mitt aðeins „yfirborðskennd sýning,“ sem ekki bauð upp á að tengja þessa breytni við lögmál Guðs til að „styrkja trú [mína] á Krist“17 eða til að sýna því skilning að Jesús Kristur er eina uppspretta máttar sem ég hef orðið var við?

Með ströngu átaki, þar sem ég einblíndi á og leitaði að Jesú Kristi í hverri hugsun og athöfn, lukust augu mín upp og skilningur minn vaknaði á því að Jesús Kristur væri að kalla á mig að „koma til [sín].“18 Allt frá þessari fyrstu lærisveinsgöngu minni í æsku, man ég eftir boði trúboðanna um að ganga til liðs við þá þegar þeir kenndu hópi stúlkna á mínum aldri um fagnaðarerindið. Kvöld nokkurt, þegar við sátum á heimili fjölskyldu einnar af stúlkunum, stakk mig í hjarta einlæg spurning þeirra um ástæðu trúar minnar og það gerði mér kleift að vitna fyrir þeim af dýpri skilningi um sýn Drottins á andlegri hvatningu lærisveinsgöngu minnar og það fágaði vitnisburð minn til að halda áfram.

Ég lærði þá það sem ég veit nú, að frelsari okkar, Jesús Kristur, snýr fótum okkar að samkomuhúsum í hverri viku til að meðtaka sakramenti hans, til húss Drottins til að gera sáttmála við hann, til ritninganna og kenninga spámannanna til að læra af orði hans. Hann beinir munni okkar til þess að vitna um hann, höndum okkar til að liðsinna og þjóna eins og hann myndi liðsinna og þjóna, augum okkar til að sjá heiminn og hvert annað eins og hann sér okkur – „eins og þeir í raun eru og eins og þeir í raun munu verða.“19 Þegar við leyfum honum að leiða okkur áfram í öllum hlutum, hljótum við vitnisburð um að „allir hlutir sýna fram á, að Guð er til,“20 vegna þess að þar sem við leitum að honum, þar munum við finna hann21 – hvern einasta dag. Um þetta ber ég vitni í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.