Aðalráðstefna
Varanlegt lærisveinslíf
Aðalráðstefna október 2022


Varanlegt lærisveinslíf

Við getum fundið andlega fullvissu og frið þegar við ræktum helgar og réttlátar venjur, sem geta viðhaldið og kynt undir eldi trúar okkar.

Síðastliðið sumar styrktist trú yfir 200.000 ungmenna okkar um allan heim, á einum af hundruðum vikulangra samkomuhluta Til styrktar ungmennum, eða FSY ráðstefnum. Að koma úr einangrun eftir heimsfaraldur og mæta á staðinn, er mörgum trúarafrek á Drottin. Margir hinna ungu þátttakenda virðast fylgja álíka uppsveiflu í átt að dýpri umbreytingu. Þegar dró að lokum vikunnar þeirra, fannst mér gott að spyrja þau: „Hvernig hefur þetta gengið?“

Ungmennin sögðu stundum eitthvað á þessa leið: „Á mánudaginn upplifði ég gremju út í mömmu, því hún sá til þess að ég færi. Ég þekkti engan. Ég hélt að þetta væri ekki fyrir mig. Ég hélt ég yrði vinalaus. … Nú er föstudagur og ég vill bara vera hér áfram. Ég vil bara finna fyrir andanum í lífi mínu. Ég vil lifa á þennan hátt.“

Hvert þeirra hafði sína sögu að segja af upplýsandi stundum og andlegum gjöfum sem þau upplifðu og jók vaxtarsveiflu þeirra. Ég breyttist líka í sumar á FSY, þar sem ég varð vitni að anda Guðs bregðast látlaust við réttlátum óskum hins einstaka hjarta meðal þessa ungmennafjölda, þar sem hver fyrir sig fann hugrekki til að treysta honum í viku í forsjá hans.

Líkt og á við um skínandi stálskip úti á hafi, þá búum við í andlega tærandi umhverfi, þar sem sterkri sannfæringu verður að viðhalda meðvitað, ella getur hún ryðgað, tærst og loks orðið að engu.

Hvað getum við gert til að viðhalda eldi sannfæringar okkar?

Viðburðir eins og FSY ráðstefnur, búðir, sakramentissamkomur og trúboð, geta hjálpað við að viðhalda eldi vitnisburðar, stuðlað að uppsveiflu vaxtar og andlegum uppgötvunum, þar sem friður ríkir. Hvað verðum við þá að gera til að dvelja þar áfram og „sækja fram, [staðföst] í Kristi“ (2. Nefí 31:20) í stað þess að renna afturábak? Við verðum að halda áfram að gera það sem kom okkur þangað til að byrja með, eins og að biðja oft, sökkva okkur niður í ritningarnar og þjóna af einlægni.

Sum okkar gætu þurft á því að halda að ástunda að treysta Drottni, jafnvel til að sækja sakramentissamkomur. Þegar þangað er komið, geta læknandi áhrif sakramentis Drottins, lærðar reglur fagnaðarerindisins og ræktun kirkjusamfélagsins, farið með okkur heim á æðra tilverustig.

Hvaðan kemur sá kraftur að koma saman í eigin persónu?

Í FSY kynntust yfir 200.000 ungmenni frelsaranum betur, með því að fara eftir einfaldri formúlu um að koma saman tvö eða fleiri í hans nafni (sjá Matteus 18:20), taka þátt í fagnaðarerindinu og ritningunum, syngja og biðja saman og finna frið í Kristi. Þetta er öflug forskrift að andlegri vakningu.

Þessi langferðahópur bræðra og systra er nú farinn heim til að ákveða hvað það þýðir að „treysta á Drottin“ (Orðskviðirnir 3:5; ungmennaþema 2022) þegar maður er sviptur inn í hörkulegar umræður hrikalegs heims. Eitt er að „hlýða á hann“ (Joseph Smith – Saga 1:17) á kyrrlátum stað íhugunar, með ritningar opnar upp á gátt. Allt annað er þó að vera lærisveinn í hinum jarðnesku vindhviðum truflana, þar sem við þurfum að reyna að „hlýða á hann,“ jafnvel mitt í þoku sjálfshyggju og bilandi sjálfstrausts. Enginn vafi leikur á því að það er hetjudáð sem ungmenni okkar drýgja þegar þau einsetja sér í huga og hjarta að standa upprétt gegn hinum breyttu siðferðilegu gildum okkar tíma.

Hvað geta fjölskyldur gert á heimilinu til að byggja á þeim skriðþunga sem skapast í kirkjustarfi?

Ég þjónaði eitt sinn sem eiginmaður Stúlknafélagsforseta fyrir stiku. Kvöld eitt var mér falið að setja smákökur á bakka í anddyrinu á meðan eiginkona mín stjórnaði kvöldvöku í kapellunni fyrir foreldra og dætur þeirra, sem bjuggu sig undir að fara í stúlknabúðir vikuna á eftir. Eftir að hafa útskýrt hvert þau ættu að koma og hvað þær þyrftu að taka með sér, sagði hún: „Þegar þið skutlið elsku stelpunum ykkar í rútuna á þriðjudagsmorgun, knúsið þær þá innilega. Kyssið þær svo bless – því þær koma ekki aftur.“

Ég heyrði að einhver tók andköf og áttaði mig á að þetta var ég sjálfur. „Koma ekki aftur?“

En hún hélt síðan áfram: „Þegar þið segið skilið við þessar þriðjudagsmorguns-stelpur, þá munu þær segja skilið við allt ómerkilegt sem truflar og verja viku saman í að læra og vaxa og treysta á Drottin. Við munum biðja, syngja, elda og þjóna saman og gefa vitnisburði okkar og gera allt sem þarf til að finna fyrir anda himnesks föður, alla vikuna, þar til hann smýgur alla leið inn að beini þeirra. Þegar þið svo sjáið stelpurnar koma aftur úr rútunni á laugardeginum, verða þær ekki þær sömu og þið skiluðuð af ykkur á þriðjudaginn. Þær verða ný sköpun. Ef þið hjálpið þeim síðan að halda áfram á þessu æðra sviði, munu þær koma ykkur á óvart. Þær munu halda áfram að breytast og vaxa. Það mun fjölskylda ykkar líka gera.“

Þann laugardag var þetta alveg eins og hún fyrirsagði. Þegar ég hlóð tjöldin, heyrði ég rödd eiginkonu minnar í litla skógar-hringleikahúsinu, þar sem stelpurnar höfðu komið saman áður en haldið var af stað heim. Ég heyrði hana segja: „Ó, þarna eruð þið þá. Við höfum fylgst með ykkur alla vikuna. Laugardagsstelpunum okkar.“

Hin traustu ungmenni í Síon eru að takast á við ótrúlega tíma. Að finna gleði í þessum heimi spáðra truflana, án þess að verða hluti af þeim heimi, sem snýr blindu auga að heilagleika, er hið sérstaka viðfangsefni þeirra. Fyrir um hundrað árum, talaði G. K Chesterton næstum eins og hann teldi leit sína vera heimamiðaða og kirkjustyrkta þegar hann sagði: „Við verðum að líta á alheiminn allt í senn sem kastala trölla, sem ráðast verður á, og sem okkar eigið heimili, sem við getum aftur farið í að kvöldi“ (Orthodoxy [1909], 130).

Til allrar lukku, þá þurfa þau ekki að fara ein út í orrustu. Þau eiga hvort annað að. Þau eiga líka ykkur að. Þau fylgja líka lifandi spámanni, Russell M. Nelson forseta, sem leiðir af visku og bjartsýni sjáandans og boðar að hið mikla viðfangsefni þessara tíma – samansöfnun Ísraels – verði bæði mikilfenglegt og tignarlegt (sjá „Hope of Israel“ [heimslæg trúarsamkoma fyrir ungmenni, 3. júní 2018], HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org).

Í sumar vorum ég og eiginkonan mín, Kalleen, að skipta um flugvél í Amsterdam, þar sem ég hafði verið nýr trúboði, fyrir mörgum árum síðan. Eftir að ég hafði varið nokkrum mánuðum við að reyna að læra hollensku, var KLM flugið okkar að lenda og flugstjórinn sendi frá sér samhengislausa tilkynningu í kallkerfinu. Eftir smá þögn, muldraði félagi minn: „Ég held að þetta hafi verið hollenska. Við litum upp og lásum hugsanir hvors annars: „Allt var glatað.“

Allt var samt ekki glatað. Þegar ég undraðist trúarstökkuð sem við höfðum þá tekið er við gengum um þennan flugvöll á leið okkar til kraftaverka, sem myndu rigna yfir okkur sem trúboða, var ég skyndilega færður aftur til nútímans af lifandi, andandi trúboða sem var að fara um borð í flugvél heim. Hann kynnti sig og spurði: „Lund forseti, hvað geri ég núna? Hvað geri ég til að vera áfram sterkur?

Þetta er sama spurning og er í huga ungmenna okkar þegar þau fara heim eftir FSY ráðstefnur, ungmennabúðir, musterisferðir og hvarvetna sem þau finna fyrir krafti himins: „Hvernig getur kærleikur til Guðs orðið að varanlegu lærisveinslífi?“

Ég fann djúpan kærleika til þessa trúboða sem þjónaði síðustu stundir trúboðs síns og á þeirri kyrrðarstundu andans heyrði ég rödd mína bresta um leið og ég sagði einfaldlega: „Þú þarft ekki að bera nafnspjaldið til að bera nafn hans.“

Ég vildi leggja hendur á herðar hans og segja: „Þetta er það sem þú gerir. Þú ferð heim og þú verður bara eins og þú ert. Þú ert svo góður að þú ljómar næstum í myrkri. Trúboðsagi þinn og fórnir hafa gert þig að stórkostlegum syni Guðs. Haltu áfram að gera það heima sem hefur verið svo áhrifaríkt fyrir þig hér. Þú hefur lært að biðjast fyrir og til hvers þú biður og tungumál bænarinnar. Þú hefur rannsakað orð hans og farið að elska frelsarann með því að reyna að líkjast honum. Þú hefur elskað himneskan föður eins og hann elskaði föður sinn, þjónað öðrum eins og hann þjónaði öðrum og lifað eftir boðorðunum eins og hann lifði eftir þeim – og þegar þú gerðir það ekki, hefur þú iðrast. Lærisveinslíf þitt er ekki bara slagorð á stuttermabol – það hefur orðið að lífi sem markvisst er lifað fyrir aðra. Farðu því heim og gerðu einmitt það. Vertu það. Láttu þennan andlega skriðþunga áfram hafa áhrif á allt líf þitt.“

Ég veit að með því að treysta á Drottin Jesú Krist og sáttmálsveg hans, getum við fundið andlega fullvissu og frið þegar við ræktum helgar og réttlátar venjur, sem geta viðhaldið og kynt undir eldi trúar okkar. Megum við, hvert og eitt okkar, færast stöðugt nær þessum hlýja eldi og, hvað sem verður, halda áfram. Í nafni Jesú Krists, amen.