Aðalráðstefna
Með honum getum við gert erfiða hluti
Aðalráðstefna október 2022


Með honum getum við gert erfiða hluti

Við vöxum í lærisveinshlutverkinu er við iðkum trú á Drottin á erfiðleikatímum.

Í jarðneskri þjónustu sinni tók frelsarinn eftir manni sem var blindur. Lærisveinar hans spurðu hann: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“

Hið staðfasta, elskuríka og einlæga svar frelsarans staðfestir fyrir okkur að hann þekkir baráttu okkar: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.“1

Þótt rekja megi sumar áskoranir til vísvitandi óhlýðni okkar, vitum við þó að flestar áskoranir lífsins eru af öðrum völdum. Hver svo sem orsök áskorananna er, geta þær veitt okkur gullið tækifæri til að vaxa.

Fjölskyldu okkar hefur ekki verið hlíft við mótlæti í lífinu. Þegar ég óx úr grasi, dáðist ég að stórum fjölskyldum. Mér fundust slíkar fjölskyldur aðlaðandi, einkum er ég kynntist kirkjunni á unglingsárum mínum í gegnum móðurbróður minn, Sarfo, og eiginkonu hans, í Takoradi í Gana.

Þegar ég og Hannah giftum okkur, þráðum við að patríarkablessanir okkar uppfylltust, en þær sögðu að við yrðum blessuð með mörgum börnum. Fyrir fæðingu þriðja drengsins okkar, varð hins vegar læknisfræðilega ljóst að Hannah gæti ekki eignast fleiri börn. Þótt Kenneth hafi fæðst við lífshættulegar aðstæður fyrir hann og móður hans, þá kom hann sem betur fer heill á húfi í heiminn og móðir hans náði sér. Hann var fær um að taka þátt í fjölskyldulífi okkar – þar með talið kirkjusókn, daglegum fjölskyldubænum, ritningarlestri, heimiliskvöldi og heilbrigðum dægrastyttingum.

Þótt við yrðum að draga úr væntingum okkar um stóra fjölskyldu, reyndist það gleðiríkt að tileinka sér kenningarnar í „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“ með ástkærum börnum okkar þremur. Að fylgja þessum kenningum, hjálpaði mér verulega að eflast að trú.

Eins og yfirlýsingin segir: „Hjónaband milli karls og konu er nauðsynlegt eilífri áætlun hans. Börn eiga rétt á því að fæðast innan hjónabandsins, vera alin upp af föður og móður sem heiðra hjónabandseiða sína af fullkominni tryggð.“2 Við verðum blessuð er við hrindum þessum reglum í framkvæmd.

Helgi eina, í þjónustu minni sem stikuforseti, upplifðum við þó ef til vill erfiðustu raun sem foreldrar gætu staðið frammi fyrir. Fjölskylda okkar sneri heim eftir kirkjuviðburð og var saman við hádegisverð. Drengirnir okkar þrír fóru síðan út að leika sér á lóðinni okkar.

Eiginkona mín fann ítrekað fyrir hughrifum um að eitthvað væri að. Hún bað mig að líta eftir börnunum meðan hún vaskaði upp leirtauið. Mér fannst þau vera örugg, enda gat ég heyrt raddir þeirra í ærslafullum leik.

Þegar við loks fórum bæði til að athuga með syni okkar, fundum við okkur til mikillar skelfingar hinn litla 18 mánaða gamla Kenneth hjálparvana ofan í vatnsfötu, úr augsýn bræðra sinna. Við þutum með hann á sjúkrahús, en allar tilraunir til endurlífgunar báru engan árangur.

Við vorum frávita yfir því að fá ekki tækifæri til að ala upp okkar dýrmæta barn í þessu jarðneska lífi. Þótt við vissum að Kenneth tilheyrði fjölskyldu okkar eilíflega, stóð ég mig að því að spyrja hvers vegna Guð léti þennan harmleik koma yfir mig, sem gerði þó allt sem ég gat til að efla köllun mína. Ég var rétt kominn heim við að framfylgja skyldum mínum í hirðisþjónustu við hina heilögu. Hvers vegna gat Guð ekki litið á þjónustu mína og bjargað syni okkar og fjölskyldunni frá þessum harmleik? Því meira sem ég hugsaði um þetta, því bitrari varð ég.

Eiginkona mín álasaði mér aldrei fyrir að bregðast ekki við hughrifum hennar, en ég lærði lífsbreytandi lexíu og setti mér tvær reglur sem aldrei skyldu brotnar.

Regla 1: Hlusta á eiginkonu mína og bregðast við hughrifum hennar.

Regla 2: Ef ég er af einhverjum ástæðum óviss, skal fylgja reglu númer 1.

Þó að þessi reynsla hefði verið hörmuleg og að við syrgðum áfram, þá var hinni yfirþyrmandi byrði okkar að lokum aflétt.3 Ég og eiginkona mín lærðum sérstakar lexíur af missi okkar. Við skynjuðum að við vorum sameinuð og bundin hvort öðru með musterissáttmálum okkar; við vitum að við eigum kröfu á Kenneth sem barnsins okkar í næsta lífi, vegna þess að hann fæddist í sáttmálanum. Við hlutum einnig reynslu sem er nauðsynleg til að þjóna öðrum og skilja sársauka þeirra af hluttekningu. Ég vitna um það að biturleiki okkar hvarf, er við iðkuðum trú á Drottin. Reynsla okkar er enn erfið, en við höfum lært, eins og Páll postuli, að „[við megnum allt] fyrir hjálp hans, sem [okkur] styrkan gjörir,“ er við einblínum á hann.4

Russell M. Nelson kenndi: „Þegar við einblínum á sáluhjálparáætlun Guðs … og Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, þrátt fyrir það sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar.“ Hann sagði enn fremur: „Gleðin á rætur í honum og er sökum hans.“5

Við getum verið hughraust og fyllst friði á erfiðum tímum. Kærleikurinn sem við skynjum sökum frelsarans og friðþægingar hans, verður okkur kraftmikil uppspretta á erfiðleikatímum okkar. „Hvaðeina sem ósanngjarnt [og erfitt] er í lífinu er hægt að færa í réttar skorður fyrir friðþægingu Jesú Krists.“6 Hann bauð: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“7 Hann getur hjálpað okkur að takast á við hvaða sársauka, veikindi og erfiðleika sem er í jarðlífinu.

Við finnum margar sögur í ritningunum um mikla og göfuga leiðtoga eins og Jeremía, Job, Joseph Smith og Nefí, sem ekki var hlíft við erfiðleikum og áskorunum jarðlífsins. Þeir voru dauðlegir menn sem lærðu að hlýða Drottni, jafnvel í erfiðum aðstæðum.8

Á hinum hræðilega tíma í fangelsinu í Liberty, hrópaði Joseph Smith: „Ó Guð, hvar ertu? Og hvar er tjaldið, sem hylur skýli þitt?“9 Drottinn kenndi Joseph að „standast vel“10 og lofaði að ef hann gerði svo, myndi allt þetta veita honum reynslu og verða honum til góðs.11

Þegar ég íhuga eigin reynslu, verður mér ljóst að ég hef lært sumar af mínum bestu lexíum á erfiðustu stundunum, stundum þar sem ég var utan eigin þægindaramma. Erfiðleikar sem ég stóð frammi fyrir í æsku, er ég lærði um kirkjuna í trúarskólanum, sem nýr meðlimur, og sem fastatrúboði, ásamt erfiðleikum sem ég stóð frammi fyrir við menntun mína, við að reyna að efla köllun mína og við að ala upp fjölskyldu, hafa búið mig undir framtíðina. Því oftar sem ég bregst glaðlega við erfiðum aðstæðum með trú á Drottin, því meira þroskast ég sem lærisveinn.

Erfiðleikar í lífinu ættu ekki að koma okkur á óvart eftir að við höfum gengið inn á hinn krappa og þrönga veg.12 Frelsarinn lærði „að hlýða með því að þjást.“13 Er við fylgjum honum, sérstaklega á erfiðleikatímum, getum við orðið líkari honum.

Einn af sáttmálunum sem við gerum við Drottin í musterinu, er að lifa eftir fórnarlögmálinu. Fórn hefur ætíð verið hluti af fagnaðarerindi Jesú Krists. Hún er til áminningar um hina miklu friðþægingarfórn Jesú Krists fyrir alla sem hafa lifað og munu lifa.

Ljósmynd
Trúboðar öldungs Morrisons

Ég veit að Drottinn umbunar okkur ætíð fyrir réttlátar þrár. Munið eftir hinum mörgu börnum sem mér var heitið í patríarkablessun minni? Sú blessun er að uppfyllast. Ég og eiginkona mín þjónuðum með nokkur hundruð trúboðum, frá meira en 25 löndum, í Cape Coast trúboðinu í Gana. Þeir eru okkur jafn kærir sem væru þeir okkar eigin börn.

Ég vitna um að við vöxum í lærisveinshlutverkinu er við iðkum trú á Drottin á erfiðleikatímum. Þegar við gerum svo, mun hann náðarsamlega styrkja okkur og hjálpa við að bera byrðar okkar. Í nafni Jesú Krists, amen.