Aðalráðstefna
Hans ok er ljúft og byrði hans létt
Aðalráðstefna október 2022


Hans ok er ljúft og byrði hans létt

Minnumst þess að sérhver manneskja á jörðunni er barn Guðs og hann elskar hverja og eina þeirra.

Saga er sögð af manni sem hét Jack er átti ástkæran fuglaveiðihund að nafni Cassie. Jack var svo hreykinn af Cassie og stærði sig oft að því hversu hæfileikaríkur hundur hún væri. Til að sanna það, bauð Jack nokkrum vinum að sjá Cassie leika listir sínar. Þegar í veiðiklúbbinn var komið, hleypti Jack Cassie út til að hlaupa um í smá stund, meðan hann fór inn til að skrá sig.

Þegar tíminn var kominn var Jack mjög spenntur að sýna hina frábæru hæfileika Cassie. Cassie hagaði sér hins vegar einkennilega. Hún vildi ekki hlýða neinum af skipunum Jack, eins og hún gerði vanalega mjög fúslega. Eina sem hún vildi gera var að halda sig við hlið hans.

Jack varð vonsvikinn, vandræðalegur og reiður við Cassie og fljótlega lagði hann til að þau færu bara. Cassie vildi ekki einu sinni hoppa upp á pallinn á bílnum svo Jack lyfti henni óþolinmóður upp og ýtti henni inn í búrið hennar. Hann var fokvondur á meðan að þeir sem voru með honum gerðu gys að hegðun hundsins alla leið heim. Jack gat ekki skilið hvers vegna Cassie hefði verið óhlýðin. Hún hafði verið vel þjálfuð og það eina sem hún hafði áður viljað gera var að þóknast honum og þjóna.

Eftir að þau komu heim fór Jack að skoða Cassie til að kanna meiðsl, þyrna eða mítla eins og hann gerði vanalega. Þegar hann setti hönd sína á bringuna á henni fann hann bleytu og sá að hönd hans var þakin blóði. Sér til skammar og hryllings komst hann að því að Cassie var með langan, breiðan skurð rétt yfir bringubeininu. Hann fann annan á hægri framfæti, alveg inn að beini.

Jack tók Cassie í faðminn og fór að gráta. Skömm hans yfir að hafa dæmt hana ranglega og farið illa með hana var yfirþyrmandi. Cassie hafði hagað sér á óvenjulegan hátt fyrr um daginn, vegna þess að hún var meidd. Sársauki hennar, þjáning og meiðsl höfðu haft áhrif á hegðun hennar. Það hafði ekkert að gera með skort á því að vilja hlýða Jack eða vegna vöntunar á kærleika gagnvart honum.1

Ég heyrði þessa sögu fyrir mörgum árum síðan og hef aldrei gleymt henni. Hve margir særðir einstaklingar eru á meðal okkar? Hve oft dæmum við aðra eftir útliti þeirra og hegðun, eða vegna skorts á gjörðum, þegar, ef við hefðum fullan skilning, myndum við frekar bregðast við með samúð og þrá til að hjálpa, frekar en að bæta við byrðar þeirra með fordómum okkar?

Ég hef oft verið sek um þetta í mínu lífi en Drottinn hefur kennt mér af þolinmæði í gegnum persónulega reynslu, ásamt því að hlýða á lífsreynslu margra annarra. Ég hef lært að meta betur fordæmi ástríks frelsara okkar, er hann varði svo mikið af tíma sínum í að þjóna öðrum af kærleika.

Lífsreynsla yngstu dóttur minnar hefur falið í sér andlega heilsukvilla frá því að hún var lítil stúlka. Í lífi hennar hefur henni oft fundist hún ekki geta haldið áfram. Við verðum ávallt þakklát þeim jarðnesku englum sem hafa verið til staðar á þeim stundum, sitjandi með henni, hlustandi á hana, grátandi með henni, ásamt því að miðla einstökum gjöfum, andlegum skilningi og sameiginlegu kærleikssambandi. Í slíkum kærleiksaðstæðum hefur byrðum oft verið lyft, beggja vegna.

Öldungur Joseph B. Wirthlin sagði, og vitnaði í 1. Koritnubréf: „Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.“2.

Hann hélt áfram:

„Boðskapur Páls til þessa nýja hóps heilagra var einfaldur og beinskeittur: Ekkert sem þið gerið hefur mikla þýðingu, ef þið eigið ekki kærleika. Þið gætuð talað tungum, átt spádómsgáfu, vitað alla leyndardóma, … og átt alla þekking; þótt þið hefðuð trú til að færa fjöll úr stað, þá kæmi það ykkur ekki að nokkru gagni án kærleika.

,Kærleikurinn er hin hreina ást Krists‘ [Moróní 7:47]. Frelsarinn var lifandi dæmi um þá ást.“3

Í Jóhannesi lesum við, „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.”4

Margar ræður hafa verið fluttar af leiðtogum kirkjunnar um kærleika, einingu, elsku, góðvild, samúð, fyrirgefningu og miskunn. Ég trúi því að frelsarinn sé að bjóða okkur að lifa á æðri og helgari hátt4 – eftirhans kærleiksleið, þar sem allir geta fundið að þeir tilheyri sannlega og að þörf sé fyrir þá.

Okkur er boðið að elska aðra,6 að dæma þá ekki.7 Leggjum niður þessar þungu byrðar, það er ekki okkar að bera þær.8 Þeirra í stað, getum við tekið upp kærleiks- og samúðarbyrðar frelsarans.

„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér; …

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“9

Frelsarinn leggur ekki blessun sína yfir syndir en býður okkur elsku sína og fyrirgefningu þegar við iðrumst. Hann sagði við konuna sem staðin var að því að drýgja hór: „ Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“10 Þeir sem hann snerti skynjuðu elsku hans og sá kærleikur læknaði og umbreytti fólki. Elska hans hvatti það til að vilja breyta eigin lífi. Að lifa lífinu á hans hátt, færir gleði og frið og hann bauð öðrum að lifa þannig af ljúfmennsku, góðvild og kærleika.

Öldungur Gary E. Stevenson sagði: „Þegar við glímum við vind og regn, sjúkdóma og meiðsli, mun Drottinn – hirðir okkar og umönnunaraðili – liðsinna okkur af kærleika og góðvild. Hann mun græða hjörtu okkar og lífga sál okkar.“11 Ættum við ekki að gera slíkt hið sama sem fylgjendur Jesú Krists?

Frelsarinn býður okkur að læra af sér12 og að gera það sem við höfum séð hann gera.13 Hann er persónugervingur kærleika, hreinnar ástar. Þegar við lærum smám saman að gera það sem hann æskir af okkur – ekki af skyldurækni eða jafnvel fyrir blessanirnar sem við gætum öðlast, heldur af hreinni ást til hans og himnesks föður okkar14 – mun elska hans flæða í gegnum okkur og gera allt það sem hann óskar eftir, ekki einungis mögulegt heldur auðveldara og léttara til lengdar15 og ánægjulegra en við gætum nokkru sinni ímyndað okkur. Það krefst þjálfunar, jafnvel í mörg ár, eins og það hefur tekið mig, en er við þráum að kærleikur sé drifkraftur okkar, getur hann nýtt þá þrá,16 það fræ, og að lokum gert það að fallegu tré, uppfullt af hinum ljúffengustu ávöxtum.17

Við syngjum í einum af okkar ástkæru sálmum: „Hver er ég að dæma annan, ófullkominn er ég hér? Í hljóðu hjarta sorg er falin, sorg sem augað fær ei séð.“18 Hver á meðal okkar gæti átt faldar sorgir? Unglingurinn eða barnið sem virðist vera í uppreisn, skilnaðarbörnin, hin einstæða móðir eða faðir, þeir sem eiga við tilfinningarlega eða líkamlega heilsubresti að stríða, þeir sem efast um trú sína, þeir sem upplifa kynþáttar- eða menningarfordóma, þeir sem eru einmana, þeir sem þrá hjónaband, þeir sem berjast við óvelkomna ánetjun og svo margir aðrir sem takast á við margar ólíkar áskoranir lífsins – oft jafnvel þeir sem virðast eiga fullkomið líf á yfirborðinu.

Ekkert okkar á fullkomið líf né fullkomna fjölskyldu, svo sannlega ekki ég. Þegar við leitumst við að sýna þeim samhyggð sem takast einnig á við áskoranir og ófullkomleika, þá kann það að hjálpa þeim að finna að þeir eru ekki einir í baráttu sinni. Allir þurfa að finna það að þeir tilheyri raunverulega og að þeirra er þörf í líkama Krists.19 Æðsta þrá Satans er að aðskilja börn Guðs og honum hefur tekist það vel, en það er mikill kraftur í einingu.20 Nú þurfum við að ganga hönd í hönd með hverju öðru á þessari erfiðu ferð í gegnum jarðlífið!

Spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti sagði: „Hvaða ofbeldi eða fordómar sem er, sem beint er gegn öðrum vegna þjóðernis, kynþáttar, kynhneigð, kyns, menntagráðu, menningar eða vegna einhvers annars afgerandi auðkennis, misbýður skapara okkar! Slík ill meðferð veldur því að við lifum neðar stöðu okkar sem sáttmálssynir og dætur hans!“21

Á sama tíma og Nelson forseti hefur boðið öllum að fara á og halda okkur á sáttmálsveginum, sem leiðir aftur til föður okkar á himnum, hefur hann einnig veitt eftirfarandi leiðsögn: „Ef vinir eða einhver úr fjölskyldunni … ganga burt frá kirkjunni, haldið þá áfram að elska þá. Það er ekki ykkar að dæma val annarra, frekar en að þið eigið skilið að vera gagnrýnd fyrir að vera trúföst.“22

Vinir, minnumst þess að hver einstaklingur á jörðunni er barn Guðs23 og að hann elskar hvert og eitt þeirra.24 Er fólk á ykkar vegi sem þið eigið til að dæma? Ef svo er, munið að þetta eru dýrmæt tækifæri fyrir okkur til að þjálfa okkur í að elska eins og frelsarinn elskar.25 Þegar við fylgjum fordæmi hans getum við verið bundin oki með honum og stuðlað að kærleikstilfinningu og tilfinningu þess að tilheyra í hjörtum allra barna Guðs.

„Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði.“26 Þegar við erum uppfull af elsku frelsarans, þá getur ok hans verið ljúft og byrði hans getur verið létt.27 Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.